24.03.1966
Neðri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

148. mál, Iðnlánasjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er eitt atriði, sem ég vildi aðeins vekja athygli á í sambandi við þetta mál. og ég vil taka undir það, sem aðrir hv. þm. hafa hér sagt um nauðsyn þess að búa sem bezt að íslenzkum iðnaði.

Í 2. og 3. gr. þessa frv. er sérstaklega rætt um sérstök hagræðingarlán, og þegar við tölum um þessa hluti, þá held ég, að það sé nauðsynlegt, að við gerum okkur dálitið betur grein fyrir því en gert hefur verið í framkvæmd hingað til á Íslandi, hvað meint er með þessu. Það er alveg rétt, eins og tekið er fram bæði í frv. sjálfu og grg. þess, að það, sem við erum að reyna að búa

okkur undir, er, að íslenzkur iðnaður geti staðizt samkeppni erlends iðnaðar, þegar eða ef tollar hér verða lækkaðir, þannig að iðnaður njóti ekki lengur tollverndar. En það er eitt, sem við verðum að gera okkur ljóst, þegar við ræðum um erlendan iðnað og í hverju hans yfirburðir felast, að þeir felast ekki bara í því, að innan verksmiðju, sem framleiðir þessa og þessa vöru, sé komið við mjög hagnýtu vinnuskipulagi, því hagrætt sem bezt, heldur felast yfirburðirnir fyrst og fremst í því, að sjálf iðngreinin er skipulögð í svo ríkum mæli, að slíkur stórrekstur verður þar úr, að smárekstur stenzt það ekki. Sú þróun, sem hefur gengið fyrir sig alla þessa öld, hvort sem við teljum hana góða eða illa, hún er sú, að iðnfyrirtækin erlendis verða í sífellu stærri og stærri og að sá smái, duglegi, einstaki atvinnurekandi er settur út úr spilinu. Við getum harmað þessa þróun, við getum litið á hana sem slæma eða hvað sem við viljum, en þetta er einfaldlega þróun tækninnar í nútíma þjóðfélagi.

Ef við þess vegna ætlum í staðinn fyrir þann skjólgarð, sem við nú um áratugi höfum haft um þann iðnað, sem framleiðir fyrir íslenzkan markað, því að það er hann fyrst og fremst, sem við erum raunverulega að tala um í þessu sambandi, um hinn iðnaðinn gilda nokkuð önnur lögmál, hann hefur alltaf orðið að standast erlenda samkeppni á einn eða annan máta, það sem framleitt er fyrir útflutningsmarkaðinn, ef við ætlum þess vegna að láta okkar innlenda iðnað standast samkeppni, þá er ekki nóg að ætla sér innan einnar verksmiðju, þar sem vinna 10—20 menn eða 40—50 að skipuleggja vinnuna betur. Það er óhugsandi að ætla að standast slíka samkeppni, án þess að reksturinn sé eins stór og um leið eins hagrænt skipulagður og íslenzkur markaður undir nokkrum kringumstæðum leyfir. Annars brotnar okkar íslenzki iðnaður í samkeppninni við þann erlenda.

Hvað er það, sem mun gera okkur sérstaklega erfitt í þessu sambandi, eins fámennri þjóð og við hér erum? Það, sem mun gera okkur erfitt, er það, að ákaflega mikið af íslenzkum fyrirtækjum er eins konar fjölskyldufyrirtæki, þar sem ein fjölskylda svo að segja stendur að þessu og þessu og einn maður úr fjölskyldunni vinnur að því, er kannske forstjóri og fjölskyldan vinnur þarna meira eða minna og jafnvel oft náið fólk, venzlafólk og annað slíkt. Það eru öll möguleg fjölskyldusjónarmið, sem ráða því, að þessi iðnaður er hafður mjög smár og svo að segja dregur dám af því, að viðkomandi aðili hefur ekki efni á meiru, jafnvel þó að hann fái góð lán. Hvað er það, sem erlendis hefur brotið niður allan þennan iðnað, hvort sem við teljum það gott eða illt? Það, sem hefur brotið hann niður, er, að bankarnir erlendis, þeir stóru bankar, hafa sagt sem lánardrottnar við iðnrekendurna: Það þýðir ekkert fyrir ykkur að vera með þessi smáfyrirtæki. Þið verðið að standa saman, þið verðið að færa þetta saman í eitt, þið verðið að færa þetta saman og með því móti gera þetta tæknilega eins fullkomið og hægt er.

Það er þessi þróun, sem hefur verið að gerast. Hún hefur venjulega þýtt það, að í staðinn fyrir, að í einu fjölskyldufyrirtæki er einhver og einhver fjölskyldumaður og seinna meir kannske sonur hans, sem tekur þar við, án tillits til þess, hvort viðkomandi maður hefur nokkra hæfileika til þess að reka viðkomandi iðnrekstur, —- í staðinn er það erlendis stórt og mikið hlutafé, sem er í þessum iðnrekstri, og þar sem hlutafjáreigendurnir velja forstjórann eftir því, hve duglegur hann er í því tæknilega og verzlunarlega, sem þarf til þess að stjórna þessu fyrirtæki, þó að hann eigi kannske engan hlut í þessu. Við skulum bara taka síðustu ráðstöfun Krupp-verksmiðjanna. Það er þessi samkeppni, sem við verðum að fara að horfast í augu við, ef við ætlum að lækka okkar verndartolla smátt og smátt, og stór fyrirtæki, gríðarlega stór fyrirtæki, þar sem jafnvel verksmiðja með 1000 manns er talin frekar smátt fyrirtæki, það er þetta, sem við eigum að keppa við. M. ö. o.: sú aðferð að reka þessa hluti út frá hví að bjarga sér frá degi til dags og hver einstakur aðili eigi að geta stofnað svona fyrirtæki, hlaupið í banka og fengið þar lán. ef hann hefur góð sambönd og svoleiðis nokkuð, þessi sveitamennska, ef ég má nota það orð, steindrepur okkur. Ef við ætlum að halda áfram eins og verið hefur, að einhver klíkuskapur geti komið upp undireins, sem er í algerri mótsögn við alla tækni í þessu sambandi, erum við dauðir, há skulum við ekki hugsa um þetta. Ég skal bara taka sem dæmi það, sem ég hef áður tekið einmitt í sambandi við útflutningsfyrirtækin. Það er í sambandi við Kassagerðina, sem ýmsir okkar heimsóttu fyrir nokkru. Ef við höfum eitt stórt fyrirtæki, sem er tæknilega vel rekið, er það bjánaskapur, fjárhagslegur bjánaskapur, að stofna annað við hliðina. Það eykur ekki íslenzkan iðnað. Það gerir aðstöðu hans verri, hvort sem við erum að framleiða fyrir útflutningsmarkað eða við erum að framleiða fyrir þann enn þá takmarkaðri íslenzka markað. Þetta eru hlutir, sem við höfum orðið að horfast í augu við, og ég tala um þetta vegna þess. að það er sú barnalega trú hjá mörgum mönnum hér á Íslandi, sem alið er á af pólitískum flokkum hér, að frjáls samkeppni sé eitthvað, sem lækni þessa hluti. Við skulum segja t.d., að bara ef við fáum að njóta frjálsrar samkeppni, við skulum segja, að við hefðum 10 skóverksmiðjur á Íslandi til þess að framleiða skó handa Íslendingum, þá sé allt í þessu fína lagi. Það er blessuð frjálsa samkeppnin, 10 skóverksmiðjur og 10 eigendur þeirra fá að keppa hverjir við aðra. Þetta er sá herfilegasti misskilningur. Við höfðum fyrir nokkrum árum á Íslandi 10 skóverksmiðjur. Ég held, að það hafi unnið í þeim til samans 190 manns. Ég held, að þær séu farnar á hausinn flestallar núna nema ein. Af hverju? Af því að 10 skóverksmiðjur eru hlægilegar, ef þær eiga að fara að keppa við erlendar skóverksmiðjur. Það var hægt að reka eina eða tvær nokkuð stórar, ef þær einbeittu sér á ákveðna hluti. En ef þær ætluðu að framleiða allt frá t.d. inniskóm upp í vaðstígvél, var það slík tæknileg mótsögn, að það hlaut að drepa þær. Það var hægt að hafa 1—2 stórar skóverksmiðjur með því að einbeita þeim að alveg ákveðnum hlutum, við skulum segja karlmannaskóm eða eitthvað þess háttar, og leyfa kvenfólkinu að flytja sitt inn, af því að það gerir heldur meiri kröfur en við karlmennirnir í slíkum efnum. En þegar við hugsum um þessa hluti, verðum við að hugsa í samræmi við okkar tíma.

Ég veit, að þetta er erfitt. Það er erfitt í svona litlu landi. Okkur þykir ekkert gaman að því hér á Íslandi að hafa kannske eina einustu verksmiðju í viðkomandi grein, og ég veit ósköp vel, að það þýðir, að við verðum að hafa gott eftirlit með þeirri verksmiðju. En ef við erum búnir að lækka tollana, ef verzlunin er orðin frjáls með vöruna, sem hún framleiðir, er það erlenda samkeppnin, sem er það harðvítuga eftirlit gagnvart henni, svo að segja pískurinn á hana. En þetta þýðir, að þeir menn, sem stjórna bankamálum á Íslandi, verða ofurlítið að setja sig inn í, hvernig slíkum málum er stjórnað erlendis. Ég er hræddur um, að í mörgum tilfellum hafi það verið svo hér, að nú er stofnað t.d. fyrirtæki í einni grein og það gengur vel, og þá kemur einhver annar áhugasamur maður, sem langar til þess að græða Iíka, og vill reisa annað fyrirtæki í sömu grein og fer máske til sama bankans og bíður um lán þar, ef hann fær það ekki þar, fær hann það kannske í öðrum banka, til þess að koma upp öðru fyrirtæki í sömu greininni, með þeim afleiðingum, að rétt á eftir eru bæði dauð. Það er alveg óhjákvæmilegt, ef við ætlum að reyna að vernda íslenzkan iðnað, þannig að hann geti staðizt samkeppnina utan frá, að víð ekki aðeins lánum honum, eins og hérna er lagt til, — það er alveg rétt stefna, sem hér er farið inn á, — heldur líka, að það sé farið að hugsa öðruvísi í þessum efnum af hálfu þeirra manna, sem raunverulega stjórna þessu og bera ábyrgð á því, sérstaklega t.d. þeirra bankastjóra, sem lánin veita, og þess, sem ég álít að ætti að vera þarna til og hef oft lagt til, einhvers konar ráðs, sem athugi vel, á hvern hátt íslenzkur iðnaður verður bezt skipulagður til þess að standast samkeppnina. Það fer svo um alla þá peninga, sem við kunnum að lána íslenzka iðnaðinum, ef við lánum honum skipulagslaust og án þess að taka tillit til þess, sem tækniþróun nútímans krefst, að skömmu seinna eru þessir peningar tapaðir og fyrirtækið farið á höfuðið.

Mér er alveg ljóst, að með því að fara inn á þá stefnu, sem ég hins vegar býst við að reynist að mörgu leyti mjög erfitt að hindra að farið verði inn á af ótalmörgum ástæðum, að lækka tolla meira og meira hér heima, verður þetta svo ægileg samkeppni fyrir svona litla þjóð, að við þurfum að vera á tindi þeirrar tækni og skipulags innan þess rekstrar, sem við reynum að halda við, sem hægt er að vera. Ég vildi aðeins undirstrika þetta, vegna þess að mér hefur fundizt oft í sambandi við þá hagræðingu, sem talað hefur verið um hjá okkur að undanförnu, að hún sé hugsuð allt of þröngt, aðeins innan einstakra fyrirtækja til þess að reyna að pína ofurlítið meiri vinnu út úr mannskapnum í sambandi við þau, en ekki hugsað nógu stórt, þannig að það sé iðngreinin sjálf. sem við séum að skipuleggja. Hagræðingin í henni í samræmi við fyllstu tæknimöguleika með hliðsjón af okkar markaði er það eina, sem getur hjálpað okkur.