10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3089)

52. mál, rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 52 hef ég leyft mér að flytja svofelldar fsp. til ríkisstj., en fsp. eru í þrem liðum og hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hafa verið gerðir samningar um smíði rannsóknarskips í þágu sjávarútvegsins?

2. Hve mikið fé er fyrir hendi til smíði skipsins?

3. Hvað er talið, að vel búið rannsóknarskip kosti nú?“

Þetta mun vera í fjórða skiptið, að ég ætla, sem ég fer af stað í þinginu með fsp. um hafrannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins. Af þeirri ástæðu sé ég ekki, að sérstakt tilefni sé til þess, að ég fylgi þessum fsp. nú eftir með langri ræðu, en vil þó aðeins víkja að nokkrum meginatriðum málsins.

Eins og hv. alþm. vafalaust vita, hefur á undanförnum árum verið mikið rætt og skrifað um þörfina á vel útbúnu haf- og fiskirannsóknarskipi fyrir Íslendinga. Íslendingar eiga meira undir sjávarútvegi og fiskveiðum en flestar eða allar aðrar þjóðir, sem þekkist til. Öllum er því ljóst, og það út af fyrir sig er ekki umdeilt, að hafrannsóknir og fiskirannsóknir og fiskileit eru mjög þýðingarmikil atriði í þjóðarbúskap okkar. Á undanförnum árum hefur líka verið unnið talsvert að því að bæta aðstöðu þeirra, sem að þessum málum vinna. Fyrir nokkrum árum voru þannig tekin í notkun mjög glæsileg húsakynni við Skúlagötu í Reykjavík með vel útbúnum rannsóknarstofum og tækjum fyrir fiskifræðingana. Hins vegar hefur aðstaða fiskifræðinganna til þess að vinna að sínum verkefnum úti á sjónum verið allt fram á þennan dag mjög erfið. Fiskirannsóknirnar hafa þannig orðið ár eftir ár að búa að því að nota leiguskip til þessarar rannsóknarstarfsemi, og hefur þá gjarnan verið reynt að leigja skipin hjá landhelgisgæzlunni eða ýmsir togarar, sem lausir hafa verið í þann og þann tíma, hafa verið teknir til leigu til skamms tíma í senn. Að sjálfsögðu hefur þetta fyrirkomulag leitt til þess, að hvorki hefur verið hægt að búa þessi skip þeim fullkomnustu tækjum, sem nauðsyn væri á, og ekki hefur heldur starfsaðstaðan að öðru leyti um borð í skipunum fyrir fiskifræðingana verið eins góð og hún þyrfti að vera.

Þeir, sem fylgjast eitthvað með gangi þessara mála meðal annarra þjóða, vita vel, að aðrar fiskveiðiþjóðir, eins og Norðmenn, Rússar, Bretar, Þjóðverjar, Bandaríkjamenn o.fl., hafa mjög kappkostað á undanförnum árum að efla flota hafrannsóknarskipa og fiskirannsóknarskipa. Mig minnir, að ég hafi rakið það með tölum, seinast þegar ég fór af stað með þessar fsp., og skal því ekki þreyta hv. alþm. á að endurtaka þá upptalningu. En þetta út af fyrir sig sýnir, að allar þessar þjóðir leggja ofurkapp á að efla þessa starfsemi, af því að þeim er það ljóst, að hún er mjög þýðingarmikil.

Hér hjá okkur hefur hins vegar þróun þessara mála ekki verið eins hröð og æskileg hefði verið. Sérstaklega hefur gengið illa að hrinda í framkvæmd því brýna hagsmunamáli sjávarútvegsins og raunar alþjóðar að fá byggt haf- og fiskirannsóknarskip, eins og við þó eigum mikið undir því. Ég vil aðeins í örfáum orðum reka gang þess máls á hv. Alþ. (Forseti: Ræðutíminn er búinn. 5 mínútur.) Það var fyrst þann 4. febr. 1953, að þál. var samþ. frá Pétri Ottesen alþm. um byggingu slíks skips. Með l. um útflutningssjóð frá 1958 var svo í fyrsta sinn lögtekinn fastur tekjustofn til byggingar hafrannsóknarskipsins. Á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna árið 1960 skýrði hæstv. sjútvmrh. frá því, að gengið hefði verið frá teikningum og gengið frá útboði tii smiði á hafrannsóknarskipi, en ekkert varð úr þeim framkvæmdum. Að síðustu var með l. um efnahagsmál frá í febrúar 1960 tekjustofn til smiði hafrannsóknarskipsins hækkaður í 3% af útflutningsgjaldi.

Ég hef svo, eins og ég gat um í upphafi, þrisvar áður flutt fsp. um þetta efni. Fsp. sjálfar eru ljósar og gefa ekki tilefni til frekari umr., en ég vona, að hæstv. ráðh. geti gefið við þeim nokkuð skýr svör.