13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, fjárlög 1966

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Að þessu sinni eru það ekki margar brtt., sem liggja hér fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Því sýnist mér, að það muni veitast hv. þm. auðvelt að samþykkja þær fáu till., sem fram eru bornar, og vænti ég, að svo muni fara um þá brtt., sem ég flyt á þskj. 166 undir II. lið rómverskum.

Till. þessi fjallar um það að veita 250 þús. kr. til ferjubryggju í Búðardal. En þar er nú gömul bryggja, sem er algerlega ónothæf, og kemur það sér oft og tíðum afar illa. Ef til vill eru möguleikar á því að endurbyggja og lengja þessa gömlu bryggju, sem til er, eða þau brot, sem til eru af henni, eða þá að byggja nýja bryggju annars staðar, ef það sýnir sig að vera hagfelldara. En þessi mál eru nú í athugun hjá vitamálastjóra, og koma væntanlega till. frá honum innan tíðar um niðurstöður í þessu máli.

Á næsta ári, í ársbyrjun, tekur til starfa nýr flóabátur á Breiðafirði, og telur skipstjóri þess báts höfuðnauðsyn á, að nothæf bryggja verði til í Búðardal. svo að rekstur flóabátsins verði betri en ella kann að verða. En í skýrslu þeirri, sem skipstjórinn sendi Alþingi, stendur m.a., með leyfi forseta:

„Jafnframt viljum vér vekja athygli á því, að bryggjan í Búðardal er algerlega ónýt og verður að endurbyggjast strax, ef báturinn á ekki að tapa mjög miklu flutningamagni á komandi ári. Við samningu meðfylgjandi rekstraráætlunar bátsins höfum við reiknað með nothæfri bryggju í Búðardal.“

Hér er því ekki eingöngu um hagsmunamál þeirra, sem hafa viðskipti við Búðardal, að ræða, heldur og allra þeirra, sem standa að flóabátnum, þessum Breiðafjarðarflóabát, sem kemur á næsta ári.

Verði till. mín samþ., sparar hún annars vegar rekstrarfé til flóabátsins á komandi árum, með því að báturinn geti í staðinn fengið aukið flutningamagn til Búðardals, sem hann fær ekki, ef ekki verður þar neitt úr hafnargerð eða endurbótum á þeirri bryggju, sem fyrir er. En þungavöruflutningar til Búðardals hafa oft og tíðum komið sér vel og voru mikið notaðir, meðan höfnin var í sæmilegu standi og bátar gátu athafnað sig við hana, því að Brattabrekka getur lokað leiðum til Búðardals, eða í Dalina, ekki sízt á vorin, þegar vegir eru mjög slæmir vegna aurs og bleytu. Þá standa yfir þýðingarmiklir flutningar fyrir sveitirnar, þ. e. áburðarflutningar. Vegunum er oft einmitt um þetta leyti á vorin lokað, og veldur það miklum skaða fyrir bændur að geta ekki fengið áburðinn á tilsettum og heppilegum tíma, og getur það haft sitt að segja varðandi heyöflun á sumrin. En þessa höfum við orðið nokkurs varir, Dalamenn, á undanförnum árum.

Þess má og geta í sambandi við flóabátinn, að sýslufélag Dalasýslu og bæði kaupfélögin í sýslunni hafa lagt fram stofnfé til flóabátsbyggingarinnar, og var stofnfjárframlag ríkisins til flóabátsins við það miðað, að þátttaka yrði almenn, eins og líka varð, á því svæði, sem báturinn á að fara um. Það er ekki nóg að skylda menn til að leggja fram hlut til bátakaupa, ef ekki er aðstaða fyrir bátana að veita þá þjónustu, sem þeir, sem fjármagnið láta af hendi, ætlast til að fá í staðinn. En með till. minni fellur saman, ef hún verður samþ., góð rekstrar afkoma flóabátsins og væntanlega miklu minni útgjöld ríkisins á næstu árum til rekstrar bátsins en ella yrði og í þriðja lagi hagsmunir hlutaðeigandi byggðarlaga, sem eru þegar búin að leggja fram fjármagn í trausti þess að geta notið góðs af þeirri starfsemi sem þarna á fram að fara.

Till. mín, ef samþ. verður, mun létta undir með flóabátnum, ríkissjóði og hlutaðeigandi sýslufélögum, eins og ég hef þegar drepið á.

Hér er árlega varið nokkrum hundruðum þús. í ferjubryggjur, og ekki er hægt að segja, að það hafi fallið mikið í hlut Dalamanna til hafnarmála þeirra á undanförnum árum, nema síður sé. Ég vænti því fremur, þar sem hér er um lítilræði að ræða, að till. þessi nái samþykki.

Þess vil ég að lokum geta, að hæstv. sjútvmrh. er mjög hlynntur þeirri hafnarbót, sem hér um ræðir, og veit ég, að hæstv. ráðh. gerir sitt bezta til að þoka þessu máli áleiðis, svo að ekki sé algerlega útilokað fyrir Dalamenn að nota Breiðafjarðarbátinn við þungavöruflutning til Búðardals.

Herra forseti. Ég mun ekki að þessu sinni ræða till. þessa nánar, nema tilefni gefist til. En ég vænti stuðnings hv. alþm. við till. þessa.