09.11.1965
Neðri deild: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

3. mál, lántaka vegna vega- og flugvallargerða

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út á s.l. sumri til þess að afla lántökuheimildar annars vegar til vega og flugvallargerða á Vestfjörðum og hins vegar til Keflavíkurvegar eða Reykjanesbrautar. Ástæðan til þess, að nauðsynlegt þótti að gefa út þessi brbl., var sú, að það kom í ljós við nánari athugun, að fyrir vegafé því, sem gert hafði þegar verið ráð fyrir í vegáætlun og átti að koma af láni því, sem tekið var hjá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins til samgöngubóta á Vestfjörðum, fyrir þessari lántöku skorti lántökuheimild. Framkvæmdabankinn tók lánið og hafði að sjálfsögðu heimild til þess samkv. sinum lögum og lánaheimildum, sem hann hefur. en hins vegar vantaði heimild fyrir ríkissjóð til þess að taka lánið aftur og hagnýta það á þennan hátt. Heimildin til hagnýtingarinnar var að vísu fyrir hendi, svo sem hv. þm. er kunnugt, í sambandi við vegáætlunina. Þar var búið að gera ráð fyrir, að heimilt væri að vinna fyrir þetta fé. En lántökuheimildina skorti.

Það þótti rétt samhliða þessu að afla heimildar til þess að taka lán vegna Reykjanesbrautar. Það hafði verið gert ráð fyrir lagningu þess vegar, þannig að hér var ekki um að ræða, að væri verið að framkvæma neitt það, sem hv. Alþ. var ekki fullkunnugt um og þar hafði ekki verið samþ., en það hefur verið tekið allmikið af bráðabirgðalánum, sem vegagerðin hafði tekið hjá verktökum, og var að sjálfsögðu óumflýjanlegt að fá þessum lánum breytt í fast lán, svo sem þegar hefur verið gerð grein fyrir í umr. um það mál. En lántökuheimild skortir einnig til þess, að ríkissjóður gæti tekið slíkt lán.

Nú skal það tekið fram til skýringar á þessu máli, að það kann að þykja einkennilegt, að þessi lántökuheimild hefur enn ekki verið notuð nema að því er varðar Vestfjarðalánin, og mætti þá segja sem svo, að það hafi þá ekki legið á að afla þessarar heimildar hér. En ástæðan fyrir því, að heimildin hefur ekki verið notuð enn þá, er eingöngu sú, að það hefur ekki enn þá tekizt að fá samkomulag um þann lánstíma á þessum lánum, sem nauðsynlegt er að fá, til þess að hægt sé að rísa undir þeim með eðlilegum hætti, og gert er ráð fyrir í sambandi við þá fjáröflun vegna Reykjanesbrautar, sem gerð hefur verið áætlun um. Þetta er orsök þess, að enn þá er ónotuð þessi heimild, sem varðar Reykjanesbraut.

Ég sé ekki ástæðu til frekari umr. um málið. herra forseti, nema tilefni gefist til. Það er að sjálfsögðu hægt fyrir þá hv. n., sem fær málið til meðferðar, að fá sundurliðun á því, hvernig þetta fé hefur verið notað í sambandi við Vestfjarðaáætlunina, en það er í samræmi við þá ráðstöfun, sem er gert ráð fyrir í því efni í vegáætlun, hvað varðar vegina. Lánið í flugvellina er einnig hægt að fá að sjálfsögðu sundurliðað. En þeim hluta fjárins, sem á að fara til hafnargerða, er ekki nauðsynlegt að fá sérstaka lántökuheimild fyrir, vegna þess að það er hægt að nota þær heimildir, sem felast í hafnalögum.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.