05.05.1966
Sameinað þing: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (2913)

87. mál, raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er lagt til í till. hv. allshn., að þessi rannsókn fari fram í tveimur kjördæmum landsins, Vestfjarðakjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra. En í öðrum kjördæmum utan Reykjavíkur, fleiri en þessum tveimur, er þannig ástatt, að mörg býli eru þannig sett, að litlar líkur virðast til, að til þeirra verði leitt rafmagn frá samveitum. Því er það, að okkur finnst mörgum, að þörf sé á því að gera þessa till. víðtækari, og leyfum okkur að leggja fram brtt. við brtt. á þskj. 717, sem kom frá hv. allshn., og brtt. okkar er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 1. tölul. Í stað orðanna „og í Norðurlandskjördæmi eystra“ komi: í Norðurlandskjördæmi eystra, Norðurlandskjördæmi vestra, Austurlandskjördæmi, Vesturlandskjördæmi, Suðurlandskjördæmi og Reykjaneskjördæmi.“ Og síðan við 2. tölulið, sem er um fyrirsögnina, að þessi kjördæmi verði einnig sett inn í fyrirsögnina.

Ég vænti þess, að þessu verði vel tekið, því að mönnum hlýtur að verða ljós þörfin á því að rannsaka þessi mál víðar en í tveimur kjördæmum, og vil leyfa mér að leggja till. fyrir hæstv. forseta og óska, að hann leiti afbrigða. Flm. að þessari till. eru: Skúli Guðmundsson, Gunnar Gíslason, Ágúst Þorvaldsson, Lúðvík Jósefsson, Ásgeir Bjarnason, Eysteinn Jónsson, Jón Árnason og Sigurður Ó. Ólafsson.