30.11.1965
Neðri deild: 24. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það tekur því ekki að fjölyrða um þetta mál. Þær brtt., sem ég hreyfði, eru þess eðlis, að menn gera upp sinn hug um þær eftir sinni tilfinningu hver og einn. Ég vil einungis benda á, að það, sem mér finnst varhugaverðast við þessi ákvæði, er, að þau eru þess eðlis, að það eru engar líkur til þess, að farið verði eftir þeim. Það eru engar líkur til þess, að menn hverfi frá því að ljósmynda hreiður, sem þeir koma að, ef þeir hafa ljósmyndavél á annað borð, og ef þeir komast yfir fugl og hafa á annað borð löngun til þess að fá hann stoppaðan, þá finna þeir einhver ráð til þess að gera það, jafnvel þrátt fyrir það bann, sem hér er sett. Ég held því, að löggjöfin sé ákaflega þýðingarlítil, eins og slík löggjöf verður alltaf, sem fer of smásmugulega í hluti. En um þetta getur hver haft sína skoðun.

Það, sem ég vildi taka fram, er, að mér finnst orðalag n. á 36. gr. betra en eins og er í frv., og mundi ég þess vegna taka aftur brtt. mína við 36. gr., verði till. n, samþ., en óska eftir því, að brtt. hennar við 36. gr. verði borin upp í tvennu lagi, þannig að menn geti greitt atkvæði um seinni liðinn sér, og eins mundi ég vilja óska þess, að brtt. á þskj. 58 við 28. gr. yrði borin upp í tvennu lagi, þannig að fyrri parturinn: „Óheimilt skal að trufla erni, fálka, snæuglu eða haftyrðla á varpstöðvum þeirra“ — yrði borinn upp sér og seinni parturinn sér. Þá er hægt að sleppa við að bera fram brtt., því að mismunandi skoðanir geta komizt að.