24.02.1966
Efri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft mál þetta til athugunar og rætt það á tveim fundum sínum. Eins og fram kemur í nál., náðist ekki samkomulag innan n. um afgreiðslu þess, og segja má, að n. sé þríklofin í málinu. 1. minni hl. sjútvn., Gils Guðmundsson, leggur til, að frv. verði fellt, 2. minni hl., Helgi Bergs og Ólafur Jóhannesson, segir, að að svo vöxnu máli sjái þeir ekki ástæðu til þess að leggjast gegn frv., en muni ekki heldur ljá því stuðning sinn. Meiri hl. n. leggur hins vegar til. að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum, sem fluttar eru á sérstöku þskj.

Frv. það, sem hér um ræðir, er í beinu sambandi við þá fiskverðssamninga, sem gerðir voru þann 6. jan. s.l. af yfirnefnd verðlagsráðsins. Var þá með því reiknað, að um 4% af heildarhækkuninni næðust með þeim breytingum, sem í frv. þessu er lagt til að gerðar verði á útflutningsgjöldum af sjávarafurðum. Undir athugun sinni á málinu leitaði n. margvíslegra upplýsinga hjá forstöðumanni Efnahagsstofnunar ríkisins, Jónasi Haralz, en hann skipaði, svo sem kunnugt er, sæti formanns í yfirnefnd. Þá átti n. einnig, svo sem fram kemur í nál., viðræður við ýmsa aðra aðila, sem hér áttu hlut að máli, og leitaði álits þeirra á frv. Það kom skýrt fram í þeim umr., að allir töldu þeir, að í grundvallaratriðum væri efni þessa frv. í fullu samræmi við þá samþykkt. sem n. gerði varðandi fyrirhugaðar breytingar á útflutningsgjaldinu og ætlað var að stæði undir 4% af þeirri hækkun, sem átti sér stað á fiskverðinu. Þó að svo vilji til að þessu sinni, að umræddar breytingar á útflutningsgjaldinu verði til þess að brúa það bil, sem vantaði á, að nauðsynleg verðhækkun gæti átt sér stað, er hér að öðru leyti um hagsmunamál að ræða, sem lengi hefur verið barizt fyrir af fiskframleiðendum.

Það mun upphaflega hafa verið ætlun n. að breyta útflutningsgjaldinu algerlega í magngjald í stað þess verðmætisgjalds, sem verið hefur í öllum tilfellum til þessa. Í aths. við frv. segir hins vegar, að við nánari athugun hafi ekki þótt hagkvæmt að láta magngjald gilda um allar vörur og því sé lagt til, að það gildi aðeins um freðfiskflök, saltfisk og skreið, en verðmætisgjald verði eftir sem áður á öllum öðrum vörum sjávarútvegsins, en þó jafnframt ákveðið þannig, að það verði svipað að upphæð og magngjaldið hefði orðið, með tilliti til þeirra hugmynda, sem yfirnefnd reiknaði með, þegar hún gekk frá sínu samkomulagi um fiskverðið. Í þeim tilfellum, sem verðmætisgjald helzt áfram, er lagt til, að það haldist óbreytt frá því, sem nú er, nema á síldarmjöli og síldarlýsi. Þar hækkar prósentan um 2% og verður 8% í stað 6. Sú tilfærsla, sem með þessum hætti á sér stað milli bolfisk- og síldarafurða, er áætlað að muni nema um 40 millj. kr.

Það, sem fiskframleiðendur hafa fært fram sem rök fyrir máli sínu eða kröfum um þessa breytingu á útflutningsgjaldinu, er sú staðreynd, að eftir því sem þeir hafa lagt í meiri kostnað við að vinna vöruna og með því hækka útflutningsverðmæti, hafi jafnhliða með því fyrirkomulagi, sem nú á sér stað, hækkað í krónutölu útflutningsgjaldið á hverja magneiningu, með þeim afleiðingum, að það hefur leitt til þess, að dregið hefur úr áhuga framleiðenda á að leggja í þann kostnað, sem þessu er samfara. Hér er því um skatt að ræða, sem getur haft óholl áhrif á nauðsynlega verðmætasköpun þjóðarinnar.

Hin einhæfa útflutningsframleiðsla Íslendinga, sem er enn í dag að mestu leyti borin uppi af sjávarútvegi, hefur oft skapað erfiðleikatíma í efnahagslífi þjóðarinnar. Þegar aflabrest hefur borið að höndum, hefur það venjulega leitt til þess, að útflutningsverðmætið hefur minnkað í krónutölu í svipuðum hlutföllum og kg hefur fækkað. Það er álit margra, að þessu þurfi ekki að vera þannig farið. Með aukinni vinnslu innanlands á þessu góða hráefni mætti stórauka útflutningsverðmætið, þó að ekki ætti sér stað nokkur aukning í aflamagni. En þegar svo er komið, eins og nú er að heyra á okkar fiskifræðingum og ekki síður þeim erlendu, sem hér fylgjast með, að fiskistofninn fari frekar minnkandi heldur en hitt, er kominn tími til, að við Íslendingar athugum frekar en orðið er alla þá möguleika, sem tök eru á til að efla fiskiðnaðinn og skapa honum starfsskilyrði á traustum grundvelli.

Auk þess sem þetta frv. felur það í sér að ákveða eitt og sama gjald á hvert útflutningstonn, sem breytist ekki, þótt verðmæti aukist, eru einnig í frv., 5. tölul. 2. gr., ákvæði, sem létta að öllu leyti útflutningsgjöldum af niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum.

Þær breytingar á útflutningsgjöldum, sem frv. þetta felur í sér, skerða ekki heildartekjur, sem af útflutningsgjaldinu hafa verið, heldur er aðeins um tilfærslu að ræða og fyrirkomulagsbreytingu, eins og ég þegar hef getið um.

Í þessu sambandi er ekki óeðlilegt, að um það sé spurt, hvort sú atvinnugrein, sem ætlað er að auknar verði álögur á, sé fær um að taka þær á sig og sú breyt., sem hér er gerð, sé að öðru leyti sanngjörn. Eins og sjá má af 3. gr. frv., renna allar tekjur, sem til falla af útflutningsgjaldinu, á einn eða annan hátt aftur til sjávarútvegsins. Stærsti hlutinn eða 73.4% fer til greiðslu á vátryggingagjöldum fiskiskipa, en þar næst kemur svo framlag til fiskveiðasjóðs, 7.2%, og til fiskimálasjóðs 5.9%. Ég tel, að með þeirri þróun, sem nú á sér stað og hefur verið hin síðari ár um uppbyggingu fiskiskipaflotans, þar sem allt hnígur í þá átt að miða stærð fiskiskipanna við það, að þau geti stundað síldveiðar á djúpmiðum fjarri ströndum, hljóti að leiða til þess, að stærsti hlutinn af því fjármagni, sem fiskveiðasjóður hefur til ráðstöfunar, fari til byggingar slíkra fiskiskipa. Það má því segja, að ekki sé óeðlilegt, að hlutur þeirra í útflutningsgjaldinu sé aukinn frá því, sem nú á sér stað. Að öðru leyti er á það að líta, að langstærstur hluti síldveiðiflotans stundar einnig þorskveiðar á vetrarvertíð, og kemur þessi breyting þeim einnig til góða við þær veiðar með hækkuðu fiskverði. Hitt er svo rétt að viðurkenna, að skammt er til baka til þess tíma, að síldveiðar voru atvinnugrein, sem ekki var aflögufær. Þá var talið óhjákvæmilegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að hlaupa undir bagga með þeim atvinnuvegi. Í dag vitum við hins vegar, að það, sem hér gerir gæfumuninn, er fyrst og fremst hin bætta aðstaða, stærri og betri skip, útbúin fullkomnustu tækjum og tækni, sem Íslendingar eru í fremstu röð þjóða með að hagnýta og taka í sína þjónustu. Sú breyting er gerð með frv. þessu varðandi greiðslu útflutningsgjalds, að það gjald fellur nú allt í einu, um leið og útflutningsskjöl eru afgreidd. En áður var heimilað að greiða 1/3 hluta við afhendingu skjala, en 2/3 við gjaldeyrisskil.

Í umr., sem n. átti við útflytjendur varðandi þetta atriði, kom það fram, að þeir höfðu sjálfir óskað eftir þessari breytingu og töldu hana hagstæða og spara þeim mikla vinnu.

Þá vil ég með nokkrum orðum að lokum víkja að þeim brtt., sem meiri hl. n. flytur.

Það er fyrst brtt. við 5. gr. Með henni er kveðið skýrt á um það, hvaða vörur og í hvers konar pakkningum þær skuli vera, til þess að þær falli undir þessa grein, sem allt útflutningsgjald er fellt niður af. Með þessu kemur skýrt fram, sem ætlað er, að saltsíld falli ekki undir þennan flokk, hvernig sem henni er pakkað, en hins vegar opnaðir möguleikar fyrir stærri pakkningum en 10 kg, ef um niðurlagningu síldar er að ræða eða aðra slíka vöru, sem hagstætt væri að selja í stærri pakkningum en þar um getur.

Samkv. 2. brtt. er lagt til, að fellt verði niður í 4. tölul. 3. gr. orðið „byggingar“ og verði: til rannsóknastofnana sjávarútvegsins. Með þessu móti verður rýmri heimild til ráðstöfunar fyrir rannsóknastofnanirnar að ráðstafa fjárupphæðinni í aðrar þarfir þeirra, ef það verður talið nauðsynlegt.

Samkv. 3. till. er lagt til, að orðin „nema annað sannist“ verði felld niður. Það var talið óþarft og því lagt til, að þessi orð verði felld niður úr frv.

Næstu tvær till. eru til frekari skýringar um framkvæmd l., og verður upptalning á þeim skjölum, sem lögð eru til tollstjóra í sambandi við útflutninginn, tæmandi eins og hér er lagt til.

Þá er loks samkv. 6. till. lagt til, að sett verði almennt reglugerðarákvæði í l., sem heimili ráðh. að setja með reglugerð frekari fyrirmæli um framkvæmd laganna.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta frv. að sinni, en legg til, að það verði samþ. með þeim breyt., sem meiri hl. n. leggur til, og málinu verði síðan að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.