12.04.1966
Efri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

182. mál, síldarleitarskip

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Fyrir þjóð, sem byggir afkomu sína að meginhluta á fiskveiðum, verður a teljast bæði nauðsynlegt og sjálfsagt, að lagt sé í töluverðan kostnað vegna vísindaleg a rannsókna á öllu lífi í hafinu umhverfis landið. Á þessum vettvangi sem svo víða annars staðar skortir okkur um langt skeið vel menntað og þjálfað starfslið. Nú hefur málum svo skipazt, að álitlegur fjöldi karla og kvenna hefur helgað fiskifræðinni og fiskirannsóknum starfskrafta sína, þótt enn væri þörf fyrir fleiri. Telja verður einnig, að aðbúnaður þessarar þjóðar nauðsynlegu starfsemi í landi hafi nú verið sæmilega tryggður með hinni fullkomnu og glæsilegu byggingu að Skúlagötu 4 hér í borg. Því miður verður það sama ekki sagt um fiskirannsóknirnar á sjálfu hafinu, en með sérstökum velvilja landhelgisgæzlunnar og starfsfólks hennar hefur verið stuðzt við afnot af skipum gæzlunnar til brýnustu rannsóknarstarfa undanfarin ár. Hefur nánast gegnt furðu, hver árangur hefur af því starfi orðið, þegar hliðsjón er af því höfð, að skipin eru hugsuð og byggð til allt annarra og óskyldra starfa og sum þeirra nú komin allverulega til ára sinna.

Til úrbóta á þessum vanda hefur nú m langt skeið verið unnið að undirbúningi að útboði á smíði sérstaks hafrannsóknarskips, g hefur samkv. ákvæðum í l. um útflutningsgjald safnazt nokkurt fé til smíðinnar, og mun smíðin nú boðin út á allra næstu vikum. Með tilkomu þessa skips verður að vænta þess, að náðst hafi einn stærsti áfangi í fiski- og hafrannsóknarmálum á Íslandi. En þrátt fyrir umrædda framþróun þessara mála hefur mönnum verið ljós nauðsyn þess, að meira yrði að gert. Af þeim, sem kunnugastir eru þessum málum, er fullyrt, að þrátt fyrir tilkomu fiski- og hafrannsóknarskips mundi þörfum síldarflotans fyrr síldarleit ekki verða fullnægt, þar sem slík skip gætu ekki bundið sig þeim störfum í jafnlangan tíma ársins og síldveiðar eru nú stundaðar.

Fengin er 13 ára reynsla af skipulagðri síldarleit, en hún hófst árið 1954. Samkv. þeirri reynslu, sem þegar er fengin, mun enginn draga í efa þörfina fyrir áframhaldandi síldarleit. Þróun síldveiðanna á s.l. árum styður þessar niðurstöður manna e.t.v. gleggst og sannar, svo að vart verður um villzt, að brýn þörf er fyrir síldarleit á stærri svæðum en fyrr og nú samfellt allt árið um kring. Samkv. aflaskýrslum síðustu ára hefur orðið slík gerbreyting á afla landsmanna á s.l. 7 árum, að byltingu nálgast. Á 10—15 árum fyrir árið 1959 var bolfiskaflinn, þorskur, ýsa og hliðstæðar tegundir, aðaluppistaða í afla landsmanna. Á því ári aflast hins vegar 183 þús. tonn af síld. En að magn lækkar örlítið árið eftir, niður í 135 þús. tonn, en vex síðan jafnt og þétt til s.l. árs upp í 801 þús. tonn. Fram skal þó tekið, að í umræddum tölum er einnig loðnuafli. Til þess að gera sér ljósa grein fyrir þeirri gerbreytingu, sem á sér stað á þessum árum, skal þess getið, að hlutdeild síldarafla í heildaraflamagni ársins 1959 er 32.3% á móti 67.2% þorskafla. Á s.l. ári snýst þetta hlutfall svo gersamlega við, að þá er síldarafli og loðna orðin 68.8% af heildaraflamagninu, en þorskaflinn 30.9%. Til enn frekari skýringar skal þess getið, sem varpar skýru ljósi á vandamál togaraútgerðarinnar sérstaklega, að á árinu 1959 er þorskafli á vélbátum 225 þús. lestir, en á sama ári er allur afli togaranna 156 þús. lestir. Þrem árum síðar, eða árið 1962, hefur þorskafli vélbátanna aukizt upp í 300 þús. lestir, en afli togaranna lækkað niður í 50 þús. lestir. Hina stórfelldu aukningu síldaraflans í útflutningsverðmæti þjóðarinnar þakka skipstjórnarmenn og sjómenn almennt hinni stórauknu tækni, sem orðið hefur með stækkun skipanna og öllum búnaði þeirra. Þannig fæst nú með tilkomu nýrri og betri veiðitækja og veiðarfæra veiði, sem fyrir örfáum árum hefði verið útilokað að ná. Auk þessa hefur burðarmagn og veiðihæfni skipanna verið margfaldað með tilkomu 240—360 lesta veiðiskipanna s.l. ár, og vald skipstjórnarmanna á hinni nýju tækni hefur aukizt og þróazt jafnt og þétt. Í landi hafa bræðsluafköst síldarverksmiðjanna á árunum 1958—1965 aukizt úr 70840 málum á sólarhring í 120250 mál á sólarhring. Þrátt fyrir tiltölulega þröng veiðisvæði og að síldin hefur staðið djúpt, eins og sjómenn segja, hefur hin nýja tækni bætt veiðiaðstöðu skipanna til stórra muna, en á sama árabili hefur þróarrými verksmiðjanna einnig aukizt úr 400 þús. málum í 700 þús. mál. Á margnefndu árabili eykst heildarafli landsmanna úr 400 þús. smál. í 1 millj. 90 þús. smál. á s.l. ári þrátt fyrir minnkandi bolfisksveiðar. Þessi rúmlega tvöföldun aflamagnsins á 7 árum er því óvefengjanlega öflugum síldargöngum og stórlega bættum aðstæðum við veiði og vinnslu aflans í landi að þakka.

Þrátt fyrir framangreindar staðreyndir mundu allir, sem þekkja vel til á þessum veiðum, vilja bæta enn einu atriði inn í forsendurnar fyrir hinum mikla síldarafla, en það er sú ómetanlega aðstoð, sem síldarleitin á sjó hefur veitt veiðiflotanum. Þar hafa margir aflamenn átt hlut að giftudrjúgum árangri. Ég hygg, að á engan verði hallað, þótt viðurkennt sé, að kunnasta nafnið í þeim hópi manna sé nafn Jakobs Jakobssonar fiskifræðings. Tilkoma þessa frv. er í senn viðurkenning á brýnni þörf síldarleitarinnar, byggt á órækri reynslu af störfum hennar s.l. 13 ár, og því um leið viðurkenning á starfi þeirra einstaklinga, er að leitinni hafa unnið á þessum tíma. Skal nú í sem stytztu máli rakin forsaga frv., sem um leið skýrir efni þess.

Jakob Jakobsson fiskifræðingur reit sjútvmrn. bréf hinn 8. sept. s.l. og fór fram á það við rn., að það heimilaði smíði nýs leitarskips þegar á árinu 1966. Í framhaldi af því áttu sér stað bréfaskipti og viðræður milli sjútvmrn. og Jakobs Jakobssonar fiskifræðings um smíði síldarleitarskips. Fól rn. Jakob að gera athugun og um leið leita tilboða um smíði á slíku skipi. Óskaði rn. eftir upplýsingum um kostnað, þ.e. sundurliðað verðtilboð, svo og afgreiðslufrest og að kannaðir yrðu möguleikar á að fá till. að fyrirkomulagsteikningum af slíku skipi. Þá er að geta þess, að á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem haldinn var í Reykjavík dagana 25.—27. nóv. s.l., skýrði ég frá þessari málaleitan Jakobs í ræðu á fundinum, en það var í lok fundarins í tilefni af till. um smíði síldarleitarskips, en till. var svo hljóðandi:

„Fundurinn bendir á, að starfsaðstaða Jakobs Jakobssonar fiskifræðings við stjórn síldarleitarinnar er á engan hátt viðunandi vegna vöntunar á hentugu skipi. Þar sem ekki liggur fyrir, að hið opinbera hafi tryggt fé til kaupa á hentugu síldarleitarskipi, samþykkir fundurinn að fela stjórn samtakanna að vinna að því, að fjár verði aflað til kaupa á nýju skipi, sem afhent verði hinu opinbera til rekstrar. Skipið verði byggt eftir fyrirsögn Jakobs Jakobssonar, fjárins verði aflað með því, að tekið verði 1/4% af aflaverðmæti síldveiðiflotans og kaupendur síldarinnar greiði jafnhátt framlag og útvegsmenn og sjómenn. Fundurinn felur stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna að vinna að því að fá samstöðu hjá samtökum sjómanna og síldarkaupenda um þetta mál, og að því fengnu óski hún eftir því við ríkisstj. og Alþ., að lög verði sett um innheimtu á andvirði skipsins, en það gjald standi þó eigi lengur en þar til kaupverð skipsins er að fullu greitt. Miðað við, að síldarleitarskipið kosti um 30 millj.“, — ég skal skjóta því hér inn í, að nú er talið nokkuð ljóst, að slíkt skip muni vart fáanlegt með öllum nauðsynlegum búnaði undir 35—40 millj. kr., — „og aflabrögð verði ekki lakari en 2 s.l. sumur, mundi skipið verða greitt að fullu á 7—8 árum.“ — En þetta er miðað við 30 millj. kr. verð. „Með þessari samþykkt vill aðalfundur Landssambands ísl. útvegsmanna sýna í verki viðurkenningu á frábæru starfi Jakobs Jakobssonar við síldarleitina.“ Með því að till. þessi, er samþ. var á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, gerir ráð fyrir, að bæði sjómenn og síldarkaupendur taki þátt í greiðslu síldarleitarskipsins, sendi stjórn Landssambandsins till. til umsagnar hinum ýmsu hagsmunasamtökum þeirra. Svar barst frá sex samtökum ag mæltu fimm með efni till., en aðeins ein voru á móti. Eftir að bréfaskriftir höfðu farið fram á milli Landssambands ísl. útvegsmanna og sjútvmrn. um mál þetta, skipaði sjútvmrh. hinn 25. marz s.l. 5 menn í n., er hafa skyldi það hlutverk að taka ákvarðanir um smíði og kaup á síldarleitarskipi og semja uppkast að frv. til l. um innheimtu 1/4 % gjalds af aflaverðmæti síldveiðiflotans ásamt jafnháu gjaldi frá kaupendum síldarinnar. Í n. eiga sæti m.a. þrír menn tilnefndir af Landssambandi ísl. útvegsmanna, þar af einn tilnefndur af samtökum sjómanna og annar af síldarkaupendum. Í n. á einnig sæti Jakob Jakobsson fiskifræðingur, sem kjörinn var formaður nefndarinnar.

Eins og áður segir, fól sjútvmrh. Jakob Jakobssyni í nóv. s.l. að rannsaka möguleika á smíði síldarleitarskips og fá verðtilboð og fyrirkomulagsteikningar af því. Jakob hefur síðar unnið að þessu máli og aflað upplýsinga. N. sú, sem fyrr er frá greint og skipuð var hinn 25. marz s.l. af sjútvmrh., hefur nú tekið við öllum upplýsingum, sem Jakob Jakobsson hefur aflað, og heldur áfram starfinu. Nefndin hefur og samið lagafrv. það, sem hér er nú til umr. Sú viðurkenning, sem felst í því, að sex hagsmunasamtök, sem til var leitað, fallast á og óska beinlínis eftir að greiða það gjald, sem felst í 3. gr. frv., á sér áreiðanlega fáar hliðstæður. Eigi að síður er það staðreynd í þessu máli og ætti að auðvelda framgang þess.

Umfram þær skýringar, sem ég nú hef gefið, leyfi ég mér, herra forseti, að vísa til grg. frv. um efni hinna einstöku greina þess, en tel að öðru leyti óþarft að ræða þær, svo skýrar sem þær eru og efni þeirra augljóst.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.