08.12.1965
Sameinað þing: 17. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (3153)

75. mál, kísilgúrverksmiðja

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hefði mjög gjarnan kosið, að hv. fyrirspyrjandi, Björn Jónsson, 4. þm. Norðurl. e., hefði getað sparað sér getsakir um, að meiningin væri að viðhalda einhverja óheiðarlega meðferð máls. Enn er ekki heldur sýnt, hversu mikið eða lítið verður skriðið undir pilsfald Johns Manville, þess ameríska fyrirtækis, sem gerð hefur verið grein fyrir, að tilraun til samningagerðar hafi farið fram við. Í svari mínu, sem var tvíþætt, ætlaðist ég alls ekki til annars en málið gæti komið til ákvörðunar Alþingis. Í fyrra tilfellinu, ef ekki væri um löggjafaratriði að ræða, yrði það ekki lagt fram í löggjafarformi, en auðvitað koma til álita, að Alþ. tæki afstöðu til mála á annan hátt en þann, með þál. eða á annan veg. Mér er ekki alveg ljóst — ég segi það eins og er — á þessu stigi málsins, hvernig hentast verður að láta það mál koma fyrir. En til þess að fyrirbyggja allan misskilning og eyða allri tortryggni er ég alveg reiðubúinn til þess að hafa samráð við stjórnarandstöðuna um það, þegar það mál liggur þannig fyrir. Og ég skil mjög vel og ég tel það rétt rök, sem færð eru fram af hv. fyrirspyrjanda, að fylgiskjölin með frv. á sínum tíma hafi gefið þm. alveg rökstudda ástæðu til þess að ætla, að í þessu formi og við skulum segja: ekki öðru formi hafi verið þá ætlazt til að gera þessa samninga, og þess vegna sé rétt, að þær breytingar, sem á þessu kunna að verða, fari á engan hátt fram hjá Alþ. og Alþ. fái eftir atvikum alveg ótakmarkaða og fullkomna aðstöðu til þess að taka afstöðu til þess, lýsa sinni afstöðu með eða móti, ef svo ber undir.

Annað er nú ekki, sem ég tel ástæðu til að taka fram í þessu sambandi. Ég veit ekki betur en að af fyllstu kostgæfni og vandvirkni hafi verið unnið af þeim aðilum, sem haft hafa málið til meðferðar, að því er snertir aðallega síðari þætti fsp., um aðstöðuna við Mývatn og um samningaviðræður við bæði hreppsnefndir og bæjarstjórnir, og vona þess vegna, að enn sem komið er sé ekkert það fram komið, sem þurfi að gera þetta mál að sérstöku deiluefni milli okkar, fremur en það var við afgreiðslu þess hér í þinginu á sinum tíma.