15.03.1966
Neðri deild: 55. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

142. mál, ferðamál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er breyt. á l. um ferðamál, nr. 29 20. apríl 1964. Með frv. er lagt til, að í stað orðanna „allt að 20 millj. kr.“ í 2. mgr. 27. gr. l. komi : allt að 40 millj. kr. Samkv. núgildandi l. er ríkisábyrgðarheimild og lántökuheimild fyrir 20 millj. kr., en lán hefur verið tekið að upphæð 13 millj. Ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að útvega ferðamálasjóði 10 millj. kr. á þessu ári, og vantar þá 3 millj. kr. til þess, að lántökuheimildin, sem nú er í gildi, nægi. Þar sem vitað er, að nauðsyn ber til að halda áfram að afla ferðamálasjóði fjár, þykir eðlilegt að hækka heimildina að þessu sinni upp í 40 millj. kr., þannig að það gangi þá af 17 millj. kr. frá því, sem notað verður á þessu ári.

Síðan lög um ferðamál. ferðamálaráð og ferðamálasjóð tóku gildi 1964, hefur ferðamálaráð starfað og úthlutað lánum, eftir því sem fé hefur verið til. Úthlutað hefur verið lánum að upphæð 11 millj. 370 þús. kr. af þeim 7.3 millj., sem teknar hafa verið að láni. Lánin hafa verið veitt til margra aðila, og þótt ekki sé um hærri upphæð að ræða en þetta, er vitað, að það hefur komið sér vel og orðið til þess að bæta úr móttökuskilyrðum fyrir ferðamenn víðs vegar um landið. En margar umsóknir liggja fyrir hjá ferðamálaráði til úrlausnar, sem ekki hefur enn verið unnt að sinna. Og það er vitað, að verkefnin eru mörg. Það er víða. sem þarf að bæta úr gistihúsaskorti útí um land. og bað er víða, sem þarf að bæta skilyrði til veitinga og greiðasölu. Og þetta er því meiri nauðsyn sem ferðamannastraumurinn verður nú meiri með hverju árinu sem líður. Ferðamálaráð gerir till. til samgmrn. um það, hverjum skuli veita lánin, og hefur enn sem komið er verið farið alveg eftir till. ráðsins. Búnaðarbankinn hefur vörzlu ferðamálasjóðs og kynnir sér veðhæfi fyrir lánunum, og á að vera tryggt, að ekki sé lánað nema gegn tryggu veði.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð að þessu sinni fleiri um þetta frv., en vænti þess, að það fái greiða leið gegnum hv. Alþingi.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgmn.