08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (3150)

75. mál, kísilgúrverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 91 fyrirspurn í 4 liðum varðandi kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Spurt er:

„1) Hafa verið teknir upp samningar við aðra erlenda aðila um þátttöku í kísilgúrvinnslu og sölu en ráð var fyrir gert í rökstuðningi fyrir lögum um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, og ef svo er, hve langt eru þeir samningar á veg komnir og hver eru meginatriði þeirra?

2) Er fyrirhugað að leggja samninga, er gerðir verða við aðra aðila og á öðrum grundvelli en ráð var fyrir gert í grg. ríkisstj. með frv. til l. um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, fyrir Alþingi?

3) Hvað líður athugunum á þeim hættum og vörnum gegn þeim, sem leiða kann af byggingu kísilgúrverksmiðju við Mývatn fyrir dýralíf í Mývatni og við Mývatn?

4) Hvaða samráð hefur verið haft eða er fyrirhugað við Mývetninga og þ. á m. við landeigendur og eigendur veiðiréttar í Mývatni um starfrækslu fyrirhugaðrar kísilgúrverksmiðju?“

Ástæðan fyrir þessari fsp. minni er í stuttu máli þessi:

Með lögum um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, sem samþ. voru á Alþ. vorið 1964, var heimilað í 4. og 6. gr. þeirra laga, að ríkið og sá erlendi aðili, sem samvinna verður við höfð, eins og þar segir, verði aðalstofnendur þriggja hlutafélaga, sem mynduð yrðu: í fyrsta lagi um skipulagningu og annan undirbúning að rekstri verksmiðjunnar, en þetta yrði bráðabirgðafélag, sem leyst yrði upp, er undirbúningi væri lokið, í öðru lagi um byggingu og rekstur fyrirhugaðrar verksmiðju og í þriðja lagi um dreifingu og sölu afurða verksmiðjunnar. Skyldi ríkið eiga a.m.k. 51% í hinum tveim fyrrgreindu hlutafélögum.

Öllu nákvæmari eru hin beinu lagafyrirmæli ekki varðandi hina erlendu samvinnu. Á hinn bóginn tekur grg., sem frv. fylgdi, og fylgiskjöl, sem lögð voru fram með frv., af allan vafa um tilgang og nánari framkvæmd þessara fyrirmæla laganna. Hinn erlendi samvinnuaðili er þá þegar ákveðinn og fyrirhuguð samvinna við hann nákvæmlega tilgreind í einstökum atriðum í samningi eða samkomulagi, sem birt er sem fskj. nr. VII með grg. frv. Í upphafi þessa samnings segir, að hann hafi verið staðfestur af AIME, þ.e.a.s. hinum þegar fastákveðna erlenda samvinnuaðila, og af ríkisstj. Íslands. Varðandi staðfestingu ríkisstj. Íslands segir síðan: Staðfestingin var að sjálfsögðu með þeim fyrirvara, að Alþ. veitti nauðsynlega lagaheimild til að framkvæma samkomulagið. Síðan koma algerlega bindandi skuldbindingar um stofnun undirbúningsfélagsins og eignaraðild að því, stjórn o.s.frv., en hins vegar er endanleg ákvörðun um samvinnu um byggingu og rekstur verksmiðjunnar og um stofnun sölufélags háð því, að undirbúningi ljúki með fullnægjandi árangri að beggja dómi. En samningurinn tiltekur einnig nákvæmlega, hvernig sú samvinna skuli fara fram, ef til komi, sem lítill vafi virðist á eftir anda og ákvæðum samningsins.

Nú hafa verið uppi um það meira eða minna óljósar fregnir allt siðan á s.l. vori, að á ferðinni væri, að teknir yrðu upp samningar og samvinna í þessu máli við allt aðra aðila en þann eina erlenda aðila, sem um var að ræða, þegar nefnd lög voru sett, og enginn vafi getur á leikið, að verið var að heimila samvinnu við með samþykkt á lögum um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og Námuskarð, eins og allt það mál var lagt fyrir hér á hv. Alþ. Því þykir mér ástæða til að spyrja og fá greinileg svör við því, hvaða ástæður hafi valdið því, að samningurinn við AIME frá 27. febr. 1964 hafi ekki komið til framkvæmda og hvað hafi yfirleitt síðan gerzt í málinu. En það var einmitt þessi samningur, sem raunverulega var verið að staðfesta með samþykkt laga um þessa verksmiðju. Í framhaldi af því verður líka að telja eðlilegt, að spurt sé um fyrirhugaða málsmeðferð og öflun nýrra heimilda frá Alþ., ef sá grundvöllur er brostinn, svo sem vera virðist, sem öll lagasetningin varðandi hina erlendu samvinnu var á sínum tíma byggð á.

Varðandi tvo síðari hluta fsp. vil ég segja þetta: Það er alkunnugt, að ýmsar tegundir nútíma verksmiðjurekstrar eru meira eða minna varhugaverðar frá sjónarmiði náttúruverndar, dýralífs og gróðurs og þeim mun varhugaverðari sem meira er að vernda af náttúruverðmætum, sem ekki verða metin til fjár, en geta verið óbætanleg jafnvel öðrum fremur. Við frumathugun á kísilgúrvinnslu við Mývatn mun ekki ýkjamikið hafa verið hugað að þessu mikilvæga atriði, og bendir það til þess, að hvergi er á það minnzt í grg. með frv., sem samþ. var síðar sem lög frá Alþ. Ætla ég þó ekki neinum, sem forgöngu hefur haft í þessu máli, að vilja fljóta sofandi að feigðarósi á þann hátt að leggja í verksmiðjurekstur, sem hætt gæti hinu stórfenglega náttúruríki við Mývatn, sem engan á sinn líka hér á landi og jafnvel þó að miklu víðar væri leitað. Nýleg blaðaskrif um þessi efni, m.a. frá hendi vel menntaðs líffræðings, hafa vakið upp nokkurn vafa um það, hvort hér væri staðið að málum og gætt þeirrar varfærni, sem frekast væri unnt, og því þykir mér einnig ástæða til að spyrja um, hvaða ráðgerðir eru uppi varðandi þetta atriði, og einnig, hvort eðlilegt samráð hafi verið haft við Mývetninga í þessum efnum, því að engum hygg ég betur treystandi til þess að gæta þess, að ekki sé óvarfærnislega að farið, heldur en þeim, sem þá sveit byggja.