25.02.1966
Neðri deild: 46. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 263, eins og það var samþykkt við 3. umr. í Ed., er, eins og réttilega hefur verið fram tekið, í meginatriðum um það, að millifæra skal útflutningsgjald af vissum tegundum bolfiskafurðanna á síldarafurðirnar. Þá er staðfest í frv., að skipting á útflutningsgjöldunum skal vera hin sama og áður var.

Í fyrsta lagi skulum við gera okkur grein fyrir því: Er þessi breyting úr verðmætisgjaldi í magngjald sanngjörn? Ég veit, að þetta sjónarmið hefur verið uppi nokkuð lengi, sérstaklega hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, skreiðarframleiðendum og öðrum, sem vinna nokkuð verðmætar pakkningar. Ég veit, að á þeim fundum, þar sem þetta hefur verið borið fram, hefur verið farið einhliða fram á, að þessu yrði breytt í magngjald, og þar með, að gjöldin lækkuðu að sama skapi. Ég veit, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem hv. 5. þm. Austf. er í varastjórn fyrir, bar ósk þessa fram á aukafundi sínum 18. jan. 1963 og var þar samþykkt einróma og sömuleiðis á aðalfundi í júní 1963 og endurtekið enn á aðalfundi í maí 1965. Þessar skoðanir hafa því verið uppi. En vissulega skal það tekið fram, að ég geng út frá því, að þeir, sem hafa staðið að þessum till., hafi ætlazt til þess, að það gengi ekki út yfir einn eða annan, nema þá helzt ríkissjóð. Nú er það svo, að þeir, sem eiga að gæta hagsmuna ríkissjóða hverju sinni verða að athuga um það, að álögur á hann verði ekki of miklar.

Hv. 5. þm. Austf. sagði hér áðan, að hann teldi, að verðhækkun sú, sem varð á bolfiskafurðum núna í byrjun ársins, væri of lítil. Ég er honum sammála um þetta atriði, það þurfti virkilega að hækka verðið meira en gert var. En það er ekki í fyrsta skiptið, að þeir, sem staðið hafa í samningum fyrir útvegsmenn, hafa fengið þau svör, að það væri ekki hægt að láta nema ákveðinn hluta til verðbóta, í hvaða formi sem það hefur verið. Mér er í minni einmitt þegar hv. núv. 5. þm. Austf. var sjútvmrh., að þá stóðu yfir miklar viðræður og samningar við hann um þessi efni. Ég get til glöggvunar og aðeins til gamans skýrt frá því, að verðákvörðun þá var alveg sérstaks eðlis, því að það vissu allir, að það var sérstakur sjóður, útflutningssjóður, er greiddi verðbæturnar. Sjóður þessi komst upp í tekjur á milli 12 og 13 hundruð millj. kr. Á þeim árum, sem hv. núv. 5. þm. Austf. fór með þessi mál, hækkaði skiptaverð til sjómanna nokkuð.

Það, sem ég segi hér á eftir, er miðað við línu- og netafisk slægðan með haus, í þeim tölum, sem ég nefni, mun ég einmitt halda mér við það, því að það er sú viðmiðun, sem er eðlileg og er sjálfsagt að ganga út frá, þótt nú sé sá háttur á, að fiskur sé í vaxandi mæli seldur á „fæti“, ef svo mætti segja, eða óslægður. Í ársbyrjun 1957 hækkaði verð til skipta með samningum milli samtaka útvegsmanna og sjómanna úr kr. 1.30 upp í kr. 1.38, en á árinu 1958 í kr. 1.48. Á þessu tímabili hækkaði fiskverðið því til sjómanna um 13.8%. Á þessu sama tímabili, eða 3 árum, hækkaði verð til útgerðarinnar úr kr. 1.35 upp í kr. 1.71 eða um 26.7%. Þetta er aðeins til samanburðar við það, sem ég segi hér á eftir, en ekki vegna þess, að ég telji, að verðið sé nægilega hátt með þeim tilkostnaði, sem nú er, síður en svo. En það er þó rétt að geta þess, að einmitt um það leyti, sem núv. ríkisstj. tók við völdum, var hafizt handa um að ganga þannig frá hlutaskiptasamningum við sjómenn, að þeir fengju sitt verð reiknað úr sama verði og útgerðin fær hverju sinni, enda var það nauðsynlegur undanfari þess, að verðlagsráð sjávarútvegsins var sett á stofn, svo að útvegsmenn og sjómenn gætu haft samstöðu þar sem seljendur. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að það samstarf hafi gengið vel.

Athugum nú verð á sjávarafla frá 1960 og til þessa tíma og miðum þá við það verð, er yfirnefnd verðlagsráðsins hefur ákveðið fyrir yfirstandandi ár, og víssulega er það stór þáttur, það atriði, sem hér á að leiða til lykta með því frv., sem hér liggur fyrir, og enn fremur þær auknu greiðslur, sem ríkissjóður mun væntanlega taka á sig, eða ríkisstj. hefur lofað að beita sér fyrir að verði samþykktar. En frv. um þau atriði verður væntanlega lagt fram næstu daga.

Árið 1960 er fiskverð til skipta kr. 1.66, og er þá sama verð bæði á línufiski og netafiski. Nú er verðið, ef við miðum við línufisk, kr. 5.17, en miðað við netafisk kr. 4.67. Það er því þannig, að þegar við lítum á þessa hækkun, hefur hækkun á skiptaverði á þessu tímabili til sjómanna, miðað við netafisk, orðið 181%, en miðað við línufisk 211.4%. Nú vil ég taka fram, að það ber ekki að skilja þessa prósentutölu þannig, að hér sé um sömu hækkun á launum sjómanna að ræða. Nei, síður en svo. Þetta er út af þeirri breytingu, sem gerð var í byrjun þessa tímabils, sem ég minntist á, og vissulega er þetta ekki nema aðferð til að reikna út kaup, en ekki annað. Á þessu tímabili hafa hækkanir orðið hjá útvegsmönnum um 96.6%, ef miðað er við línufisk, en 84.6%, ef miðað er við netafisk.

Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram og einnig það, að víð erum ekkert óvanir því, að reynt sé sérstaklega, þegar málin í þjóðfélagi okkar eru þannig, að þörf er á að leita til hins almenna sjóðs í einu eða öðru formi, að þá sé skammtað eins naumt og frekast er unnt. Og ég segi það ekki hv. 5. þm. Austf. til lasts, þó að hann hafi staðið vel á verði fyrir ríkissjóðinn, þegar hann var að semja við fulltrúa útvegsmanna um þessi mál á sinum tíma. Nei, síður en svo. Það var hans skylda að gera það. En vitanlega gera þeir, sem eru fulltrúar fyrir útveginn, sitt bezta. Þeir reyna að færa rök fyrir sínu máli og komast eins langt og mögulegt er, þó að ég geti, eins og ég sagði áðan, verið sammála hv. þm. um, að það hafi ekki verið nógu langt gengið að þessu sinni, frekar en, ég vil segja: alltaf áður, — já, alltaf áður.

Frv. liggur hér fyrir um þessa breytingu, n að því hefur verið látið liggja, að hér væri u alveg einstakt atriði að ræða, tilfærsla á útflutningsgjöldunum ætti sér ekki neitt fordæmi. Nú vil ég segja það, að við Íslendingar, jafnt útvegsmenn sem aðrir, hvar í stétt eða stöðu sem við stöndum, við gerum okkur fyllilega grein fyrir, að Ísland er fjármagnslítið land, og það verður þess vegna að leita sérstakra úrræða til þess að byggja upp bæði lánasjóði atvinnuveganna sem aðra starfsemi hér. Þess vegna hefur það alltaf hlotið verðugan stuðning útvegsmanna, að lagður væri á skattur til uppbyggingar fiskveiðasjóðsins alveg sérstaklega, g það má minnast á það, að einmitt hv. 5. þm. Austf. beitti sér með miklum myndarskap fyrir breyt. á l. um fiskveiðasjóðinn, sem færði honum auknar tekjur. En það skulum við muna, að höfuð- og aðaltekjur fiskveiðasjóðs hafa á upphafi verið einmitt útflutningsgjöldin. Það er fyrst nú síðustu árin, sem breyting hefur orðið á. Það er með lögum um aðstoð við útveginn í ársbyrjun 1964, sem nokkur breyting var gerð, sem sagt helmingur þess hluta, sem átti að ganga af vissum afurðum, fyrst og fremst bolfiskafurðunum, til fiskveiðasjóðsins, er nú greiddur úr ríkissjóði. Þessi upphæð nam á árinu 1964 rösklega 21 millj. kr., en á árinu 1965 mun sú upphæð áreiðanlega verða nokkru hærri vegna aukins útflutnings. Þarna eru útgjöld fyrir ríkissjóð, sem hv. Alþ. samþykkti, og að er náttúrlega vegna þess, — ég má nú kannske ekki nefna það, — að gengið hefur raunverulega raskazt og vegna þess þurfa á einhvern hátt að koma uppbætur til framleiðslunnar. Það er nú þannig. (Gripið fram í.) Ég segi það, að þetta er það, sem hefur verið gert, en það er í víðtækari mæli, sem löggjafinn hefur einmitt skattlagt framleiðsluna, með aflatryggingasjóði, sem greiðir bætur til hinna einstöku útvegsmanna, sem verða fyrir skakkaföllum. Það er lagt fram að nokkru leyti af ríkissjóði og einnig að tekna með útflutningsgjaldi.

Ég get þá einnig til glöggvunar minnt v. þingheim á, að það er ekki í fyrsta skipti, sem talað er um að leggja sérstakan skatt á síldarútveginn. Það var samþykkt á Alþingi 1950 að leggja á sérstakt framleiðslugjald, er nam 8%, það voru að vísu fleiri aðilar en síldarútvegurinn, sem voru skattlagðir þá um leið, bæði togarar og aðrir, og átti það að ganga til vissra þarfa fyrir útveginn. Þó var breyting gerð á þessu strax í desember 1950, en meginatriði í sambandi við síldarútveginn, þ.e.a.s. 8% skattur, var í lögum allt til ársins 1960, 20. febrúar. Þetta kom ekki til framkvæmda, vegna þess að aflinn var svo lítill um árabil. En vegna þess, að það var hv. 5. þm. Austf., sem kom mér til þess að standa upp, verð ég að segja það, að á hans athafnasama stjórnarferli sem sjútvmrh. gerði hann enga tilraun til þess að afnema þennan skatt. En hann framkvæmdi hann aldrei, vegna þess að veiðin var svo lítil. Ég get upplýst, að það var bæði við hann sem sjútvmrh. og aðra, sem umræður fóru fram í byrjun hvers árs um, að þetta kæmi ekki til framkvæmda vegna þess árferðis, sem hafði verið, en afnuminn varð hann ekki fyrr en um 1960.

Um það, sem hér hefur verið talað, að hér væri tilfærsla á milli starfshópa innan útvegsins, þetta getur kannske að vissu leyti talizt rétt, en þó ekki að öllu leyti, því að meginþorri sjómanna stundar bæði bolfiskveiðar og síldveiðar. Er eðlilegt, að þetta sé gert? Fræðilega hefur því verið haldið fram, að tilfærslan væri gerð til þess að tryggja áframhaldandi tekjur til fiskveiðasjóðs. En það er ekki hægt að segja það nema fræðilega, því að eftir frv. skiptast tekjurnar í vissum hlutföllum milli aðila. Ef þannig vildi til, að síldveiðarnar brygðust og tekjur yrðu langtum minni, mundi þetta skiptast í þeim hlutföllum, er frv. ráðgerir, milli þeirra aðila, sem eiga að fá þessar tekjur. En fræðilega er hægt að tala um það, að þetta sé þannig. Og nú skulum við aðeins líta á hvernig þetta hefur gengið til síðustu árin.

Á árinu 1960—64 veitti fiskveiðasjóður 130 bátum; er fluttir voru til landsins, ný lán. Meðalstærð þessara báta er yfir 150 lestir, en allir þeir, sem þekkja til þessara mála, vita, að það eru mjög fáir bátar undir 100 lestum, sem hafa fengið lán s.l. ár Bara út frá þessu sjónarmiði séð er ekki óeðlilegt, eins og nú horfir við, að heldur þyngri byrði sé lögð á þá, sem virðast í bili geta borið stærri bagga, því að þannig höfum við Íslendingar alltaf axlað okkar byrðar. Við höfum reynt að gera það, eftir því sem mögulegt hefur verið. Við værum e.t.v. ánægðir með það, að það þyrfti ekki að leggja á þungar álögur, heldur ausa úr einhverri hít, svo að þetta þyrfti ekki að koma við neinn. En þessu er ekki þannig varið. Þess vegna var það, að þegar þessi mál voru rædd við fulltrúa Landssambands ísl. útvegsmanna, og hvað hv. 5. þm. Austf. segir um stjórn Landssambandsins og fulltrúa útvegsmanna, liggur mér í léttu rúmi. en við verðákvörðun þá, sem átti sér stað í byrjun janúar, voru fulltrúar Landssambandsins látnir fylgjast með þessu gegnum sinn fulltrúa í yfirnefndinni, og þeir töldu, að miðað við allar aðstæður væri rétt að samþykkja þessa tilfærslu. Fulltrúa sjómanna í yfirnefnd hefur borið hér á góma, og því hefur verið haldið fram, að hann hafi verið á móti tilfærslunni. Það var lesin hér upp bókun hans í sambandi við verðákvörðunina, og ég veit, að hún er alveg rétt. Ég ætla ekki að gera honum upp nokkur orð, en ég veit, að hann var hlynntur tilfærslu fram undir síðustu tíma afgreiðslunnar. Og það má einnig upplýsa, að talað var um meiri tilfærslu, allt að 6%, og ég býst við, að hv. 5. þm. Austf. sé einmitt fyllilega kunnugt um þetta atriði. Mér hefur verið tjáð og það svo skilmerkilega, að ég hef trúað því, að Tryggvi Helgason hafi ekki léð máls á svo mikilli tilfærslu, þ.e.a.s. 6%.

Ég skal ekki hér við þessa 1. umr. teygja tímann með því að fara að hafa þetta miklu lengra. Það er vissulega ýmislegt, sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Austf., sem hægt væri að ræða um og gera aths. við, en það gefst þá kannske tækifæri til þess síðar. Önnur atriði, sem fram hafa komið, verða rædd í sjútvn., og þar sem ég á sæti þar, geri ég ráð fyrir, að ég geti komið mínum sjónarmiðum að. Ég vildi sem sagt nota þetta fyrsta tækifæri til þess að lýsa yfir, að þrátt fyrir það, þótt bæði stjórn Landssambandsins og hin ýmsu félög hafi verið óánægð með fiskverðið, er það sannast sagna, að forsvarsmenn þeirra hafa samþykkt þessa tilfærslu og styðja hana, eins og ég sagði áðan, og miðað við allar aðstæður, sýnist þetta vera skynsamlegt, eins og málin standa nú.