14.02.1966
Neðri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Frsm. 2. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Eins og tekið hefur verið fram, hefur allshn. haft þetta frv. til athugunar, en ekki orðið til fulls sammála um afgreiðslu þess. Á s.l. þingi kom þetta frv. fram í fyrsta skipti og var flutt á vegum ríkisstj. Það komst ekki lengra en til 2. umr. Þá fluttum við framsóknarmennirnir í allshn., hv. 1. þm. Norðurl. v. og ég, tvær höfuðbrtt. við það og gáfum út nál., þar sem við röktum málsefnið út frá okkar sjónarmiði og rökstuddum okkar till. Önnur till. var um það, að aukinn skyldi meiri hluti hlutafjár í eigu íslenzkra ríkisborgara. Í því frv., sem hér liggur fyrir, hefur ríkisstj. gengið inn á þessa okkar till. um aukinn meiri hl. hlutafjár í höndum íslenzkra og vel það, eða minnzt 80% hlutafjár. Hin till. okkar frá því í fyrra, sem við endurflytjum nú, varðar leyfi ráðh. til þess að veita undanþágur frá skilyrðum þeim, sem talin eru upp í 1.—4. tölul. 1. gr. frv.

Við framsóknarmennirnir í allshn. erum mótfallnir svo rúmu leyfi til handa ráðh., að hann geti veitt undanþágu frá öllum þessum skilyrðum. Við teljum slíka óhefta heimild ráðh. alveg fráleita. Það mætti alveg eins vel hugsa sér að hafa engin skilyrði uppi í frv., heldur láta það vera á valdi ráðh., hvort erlendur ríkisborgari geti fengið að njóta eignarréttar og afnotaréttar af fasteignum í þessu landi. Við í 2. minni hl. teljum það hljóta að vera svo, að löggjöfin leggi á það þunga áherzlu, að skilyrðin fyrir þeim réttindum, sem hér ræðir um, eignarréttindum og afnotaréttindum erlendra manna á fasteignum hér á landi, séu svo þýðingarmikil og nauðsynleg, að framkvæmdavaldinu sé ekki ætlandi að veita leyfi til undanþágu frá skilyrðum, þegar þannig stendur á, það eigi að vera löggjafans hverju sinni að meta það. Og þó að hinar Norðurlandaþjóðirnar, eins og upplýst hefur verið, hafi rúmar heimildir um undanþágur að þessu leyti úr hendi ráðh., þ.e.a.s. þegar lögmælt skilyrði eru ekki til staðar, teljum við í 2. minni hl. n., að Íslendingar geti engan veginn fylgt þeirri reglu eða því fordæmi, vegna þess að við höfum um ýmsa hluti aðra aðstöðu. Og ég vil geta þess, að þó að ráðh. yfirleitt á Norðurlöndum hafi rétt til þess að veita undanþágur frá skilyrðum að þessu leyti, verða leyfin, a.m.k. í sumum Norðurlandanna, að vera bæði tímabundin og skilyrt á ýmsa lund, og eru þar um reglur, sem ég að vísu hef ekki kynnt mér nánar, en veit, að þetta muni vera svo. En hitt er rétt, að ráðh. hefur heimild til þess að veita leyfi að öðru leyti. Og standi sérstaklega á um aukna aðstöðu útlendinga til fasteignaréttinda hér á landi, er að sjálfsögðu löggjafans hverju sinni að fara hendi um slík málefni, enda munu nú flestir vera sammála um það hér í hv. deild.

Við í 2. minni hl. leggjum því til, að ráðh. sé einungis heimilt að veita erlendum aðila, sem ekki fullnægir skilyrðum 1.—4. tölul. í 1. gr. frv., leyfi til þess að eiga fasteign eða hafa afnot af henni, ef þessi sami aðili hefur öðlazt eignina, fasteignina, við hjúskap eða erfðir, eða í þriðja lagi, að hann hafi öðlazt fasteignaréttindi fyrir gildistöku laganna, ef frv. yrði að lögum. Og þetta er sem sagt eina breytingin, sem við viljum gera á þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Aðrar till., sem við gerum, eru einvörðungu í samræmi við þessa höfuðbreytingu, sem við viljum gera á 1. gr., þ.e.a.s. að draga úr valdi ráðh. til að veita erlendum ríkisborgurum leyfi til að eiga fasteignir hér á landi eða hafa á hendi afnotarétt þeirra. Að öðru leyti fylgjum við frv.