27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

111. mál, bifreiðaferja á Hvalfjörð

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er misskilningur, ef hv. 11. þm. Reykv. hefur látið sér detta í hug, að þetta mál væri komið á það stig, að það yrði lagt fyrir Alþ. til samþykktar eða synjunar, en hv. þm. sagði það ekki beinlínis, en það .jaðraði við, að hann hugsaði á þá leið, eftir því sem hann talaði, hv. þm.

Það er vitanlega ákaflega margt, sem þarf að kanna og athuga í þessu máli, áður en menn gætu gert sér fulla grein fyrir því, hvort það er hægt að ráðast í þetta fyrirtæki. En samkv. þessari skýrslu, sem hér liggur fyrir og vitamálastjóri hefur samið og vegamálastjóri hefur lagt talsvert inn í, sýnist það, að í framtíðinni geti þetta orðið fjárhagslega gott fyrirtæki, og er þá reiknað með því, að umferðin aukist, að það sparist vegagerð fyrir Hvalfjörð 55 km, því að það er vitanlega ákaflega mikill munur á sliti vegarins, hvort 25% af umferðinni fer um veginn eða öll umferðin. Það yrði áreiðanlega látið bíða fyrst um sinn og jafnvel mörg ár að setja varanlegt slitlag á þann veg, sem ekki ætti að taka nema 25% af umferðinni. Það yrðu vitanlega margir vegir, sem yrðu teknir á undan, enda teldist þessi vegur þá ekki lengur hraðbraut, þegar hann hefur ekki nema 25% af umferðinni. Þannig vitanlega sparaðist mikið fé, og er það alveg rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hvað það snertir.

Hv. 11. þm. Reykv. spurði um það, hvort reiknað væri með vegi í þessum 13 millj., sem ég nefndi í vegagerðarkostnaði, frá aðalvegi að ferju. Það er ekki tekið fram beinlínis í þessari grg., en ég ætla, að svo muni vera, og tel sjálfsagt, að svo muni vera, því að vitanlega verður að reikna með varanlegum vegi, vegi með slitlagi, að ferjunni báðum megin frá. En það er ekki tekið sérstaklega fram hér, en ég ætla, að það sé í þessum 13 millj.

Svo vil ég aðeins taka undir það, sem kom óbeint fram hjá hv. 11. þm. Reykv., að það gæti orðið bið við ferjuna, sérstaklega ef ekki væri nema ein ferja. Þess vegna tel ég það ekki rétt, sem hv. 5. þm. Vesturl. talaði hér um áðan, að það mætti spara sér kaup á annarri ferjunni til að byrja með. Ég held, að það væri alveg útilokað að gera það, vegna þess að það mundi kalla á biðraðir og þannig mundi missast mikið af þeirri umferð, sem reiknað er með að notaði ferjuna. Það yrði þess vegna strax að byrja með tvær ferjur, og eins og kemur fram í þessari skýrslu, er talið, að það mætti láta ferjurnar ganga á 20 mínútna fresti frá hvoru landi og þannig væri hægt að taka við allri umferðinni næstu 10—12 árin. Og hvort menn taka krókinn eða ferjuna, er vitanlega allt undir því komið, hvort menn tefjast við það að taka ferjuna og fá óþægindi og tafir, og ég er þeirrar skoðunar, að menn fari heldur krókinn en bíða, ef afgreiðslan gengur ekki fljótt.

Hv. 5. þm. Vestf. talaði hér áðan um að nota þyrlu fyrir Akranes, það væri ekki dýrara en skipið. En þeir, sem tala um bílferju á Hvalfjörð, tala ekki um það eingöngu vegna þeirra, sem búa á Akranesi, heldur muni það stytta leiðina til Vestur- og Norðurlandsins. Og þyrlur eru ákaflega dýrar í rekstri, alveg sérstaklega dýrar, þær eru dýrari en aðrar vélar, og ég held, að það yrði þess vegna ekki samgöngutæki til að leysa þennan hnút, ekki einu sinni fyrir Akurnesinga. Hitt hefur svo legið fyrir, að það þarf að gera athugun á því, hvort ferjan gæti komið til greina héðan frá Reykjavík frekar en fara upp í Hvalfjörð fyrst. Það er vitanlega til athugunar, og áður en þessu máli væri lokið og áður en til mála kæmi að leggja það fram hér á Alþ., er eftir að athuga aðra staði, eins og ég sagði í byrjun máls míns, og verður ekki til fullnaðar sagt um það, hver staðurinn heppilegastur er, enda þótt bæði vitamálastjóri og vegamálastjóri teldu líklegast, að sá staður, sem hefur verið valinn í þessari álítsgerð, komi helzt til greina.