05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

122. mál, skógrækt

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er viðauki við lög um skógrækt, nr. 3 1955. Helzta atriði þess er það, að ríkissjóður styrki ræktun skjólbelta undir yfirumsjón skógræktarstjóra. Til greina sem styrkþiggjendur koma ábúendur lögbýla og félög manna, sem rækta korn eða garðávexti eftir nánari fyrirmælum. Skilyrði fyrir styrkjum eru þau, að skógarvörður og héraðsráðunautur hafi mælt fyrir framkvæmdum og gert áætlanir um þær og að löndin séu girt öruggri girðingu. Gert er ráð fyrir, að nánari fyrirmæli verði gerð um þessi atriði í reglugerð. Styrkur má vera allt að 1/3 af girðingarkostnaði og hálfum kostnaði við kaup á plöntum og niðursetningu þeirra.

Ræktun skjólbelta er lítt þekkt hér á landi, en þó ofurlítið, og virðist hafa gefið allgóða raun, þar sem þetta hefur verið reynt, t.d. á Sámsstöðum í Fljótshlið. Víða í nágrannalöndum okkar er mjög góð reynsla af skjólbeltaræktun, sem gefur mikinn uppskeruauka, eftir því sem tilraunir hafa sannað, einkanlega í kaldari löndum. Reynsla tilrauna, t.d. í Jótlandi af margra ára tilraunum og rannsóknum, er sú. að á landi, þar sem ræktað er hey eða gras til fóðurs, þá verði uppskera af landi allt að 24.1% meiri, þar sem skjólbelti hafa verið ræktuð, og um 17.1% meiri af korni og 13.4% af kartöflum og rófum.

Góð skjólbelti hér á landi ættu að geta haft meiri áhrif en þetta, vegna þess að hér er loftslag kalt og stormasamt. Þá er og mikilsvert fyrir ýmiss konar búpening að njóta skjóls af skógi.

Ég fer ekki lengra út í að rekja efni þessa frv. Það er komið frá Nd. og fékk þar einróma meðmæli landbn. og að ég hygg einróma samþykkt deildarinnar. Samkv. því, sem fram kemur á þskj. 445, hefur landbn. Ed. mælt einróma með frv. Legg ég því til, að það verði samþ.