12.04.1966
Neðri deild: 68. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

118. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það var samþ. með shlj. atkv. að fengnum meðmælum hv. menntmn. d. Í frv. felst það, að fjölgað skuli í útvarpsráði úr 5 mönnum upp í 7.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í síðustu kosningum breyttist styrkleiki stjórnmálaflokkanna á Alþ. þannig, að einn þingflokkanna, Alþb., fékk ekki fulltrúa í 5 manna n. Ýmsum lögum um þetta efni, svo sem þingsköpum, hefur verið breytt í það horf, að allir þingflokkar eigi sæti í n., þ.e. fjölgað í 5 manna n. upp í 7. Útvarpið er það stór stofnun og útvarpsráð það mikilvæg n., að rétt hefur þótt, að allir þingflokkar eigi sæti í útvarpsráði, en það getur ekki orðið með öðrum hætti en þeim, að fjölgað sé í útvarpsráði úr 5 upp í 7. Þykir þetta sérstaklega æskilegt með hliðsjón af því, að starfsemi ríkisútvarpsins er einmitt nú þessar vikurnar eða þessa mánuðina að aukast mjög með tilkomu íslenzks sjónvarps, og þykir eðlilegt, að allir flokkar eigi þátt í stjórn svo stórrar og umfangsmikillar menningarstofnunar sem ríkisútvarpið er, einkum og sér í lagi eftir að sjónvarpið hefur einnig tekið til starfa. Um þetta reyndist ekki vera ágreiningur í hv. Ed., og svo vona ég, að reynist ekki heldur hér í hv. Nd.

Annað smávægilegt atriði er og í þessu frv., sem ekki er í gildandi útvarpsráðsl., en það er heimild til útvarpsráðs til að skipta með sér verkum við undirbúning útvarpsdagskrár. Raunar lit ég þannig á, að útvarpsráðið hefði heimild til slíks, þó að ekki sé skýrt tekið fram í gildandi l., en rétt er að taka það skýrt fram, einkum með hliðsjón af því, sem ég gat um áðan, að íslenzkt sjónvarp mun bráðlega taka til starfa, og þá getur verið mjög heppilegt, að verkaskipting eigi sér stað innan útvarpsráðs, og það er auðveldara að koma henni við, eftir að meðlimum þess hefur verið fjölgað úr 5 upp í 7.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.