18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

4. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Lög um Bjargráðasjóð Íslands voru fyrst sett 1913, og í einhverri mynd hafa slík lög verið í gildi síðan, en tekið ýmsum breytingum. Höfuðtilgangur l. er að afstýra hallæri af náttúrunnar völdum með lánveitingum og styrkveitingum til sveitarfélaga og einstakra manna.

Hér liggja fyrir breytingar á þessum l., aðallega í því fólgnar að hækka framlög til sjóðsins, þannig að hann geti betur staðið undir þeim verkefnum, sem á hann hlaðast. 1961 voru gerðar breytingar á bjargráðssjóðslögunum, þannig að framlag til hans var hækkað úr 2 kr. á íbúa í hverju sveitarfélagi, sem sveitarfélögunum var skylt að greiða til sjóðsins, og jafnhá hækkun úr ríkissjóði, sem er og hefur verið jafnt tillagi sveitarfélaganna, þá voru þessi gjöld hækkuð í 5 kr. úr 2 kr. á íbúa. Nú er lagt til, að þessi framlög hækki enn úr 5 kr. í 10 kr. Og í öðru lagi er gerð breyt. á ákvæði 9. gr. l., þess efnis að skilgreina nánar, til hverra hluta heimilt sé að verja fé úr sjóðnum. Þessi viðbótartöluliður við 9. gr. frv. er á þá leið, að heimilt sé að veita bændum lán eða styrk, ef þeir verða ella að farga bústofni sínum vegna grasbrests, svo að til auðnar horfi. Í aths. við frv. segir, að framlag frá bjargráðasjóði nemi á þessu ári 1.9 millj. kr. En samkv. frv. hækka tekjur bjargráðasjóðs um helming eða tvöfaldast. Enda þótt líta megi svo á, að í l. hafi falizt heimild til að hlaupa undir bagga í sams konar tilvikum og hér eiga sér stað, þá verður að teljast eðlilegt að heimila sjóðsstjórninni að verja fé í þessu skyni og einkum að koma til móts við óskir hennar um það, að nánar sé tekið til í l. um það, hvað henni sé heimilt að gera, þar sem hér er um óvenjulega fjárveitingu að ræða. En það, sem hér er um að ræða að þessu sinni, er það, að leitað hefur verið til sjóðsins og raunar ákveðið, að hann hlypi undir bagga vegna sérstakra ástæðna á Austurlandi á yfirstandandi ári. Þau fjárframlög, sem þar er um að ræða, eru 4.2 millj. kr. í styrk og 2.4 millj. í lán, eða alls 6.6 millj. til bjargar bændum á Austurlandi vegna kalskemmda í túnum og grasbrests yfirleitt.

Það eru ekki aðrar efnisbreytingar í frv., því að hinar gr. frv., 3. og 4. gr., eru aðeins formsatriði.

Heilbr.- og félmn. ræddi þetta frv. á 2 fundum og var sammála um að mæla með því, að það yrði samþ. óbreytt, og hafði áður átt viðtöl við formann bjargráðasjóðsstjórnar, sem er ráðuneytisstjórinn í félmrn., en aðrir í stjórn bjargráðasjóðs eru formaður Búnaðarfélags Íslands, fiskimálastjóri og formaður samtaka sveitarfélaganna — Sambands ísl. sveitarfélaga. Hef ég svo ekki meira um þetta frv. að segja, en legg til fyrir hönd n., að það verði samþ.