15.03.1966
Efri deild: 50. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

145. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Snemma árs 1964 skipaði þáv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, nefnd manna til þess að undirbúa frv. um lausn á lánamálum sveita laga, og var lögð í það mikil vinna hjá þeirri nefnd að reyna að gera sér grein fyrir lánsfjárþörf sveitarfélaganna og með hvaða hætti mundi helzt auðið að leysa úr þeim vanda. Skoðanir voru að vísu nokkuð skiptar um það, hvernig þetta yrði bezt gert, en niðurstaðan varð sú, að n. kom sér saman um frv. um lánasjóð sveitarfélaga, sem lagt var fram seint á síðasta þingi. Þetta frv. gerði ráð fyrir, að stofnsettur yrði sérstakur lánasjóður, sem fyrst og fremst hefði það hlutverk að annast fyrirgreiðslu um stofnlánaútvegun fyrir sveitarfélögin, þannig að myndaður yrði kjarni að sjóði, sem hefð svipuðu hlutverki að gegna fyrir sveitarfélögin og stofnsjóðir atvinnuveganna hafa hver fyri sína atvinnugrein.

Frv. þetta varð ekki útrætt á síðasta þingi og lágu til þess ýmsar orsakir, en ekki hvað sízt er rétt, að það komi fram, að það voru mjög skiptar skoðanir um það, hvort auðið væri eða raunar heppilegt að byggja þennan sjó upp með þeim hætti eins og þar var gert, en þar var gert ráð fyrir, að annars vegar væri lagt úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga viss fjárhæð, 15 millj. kr., til sjóðsins á ári hverju og framlag ríkissjóðs á móti, einnig 15 millj. kr. Það var að vísu ekki gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs kæmi til greiðslu fyrr en á árinu 1966, fyrsta greiðsla, en miðað við þær horfur, sem voru um fjárhag ríkissjóðs, þótti sýnt, að hvað sem skoðunum manna að öðru leyti kynni að líða um það, hvort eðlilegt væri, að ríkið legði þannig af skattfé borgaranna fram þetta háa fjárhæð til þessa lánasjóðs, þá var augljóst, að aðstaðan var slík, að ekki var auðið að ákveða fyrir fram slíkan bagga, nema menn væru þá reiðubúnir til þess að mæta því með nýju skattaálögum. Það kom enda í ljós við samningu fjárlaga fyrir árið 1966, sem öllum hv. þdm. er ljóst, að þar var allt það naumt varðandi tekjuöflun til að mæta útgjöldum, að það hefði tvímælalaust orðið að gera nýjar ráðstafanir til tekjuöflunar, ef það hefði átt að sjá fyrir þeirri fjárhæð, sem hér var um að ræða.

Vitanlega geri ég ráð fyrir, að sveitarfélagamenn allir a.m.k. mundu telja æskilegast, að það hefði verið unnt að byggja sjóðinn upp með þessum hætti, þar sem mótframlag ríkissjóðs jafnhátt framlagi jöfnunarsjóðs kæmi til. En hins vegar verð ég að segja fyrir mitt leyti, og veit ég, að þær skoðanir eru hjá mörgum öðrum, að það sé ekkert höfuðatriði málsins varðandi þennan sjóð og ekki endilega víst, að hér sé um eðlilega leið að ræða að leggja slíkar kvaðir á ríkissjóðinn. Það, sem fyrst og fremst er höfuðatriði málsins, er að fá stofnlánasjóð, sem geti verið milligönguaðili við útvegun lána handa sveitarfélögunum, því að hvað sem líður þessu framlagi ríkissjóðs, var það ljóst, að það yrði auðvitað að ganga út frá því, að afla þyrfti miklum mun meira fjár, og meginhlutverk sjóðsins og það, sem meginþýðingu hefur í starfi hans, er fyrst og fremst að vera milligönguaðili milli hinna einstöku sveitarfélaga og lánastofnana til þess að útvega sveitarfélögunum stofnlán. Þetta er sérstaklega brýnt, ekki hvað sízt nú, vegna þess að gert er ráð fyrir allvíðtækri breytingu á stofnlánakerfi í landinu, m.a. með því, að Framkvæmdabanki Íslands verði lagður niður og stofnaður sérstakur framkvæmdasjóður ríkisins, sem fyrst og fremst annist útvegun lánsfjár fyrir stofnsjóði atvinnuvega og aðra hliðstæða stofnsjóði, en láni ekki einstaklingum. Og þar sem Framkvæmdabankinn hefur haft með höndum ýmiss konar lánveitingar til sveitarfélaga, verður auðvitað óumflýjanlegt, að til sé einhver stofnsjóður fyrir sveitarfélögin, sem geti tekið slík lán og verið þar milligönguaðili.

Það var því brýn nauðsyn að koma í framkvæmd meginhugmyndinni um stofnun lánasjóðs sveitarfélaga, hvað sem leið möguleikunum til þess, að ríkið gæti lagt það af mörkum, sem upphaflega var gert ráð fyrir. Ég tók því upp viðræður við sambandsstjórn sveitarfélaganna um það, hvort ekki gæti náðst samkomulag um að leggja frv. fyrir þetta þing í því formi, sem aðgengilegt gæti talizt eða sæmilega aðgengilegt fyrir báða aðila. Og það frv., sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., er niðurstaða af þessum samræðum, og eftir atvikum hefur stjórn Sambands ísl. sveitarfélag lýst sig fylgjandi því, að málið verði í þessu formi.

Í grundvallaratriðum er ekki um neina breytingu að ræða varðandi uppbyggingu þessa sjóðs og varðandi hlutverk hans. Það er það sama og var í frv., sem lagt var fram í fyrra. Varðandi fjáröflunina aftur á móti varð sú breyting, að það er ekki gert ráð fyrir föstu framlagi ríkissjóðs til sjóðsins, heldur að það verði ákveðið í fjárlögum hverju sinni, eftir því sem Alþ. sýnist henta. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að það framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaganna sem ráðstöfunarfé sjóðsins, 15 millj. kr., er gert var ráð fyrir í upphaflega frv., standi áfram. Og jafnframt er gert ráð fyrir því, að árlega falli til sjóðsins lán úr Framkvæmdasjóði Íslands, eftir því sem hverju sinni sé talið nauðsynlegt, annars vegar frá sjóðsins hendi og hins vegar mögulegt frá hálfu Framkvæmdasjóðsins að leggja fram.

Til þess að þetta geti orðið að raunveruleika, má gera ráð fyrir, að það sé nauðsynlegt, að sveitarfélögin almennt hefji gerð framkvæmdaáætlana. Það er fyrir því mikill vilji hjá sveitarfélögunum. Á s.l. hausti var haldin sérstök ráðstefna sveitarfélaganna einmitt til þess að ræða um framkvæmdaáætlanir þeirra. Reykjavíkurborg hefur þegar unnið að slíkri áætlun, nú í fyrsta skipti á svipuðum grundvelli og framkvæmdaáætlun ríkisins hefur verið, og það má gera ráð fyrir eftir þeim anda, sem er hjá sveitarstjórnarmönnum, að sveitarfélögin almennt muni telja það mjög fýsilegt, að grundvöllur sé lagður að slíkri áætlanagerð fyrir sveitarfélögin, og það er í rauninni hin brýnasta nauðsyn til þess að framkvæmdaáætlanagerð og fjárfestingaráætlanir fyrir framkvæmdalífið í landinu í heild geti orðið raunverulegar og ekki meira og minna ágizkanir varðandi tvo faktora, bæði sveitarfélaganna og einkafaktorinn, sem er þriðji liðurinn í þessu plani, sem því miður enn sem komið er byggist á of miklum áætlunum eða getgátum.

Í samræmi við þá breytingu, að ríkissjóður leggur nú ekki fast framlag til lánasjóðs sveitarfélaganna, hefur þótt eðlilegt og rétt að gera þá breytingu varðandi eignaraðild sjóðsins, að hann skuli teljast sameign allra sveitarfélaganna, en ekki sameign ríkis og sveitarfélaga, eins og gert var ráð fyrir í upphaflega frv. Að vísu kunna menn að segja sem svo, að það sé ekki enn sýnt um það, hver verði framlög ríkisins til sjóðsins. En það má þá að sjálfsögðu á sínum tíma taka það til athugunar, og er ekki að efa, að sveitarfélagasambandið er fúst til að ræða þær breytingar. En eins og málið liggur fyrir nú, þótti eðlilegt að breyta frv. í þetta horf. Í samræmi við þessa breytingu er einnig gert ráð fyrir, að frá frv. í fyrra verði gerð veruleg breyting varðandi skipun sjóðsstjórnar, þannig að nú er það fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga, sem kýs fjóra af fimm stjórnarmönnum, en ráðh. skipar einn mann og er hann formaður stjórnarinnar, en í frv. frá síðasta þingi var gert ráð fyrir annarri skipan stjórnarinnar og mun meiri aðild ríkisins að stjórn sjóðsins. Varðandi fjáröflun til sjóðsins er einnig gerð sú breyting, að það er gert ráð fyrir því í 14. gr. frv., að sveitarstjórnum skuli heimilt að koma til geymslu og varðveizlu í lánasjóði sveitarfélaga þeim sjóðum, sem eru í eign eða umsjá sveitarfélaganna. Hversu mikið fé hér mun geta orðið um að ræða fyrir lánasjóðinn, er ekki gott að segja. Það hafa stundum verið uppi hugmyndir í umræðum um þetta mál að setja annaðhvort upp sveitarfélagabanka eða sveitarfélagasparisjóð, ef svo má segja. Það hefur hins vegar mætt mótspyrnu og verið gagnrýnt af ýmsum aðilum innan sveitarfélaga einnig, að það væri ekki raunsætt, en ekki þótti óeðlilegt og raunar skynsamlegt að hafa það opið, að sveitarfélögin gætu varðveitt sína sérstöku sjóði í jöfnunarsjóðnum, sem yrði þá til þess að auka ráðstöfunarfé hans.

Einstök atriði frv. að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að rekja sérstaklega. Hér er, eins og ég sagði, fyrst og fremst um það að ræða að leggja grundvöli að stofnun sjóðs, sem geti orðið milligönguaðili fyrir sveitarfélögin um útvegun stofnlána og til þess að geta einnig orðið til samráðs við sveitarfélög, sem í erfiðleikum eiga, til þess að reyna að leysa þeirra fjárhagsvandamál eftir þeim leiðum, sem tiltækilegar geta verið hverju sinni, og með því að þessi sjóður sé millígönguaðili, geti einnig á þann hátt orðið fundin úrræði til þess, að auðveldara verði fyrir viðkomandi sveitarfélög, sem kannske sum hver eru ekki sérlega sterk fjárhagslega, að fá þá fyrirgreiðslu, sem þau þurfa að fá með ábyrgð sjóðsins.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að orðlengja frekar um málið, það skýrir sig að öðru leyti sjálft, og vil leggja til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr: og félmn.