16.12.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (3171)

86. mál, félagsheimilasjóður

Ásgeir Pétursson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér er m.a. rætt um og varðar fsp., varð þannig til, að það var steypt saman þáltill., sem hv. 2. þm. Vestf. flutti á sinni tíð ásamt öðrum þm., og viðaukatill., sem ég flutti. Upphaflega till. stefndi að því, að l. um félagsheimili yrðu endurskoðuð með það fyrir augum fyrst og fremst, að félagsheimilasjóður yrði efldur að því marki, að hann gæti greitt lögboðin framlög og staðið við skuldbindingar sínar. Viðaukatill. mín stefndi hins vegar að því, að ráðstafanir yrðu gerðar í l. til þess að hagnýta betur þá góðu aðstöðu, sem hefur fengizt víða um land með hinum mikla og góða húsakosti félagsheimilanna í því skyni að efla félags- og menningarlíf í landinu.

Með flutningi till. minnar í fyrra vildi ég undirstrika þá augljósu staðreynd, að það er ekki nóg að byggja félagsheimili, heldur verður jafnframt að sjá um það, að þau geti orðið vettvangur menningarlegrar félagsstarfsemi og fræðslu. Fram að þessu hefur mest verið hugsað um hin ytri skilyrði félagslífsins, þ.e.a.s. að skapa skjól fyrir félagsstarfsemina, en minna hirt um innri skilyrðin, m.ö.o. það, að félagsheimilin komi að raunverulegu gagni. Það mætti raunverulega líkja slíkum vinnubrögðum við það, að það væru byggð vönduð skólahús, en síðan látið undir höfuð leggjast að útvega hæfa kennara og fræðsluefni.

Því fer fjarri, að það sé rétt eða æskilegt, að ríkisvaldið eitt eigi að hafa allan vanda eða forgöngu í þessu efni, að hagnýta félagsheimilin betur. Þar ættu vissulega hin ýmsu héruð og sveitarfélög að leggja hönd á plóginn og hjálpa til við það sjálf og eiga frumkvæði að umbótum í þessu efni. En engu að síður virðist rétt, að lögum um félagsheimili verði breytt þannig, að það verði tekin upp í þau heimild til þess að færa út hlutverk félagsheimilasjóðs, þannig að í framtíðinni greiði sjóðurinn ekki eingöngu til þess að standa undir byggingu félagsheimila, heldur komi að því, að hann greiði fyrir útvegun menningarlegs fræðslu- og skemmtiefnis í félagsheimilunum. Það mætti t.d. hugsa sér það, að sjóðurinn styddi, að það yrðu fengnir leikflokkar, tónlistarmenn, fyrirlesarar, sem færu á milli hinna ýmsu félagsheimila í landinu. Þess er þó að sjálfsögðu ekki að vænta, að það verði unnt að taka slíka starfsemi upp á vegum sjóðsins fyrr en hefur verið greitt fram úr mestu fjárhagserfiðleikum hans, sem eru ærnir, eins og fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. hér áðan. En í þessu efni skiptir auðvitað miklu máli að hefja ekki nýjar framkvæmdir við byggingu félagsheimila, nema þar sem brýnust nauðsyn er, og reyna þá heldur að einbeita sér að því að grynna á skuldum sjóðsins. Þótt seint sé, er einnig rétt að rannsaka núna, hvar brýnst þörf er á félagsheimilum, og stöðva það ráðslag að láta hendingar oft og tíðum ráða því, hvar þessi heimili eru staðsett.

Allir eiga mikið undir því, að bragarbót verði gerð á málefnum félagsheimilanna, en enginn á eins mikið í húfi og æskan. Umrædd þáltill., sem hér var rædd í fsp., stefndi einmitt að umbótum í þessu efni. Ég treysti hæstv. ríkisstj., menntmrh., til þess að fylgja því fast eftir, að hið fyrsta verði lagðar fram till. til úrbóta í þessum efnum.