22.03.1966
Neðri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

106. mál, atvinnuleysistryggingar

Óskar Jónsson:

Herra forseti. Ég finn ástæðu til þess að segja örfá orð í sambandi við þetta mál. sem hér liggur fyrir, frv. til l. um breyt. á l. nr. 29 7. apríl 1956, um atvinnuleysistryggingar. Tilefni þess er aðeins það, að ég vil leyfa mér fyrir hönd verzlunarstéttarinnar að þakka hæstv. ríkisstj. fyrir það, að hún átti góðan þátt í því, að verzlunarfólk fái aðild að atvinnuleysistryggingasjóðnum. Þetta hefur verið mikið áhugamál þessa fólks undanfarið. Það hefur talið sig vera vinnufólk, eins og annað fólk, sem verið hefur í samtökum A.S.Í., og fagnar því víssulega að geta nú átt von á því að eiga aðild að þessum sjóði. Þessi sjóður er mikið verðmæti í raun og veru, og það er áreiðanlega fagnaðarefni, að hann skuli byggjast upp fyrir samtök vinnandi manna í landinu og geta orðið sterk og viðamikil stoð til bjargar, þegar á liggur, í ýmsum tilfellum, svo sem honum er ætlað.

Þessi orð verða ekki fleiri frá minni hálfu að sinni, en ég álít, að þessi sjóður sé mikið verðmæti og það beri að fara um hann mjúkum höndum og með varúð, mikilli varúð, því að hann er og mun verða enn frekar í framtíðinni ómetanleg stoð við ýmiss konar uppbyggingu í landinu.