17.03.1966
Efri deild: 51. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. og hv. frsm. meiri hl. hefur skýrt frá, gat ég ekki orðið samferða meðnm. mínum í sambandi við afstöðuna til þessa frv. Það, að ég skila sérstöku nál. og get ekki mælt með samþykkt frv. óbreytts, er ekki vegna þess, að ég dragi það út af fyrir sig í efa, að ýmsar greinar sjávarútvegsins og ákveðinn hluti fiskiðnaðar þurfi á stuðningi að halda, eins og högum er nú háttað í okkar þjóðlífi í dag á sjöunda ári hinnar margumræddu viðreisnar. Það er kunnara en frá þarfi að segja, að allar helztu atvinnugreinar landsmanna stynja nú undir verðbólguokinu. Þannig er það um landbúnaðinn, þannig er það ekki síður um ýmsar greinar iðnaðar og það raunar í svo ríkum mæli, að því er iðnaðinn snertir, að horfir til algerrar rekstrarstöðvunar og hruns í ákveðnum greinum hans. Og vissar greinar sjávarútvegsins eru óneitanlega illa staddar. En það er staðreynd, að góð aflabrögð undanfarin ár og stórfelldar hækkanir sjávarafurða á erlendum mörkuðum virðast engan veginn hrökkva til til þess að hamla gegn sívaxandi tilkostnaði af völdum verðbólgunnar.

Þessu frv., sem hér er til umr., er það hlutverk ætlað að bæta hér nokkuð úr skák. Ég neita því engan veginn, að það fé, sem hér á að leggja fram í styrki af opinberri hálfu til ákveðinna greina sjávarútvegs og fiskiðnaðar. hjálpar eitthvað upp á sakirnar, enda þótt það nái skammt og beri óneitanlega vott um það, að stjórnarvöldin sjá heldur fá og smá úrræði til verulegrar og varanlegrar lausnar þeim vanda, sem hér er við að glíma. Það er enn verið að kaupa sér einhvern gálgafrest, en eins og löngum áður er forðazt að leggja til atlögu við meinsemdina sjálfa, við verðbólguna. Raunar tel ég, að sú skattheimtuleið, sem boðuð er í grg. þessa frv„ hafi þann annmarka, að hún hljóti að auka á verðbólguþróunina, og mun ég koma dálítið nánar að því síðar.

Enda þótt maður viðurkenni þörf á til að mynda 80 milli. kr. opinberum stuðningi við sjávarútveg og fiskiðnað, er ekki þar með sagt, að þetta frv. þræði í öllum efnum eðlilegustu og hagfelldustu leiðirnar til þess að koma því fé til þeirra aðila, sem helzt þurfa þess með, eða það tryggi það, að þetta fé verði hagnýtt á sem beztan hátt þjóðhagslega séð. Ég tel, að þarna skorti nokkuð á, og m.a. þess vegna hef ég kosið að gefa út sérstakt nál. og flytja brtt. við frv.

Ég skal nú stuttlega víkja að helztu atriðum þessa frv.

1. gr. fjallar um uppbót á verð á ferskum fiski, veiddum á línu og handfæri, og nemur, eins og kunnugt er, 25 aurum á kg. og er þetta sama uppbót af ríkisins hálfu og ákveðin var í fyrra. Allir munu vera á einu máli um, að það er mikil ástæða til þess að styðja bennan veiðiskap, styðja það, að menn geti aflað fisks með þessum hætti, á línu eða handfæri. Það er viðurkennt, að þetta er langmesti gæðafiskurinn, sem við fáum, það er bezta hráefnið til allrar vinnslu, og eins og hv. frsm. meiri hl. benti á, hefur sá fiskur, sem þannig er veiddur, átt sinn mikla hlut að því að koma góðu orði á íslenzkar fiskafurðir og stuðla að því, að fyrir þær hefur fengizt hátt og jafnvel síhækkandi verð. Það er hætt við, að þær breytingar, sem orðið hafa á síðustu árum, þar sem neta- og nótaveiði er svo stórum vaxandi og svo stórum mikill meiri hl. af þeirri notkun veiðarfæra, sem nú er uppi höfð. — það er hætt við, að hún geti breytt þessu til hins verra, og hefur því miður þegar gert það að einhverju leyti. Það er þess vegna enginn ágreiningur um. að það er full ástæða til þess að stuðla að því, að línu- og handfæraveiðar verði stundaðar áfram, enda er kunnugt að ákveðinn hluti bátaflotans, hinir minni bátar, á í mörgum tilfellum örðugt með að stunda ýmsar aðrar veiðar, þó að þeir geti stundað með árangri þessar veiðar, ef nægilega hátt verð fæst fyrir aflann. Þá eru einmitt bessar veiðar sérstaklega mikils verðar í heim landshlutum, sem hafa nú að undanförnu búið við einna örðugast atvinnuástand, og m.a. af þeim ástæðum er nauðsynlegt að efla þær. Ég er því sammála þessari ráðstöfun, sem um það fjallar að styrkja eða verðbæta þann fisk, sem fæst með þessum veiðum. Uppbótin hefði vissulega þurft að vera hærri en ákveðið var í fyrra og ákveðið er í þessu frv. En hér er um að ræða verð, sem hefur verið samið um og gildir þetta ár. Það þyrfti hins vegar að athugast vandlega. hvort ekki sé rétt og nauðsynlegt að bæta hér um næst, þannig helzt, að bæði ríkissjóður og fiskvinnslustöðvarnar legðust á eitt um að hækka verðið á þessari gæðavöru enn til nokkurra muna og auka á þann hátt muninn á 1. flokks hráefni annars vegar og jafnvel 2. og 3 flokks hráefni hins vegar.

2. gr. þessa frv. fjallar um 50 millj. kr. til framleiðniaukningar og annarra endurbóta á hraðfrystihúsum. Það er ætlunin, að þessi fjárstuðningur hækki úr 33 millj. kr., eins og hann var í fyrra, í 50 millj. kr. nú. Þó sýnist mér við nánari athugun, að þetta sé e.t.v. dálítið orðum aukið og kannske ekki miklu meira en nafnið, að hér sé um verulega raunhæfa hækkun að ræða. Og þar kemur það til, að bæði í grg. þessa frv. og í ræðum þeirra hæstv. ráðh, sem um málið töluðu hér við 1. umr.. kom það ljóslega fram, að fyrirhugað er, að ríkissjóður bæti sér upp þau útgjöld. sem þetta frv. gerir ráð fyrir, með því að hætta eða draga úr niðurgreiðslum vissra vörutegunda. Það mundi að sjálfsögðu hafa það í för með sér, að kaupgjaldsvísitala og þar með laun hækkuðu sem þessu svarar. Og það er svo augljóst mál, að ekki þarf um það að hafa mörg orð, að þetta hitnar á öllum atvinnurekstri í landinu, og það mun ekki fjarri lagi, að frystiiðnaðurinn muni borga allt að 10 millj. kr. í auknar launagreiðslur af þessum sökum, eða geti farið svo. að það verði sú eða svipuð upphæð, þannig að ef það yrði þessi upphæð, svo sem líkur henda til, sýnist mér, að raunveruleg aukning á þessu, svonefnda hagræðingarfé sé ekki 17 millj., heldur þá ekki meira en 7 milli. kr.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvmrh.: Þegar samið var um fiskverðið nú í janúarmánuði og fyrirheit gefið, að því er mér skilst, um það, að hið svonefnda hagræðingarfé hækkaði úr 33 í 50 millj. kr., var þá jafnframt skýrt frá því þeim, sem þarna sátu við samningaborð, að þessa og annars fjár til stuðnings við sjávarútveginn yrði aflað með því móti, sem nú er ráðgert, með því móti að draga úr niðurgreiðslum eða hætta niðurgreiðslum á vissum vörutegundum og þar með hækka allt kaupgjald í landinu? Áttu frystihúsaeigendur von á því að þurfa beinlínis að borga sjálfir í hækkuðum launum um það bil 10 millj. kr. af þessu hagræðingarfé? Geta þeir ekki litið svo á með nokkrum eða e.t.v. fullum rétti, að hér væri um brigð að ræða, ef þetta hefur ekki legið ljóst fyrir, þegar samningar um fiskverðið voru gerðir í janúarmánuði? Ég veit þetta ekki. Þetta hefur kannske legið ljóst fyrir þá, en ég spyr, hvort svo hefur verið.

Um þetta hagræðingarfé að öðru leyti vil ég segja þetta: Í þeirri gr. frv., sem um það fjallar, segir, að því skuli verja til framleiðniaukningar frystihúsa og annarra endurbóta í framleiðslu frystra fiskafurða. Síðan á sjútvmrn. að setja reglur um úthlutun þessa fjár. Þetta ákvæði og orðalagið mun vera algerlega óbreytt frá l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, eins og þau voru samþ. hér í fyrra. Mér sýnist, að ákvæði l., til að mynda frá í fyrra, og frv. nú um þetta efni séu nokkuð greinileg og megi í rauninni teljast alveg ótvíræð. Það er til þess ætlazt, að þessu fé verði skipt eftir ákveðnum reglum, sem rn. setur, til frystihúsa í því skyni að koma þar á endurbótum, sem leiði til framleiðniaukningar. Það virðist því auðsætt, að fénu á að verja til tiltekinna framkvæmda, sem bæti rekstraraðstöðu þeirra frystihúsa, sem sækja um slíkt fé og sýna fram á, að þau hafi slíkar framkvæmdir á prjónunum eða hafi leyst þær af höndum. Það virðist þess vegna algerlega eðlilegt, að í reglum, sem um þetta atriði eru settar, séu ákvæði um það, að fjárupphæðir til slíkra framkvæmda séu veittar með hliðsjón af þeim framkvæmdum í tilteknum frystihúsum, sem viðurkenndar eru að heyri undir það, sem segir í lögunum að sé til framleiðniaukningar og endurbóta. Þetta virðist vera alveg ljóst og greinilegt í frv. og í l., eins og þau voru samþ. í fyrra.

Þörfin á því fyrir frystihúsin að bæta beinlínis rekstraraðstöðu sína og auka möguleika á bættri framleiðni er alveg vafalaust mjög mismunandi. Þau eru komin mislangt í þessu efni. Sum eru þegar búin góðum tækniútbúnaði, en önnur hafa orðið aftur úr og eiga þess vegna í miklum erfiðleikum, m.a. af þeim sökum, þótt ekki komi annað til. Og þetta fer vitanlega sízt eftir því, hversu mikið magn af fiski, hversu mikið hráefni hvert hús getur fengið og tekið til vinnslu. Það er sjálfsagt í mörgum tilfellum, að þarna sé um öfug hlutföll að ræða, þannig að þau frystihúsin, sem hafa beztan tækniútbúnað nú þegar, hafa tök á því að fá og taka meiri fisk til vinnslu heldur en hin, sem þarna skortir verulega á og þurfa víssulega og sannanlega á stuðningi að halda.

Það er upplýst, að þessu svonefnda hagræðingarfé hefur verið úthlutað þannig, að raunverulega má telja það eins konar verðuppbót eða stuðning til kaupa á fiski til vinnslu. Og þá er það ljóst, að þau hús fá í mörgum tilfellum mest af þessu hagræðingarfé, sem hafa bezta afkomuna, þau hús, sem hafa á undanförnum árum skilað umtalsverðum gróða og hafa þar af leiðandi vafalaust getað aukið sína hagræðingu án sérstaks fjárhagslegs stuðnings, en hin fá þá vitanlega minnst, sem lítið fiskmagn fá til vinnslu, m.a. vegna erfiðrar afstöðu, vegna þess að þeirra tæknibúnaður er lakari en hinna og þyrftu þess vegna nauðsynlega að eiga kost á hagræðingarfé til þess að geta kippt sínum málum í betra lag.

Það er að vísu, að ég tel, ekki að fullu upplýst, hvort ætlunin er að hafa þennan hátt á, eins og verið hefur. Þó hefur mér skilizt, að það muni vera ætlunin að breyta þessu ekki, og mér skildist á því, sem hv. frsm. meiri hl. n. sagði hér áðan, að hann gerði fastlega ráð fyrir því, að þessu verði ekki breytt, þessu svonefnda hagræðingarfé verði úthlutað eftir þessari, að ég tel, nokkuð einkennilegu reglu, að það fari eftir innlögðu fiskmagni til frystihúsanna. Nú vil ég einnig leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvmrh., hvort hann hefur hugsað sér að gera einhverja breytingu á þessu fyrirkomulagi eða hvort hann ætlar að hafa það óbreytt og hvort e.t.v. var um það samið eða það gefið fyllilega í skyn við samningagerð um fiskverðið í vetur. að þetta verði óbreytt. Er sem sagt ætlunin að hafa sama háttinn á og verið hefur undanfarin tvö ár, að úthluta þessu fé samkv. skýrslum um fiskmagn, þ.e.a.s. sem hreinum styrk til frystihúsanna til hráefniskaupa, en ekki, að ég tel, sem hagræðingarfé, því að ég get ekki séð, að það sé á neinn hátt réttnefni, ef þessi regla á að gilda áfram, að tala um þetta sérstaklega sem hagræðingarfé, heldur ætti þá miklu fremur að ganga hreint til verks og kalla þetta styrk til hráefniskaupa eða eitthvað í þá áttina? Ég tel, að það sé a.m.k. mjög hvimleitt, svo að ekki sé meira sagt, að leiða í lög ákvæði, sem eru, að ég tel, nokkuð skýr að orðalagi, ef ekki er ætlunin að fara nokkurn veginn eða raunar alveg bókstaflega eftir laganna hljóðan. Í því felst óþörf og ég vil segja heldur leiðinleg blekking. Þessi háttur, sem hefur verið hafður á. að samþykkja þennan fjárstuðning undir nafninu hagræðingarfé, en úthluta honum á þann hátt, sem gert hefur verið og mér skilst að ætlunin sé að gera, minnir mig allt of mikið á hendingarnar, sem við lærðum víst margir í skólaljóðunum í gamla daga, þessar hendingar eftir Jón á Bægisá:

„Vakri-Skjóni hann skal heita,

honum mun ég nafnið veita,

þó að meri það sé brún.“

Varðandi þetta atriði flyt ég brtt., sem að mínum dómi á að taka af öll tvímæli um það, að þetta fé skuli vera veitt til framleiðniaukningar. Ég legg til, að við 2. gr. frv. varðandi þær reglur um úthlutun, sem sjútvmrn. er ætlað að setja, bætist þessi orð:

„Í reglunum skal ákveðið, að þau frystihús, sem hafa erfiða rekstraraðstöðu og sérstaka þörf fyrir stuðning til endurbóta og framleiðniaukningar, njóti hlutfallslega hærri styrks en hin, sem betri aðstöðu hafa.“

Í 4. gr. þessa frv., eins og í hinum eldri l., er ákvæði um stuðning við togaraútgerðina. Sá stuðningur mun hafa verið veittur í því formi, að greidd hefur verið ákveðin upphæð fyrir hvern úthaldsdag togara og það jafnt hvort heldur hann veiddi fyrir erlendan markað, sem ég svo kalla, þ.e.a.s. veiddi til þess að sigla með aflann ísvarinn á erlendan markað, eða til þess að leggja upp í frystihús til vinnslu hér innanlands. Varðandi þessa tilhögun flyt ég aðra brtt. á þskj. 317. Þar legg ég til, að styrkur þessi á úthaldsdag verði helmingi hærri, þegar veitt er fyrir innlendan markað eða til þess að leggja fiskinn upp til vinnslu hér innanlands. Rökin fyrir þessu virðast mér tiltölulega ljós. Sá fiskur, sem veiddur er til þess að leggja upp í frystihús hér, skapar í fyrsta lagi aukna atvinnu, og á því er vissulega mikil þörf, að því er varðar ýmis frystihús, sérstaklega utan Suðurlandssvæðisins, ef svo mætti segja, þar sem oft skortir mjög tilfinnanlega hráefni og þar sem atvinnuástandið er einna lakast. Ég skal ekki fullyrða um það, hversu miklu þetta mundi nema, hvort útgerðarmenn teldu af þessari breytingu það mikið hagræði, að það eitt gerði það verulega girnilegra en nú að leggja aflann upp hér, en þó hygg ég, að það mundi a.m.k. í ýmsum tilvikum auðvelda það að hafa þann hátt á í ríkara mæli en nú er, því að það má segja, að nú sé svo komið af ýmsum ástæðum, m.a. vegna tiltölulega hás verðs á markaði erlendis og þá allmiklu lægra og mjög verulega miklu lægra hráefnisverðs á heimamarkaði, að togararnir sigla með nær því allan sinn afla, en hitt er alger undantekning, að hann sé lagður upp til vinnslu hér. Ég tel það miður farið og tel, að bæði með þessari ráðstöfun og ýmsum fleiri, m.a. þeirri, sem hv. frsm. meiri hl. n. nefndi hér áðan, eigi að beina togurunum aftur inn á þá braut meira en nú er, að þeir leggi upp fyrir innlendan markað, sérstaklega á vissum árstímum, þegar jafnvel atvinnuleysi steðjar að í ákveðnum landshlutum og mikil þörf er á að fá hráefni til vinnslu.

Þá kem ég að því atriði, sem ég tel að skipti mjög verulegu máli í sambandi við þetta frv., þó að ekki komi það fram í frv. sjálfu, heldur sé aðeins vikið að því í lok grg., þ.e. hvernig ráðgert er að afla ríkissjóði fjár til þess að standa undir þeim kostnaði, sem af frv. þessu leiðir. Ég og við Alþb.-menn teljum, að þetta sé varhugaverðasta og versta atriðið í sambandi við þetta mál. Það heyrist oft sagt, og sérstaklega eru það eðlilega þeir, sem fara með stjórnina hverju sinni, að stjórnarandstaðan sé yfirleitt með mörgum eða flestum útgjöldum, en á móti fjáröfluninni, sem þarf til þess að standa undir þeim útgjöldum. Nú er það að vísu hið eðlilega og sjálfsagða verkefni ríkisstj. og þingmeirihl. að leggja fram skattheimtutill., till. til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem nauðsynleg eru talin hverju sinni. En hitt er rétt, vil ég segja, að stjórnarandstaðan mætti gjarnan og gæti oftar en hún gerir, bæði nú og áður, bent á aðrar og hagfelldari leiðir eða önnur og hagfelldari úrræði í þessum efnum en þau, sem hún gagnrýnir. Ég er engan veginn hræddur við að staðhæfa, að það eru til ýmsir tekjuöflunar möguleikar fyrir ríkissjóð, sem eru betri og ég vil segja sérstaklega hættuminni en þessi til þess að ná saman endum í sambandi við fjáröflun til þessa máls.

Hver er þá höfuðgallinn við þá leið, sem ætlunin er að fara í sambandi við tekjuöflun í ríkissjóð til að standa straum af þessum útgjöldum? Ég tel, að það sé um tvo mjög mikla ókosti að ræða á þessari leið. Það er þá í fyrsta lagi, að niðurgreiðslur, þótt þær hafi vitanlega sína annmarka og óneitanlega, eru þær til hagsbóta fyrir láglaunafólk. Þær eru, eins og sakir standa í okkar þjóðfélagi, til hagsbóta fyrir það fólk, sem verður að nota hlutfallslega mest af tekjum sínum til þess að kaupa fyrir brýnustu lífsnauðsynjar. Þær eru mikilvægar fyrir til að mynda aldrað fólk, sem lifir á ellilífeyri og e.t.v. smávægilegum tekjum eða lítils háttar eignum. Þær eru mikilvægar fyrir fjölmennar barnafjölskyldur, sem verða að verja mjög verulegum hluta af tekjum sínum til þess að kaupa daglegt brauð, ef svo má segja. Og það gefur auga leið, að fjölskylda, sem hefur lágar tekjur og ver við skulum segja helmingi þeirra tekna til þess að kaupa niðurgreiddar matvörur, slík fjölskylda stendur ólíkt verr að vígi, það skiptir hana miklu meira máli, hvort þessar vörur eru niðurgreiddar eða ekki, heldur en aðra fjölskyldu með góðar tekjur, sem ver kannske ekki nema fjórðungi eða fimmtungi af tekjum sínum til þess að kaupa þau matvæli, sem til að mynda nú eru niðurgreidd, eða e.t.v. minni hluta en það. Það er að vísu sagt og það með réttu, að vísitala kaupgjalds og þar með kaup muni hækka að því skapi, sem hætt verður að greiða ákveðnar vörutegundir niður. En þarna kemur hið sama fram, að það munar vitanlega minnst um hækkunina á kaupgjaldinu hjá láglaunafólki, en mest hjá hinum, sem nota lægstan hundraðshluta tekna sinna til matvælakaupa eða til þess að kaupa þær vörur, sem hafa verið og eru niðurgreiddar. En annað atriði, sem ég tel mikinn ókost á þessari leið, er það, að ef hætt er að greiða niður vöruverð eða dregið úr þeim niðurgreiðslum til mikilla muna, hefur það, eins og ástatt er í okkar þjóðfélagi og eins og um hnútana er búið, veruleg áhrif á verðbólguþróunina. Vörur hækka, kaupgjald hækkar, og þannig heldur áfram víxlverkun kaupgjalds og verðlags.

Hæstv. fjmrh. skýrði raunar frá því í ræðu við 1. umr. þessa máls, að frv. þetta hefði sennilega ekki minni útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð en 100 millj. kr., þ.e.a.s. það mundi kosta ríkissjóð um 20 millj. kr. í hækkuðu kaupgjaldi að afla þeirra 80 millj. eða spara, ef við orðum það þannig, þessar 80 millj., sem frv. gerir ráð fyrir að veita til sjávarútvegsins, spara þær með lækkuðum niðurgreiðslum. Þegar þar við bætist, að þessi ráðstöfun kostar alla aðra launagreiðendur í landinu mjög verulegar upphæðir, tugi millj. kr., og þær upphæðir koma beint út í verðlag brýnustu lífsnauðsynja, virðist þetta í hæsta máta dýr og óhentug aðferð til þess að afla þeirra 80 millj., sem hér er um að ræða.

Nú verður að sjálfsögðu sagt: Einhvers staðar verður að taka þetta fé, ef ætlunin er að veita sjávarútveginum þann stuðning, sem hér um ræðir. — Og það er vitanlega rétt. En ýmislegt kemur hér að sjálfsögðu til greina annað en það að fella niður eða lækka niðurgreiðslur á lífsnauðsynjum. Það má til að mynda spyrja, hvort ekki kæmi fyllilega til greina, að í þessu sambandi yrði lagður á sérstakur verðaukaskattur, þ.e.a.s. að á einhvern hátt yrði reynt að skattleggja verðbólgugróðann eða þann gróða, sem myndazt hefur beinlínis vegna verðbólguástandsins. Fleiri leiðir mætti að sjálfsögðu athuga, og ég tel mig mega fullyrða, að stjórnarandstaðan mundi verða til viðræðna um heppilega lausn þess fjárhagsvandamáls, sem hér er um að ræða, heppilega lausn þess, hvernig eigi að afla ríkissjóði þeirra tekna, sem til þess þarf að standa straum af framkvæmd þeirra laga, sem hér um ræðir.

Að síðustu vil ég svo aðeins segja þetta: Ég legg áherzlu á tvennt: Í fyrsta lagi, að frv. verði breytt í það horf, sem brtt. mínar benda til. Ég tel það óeðlilegt og raunar fráleitt, að í l. standi ár eftir ár ákvæði, sem ætlunin er að sniðganga, vil ég segja, eða framkvæma á annan hátt en berum orðum er gert ráð fyrir í l. Og raunar held ég, að það sé spurning, hvort sú framkvæmd fær hreinlega staðizt lagalega séð. Ég tel sjálfsagt, að um þetta ákvæði, þetta svonefnda hagræðingarfé, séu ótvíræð ákvæði á annan hvorn veginn, á þann veg annars vegar, eins og ég legg til, að þetta verði alveg ótvírætt framleiðniaukningarfé, sem fari til þeirra frystihúsa, sem standa í framkvæmdum, er leiða til framleiðniaukningar, ellegar þá hitt, að það verði skýrt tekið fram í 1., að þetta sé og skuli vera styrkur til hráefniskaupa, ef það er ætlunin hjá hæstv. ríkisstj. að haga framkvæmd málanna þannig, eins og verið hefur. Og þó að ég sé andvígur því fyrirkomulagi og telji hitt fyrirkomulagið eðlilegra og hagfelldara, finnst mér alls kostar ófært að afgreiða l. á þann hátt, eins og ég sagði áðan, að tala um Vakra-Skjóna, þar sem einungis er um gömlu brúnu merina að ræða.

Eitt atriði, sem ég vildi að lokum leggja á áherzlu að nýju, er það, að til þess að standa undir þessum stuðningi við útgerðina, sem hér er fyrirhugaður, tel ég, að það sé mjög varhugavert og háskalegt með tilliti til verðbólguþróunarinnar að fara þá leið, sem gert er ráð fyrir í grg. þessa frv. og yfirlýst er af hæstv. ráðh., að ætlunin sé að gera. Og ég vil ítreka: Hér ber að fara aðrar leiðir. Leiðir, sem hafa ekki sömu eftirköst, eru vissulega til, ef vilji er fyrir hendi til þess að fara þær.