17.11.1965
Sameinað þing: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (3132)

208. mál, sjónvarpsmál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Mér þykir leitt að deila um keisarans skegg við fyrirrennara minn sem formann útvarpsráðs, merkan lagamann, en viðhorf mitt er óbreytt. Hann viðurkennir, að Landssíminn þurfi ekki vegna sín einkaleyfis til fjarskipta sérstaka lagaheimil til að taka upp nýja gerð fjarskipta. Eins tel ég að Ríkisútvarpið, sem fer með einkaleyfi til útvarps, þurfi ekki sérstaka lagaheimild til að taka upp nýja gerð útvarps. Ef menn vildu fá niðurstöðu um þetta, hygg ég, að við ættum ekki aðeins að spyrja lögfræðinga, heldur tæknimenn um það, hvort hljóðvarp og sjónvarp séu ekki eðli sínu það sama og eigi þar af leiðandi að falla hæði undir sömu löggjöf.

Ég vil að lokum undirstrika það, sem er meira virði í þessum umr., að við erum allir, sem hér höfum talað, sammála um, að orðið sé tímabært að endurskoða löggjöfina um útvarpsrekstur ríkisins. Ástæður fyrir því, að ég og fleiri hafa ekki viljað gera það rétt áður en kemur að sjónvarpinu, eru bæði þær, sem fram hafa komið, að það muni vera æskilegt að fá reynslu af sjónvarpi, og að auki annað atriði, að í þessari löggjöf er ýmislegt, sem getur valdið deilum, t.d. framtíð Viðtækjaverzlunar ríkisins, sem gæti orðið allheitt deilumál. Ég hef persónulega ekki viljað blanda slíkum málum, sem óhjákvæmilega koma upp, þegar lögin í heild verða endurskoðuð, inn í fæðingarhríðir sjónvarpsins.