17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (3131)

208. mál, sjónvarpsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson, hefur í ræðum sínum dregið það í efa, að fullgildur lagagrundvöllur væri í útvarpslögunum fyrir rekstri sjónvarps á Íslandi. Þar sem hann er prófessor í lögum, er auðvitað skylt að gefa sérstakan gaum að orðum hans um þetta efni. Ég er ekki lögfræðingur, og taldi ég það því skyldu mína við upphaf þessa máls að leita um það álíts lögfræðinga, hvort í gildandi útvarpslögum fælist heimild til rekstrar íslenzks sjónvarps. Niðurstaðan varð sú, að skilja bæri útvarpslögin á þann hátt, að í þeim fælist slík heimild. Á grundvelli þessarar niðurstöðu og þessarar vitneskju, sem segja má að ég sjálfur persónulega sé ekki dómbær um, — á grundvelli þessarar lögfræðilegu niðurstöðu hafa framkvæmdir í málinu síðan byggzt. Ef mér hefði verið tjáð, að þessi heimild væri ekki fyrir hendi, jafnvel að hún væri vafasöm, þá hefði ég talið það sjálfsagða og eðlilega skyldu mína að beita mér fyrir þeim smávægilegu breytingum á útvarpslögunum, sem hefðu verið nauðsynlegar til þess að taka af öll tvímæli um þetta efni. Af því að ég hef verið í góðri trú um, að til þess væri ekki ástæða, hef ég ekki beitt mér fyrir því. Ég minnist þess ekki heldur, að af neinum málsmetandi aðila hafi því fram að þessu verið hreyft, t.d. ekki hér á Alþ., að lagagrundvöll skorti.

Það, sem styrkti mig í þeirri trú, að ekki væri þörf á neinum breytingum á útvarpslögunum vegna tilkomu íslenzks sjónvarps, var að sjálfsögðu það atriði, sem hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, benti á í sinni ræðu, að um nokkurra ára skeið starfaði n. til þess að fjalla um undirbúning og áætlunargerð um sjónvarpið, skipuð beinlínis fulltrúum þingflokkanna, og þeirri n. var þessu sjónarmiði, að því er ég bezt veit, aldrei hreyft. Ég las álit hennar mjög vandlega, án þess að þar væri að finna einn staf um gagnrýni í þessa átt. Þetta álít n. staðfesti því einnig þá skoðun, sem ég taldi þó rétt og varlegt í upphafi að ganga úr skugga um, að út varpslögin væru nægilegur lagagrundvöllur undir framkvæmdum í sjónvarpsmálinu. Enn fremur vissi ég það, sem styrkti enn þessa skoðun mína, þótt ólöglærður sé, að með sama hætti hafði verið farið að á hinum Norðurlöndunum. Á öllum hinum Norðurlöndunum fjórum eru sjónvarpsstöðvarnar deild í ríkisútvarpi hlutaðeigandi lands. Að þessu leyti eru grundvallarákvæði löggjafarinnar um útvarpsstarfsemi á hinum Norðurlöndunum fjórum eins eða mjög svipuð, algerlega áþekk lagaákvæðunum hér, svo að sá skilningur virðist hafa verið uppi á öllum hinum Norðurlöndunum fjórum, að unnt væri a efna til sjónvarpsrekstrar á grundvelli þeirra laga, sem þá giltu um radíó, sem þá giltu um útvarp í þeim löndum, án þess að gerð væri sér stök lagabreyting í þeim löndum til þess að gera sjónvarpsreksturinn löglegan, án þess að fá honum sérstakan lagagrundvöll. Þar hefur t.d. alls staðar verið talinn nægur lagagrundvöllur og eðlilegt rekstrarform, að sjónvarpið yrði deild eða hluti af útvarpsstarfseminni, af radíóstarfseminni, og tekin upp þvílík málvenja, eins og nú er að skapast hér, að greina útvarp í tvo þætti í hljóðvarp og sjónvarp.

Á grundvelli þessarar skoðunar hafa fram kvæmdir í málinu verið byggðar, og auðvitað á grundvelli þessarar lagaskýringar á ríkisútvarpslögunum verða afnotagjöld innheimt á sínum tíma. Fyrst lögin veita heimild til þess að innheimta afnotagjöld af útvarpi fyrir hljóðvarpsþjónustu, hljóta lögin einnig að veita fullgilda lagaheimild til að innheimta afnotagjöld af sjónvarpi fyrir sjónvarpsþjónustu.

Hitt er svo annað mál, eins og ég sagði áðan, að til athugunar hefur verið að endurskoða heild löggjöfina um Ríkisútvarpið, sem er orðin óeðlilega gömul, að því er ég tel. En þá kemur það sjónarmið til greina, sem hv. 5. þm. Vesturl. gat um í sinni ræðu, að margt mælir með a fá fyrst nokkra reynslu af rekstri sjónvarpsins áður en ný heildarlöggjöf er sett um útvarp, þ. e um hljóðvarp og sjónvarp. Þó kann að vera nauðsynlegt að gera sérstakar breytingar á einstökum þáttum útvarpslöggjafarinnar. Er það má til sérstakrar athugunar og kann að koma til kasta þess Alþ., sem nú situr.