28.02.1966
Neðri deild: 48. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 4. þm. Reykn. leyft mér að leggja inn til prentunar brtt. við frv., eins og það liggur nú fyrir til 3. umr., en því miður er, af því að það er svo skammt liðið á milli funda, enn ekki búið að útbýta brtt. Ég vona hins vegar, að það verði gert nú eftir stutta stund, og þess vegna vil ég — með leyfi hæstv. forseta — fara nokkrum orðum um þá brtt., sem ég nefndi áðan, og mun þá leggja hana fram skriflega, ef henni hefur ekki áður verið útbýtt prentaðri, sem ég vænti þó að verði.

Það er nú sýnt eftir 2. umr. þessa máls, að breyt. sú á útflutningsgjaldi, sem þetta frv. felur í sér, muni ná samþykki Alþ. Sú afgreiðsla byggist, eins og fram kemur í umr., að verulegu leyti á nokkuð víðtæku samkomulagi, sem á sínum tíma átti sér stað í verðlagsráði sjávarútvegsins og yfirnefnd um þessi mál í sambandi við verðlagningu sjávarafurða. Það hefur áður verið bent á það af hv. 4. þm. Reykn., að með tilliti til þess, að hér er í raun og veru verið að afgreiða þetta þingmál í sambandi við það samkomulag, sem þarna varð, í sambandi við verðlagninguna, væri í raun og veru ekki eðlilegt, að þessi lög, sem verða væntanlega sett, gildi nema takmarkaðan tíma, ef þau eiga að byggjast á þessu samkomulagi, og skal ég ekki hafa um það fleiri orð.

En í brtt. okkar er það m.a. lagt til, þó í nokkuð öðru formi en við 2. umr., að gildistími lagafrv., ef að lögum verður, verði takmarkaður.

Með þessu frv. er farið inn á leið, sem a.m.k. lítt hefur verið farin áður í verðlagsmálum sjávarútvegsins, enda þótt fordæmi kunni að vera á öðrum sviðum. En sú leið er í því fólgin að hækka eina vörutegund í verði með því að lækka aðra, þ.e.a.s. með því, sem kallað er venjulega verðjöfnun eða verðmiðlun. Í þessu frv. og ef það yrði að lögum til frambúðar er gert ráð fyrir, að svona verðmiðlun í verðlagsmálum sjávarútvegsins verði gerð, ekki á venjulegan hátt, heldur með sérstökum hætti, þ.e.a.s. með þeim hætti að ákveða mismunandi útflutningsgjald af vörunum. Útflutningsgjaldið er hækkað á sumum vörutegundum, en í stað þess lækkað á öðrum, að því er talið er í heild um tilsvarandi upphæð, og á þann hátt kemur fram verðmiðlun milli þessara vörutegunda. Í stað þess, sem er lagt til í þessu frv., að verðmiðlun verði framkvæmd á þennan hátt til frambúðar, því að það er ekki ætlazt til, að lögin hafi takmarkað gildi, virðist okkur flm. þessarar till., að réttara væri, ef framkvæma skal verðmiðlun, að gera það á einfaldari hátt og venjulegri hátt, þ.e.a.s. með því, að í lögum væri almenn verðmiðlunarheimild.

Við leggjum til í brtt. okkar, að í staðinn fyrir 13. gr. frv. komi ný gr., sem feli það í sér, að inn í lögin komi þrjár nýjar greinar um þetta efni. Og þar sem ekki er búið enn þá að útbýta brtt., leyfi ég mér nú að lesa hana upp, eða meginefni hennar með því orðalagi, sem á því er. Við leggjum til, að 13. gr. hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðlagsráði samkv. l. nr. 97 18. des. 1961 er eftir 31, des. 1966,“ þ.e.a.s. eftir þann tíma, sem við gerum ráð fyrir, að þessi lög hætti að gilda, „heimilt að ákveða á þann hátt, sem fyrir er mælt í 7. og 9. gr. þeirra l., að greiða skuli í verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins verðjöfnunargjald af útfluttum sjávarafurðum. Skal upphæð verðjöfnunargjaldsins ákveðin fyrir eitt verðlagningartímabil eða eitt ár í senn. Verðjöfnunargjald skal innheimt með útflutningsgjöldum og geymt í Útvegsbanka Íslands.“

Þá leggjum við til, að á eftir þessari 13. gr. komi ný 14. gr., svo hljóðandi:

„Verðlagsráð ráðstafar tekjum verðjöfnunarsjóðs samkv. 33. gr. á þann hátt, sem hér segir:

1. Til greiðslu á vinnsluuppbótum til fiskvinnslustöðva á þeim stöðum, þar sem fiskvinnsla ber sig ekki vegna erfiðrar aðstöðu, t.d. af því að hráefni skortir eða afli er sérstaklega dýr í vinnslu, enda sé vinnslan talin nauðsynleg vegna útgerðar á hlutaðeigandi stöðum.

2. Til hækkunar á útflutningsverði tiltekin a vörutegunda.“

Samkv. þessu, ef samþ. yrði, fengi verðlagsráð sjávarútvegsins, þar sem eru fulltrúar frá hinum ýmsu samtökum fiskseljenda og fiskkaupenda, í hendur heimild til þess að leggja á þetta verðjöfnunargjald, en það verðjöfnunargjald eða úthlutun þess yrði ekki markað við eina tegund sjávarafurða, heldur yrði að hafa hliðsjón af því, hvernig verðið er á hinum einstöku vörutegundum á hverjum tíma. Þetta er náttúrlega nokkuð annað en hitt, sem felst í þessu frv., þar sem taka verðjöfnunargjaldsins, ef svo mætti nefna, er í raun og veru bundin til frambúðar við eina vörutegund eða framleiðslutegund. Við gerum ráð fyrir því, að verðjöfnunargjaldinu eða teljum verðjöfnunarsjóðsins, sem við nefnum svo, yrði, ef þetta yrði samþ., af þeim samtökum, sem eiga hlut að máli, — það er sem sé ekki verið að lögbjóða neitt, heldur verið að gefa heimild, — varið á tvennan hátt: í fyrsta lagi til greiðslu á vinnsluuppbótum til vinnslustöðva á þeim stöðum, þar sem fiskvinnsla ber sig ekki vegna erfiðrar aðstöðu, og í öðru lagi til hækkunar á útflutningsverði tiltekinna vörutegunda.

Í þessum umr., bæði hér í þessari hv. d. og hv. Ed., hefur afkoma frystihúsanna sérstaklega og þá sennilega einnig þeirra vinnslustöðva annarra, sem vinna úr þorskafurðum, verið gerð að umtalsefni, og því hefur verið haldið fram af ýmsum hv. ræðumönnum, að afkoma frystihúsanna, sem hefur sérstaklega verið nefnd, væri þannig, að þau mundu vera á þessu ári og hafa verið á árinu sem leið vel aflögufær, þannig að þau hefðu getað staðið straum af þeirri verðhækkun, sem orðið hefur á hráefninu. Í því sambandi hafa verið lögð fram ýmis gögn, sem unnin hafa verið af Efnahagsstofnuninni um þessi mál, um hagnað frystihúsa. fjárfestingu, afskriftir o.fl. En þessar tölur ná ekki til allra frystihúsa í landinu, heldur til nokkurs hluta þeirra og þó að vísu nokkuð mikils hluta frystihúsanna, eins og fram kemur í þessum skjölum. Hins vegar vantar þar upplýsingar um hin húsin. Nú vil ég segja það í þessu sambandi, að þó að það kunni að vera rétt, — ég skal ekki um það dæma, — að sum frystihús og þá sérstaklega hér á aðalvetrarvertíðarsvæðinu kunni að hafa allgóða afkomu, er mjög fjarri því, að svo sé um ýmis af frystihúsum þessa lands og þá sérstaklega þau, sem að ýmsu leyti hafa sérstaklega erfiða aðstöðu til rekstrar. Að þessu hefur raunar áður verið vikið hér í umr. af öðrum ræðumönnum. Ein af ástæðunum til þess, að þessi frystihús — og verulegur hluti þeirra mun vera á Norður- og Austurlandi – eiga svo erfitt, er, að það hráefni, sem þau hafa, er nokkuð óstöðugt og á ýmsum stöðum sérstaklega dýrt í vinnslu. Nú er þetta ekki ókunnugt hv. þm., því að þegar fyrir einum áratug eða svo var allmikið um þetta mál rætt hér á Alþ. og voru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að létta undir með þessum frystihúsum vegna hinnar dýru vinnslu. Þær ráðstafanir féllu niður, þegar gengi ísl. kr. var breytt 1960, og hafa þess sézt glögg merki, að þær voru niður fallnar hjá ýmsum þessara frystihúsa. Jafnframt því sem við leggjum til, að útflutningsgjaldsákvörðuninni verði breytt í almenna verðjöfnunarheimild í höndum stéttarsamtakanna, leggjum við til, að sérstaklega verði litið á aðstöðu þessara vinnslustöðva, sem erfiða aðstöðu hafa, og bendum á það, að ef þannig er að farið, er frekar hægt að líta á frystihúsin í heild, sem í raun og veru er ekki hægt að gera nú, svo misjöfn sem aðstaða þeirra er.

Við leggjum til í sambandi við þetta, sem ég nú hef mælt, að ákvæði frv. um útflutningsgjald, ef að lögum verður, gildi aðeins til ársloka 1966 og að fyrirsögn frv. verði: „Frv. til l. um útflutningsgjald á sjávarafurðum á árinu 1966 og um heimild til verðjöfnunar frá og með 1. janúar 1967.“

Ég leyfi mér svo, þar sem ekki er búið að útbýta till. prentaðri, að afhenda hæstv. forseta skriflega brtt.