13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (2948)

128. mál, embætti lögsögumanns

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hér er vissulega um athyglisvert mál að ræða. En ég tel þó engu að síður, að betur þurfi að íhuga það mál, áður en ráðizt verður í að stofna þetta embætti.

Það er oft talað um það og það með réttu, að embættakostnaður á Íslandi er hlutfallslega meiri en í flestum, það má segja öllum öðrum þjóðríkjum. Þetta er óhjákvæmilegt vegna okkar smæðar og vegna þess, hversu byggðin er strjál. En af þessu leiðir einnig, að við verðum að fara mjög varlega í að gera embættakerfið enn flóknara en það hefur verið og þarf að vera. Nú er það auðvitað ljóst, að ýmsar breytingar þarf að gera frá því, sem verið hefur, og hér á dagskránni í dag er mjög athyglisverð till. frá nokkrum þm., þar sem hv. 4. þm. Sunnl., Björn Fr. Björnsson, er fyrsti flm., um athugun á nýrri dómaskipun. Ég tel, að þetta sé eitt mest aðkallandi mál varðandi okkar embættaskipan nú og ólíkt þýðingarmeira og mikilsverðara en setning slíks embættis eins og er um að ræða í þessari tili. Það er vitað mál, að það er mjög óheppilegt, að dómsvald sé í höndum hinna sömu, sem framkvæmdavaldið hafa, og einnig að dómsvald sé í höndum þess sama manns og annast rannsóknir í sakamálum eða opinberum málum. Þetta hafa menn þó orðið að una við hér lengur en tíðkanlegt hefur verið annars staðar, af því að þeir hafa ekki treyst sér til að setja upp alveg sjálfstæð dómaraembætti og ef svo mætti segja taka dómsvaldið úr héruðunum og sameina annaðhvort á einum stað í landinu eða á fáum stöðum. Frá réttarsjónarmiði má þó segja, að þessi hreyting sé nánast sagt sjálfsögð og nauðsynleg til að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru til dómaskipunar nú á dögum. Þetta hefur gengið hér, vegna þess að segja má, að þjóðfélagið allt sé svo lítið og gagnsætt, að misbeiting á dómsvaldinu af hálfu þessara framkvæmdavaldsmanna og áhrif æðri stjórnvalda á framkvæmdavaldshafana, sem einnig eru dómarar, hefur ekki komið að sök. Við getum þess vegna sagt, að í kenningunni sé fyrirkomulagið ótækt, en í framkvæmd hafi þetta gengið, þannig að við getum þrátt fyrir þessa ágalla talið okkur vera fullkomið réttarríki og okkar réttarskipan sé örugg og sjálfstæði dómendanna tryggt, þó að þetta sé með öðrum hætti en talið sé nauðsynlegt annars staðar. Fyrir því verðum við að gera okkur grein, að þarna er verulegur ágalli á. En bæði af sparnaðarástæðum og af þessum ástæðum, að menn hafa hikað við að flytja dómsvaldið, ef svo má segja, úr strjálbýlinu annaðhvort hingað til Reykjavíkur eða á nokkra aðra þéttbýlisstaði, þá hafa menn ekki treyst sér í þessa breytingu. Ég tel hins vegar sjálfsagt nú, úr því að formleg till. er fram komin og frá einmitt einum þm., sem lengi hefur verið í senn dómari og framkvæmdavaldshafi, að þetta verði tekið til mjög rækilegrar athugunar og gerð að því gangskör að athuga, hvort ekki sé hægt að fá um þetta allsherjarsamkomulag. Mér er það ljóst, að í því sambandi er hægt að skapa ýmiss konar tortryggni og magnaðar deilur, ef málið er tekið upp á þeim grundvelli. Það er einmitt gert af þeim aðilum nú, að síður ætti að vera hætta á tortryggni og getsökum en ef málið væri tekið upp með öðrum hætti, og ég vil lýsa fögnuði mínum og gleði yfir því, að sú till. er komin fram.

Ég vil engan veginn segja hið gagnstæða um þá till., sem hér liggur fyrir. Þvert á móti, eins og ég sagði, tel ég hér um mjög íhugunarvert mál að ræða. En einmitt af því sama, sem hefur gert okkur mögulegt að þola þessa ágalla á okkar dómaskipun, sem verið hafa, það, hversu þjóðfélagið er lítið og svo má segja gagnsætt, þá er minni þörf á slíku embætti hér á Íslandi en víðast hvar annars staðar. Það er alveg réttilega sagt í grg. þessarar till., með leyfi hæstv. forseta:

„Löggjöf Norðurlanda um þetta efni er nokkuð sitt með hverjum hætti, og í okkar fámenna þjóðfélagi eru aðstæður á ýmsan hátt aðrar en hjá fjölmennari þjóðum. Þess vegna hlýtur löggjöf um lögsögumenn að verða í ýmsu frábrugðin hliðstæðri löggjöf annarra Norðurlandaþjóða í þessu efni.“

Þetta er hverju orði sannara, og þarna er vikið að meginatriði þessa máls. Það er enginn vafi á því, að í stórum þjóðfélögum, — þó fer það nokkuð eftir stjórnskipun og stjórnarvenjum, — er og getur verið fullkomin þörf á slíkum embættismanni. Það er þó athyglisvert, að þvílíkur embættismaður hefur verið lengi í Svíþjóð, hann vakti þar enga sérstaka athygli, og menn komu ekki auga á nytsemi hans starfa, fyrr en, eins og hv. frsm. sagði áðan, þegar Danir fyrir nokkrum árum voru að leita að nýjungum, rákust þeir á þetta fordæmi, stofnuðu embættið og — á það legg ég höfuðáherzlu — voru svo heppnir að fá í embættið alveg frábæran mann, framúrskarandi mann, sem ekki er einungis einn af allra færustu lögfræðingum Norðurlanda, heldur að allra manna mati, sem hann þekkja, einstakur mannkostamaður, sem nýtur sérstakrar virðingar og tiltrúar í sínu heimalandi. Ekki sízt þessir eiginleikar mannsins, ef til vill nokkuð samhliða því, að hann hefur lag á því að vekja athygli á sínum störfum og láta ekki liggja í þagnargildi það, sem vel er gert, sem heldur engin ástæða er til, það hefur orðið til þess að vekja menn til umhugsunar um þetta viðar og þá ekki sízt í Englandi, þar sem málið hefur lengi verið til athugunar. Norðmenn tóku þetta upp fyrir nokkrum árum, eitthvað einu eða tveimur árum, hygg ég, að maður hafi verið skipaður í embættið. Það var álitlegur maður. En um reynslu af því hef ég ekki heyrt enn þá, hvernig til hafi tekizt. En ég mundi telja rétt, áður en menn fara langt út í bollaleggingar um skipan þess embættis, bæði að gera sér grein fyrir, að auðvitað safnar slíkt embætti alltaf mönnum í kringum sig, það verður ekki lengi einn maður í þessu, heldur kemur þarna — vonandi ekki embættisbákn, en stofnun, sem nokkur tilkostnaður hlýtur að verða samfara, og athuga þarf, hvers konar mál það eru, t.d. í Danmörku og Noregi, sem hafa komið til úrskurðar eða afskipta þessara manna, kanna það til hlítar, og í því mundi, að því er ég hygg, ekki síður fordæmi Norðmanna vera fróðlegt fyrir okkur heldur en Dana, vegna þess að um sumt, a.m.k. í vissum byggðum í Noregi, eru aðstæður mun líkari þar því, sem er á Íslandi.

Ef ég man rétt, — það verður þá leiðrétt af framsögumanni, — er þetta „ombudsmands“ nafn til komið á þann veg, að maðurinn er talinn umboðsmaður þjóðþingsins gagnvart ríkisstjórninni. Nú tel ég og legg á það áherzlu til umhugsunar, að í okkar litla þjóðfélagi þurfi þingið í sjálfu sér ekki slíkan umboðsmann gagnvart ríkisstj. Hér getur, má segja, hver einasti maður haft í fyrsta lagi beinan aðgang að sínum þm. Hann hefur beinan aðgang að hvaða þm. sem er. Hér taka allir á móti öllum, sem óska eftir viðtali. Hann hefur beinan aðgang að hvaða ráðh. sem er, forseta landsins og getur komið fram öllum sínum kvörtunum og ábendingum við hvern sem er milliliðalaust og án þess að nokkur hafi löngun eða nokkurn möguleika til þess að skjóta málum undir stól eða fela þau. Við skulum segja, að embættismenn reyni að koma í veg fyrir, að það sannist, að þeir hafi misgert, þegar þeir eru sannfærðir sjálfir um, að þeir hafi ekki misgert. Menn hafa oft vissa löngun til þess að halda hlífiskildi yfir þeim, sem eru þeirra undirmenn og þeir bera ábyrgð á. En ef það lukkast ekki að vekja hvorki embættismanninn sjálfan né hans yfirmann, ráðherrann, til umhugsunar, þá er ekkert hægara en að koma með málið til þm., fá þm. til þess að taka málið upp, annaðhvort á þingi í formi þáltill., í fsp. eða með því að fara t hlutaðeigandi embættismann og biðja hann um að skoða málið.“

Það er þessi smæð þjóðfélagsins, þetta, hvað hér er allt gegnumsætt, sem gerir það að verkum, að það er minni þörf á ýmiss konar milliliðum og ýmiss konar eftirliti hér en í þeim stærri þjóðfélögum, og þess vegna, þegar við með réttu kvörtum undan því, að stjórnkostnaðurinn sé mikill og oft og tíðum óbærilegur, verðum við að átta okkur á því líka að vera ekki að setja upp þau embætti hér, sem geta haft og átt fulllan rétt á sér í stærri þjóðfélögum, en hafa sáralitla þýðingu og litlu verkefni að gegna í þjóðfélagi, sem er eins statt og við. Það er ekki vegna þess, að ég vilji halda hlífiskildi yfir embættismönnum og embættismennsku eða stjórnarvöldum. Við vitum það, að þessi fer með stjórn í dag og hinn á morgun, og þetta getur velzt á ýmsa vegu og tjáir ekki að líta á þetta mál út frá því sjónarmiði, heldur hinu: Er okkar þjóðfélag þannig upp byggt, að það sé þörf á sérstökum rannsóknaraðila, sem þarna komi til, og mundi hann hafa hér í raun og veru verulegu verkefni að gegna?

Það er allt annað mál, en mér kemur það stundum til hugar, að menn hafa séð t.d., að blaðamannafundir eru mjög tíðkaðir í Bandaríkjum Norður-Ameríku, og hafa því spurt: Af hverju er þetta ekki tíðkanlegt eins í Evrópu? Menn hafa viljað koma slíkum blaðamannafundum á hér á Íslandi. Þetta kemur einfaldlega af því, að í Bandaríkjunum hafa hvorki forseti ríkisins né ráðh. aðgang að þinginu, þannig að þeir verða ekki þar krafðir sagna, þurfa ekki að gera grein fyrir sínum málum, eiga ekki kost á að skýra sínar till., þess vegna hefur þessi háttur verið tekinn upp með blaðamannafundi. Í Bretlandi, sem er aftur fordæmi hins evrópska þingræðis, er sams konar verkefni leyst á þingfundunum, þar sem ráðh. koma og skýra sín mál, ýmist í umr. um lagafrv. eða í spurningatímum. Að verulegu leyti er það sama hér á landi. Það er gersamlega út í bláinn, meðan þing stendur yfir, að íslenzka ríkisstjórnin færi að kalla saman blaðamannafundi. Hér eru menn í þingsölunum og hægt að krefja þá sagna, og hér gera menn grein fyrir þeim málum, sem þeir sjá ástæðu til að tala um.

Þannig verður að skoða hvern einstakan þátt stjórnskipulagsins í ljósi heildarinnar og gera sér grein fyrir, af hverju þetta hefur farið svona í þessu þjóðfélagi, en á annan veg í öðru þjóðfélagi. Það, sem á sér fullan rétt annars staðar, og það er óneitanlegt, að þetta hefur reynzt vel í Danmörku, er engan veginn víst, að hafi sama verkefni að gegna hér.

Þessar athugasemdir vildi ég láta koma fram nú. Ég tel sjálfsagt, að þingnefnd kynni sér þetta mái. Ég mundi telja eðlilegt, að hún fengi og aflaði sér skýrslna um störf þessara manna, bæði í Danmörku og í Noregi. Samkvæmt því, sem hér var upplýst, eru þetta ekki fleiri mál en svo, að menn geta fljótlega áttað sig á, hvers konar mál það eru, sem þarna er bæði kært yfir og embættismaðurinn tekur síðan til sérstakra afskipta. Og þegar menn eru búnir að íhuga það betur, þá beri menn saman ráð sín um það, hvort ástæða sé til að gera gangskör að stofnun embættisins.