28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 369, leggur meiri hl. sjútvn. til, að þetta frv. verði samþ., en tveir nm. skrifa undir það nál. með fyrirvara. Sjöundi nm., hv. 5. þm. Austf., lýsti því yfir í n., að hann væri í sjálfu sér samþykkur frv., þótt hann skilaði séráliti vegna þeirra till., sem uppi eru til tekjuöflunar í samhandi við frv., og hefur hann skilað sérstöku nál.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja frv. ýtarlega. Það var gert hér af hæstv. sjútvmrh. við 1. umr., og í hv. Ed. hafa orðið um það ýtarlegar umr. En aðalatriði frv. eru að mestu sams konar og voru í l. um aðstoð við sjávarútveginn s.l. ár. Það, sem breytt er, er það, að sú aðstoð, sem ráðgerð er samkv. frv., mun verða allt að 17 millj. kr. hærri en ráðgert var s.l. ár.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði fiskseljendum 25 aura verðuppbót á hvert kg línu- og handfærafisks. Þetta er jafnhá uppbót og greidd var s.l. ár, og á þessi uppbót að koma til skipta milli sjómanna og útgerðarmanna samkv. samningum um hlutaskipti. Ég vil í sambandi við brtt., sem ég hef leyft mér að flytja við frv. ásamt hv. 11. landsk. þm., aðeins ræða þetta mál.

Það mun hafa sýnt sig, að afli á línu og handfæri var ekkí það mikill s.l. ár, að uppbæturnar á þannig veiddan fisk hafi numið nema 18—19 millj. kr., en eins og hv. alþm. muna frá s.l. ári, var gert ráð fyrir, að þessar uppbætur gætu numið álit að 22 millj. kr. Af þeirri áætlunarupphæð hafa þannig orðið afgangs, ef svo mætti segja, 3—4 millj. kr.

Nú hagar þannig til á Vestfjörðum, að raunveruleg vetrarvertíð byrjar þar fyrr en annars staðar. Hún byrjar venjulega kringum 1. október, eða um miðjan október. Og haustúthaldið á línu hefur fyrir Vestfirði mun meiri þýðingu en annars staðar. Við höfum þess vegna, ég og hv. 11. landsk. þm., beitt okkur fyrir því, að það, sem vantaði á áætlunarupphæðina frá í fyrra, þ.e.a.s. 22 millj. kr., yrði notað til þess að greiða sérstakar uppbætur á línu- og handfærafisk að haustinu til. Okkur er ljóst, að þetta hefur sérstaka þýðingu fyrir Vestfirði, en að sjálfsögðu miðast till. okkar við það, að þessar uppbætur geti orðið greiddar hvar sem er á landinu til þeirra, sem hafa stundað línu- eða handfæraveiðar að haustinu. En lögin frá í fyrra, sem ráðgert er að fella úr gildi með því lagafrv., sem hér liggur fyrir, heimila ekki hærri greiðslu á hvert kg fisks en 25 aura. Til þess að opna leið til þess, að hugmynd okkar geti orðið framkvæmd um greiðslu sérstakra haustuppbóta, höfum við flutt þá brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 395. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við 1. gr. komi 2 nýjar mgr., svo hljóðandi:

Heimilt er að greiða viðbótaruppbót á línu og handfærafisk, veiddan á tímabilinu frá 1. október 1965 til 31. desember 1965, umfram þá 25 aura á hvert kg, sem ákveðið var með lögum nr. 34 8. maí 1965, að ríkissjóður skyldi greiða.

Heildaruppbætur á línu- og handfærafisk á árinu 1965 skulu þó ekki fara fram úr 22 millj. kr.“

Ég vil taka það fram, að ég bar ekki þessa till. undir meðnm. mína í sjútvn. og þeir hafa þess vegna ekki haft tækifæri til þess að athuga hana. Get ég þess vegna fyrir mitt leyti fallizt á að taka till. aftur til 3. umr., til þess að menn fái tækifæri til að kanna málið nánar.

Að síðustu vil ég í þessu sambandi benda á, að línuútgerðin, sem stunduð var síðari hluta ársins 1965, hefur að sjálfsögðu verið mun óhagstæðari en línuútgerðin, sem stunduð var fyrri hluta ársins. Það mætti orða þetta þannig, að 25 aura uppbótin, sem greidd var í fyrra, sé línuútgerðinni minna virði síðari hluta ársins vegna hinna miklu almennu kauphækkana, sem urðu á miðju árinu 1965, og einmitt með tilliti til þess, að útgerðin síðustu mánuði ársins er mun erfiðari og kostnaðarsamari en hún var á aðalvertíðinni, miðum við till. okkar við haustið. Ég mundi ekki telja, að þetta kæmi þeim, sem stundað hafa línuútgerð að haustinu, að nægilegum notum, ef afganginum af 22 millj. kr. frá í fyrra, yrði dreift á allt árið.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að ræða frekar um frv. eða blanda mér í þær deilur, sem orðið hafa um niðurfellingu á niðurgreiðslum á vöruverði, sem ráðgerðar eru til þess að mæta útgjaldaauka ríkissjóðs vegna frv. En að efni til eru nm, sammála um frv., eins og það liggur fyrir, þó að tveir hv. nm. flytji við það sérstaka brtt. og einn nm. skili sérstöku nál. af þeim ástæðum, sem ég hef greint frá.