27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (3055)

28. mál, vegaskattur

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. samgmrh. fyrir svarið við fsp. Að vísu verð ég að segja, að þau svör, sem hann gaf við tveimur síðustu liðunum, voru ekki alveg eins skýr og ótvíræð og búið er að svara tveim hinum fyrri.

Að því er varðar kostnaðinn við þessa innheimtu virðist þar vera, sem kannske er við að búast, um afskaplega mikinn slumpareikning og áætlunarupphæð að ræða. Hæstv. ráðh. talaði um, að kostnaður yrði 1—1 1/2 millj. kr., eitthvað á því bili. Það hafa heyrzt nefndar ýmsar aðrar tölur, gjarnan 2 millj. En það veit sjálfsagt enginn, hvað muni vera það réttasta í málinu, hvað þessi kostnaður kemur til með að verða mikill, þannig að maður getur eftir atvikum alveg sætt sig við þessar upplýsingar á þessu stigi málsins. Kostnaður verður töluvert mikill, og í rauninni veit enginn, hversu mikill hann verður.

Að því er varðar 4. liðinn, var spurt um það, sem þar stendur, til þess að reyna að fá það fram, hvort ekki ætti að líta svo á, að hæstv. ríkisstj. væri með því að ákveða að innheimta vegatoll af Reykjanesbrautinni að marka þá stefnu, sem hún teldi að hlyti að verða framtíðarstefnan í sambandi við sambærilega vegi í framtíðinni. Hæstv. ráðh. svaraði þessu nú dálítið óljóst og sagði, að það væri á valdi Alþ. að ákveða þetta. Það er að sjálfsögðu á valdi Alþ. að ákveða það, hvort þessi heimild, heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta slíkan vegatoll eða ákveða að innheimta hann, á að vera í vegal. áfram eða ekki. Þetta er vitanlega á valdi Alþ. En hins vegar samkv. því, sem vegal. eru nú, er það á valdi hæstv. samgmrh. að ákveða þetta í hinum einstöku tilfellum, og þess vegna var ég að spyrja, hvort það væri þá ekki hans og ríkisstj. hugmynd, að þetta yrði stefnan um hraðbrautir, eftir því sem þær kæmu.

Hæstv. ráðh. fór dálitið inn á vegamál almennt, og það er vissulega ástæða til að ræða þau rækilegar en hægt væri að gera í fsp.-tíma. Hann gat þess, að nokkur athugun væri í gangi í sambandi við það að endurskoða vegal. á næsta ári. En mér skildist, að þar væri um heldur lauslega athugun að ræða, en ég tel, að það sé orðið mjög brýnt, að fram fari allsherjarathugun þessara mála, sérstaklega að því er allri fjáröflun til vegamálanna viðvíkur. Bygging hraðbrauta er að vísu ekki nema einn liður þessara vegamála, en hún er og verður á komandi árum mikilvægur liður, og 10 millj. kr., eins og ætlað hefur verið til þeirra hluta á ári, munu hrökkva ákaflega skammt.

Að mínu viti og margra annarra er helzt um að ræða tvær leiðir í sambandi við það að standa straum af kostnaði við að byggja hraðbrautir eða varanlega vegi á fjölförnum leiðum. Önnur, sem kemur til álita að sjálfsögðu, er þessi, að innheimta þar vegatoll af hverjum nýjum vegi, og það virðist mér sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. hallast að. En ég fyrir mitt leyti er hræddur um, að þessi leið verði mjög torveld í framkvæmdinni og það muni koma í ljós, að það borgi sig varla eða sé allt of dýr innheimta að hafa þennan háttinn á vegum, þar sem umferð er í flestum tilfeilum og nær öllum miklu minni en um Reykjanesbraut, það væri í rauninni ókleift að halda uppi slíkum vegatolli með einhverjum árangri, þar sem umferðin er minni en 500—600 bifreiðar á dag. Tollheimtumennirnir verða þó væntanlega að gera eitthvað töluvert betur en rukka inn fyrir kaupinu sínu.

Hin leiðin, sem hlýtur að koma til álita alveg á næstunni og ég held að væri nauðsynlegt að athuga betur, er sú, að til vegamálanna verði varið í vaxandi mæli, meira en gert hefur verið, þeim tekjum, sem hið opinbera innheimtir af farartækjum og umferð. Þær tekjur eru gífurlegar. Það er í blöðunum í gær og í dag skýrsla um þetta, sem ég hygg að sé rétt, og þar er frá því skýrt, að þessar tekjur á árinu 1964, heildartekjur hins opinbera af bifreiðum, benzíni og öðrum rekstrarvörum til bifreiða, hafi það ár numið um 640 millj. kr. Til vegamála munu af þessari upphæð ekki hafa farið, að því er segir í þessari skýrslu, nema 244 millj., en í ríkissjóð til annarra þarfa um 395 millj, eða nær 62%. (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) Já, ég skal ljúka máli mínu með því að ítreka það, að ég tel, að það verði að athuga, hvort það sé ekki nauðsynlegt að fara þessa leið. Það mundi verða því til svarað, að ríkissjóður megi nú ekki missa spón úr sínum aski, hans hag sé ekki þannig háttað nú, og það mun því miður vera rétt. Er þá komið að því stóra atriði, að dýrtíðardraugurinn virðist ætla allt að gleypa hér, en það er stærra mál en hægt er að ræða um við hæstv. ríkisstj. í einum fyrirspurnatíma.