30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í D-deild Alþingistíðinda. (3197)

147. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. ræðumenn Alþb. hafa látið að því liggja, að ástæðan til þess, að ég hafi ekki svarað 4. fsp. hv. þm., sé sú, að til þess vanti mig vilja. Ég vil aðeins endurtaka, að svo er alls ekki. Ég tók það fram þegar í upphafi svars míns, að ég teldi mjög æskilegt að geta einmitt veitt þær upplýsingar, sem þar er beðið um, en grundvöllur fyrir því væri hins vegar ekki fyrir hendi. Íslenzk hagskýrslugerð væri ekki á því stigi, að unnt væri að sækja þangað upplýsingar til svars við þessari fsp. og ég vil undirstrika aftur vegna endurtekinna ummæla hv. síðasta ræðumanns um þetta efni, að þetta er ekki aðeins skoðun mín, heldur einnig þeirra embættismanna, sem að þessum svörum ættu að vinna, og þá fyrst og fremst verðlagsstjóra, og ég læt mér ekki detta í hug, að hv. þm. væni þann ágæta embættismann um viljaleysi til að veita þær upplýsingar, sem hér er um beðið.

Varðandi þau ummæli hv. þm., að við fjórir hagfræðingar höfum á sínum tíma í skýrslu, sem við sömdum, álíti hagfræðinganefndar, gert vissa útreikninga á heildarálagningu í smásöluverzlun og heildverzlun á Íslandi á ákveðnu tímabili, er það rétt, að við gerðum slíkar áætlanir. Ég vildi fremur kalla það áætlanir en útreikninga. En það

kostaði okkur mikla vinnu og ýmsa aðstoðarmenn. Við unnum að samningu þessa rits, sem siðar var gefið út, í marga mánuði allir 4 með aðstoð nokkurra ágætra aðstoðarmanna. Hér er hins vegar borin fram fsp., sem ætlazt er til að svarað sé með viku fyrirvara, og vona ég, að gefi auga leið, að ógerningur er að efna til neins konar víðtækrar rannsóknar eða athugunar á þeim tíma, sem ráðh. er ætlað að svara fsp., sem fram eru bornar. Hins vegar endurtek ég það, að ég hef áreiðanlega ekki minni áhuga á því en hv. fyrirspyrjandi og ræðumenn Alþb., að sem ljósastar upplýsingar liggi fyrir um einmitt þau atriði, sem um er spurt í 4. liðnum, og ég skal gjarnan hafa það til áframhaldandi athugunar í viðskmrn. og hjá verðlagsyfirvöldunum, hvort unnt sé að efna til athugunar, sem leiði þau meginatriði í ljós, sem þarna er óskað vitneskju um.

Varðandi það, að hv. síðasti ræðumaður tók mjög sterklega undir þá skoðun, sem fram kom hjá fyrirspyrjanda og hv. 3. þm. Reykv., að hagur kaupsýslustéttanna muni hafa batnað óeðlilega mikið í kjölfar afnáms verðlagsákvæða á ýmsum vörum á undanförnum árum, vildi ég minna á, að það eru ekki nema 7—8 ár síðan við áttum saman sæti í ríkisstj., hv. síðasti ræðumaður og ég. Hann fór þar með viðskiptamál, en flokksbróðir hans í ríkisstj., núv. hv. formaður Alþb., hv. 5. þm. Vestf., fór hins vegar með verðlagsmál í þeirri ríkisstj. Á síðasta starfsári þeirrar ríkisstj. voru sett ný verðlagsákvæði, á árinu 1958. Sú ráðstöfun var nokkuð umdeild á sinum tíma. En það er rétt að minna á það, sem áreiðanlega oft hefur komið fram opinberlega, — minna á það sérstaklega í þessu sambandi, að um margra ára skeið eftir 1960 var það stöðug ósk, að ég ekki segi krafa bæði kaupsýslumanna og samvinnufélaga, að verðlagsákvæðum væri breytt í það horf, sem þau urðu 1958. Þeir töldu verðlagsákvæðin þegar á árinu 1961 vera orðin mun þrengri en þau voru samþ. á valdaárum stjórnar Hermanns Jónassonar og hafandi hv. þm. Hannibal Valdimarsson sem verðlagsmálaráðh. Þeir töldu verðlagsákvæðin þegar á árinu 1961 vera orðin mun þrengri en þau verðlagsákvæði, sem stjórn Hermanns Jónassonar eða verðlagsnefnd undir yfirstjórn hennar hafði samþykkt. Það er ekki fyrr en á árinu 1964, og það er síðasta breytingin, sem gerð er á verðlagsákvæðum, — 1964 er loksins ákveðið að undangenginni mjög ýtarlegri rannsókn Efnahagsstofnunarinnar að hækka verðlagsákvæðin í það horf, sem þau voru raunverulega 1958, svo að segja má, að þau verðlagsákvæði, sem nú eru í gildi og hafa verið síðan 1964, séu að efni til sömu verðlagsákvæði og samþ., voru undir yfirstjórn Hannibals Valdimarssonar 1958. Þau þykja nú orðin of þröng vegna þess kostnaðarauka og þeirrar verðbólgu, sem átt hefur sér stað síðan, og er það mál enn til athugunar. Hafi þess vegna verið á þessum árum um mjög óeðlilega gróðamyndun í viðskiptum landsmanna að ræða, á árunum eftir 1960—1961, má segja, að efnt hafi verið til óeðlilegrar og ískyggilegrar gróðamyndunar með ákvörðunum vinstri stjórnar Hermanns Jónassonar 1958.