10.03.1966
Neðri deild: 53. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

135. mál, mat á sláturafurðum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, gengur út á það að skapa meira hreinlæti í slátrun dýra og meðferð sláturafurða. Frv. er samið af n., sem í áttu sæti Páll A. Pálsson yfirdýralæknir, Jón Sigurðsson borgarlæknir, Jónmundur Ólafsson kjötmatsformaður og Sæmundur Friðriksson framkvæmdastjóri.

Frv. þetta gengur út á það að búa sláturhúsin betur úr garði en þau hafa verið áður og gera meðferð sláturafurðanna betri á margan hátt. Það leiðir af sjálfu sér, að eðlilegt er að endurskoða lög, sem gilt hafa um þessi efni. Þau eru frá því 1949, og kröfur um betri meðferð sláturafurða hafa orðið miklu meiri en þegar þessi lög, sem nú gilda, voru sett. En þrátt fyrir það haldast ýmis atriði gömlu laganna óbreytt, og þess vegna er þetta frv. flutt sem breyt. við gömlu lögin.

1. gr. er svo að segja óbreytt frá því, sem er í gildandi lögum, að öðru leyti en því, að geitfé og hreindýr eru tekin inn í frv., þar sem kjötskoðun er eðlileg í samræmi við annað kjöt.

Þá gengur frv. út á það að veita aukið aðhald til þess að gera sláturhúsin betur úr garði. Samkv. gildandi l. er ráðh. heimilt að veita undanþágu frá löggildingu sláturhúsa til eins árs í senn, en í hvert skipti hefur sláturleyfishöfum verið veitt áminning um það, að á næsta hausti þurfi sláturhúsið að vera komið í gott lag, þannig að það geti hlotið löggildingu. Slíkt aðhald hefur ekki verið nægjanlegt, og hefur þetta því gengið þannig árum saman, að það hefur orðið að veita undanþágu ár eftir ár, þó að sláturhúsunum hafi ekki verið komið í lag. Það hefur orðið að gera það, segi ég, vegna þess að annars hefði ekki verið hægt að slátra. En nú er gengið út frá því, að það sé ekki heimilt að veita undanþágu nema tvisvar og verði ekki eftir 2 ár búið að koma sláturhúsunum í lag, verði þeim lokað. Þetta virðist vera eðlilegt og sjálfsagt ákvæði, því að það verður vitanlega að stefna að því að gera sláturhúsin þannig úr garði, að þau svari þeim kröfum, sem eðlilegar eru um hreinlæti og meðferð sláturafurðanna.

Þá er einnig samkv. 6. gr. gert ráð fyrir því, að það sé alveg útilokað að flytja sjálfdauðar skepnur inn í sláturhús, en það hefur verið heimilt samkv. gildandi lögum. Það sýnist ekki vera ástæða til þess vegna þess, að kjöt af sjálfdauðum skepnum er áreiðanlega sjaldan notað til manneldis og ætti vitanlega aldrei að nota til manneldis, og þetta er ekki til annars en þess að bjóða hættunni heim, að vera að fara með inn í sláturhús skepnur, sem hafa orðið sjálfdauðar, ef til vill af smitandi sjúkdómi.

Þá er einnig gert ráð fyrir því að banna brottflutning á lifandi fénaði, sem á annað borð er

kominn inn í sláturhúsrétt. Það virðist vera nauðsynlegt að setja þetta ákvæði í lög. Það er m, a. til þess að girða fyrir yfirtroðslur á fyrirmælum um sauðfjárveikivarnir, enda virðist sem kaup á líflömbum úr réttum láturhúsa séu með öllu óþörf, og reynslan hefur reyndar sýnt, að þetta getur verið varhugavert.

Ákvæði 7. og 8. gr. eru að mestu í samræmi við gildandi lög, að því undanskildu, að það er skotið inn heimild til að taka upp mat á gærum, sem er talið eðlilegt að gert verði.

9., 10. og 11. gr. fjalla um kjötmatsmenn. Það er gert ráð fyrir að fjölga um ein yfirkjötmatsmann, og það þykir einnig eðlilegt, að laun yfirkjötmatsmanna séu ákveðin í reglugerð af ráðherra.

11. og 12. gr. núgildandi laga verða felldar niður, en í staðinn kemur 12. gr. frv., þar sem ákvæði hinna gömlu greina eru nána skýrð.

Það hefur á undanförnum árum verið allmikið að því gert að flytja kjöt og sláturafurðir um langan veg ófrosið frá sláturhúsunum á markaðsstaði eða til frystihúsa. Þetta getur heppnazt og tekizt vel, ef rétt er að öllu farið, og í kuldatíð á þetta ekki að koma að sök, en það er vitað, að það þarf mikla a gæzlu og hreinlæti, ef þetta á ekki að koma a sök. Þess vegna er tekin inn í frv. heimild til þess að skoða sláturafurðirnar aftur, eftir a þær eru komnar á markaðsstað, ef yfirdýralæknir og heilbrigðisnefnd á viðkomandi stað óska eftir því. Þykir eðlilegt að taka þetta í lög, þar sem borið hefur á því áður, að þetta hefur komið að sök, þótt sem betur fer sé í litlum mæli.

Þá er ákvæði í frv., sem nemur úr gildi bráðabirgðaákvæði frá 1949 um það að heimila heimaslátrun, en heimaslátrun á stórgripum hefur verið samkv. þessu bráðabirgðaákvæði síðan 1949, og bændur hafa margir sótzt eftir því að hafa þessa heimild, talað um, að þeir hafi sparað sér kostnað með því að vera lausir við að flytja lifandi gripi á sláturstað. Þetta má vera. En áreiðanlegt er, að þótt margir bændur hafi aðstöðu til þess að slátra þannig, að kjötið sé forsvaranlega úr garði gert, þá eru að margir, sem vantar bæði vinnukraft og kunnáttumenn, til þess að svo megi vera. Og það eru mörg dæmi þess, að kjöt af heimaslátruðu hefur verið fellt í verði, og þá er hagnaðurinn, em bændur hafa af því að slátra heima, orðinn lítill og áreiðanlega enginn. Það þykir rétt að afnema þetta ákvæði, og er það þá í samræmi við þá stefnu, sem í þessu frv. er í heild, þ.e. að auka hreinlæti, auka vöruvöndun og koma til móts við kröfur neytenda um aukin vörugæði, eftir því sem unnt er. Þetta er vitanlega rétt stefna. Þetta er stefna, sem framleiðendur og neytendur hljóta að geta verið sammála um Framleiðendur vilja fá sem mest fyrir sína vöru og framleiðendur vilja áreiðanlega flestir anda sína vöru og hafa hana þannig úr garði gerða, þegar hún kemur í hendur neytandans, að hún sé boðleg. Og þetta snertir ekki aðeins innlenda markaðinn, heldur einnig og ekki síður erlenda markaðinn, þar sem við höfum undanfarin ár flutt á erlendan markað ýmsar sláturafurðir og stefnum að því, að það geti orðið í auknum mæli.

Það, sem þetta frv. felur í sér, er því að bæta úr þeim ágöllum, sem eru á gildandi lögum um slátrun og meðferð sláturafurða, miðar að því að auka hreinlæti og vöruvöndun og uppfylla sanngjarnar kröfur um það.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.