10.03.1966
Efri deild: 48. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, kemur ekki að öllu leyti á óvart, því að það var boðað í sambandi við frv. það, sem hér var til umr. fyrir nokkrum dögum um breytingar á útflutningsgjaldi á sjávarafurðir, að fljótlega væri að vænta frekari ráðstafana til aðstoðar við sjávarútveginn. Ég býst þó við því, að fáa hafi órað fyrir jafnalvarlegum tíðindum og þetta frv. hefur að flytja, því að vissulega eru það alvarleg tíðindi, að nú á tímum skuli enn til viðbótar fyrri ráðstöfunum þurfa að veita um 80 millj. kr. til sjávarútvegsins og það án þess að það hafi að nokkru leyti verið hugsað fyrir þeim fjárhæðum í sambandi við afgreiðslu fjárl.

Í sambandi við umr. um breytingar á l. um útflutningsgjald sjávarafurða var fjallað almennt um erfiðleika og afkomuhorfur sjávarútvegsins, og margt af því, sem þá var sagt, á við einnig um þetta mál, og get ég af þeim sökum verið fáorðari en ella um þetta frv., sem hér liggur fyrir. En það verð ég þó að segja viðvíkjandi þessu frv., að það er sannarlega ekki neitt fagnaðarerindi, sem hæstv. ríkisstj. flytur okkur þm. nú á fárra daga fresti um afkomu og erfiðleika sjávarútvegsins. Það eru, eins og óþarft er raunar að rifja hér upp, aðeins fáir dagar síðan frv. um útflutningsgjald af sjávarafurðum var hér til umr. og afgreiðslu, þar sem um það bil 40 millj. kr. voru færðar á milli, ef svo má segja, þeirri upphæð létt af bolfiskveiðum, en tilsvarandi upphæð lögð á síldarútvegsmenn og síldarsjómenn. Og nú kemur svo þetta frv. strax í kjölfarið. Samkv. því á að veita sjávarútveginum 80 millj. kr. í uppbætur, eins og þar nánar segir eða eins og líka hæstv. sjútvmrh. gerði grein fyrir. Það á að veita 20 millj. til uppbóta á línu- og handfærafisk. Það á að veita 50 millj. kr. til frystihúsa til framleiðniaukningar og annarra endurbóta, og það á að veita 10 millj. kr. til skreiðarframleiðenda til verðuppbóta á skreiðarframleiðslu. Þær 80 millj., sem hér er um að ræða, virðist eiga samkv. frv. og því, sem fram kom hjá hæstv. sjútvmrh. hér áðan, að færa yfir á almenning með þeim hætti að lækka eða fella niður með öllu niðurgreiðslur á tilteknum vörutegundum.

Þannig er þá komið fyrir sjávarútveginum í einu mesta góðæri, sem gengið hefur yfir þetta land, þegar á heildina er lítið. Þeir erfiðleikar, sem þannig steðja að útveginum nú á tímum, verða vissulega ekki raktir til þess, að hér hafi verið léleg aflabrögð eða óhagstæð markaðskjör. Þvert á móti hefur verið hér hvert metaflaárið á fætur öðru, svo sem alkunnugt er, þegar á heildina er lítið. Verðlag á útflutningsafurðum hefur einnig farið síhækkandi, og viðskiptakjörin hafa yfirleitt verið sérlega hagstæð, og markaðir hafa verið nægilegir, að því er virðist. Samt er nú svo komið. Það eru vissulega alvarleg tíðindi, og það er ekki furða, þó að menn setji hljóða, þegar þeir heyra þessi tíðindi, og það er vissulega ekki að undra, þó að menn spyrji: Hverju sætir þetta? Og svarið er einfalt. Það er verðbólgan, sem þessu veldur. Og það var rakið nægilega í umr. hér síðast, og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það í þessu sambandi. En það er sannleikurinn, að þó að aflinn aukist og þó að verðlagið hækki, fer það jafnóðum í verðbólguhítina og þó meira til, því að alltaf sígur meira og meira á ógæfuhliðina og vandamálið verður sífellt óviðráðanlegra. Þetta er sá sorglegi sannleikur. Og ríkisstj. fæst því miður ekki til þess að taka upp baráttuna við dýrtíðina, sem hún þó þyrfti að gera, ef ráða ætti við þessa meinsemd, sem hér er um að tefla og fer sívaxandi og öllum landslýð er að verða æ ljósara, að ekki verði við ráðið, nema snúizt sé af alvöru og festu við sjálfu vandamálinu, verðbólgunni og dýrtíðinni.

Hér er sem sagt farið fram á miklar uppbætur til sjávarútvegsins. Það er að vísu ekki ný saga, því að eins og kom fram hjá hæstv. sjútvmrh., hafa uppbætur verið greiddar áður í þessu skyni. En þarna er farið fram á verulegar upphæðir, 20 millj. kr. til verðuppbóta á línufisk. Ég vil segja það, að ég fellst á það, sem hæstv. sjútvmrh. sagði varðandi það atriði. Það er vissulega mikil þörf á því að reyna að örva þær veiðar og þörf á því efalaust að styrkja þá, sem við þær veiðar fást. Og í öðru lagi er þarna um 50 millj. kr. að tefla til frystihúsanna til hagræðingar, eða eins og það er orðað: til endurbóta og framleiðniaukningar. Þessi upphæð hefur verið áður veitt. Ég hygg, að það hafi verið gengið út frá því, þegar það kom fyrst til mála að veita þessa upphæð, að það væri ekki verið þar að innleiða eitthvað, sem ætti að vera varanlegt, sem þá væri veitt í eitt skipti fyrir öll, til þess að hjálpa frystihúsunum til að koma á hjá sér nauðsynlegum endurbótum. En reyndin hefur orðið sú, að þetta hefur orðið varanleg fjárgreiðsla, að því er virðist, og þarna er um að tefla þáð, að upphæðin er hækkuð frá því í fyrra, þar sem hún var þá 33 millj., nú er gert ráð fyrir, að hún verði 50 millj. Þetta hljómar vel að mörgu leyti, að þetta sé veitt til framleiðniaukningar og endurbóta. Og vissulega er nauðsynlegt að reyna að vinna að sem mestum endurbótum á þessu sviði. En spurningin er, hversu sá fyrirvari er bókstaflega tekinn. Um það verða að fást upplýsingar, og er sjálfsagt að óska eftir upplýsingum um það, hvernig þessu fé hefur verið nákvæmlega ráðstafað og skipt á milli frystihúsa. Ef því er t.d. skipt þannig á milli frystihúsa, að bara sé miðað við vinnslu hvers frystihúss, er náttúrlega um nokkuð annað að tefla heldur en fjárveitingar beint til framleiðniaukningar og endurbóta í hverju frystihúsi. Þá er náttúrlega um styrki til frystihúsanna að tefla, styrki, sem kallaðir eru fallegum nöfnum.

En ég verð að segja það, að ég treysti mér ekki á þessu stigi til að segja til um það, hvort það er þörf á þessum 50 millj. eða ekki. Ég treysti mér ekki til að véfengja það, að frystihúsin geti ekki komizt af án þeirra. Það var reyndar upplýst hér í umr. síðast, þegar rætt var um útflutningsgjald af sjávarafurðum, að hagur frystihúsanna væri mjög misjafn, og því var haldið fram af sumum a.m.k., að sum frystihúsin hefðu auðveldlega getað tekið á sig þá verðhækkun, sem leiddi af verðlagssamningunum síðast og verðlagsákvörðuninni, án þess að fá tilsvarandi lækkun á útflutningsgjaldinu. Ég fyrir mitt leyti féllst ekki og gat ekki fallizt á þau rök. En það voru samt mikilvæg rök, sem komu þar fram og gera það að verkum, að það er nauðsynlegt að spyrja nú í sambandi við þessa fjárveitingu um nánari grg. um það, hvernig þessu er varið og hver þörfin sé.

Viðvíkjandi 10 millj. til skreiðarverðsuppbóta er það sama að segja, að ég treysti mér ekki til þess á þessu stigi að véfengja, að það sé þörf á þessum uppbótum, og í stuttu máli sagt treysti ég mér ekki á þessu stigi að véfengja það, að sjávarútvegurinn þurfi á þessu að halda. En þó verður auðvitað mjög vel að athuga það, áður en horfið er að þessu ráði. Það er skylda þm. og n. þeirrar, sem fær þetta mál til meðferðar, að kanna rækilega, hvort það sé raunverulega þörf fyrir þessar fjárveitingar. En það er sorglegt, eins og margoft hefur verið tekið fram, að það skuli vera komið svo fyrir sjávarútveginum nú á tímum.

En þörf atvinnugreinarinnar fyrir þetta fé er ekki nema önnur hliðin á þessu máli, því að það fylgir hér böggull skammrifi. Það verður einhvers staðar að taka þessar 80 millj., og fyrir þessari fjárhæð, 80 millj. kr., er ekki gert ráð í fjárl. Það verður að segjast, að það er í hæsta máta undarlegt, að það skuli ekki hafa verið gert, og þær skýringar, sem hæstv. sjútvmrh. gaf á því áðan, eru vituskuld á engan hátt fullnægjandi, því að svo mikið mátti náttúrlega sjá þá fyrir, að það mundi verða þörf á einhverjum fjárveitingum í þessu skyni, og því hefði auðvitað átt að gera ráð fyrir því við samningu fjárlaganna.

Það er alveg laukrétt, sem hæstv. ríkisstj. segir í grg. þessa frv. í niðurlagi hennar, að hér er vissulega um verulegt fjárhagslegt vandamál að tefla. Það er verulegt fjárhagslegt vandamál að útvega 80 millj. Jafnvel á þessum síðustu og verstu tímum, þegar krónan er ekki orðin raunverulega mjög mikils virði, verða þó 80 millj. ekki gripnar upp úr sandinum. En ríkisstj. viðurkennir það, að hér sé um verulegt fjárhagslegt vandamál að ræða. Hún segir með eiginlega alveg óvenjulegri hógværð, að það sé nú um verulegt fjárhagslegt vandamál að ræða og ríkisstj. telji ekki rétt að hækka skatta í því skyni að standa straum af þessum greiðslum. Þótti engum mikið, þó að nú gæti ríkisstj. séð, að nóg væri komið af pinklum á Skjónu. Og það er þá gott að hafa viðurkenningu hennar á því, hæstv. ríkisstj., að þar verður ekki meiru á bætt.

Og hún telur ekki heldur rétt að draga úr útgjöldum til verklegra framkvæmda þeirra vegna. Þetta játar ríkisstj. líka. Ég er nú ekki hissa á því, þó að stjórnin telji sér ekki fært að draga meira úr verklegum framkvæmdum en orðið er.

En þá kemur ráðið, sem er þó frekar ráðaleysi, að það sé fyrirhugað að lækka niðurgreiðslur á vöruverði. En þrátt fyrir þær upplýsingar, sem komu fram hjá hæstv. sjútvmrh. hér áðan, verður að spyrja: Hver verður afleiðingin af því, ef niðurgreiðslum er nú hætt eða þær felldar niður að þessu marki? Það liggur í augum uppi og raunar kom það fram hjá sjútvmrh., að vísitalan hlýtur að hækka og dýrtíðin hlýtur að magnast, og sjálfar aðgerðir ríkisstj. verða þannig til þess að ýta undir dýrtíðina og verðbólguna. (Gripið fram í.) Ég vildi nú gjarnan ljúka við mál mitt. Ég held, að ég verði ekki mjög lengi, ef ég mætti fá 5 mínútur eða svo.

Það má náttúrlega sitthvað segja um niðurgreiðslur, en til þess er nú ekki tími hér og ég skal ekki fara út í það. Það má vel vera, að sitthvað sé athugavert við þær, og e.t.v. má segja, að einhver misnotkun hafi átt sér stað í sambandi við þær, og því hefur stundum verið fleygt, eins og hæstv. sjútvmrh. vék að í sinni ræðu, að það hafi stundum verið leikinn hálfgerður skollaleikur í sambandi við niðurgreiðslur á einhverjum einstökum vörutegundum, til þess að halda vísitölu niðri, og það hafi í því sambandi verið hugsað meira um vísitöluna en um hina raunverulegu dýrtíð. En hvað sem því líður, hafa þó niðurgreiðslurnar verið neyðarúrræði, sem notazt hefur verið við, þegar ekki hefur verið hægt að finna annað til þess þó að reyna að halda dýrtíðinni ofurlítið í skefjum. Og mig langar í þessu sambandi að spyrjast fyrir um það, á hvaða vörutegundum meiningin er að fella niðurgreiðslur niður. Það hefur að sjálfsögðu nokkra þýðingu, því að það skiptir vitaskuld máli, á hvaða vörum niðurgreiðslurnar eru gerðar. Og í öðru lagi vil ég spyrja að því, hvað það þýði í vísitölu, að felldar eru niður greiðslur eða lækkaðar um 80 millj. kr. Hvað hækkar framfærsluvísitalan mikið vegna þess? Mér er það ekki alveg ljóst, en ég gæti látið mér detta í hug, að hún hækkaði t.d. um 4 stig, og við skulum segja, að hún hækki það, til þess að hafa hér ákveðna tölu við að miða, og ef það er nú svo, vil ég spyrja: Hvað kosta 4 vísitölustig ríkissjóð, bara ríkissjóð, í beinum launagreiðslum? Ég mundi halda, — ég veit það ekki fyrir víst, — að hvert kaupgjaldsvísitölustig kostaði ríkissjóð í beinum launagreiðslum nálægt 10 millj. Ef það væri rétt ályktað hjá mér, mundi þetta þýða, að ríkissjóður losnar að vísu, ef af þessum ráðagerðum verður, við 80 millj. kr. til niðurgreiðslna, en hann verður þá jafnframt að auka greiðslur sínar í laun um 20—40 millj. Þá er ekki mismunurinn á þessu orðinn svo mjög mikill, og þá verður ríkissjóður einhvers staðar að fara að leita að ráðum til þess að hafa eitthvað upp í þær launagreiðslur. Auðvitað komast allar þessar hækkanir strax út í verðlagið og hafa í för með sér víxlverkanir, eins og alkunnugt er, og dýrtíðin hlýtur af þessum sökum að magnast.

Svo vil ég að lokum spyrja um það, sem hlýtur að vera eitt meginatriðið í þessu sambandi og ég geri ráð fyrir að aðrir kannske spyrji meira um en ég, sem eru þeim málum kunnugri, og það er þetta: Hvernig kemur þetta heim, þessi ákvörðun að fella niður niðurgreiðslur eða lækka þær sem svarar 80 millj. kr., — hvernig kemur það heim við kjarasamningana s.l. sumar? Það hefur verið sagt, að fjárhagur ríkissjóðs væri svo bágborinn, að hann gæti ekki tekið á sig neitt til viðbótar því, sem hann nú ber. Það má vel vera, að svo sé í raun og veru, en samt sem áður verður um það að spyrja, áður en þetta mál er afgreitt og ákveðið að hætta slíkum niðurgreiðslum sem þessum, hvernig afkoma ríkissjóðs hafi verið á s.l. ári. Það er kunnugt, að hæstv. fjmrh. var eðlilega nokkuð svartsýnn á hana. Ef til vill hefur heppnin verið með og hún orðið eitthvað skárri en gert var ráð fyrir. Og ef það hefur reynzt svo, er líklegt, að fjárlagaáætlunin á þessu ári gæti kannske tekið á móti einhverju. Um þetta skal ég ekkert fullyrða, en þetta er eitt af þeim atriðum, sem hljóta að verða athuguð.

Ég vil að lokum segja það, herra forseti, og ég skal stytta mál mitt, að ég tel hér vera á ferðinni mikið vandamál. Ég tel það ekki tímabært á þessu stigi að taka beina afstöðu til málsins. Ég tel nauðsynlegt, að fyrir liggi ýmsar upplýsingar, m.a. þær, sem ég hef hér drepið á, áður en það verður gert. Og þetta vandamál, sem hér er um að tefla, hefur vissulega margar hliðar. Ég vil, eins og ég hef áður sagt, ekki véfengja það, að full þörf sé fyrir þessar uppbætur, en það þarf náttúrlega að kanna svo vel sem kostur er, hver hin raunverulega þörf er, og þá fyrst, þegar málið allt hefur verið frá ýmsum hliðum gaumgæfilega athugað í n., sem fær það til meðferðar, er tímabært að taka endanlega afstöðu til þess. Hér er um mjög stórt skref að ræða, að hverfa þannig frá niðurgreiðslunum að þessu leyti, og í raun og veru virðist mér þetta skref tákna algera uppgjöf hjá hæstv. ríkisstj., algera uppgjöf við það að reyna að halda verðbólgunni í nokkrum skefjum. Það er að vísu viðurkennt áður af hæstv. ríkisstj., að henni hefur ekki tekizt að halda dýrtíðinni í skefjum, enda liggur það nú í augum uppi. En hún hefur þó haft vissa viðleitni, eins og t.d. niðurgreiðslurnar, til þess að halda verðbólgunni í skefjum, en með því að hætta þar við, sýnist öllu vera sleppt lausu.