19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Frsm. 2. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er eins og bergmál till.. sem Framsfl. hefur lagt fram á hv. Alþ. á síðustu árum, en því miður of veikt bergmál samt. Till. framsóknarmanna hafa verið um það, að sett skyldi á fót stofnun, jafnvægissjóður, er hefði það hlutverk að vinna að því, að björgulegar byggðir legðust ekki í auðn eða að svo margt fólk flyttist þaðan, að hinir, sem eftir sitja, njóti sín ekki, og þá um leið gegn því, að þéttbýlasta svæði landsins, höfuðborgarsvæðið, ofhlæðist af fólki með svo örum hætti, að til vandræða leiddi líka þar, og landið í heild yrði illa setið og illa hagnýtt gæði þess.

Mjög ýtarleg rök í tölum um þessa öfugþróun komu fram hjá hv. 4. þm. Austf., Páli Þorsteinssyni, í ræðu, sem hann flutti við 1. umr. málsins hér í þessari hv. deild. Þær tölur voru bæði um mannfjöldabreytingarnar í landinn að undanförnu og framleiðslumagn á landsbyggðinni annars vegar og þéttbýlissvæðinu hins vegar. Til þessa rökstuðnings leyfi ég mér að vitna án þess að endurtaka hann.

Yfir jafnvægissjóði höfum við framsóknarmenn viljað, að réði jafnvægisnefnd, sem væri leiðandi kraftur í jafnvægismálum, væri beinlínis falið að vera sá kraftur. Til hennar gætu áhuga- og forustumenn byggðarlaga snúið sér, fengið aðstoð hennar, þegar þeir leituðu samtaka við þjóðfélagið til að hindra öfugþróunina, sem hefur verið eins og sjálfvirkt afl að verki, ósýnilegt að vísu, eins og draugar eru löngum, en skemmdarverkin sýnileg og raunhæf.

Jafnvægisnefndin, eins og framsóknarmenn hafa viljað setja hana upp og búa henni skilyrði til athafna með fé og fyrirmælum laga, er hugsuð til að vera eins og Velvakandi var meðal bræðra sinna í þjóðsögunni gömlu, sem allir kannast við, vaka og vekja bræður sína: Velhaldanda. Velhöggvanda, Velsporrekjanda og Velbergklífanda, þegar og þar sem þarf að takast á við tröllið.

Meiri hluti Alþingis hefur ekki viljað fallast á till. okkar. Meiri hl. svæði þær eða felldi þær með þeim rökstuðningi, að þær væru óþarfar, benti í því sambandi á, að til sé atvinnubótasjóður, en vanrækti hins vegar þann sjóð skemmilega með því að lækka til hans framlög í krónutali auk hinnar miklu lækkunar vegna krónurýrnunarinnar á sama tíma.

Árið 1957 var framlag ríkisins, sem er hliðstætt framlaginu, sem veitt hefur verið til atvinnubótasjóðs, síðan hann var stofnaður, en kallaðist þá ..til atvinnuaukningar.“ 15 milli. kr. Núverandi hæstv. ríkisstj. lækkaði þetta framlag og hafði það ár eftir ár 10 millj. kr. Á þessu ári eru það 15 millj., og allir vita, að sú fjárhæð er miklu minna virði en sama krónutala var 1957. Það má telja með tilliti til kostnaðar við mannvirkjagerð, að 15 millj. 1957 hafi jafngilt þá því, sem nálega 40 millj. gilda nú. Í þessu liggur augljóslega reginmunur.

En nú er að komið fram frá hæstv. ríkisstj. þetta frv., sem hér er til umr. um atvinnujöfnunarsjóð, og er í því, eins og ég sagði áðan, ofurlítið bergmál af till., sem framsóknarmenn hafa flutt á undanförnum árum. Það er sjálfsagt að taka undir og reyna um leið að efla það, a. m k. þar sem það er á réttum nótum. En bergmálið er allt of veikt.

Það, sem mér þykir fyrst og fremst að frv., er, að í það vantar hugarfar Velvakandans, það er í því of mikil aðsjálni í framlögum til jafnvægismálanna. Atvinnujöfnunarsjóður fær skv. frv. allt of lítið fjármagn til þess að anna stórum og mörgum hlutverkum, sem honum eru ætluð, og það er allt of lítil áherzla lögð á það. að stjórn sjóðsins eigi að vera á verði gegn tröllinu, hafa frumkvæði, vekja bræður sína til athafna, en það má segja, að bræðurnir séu fyrst og fremst aðrir stofnlánasjóðir í landinn, og bera í þessum málum fyrir hönd ríkisheildarinnar ábyrgð einmitt sem Velvakandi. Frv. er ekki gert af nógu heilsteyptum áhuga á jafnvægismálum. Við athugun þess finnur maður, að á bak við það stendur klofinn hugur. Inn í það er settur atvinnubótasjóðurinn og hans starfsemi, og þó er framlagi frá ríkinu aðeins ætlað að vera árlegt til 1975. Og af því að það er kallað stofnfé, þá má ætla, að hugsunin, sem þar liggur á bak við, sé sú, að þessu fé eigi ekki að eyða, nema eitthvað mjög brýnt kalli að, því að venjulegt er það, að stofnfé, sem aðgreint er frá tekjum, sé eins konar varafé. Auk þessa framlags, arðsins frá atvinnubótasjóðnum, eru eftirhreytur mótvirðissjóðs og 55 millj. af andvirði óafturkræfra framlaga Bandaríkjastjórnar 1960, er skiptist á fjögur ár. Vitanlega mun þetta stofnfé svo gefa vexti. En auk þessa er svo bara vonin um hlut af skattgreiðslum álbræðslunnar. Og þá sést, hvers vegna hæstv. ríkisstjórn drífur sig til að leggja fram þetta frv. Hún leggur það fram vegna þess, að hún er hrædd við þau verk sín að stofna til álbræðslunnar í Straumsvík, þ.e.a.s. í aðalþéttbýlissvæði landsins. Álbræðslan hlýtur að verða fyrir jafnvægismálin eins og tröllið í þjóðsögunni, sem ég nefndi áðan, í sögunni af Velvakanda og bræðrum hans. Þegar afl þessa trölls bætist við öfugþróunarkraftinn, sem fyrir er, þá þarf meira til aukins átaks og baráttu á móti en þetta frv. gerir ráð fyrir, meiri stjórnunarkraft en frv. mælir fyrir um og miklu meira fjármagn en þar er tryggt til athafna. Tröllið verður ekki sigrað með svona litlu og svona auðveldlega.

Það er með þetta frv. eins og fleiri, sem kastað er inn í þingið nú á síðustu dögum þess, að ekkert ráðrúm er til að laga það eins og þyrfti. Það hefði þurft að vinna það upp að verulegu leyti, stíl þess og innihald, en til þess fæst enginn tími. og verður því að bera fram aðeins brtt. á takmörkuðu sviði og sætta sig að öðru leyti við það, sem telja verður betra en ekkert.

Við framsóknarmenn í fjhn. Ed. höfum skilað áliti á þskj. 505, og vitna ég til þess. Sameiginlega flytur fjhn. brtt. á þskj. 512, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, og teljum við, sem erum í 2. minni hl., þær til bóta og áttum þátt í þeim. Þær eru allar í þá átt að efla Velvakandahlutverk stjórnar atvinnujöfnunarsjóðs, þótt að vísu sé alls ekki svo rækilega sem þurft hefði. Þá flytjum við í 2. minni hl. brtt. á þskj. 506, og vil ég nú fara um þær nokkrum orðum hverja um sig og lesa þær jafnframt upp, með leyfi hæstv. forseta.

Fyrsta brtt. okkar er við 2. málsgr. 1. gr. Hún er ekki stórvægileg, en umorðun til þess að láta þó í það skína, að hlutverk sjóðsins sé eitthvað víðtækara en að styðja og styrkja atvinnulífið, fyrirsögn sjóðsins einhliða um það, og það ætti að breyta henni, að mér virðist, ég kem að því atriði síðar. Það er miklu fleira en atvinnulíf, sem fólk þarfnast, ef það á að una við sitt. Það vill hafa menningarskilyrði margs konar og lífsþægindi, t.d. eins og rafmagn. sem hv. 4 þm. Norðurl. e. minntist á áðan. Það má auðvitað alls ekki vanta fjölbreytt atvinnulíf. En miklu fleira kemur til en það, sem flokka mætti undir orðið atvinnulíf.

Í 6. gr. frv. segir líka, að rannsaka skuli atvinnuástand viðkomandi byggðarlaga og líka ástandið í samgöngumálum og menningarmálum. Það er því í samræmi við það, að við viljum breyta 1. gr. um tilgang sjóðsins, svo að þar standi ekki aðeins, að veita eigi lán og styrki til framkvæmda í þeim landshlutum, þar sem er brýn þörf fjölbreyttara atvinnulífs, heldur atvinnu- og athafnalífs.

Þá finnst mér líka rétt, að fram komi í þessari grein, að staðir þeir, sem stuðning þurfa og stuðning eiga að fá, þurfi að vera björgulegir frá náttúrunnar hendi. Það er ekki ástæða til að spyrna gegn því, að óbjörgulegir staðir verði yfirgefnir.

Brtt. er þannig orðuð:

„Hlutverk atvinnujöfnunarsjóðs er að veita lán og styrki til framkvæmda í þeim landshlutum, þar sem brýn þörf er fjölbreyttara atvinnu og athafnalífs og skilyrði eru til arðbærra framkvæmda, er séu til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og koma í veg fyrir, að björgulegar byggðir eða byggðarhlutar fari í eyði.“

Með þessari umorðun tel ég fyrir mitt leyti, að greinin verði fyllri, þó að henni sé lítið breytt. 2. brtt. er við 3. gr. frv., er fjallar um það, hverjar skuli vera árlegar tekjur atvinnujöfnunarsjóðs, og hún er auðvitað aðalbrtt. okkar. Augljóst er af þessari grein og athugasemdum, sem henni fylgja til skýringar með frv., að höfundar þess hafa fundið til þess, að mikil þörf er á því, að unnið sé á móti aðdráttaraflinu, sem álverksmiðjan hlýtur að skapa, og þeim hefur sýnzt réttmætt að tengja málin þannig saman, að álbræðslan ætti með þeim tekjum, sem áætlað er, að hún gefi þjóðfélaginu með skattgjaldi, að bæta fyrir það, sem hún spillir. Í athugasemdunum segir ríkisstj. orðrétt:

„Eðlilegt þykir, að meginhluti skatttekna af væntanlegri álbræðslu renni til atvinnujöfnunarsjóðs í því skyni að stuðla að eflingu atvinnulífs víðs vegar um landið, til þess að koma í veg fyrir óeðlilegan samdrátt landsbyggðarinnar.“

En þær áætluðu tekjur af álbræðslunni, sem koma fram í grg. eða aths. með frv., eru ekki svo miklar fyrir atvinnujöfnunarsjóð, að honum sé borgið með verkefni sín, og þar að auki eru þessar tekjur vitanlega bara áætlaðar. Hamingjan má vita, hvort það fer ekki um þær eins og draumtekjur eggjakonunnar kunnu.

Skatttekjur þessar eru nefnilega alls ekki fugl í hendi, og þær fara ekki að koma inn, þó að áætlanir rætist, fyrr en 1970, og þegar komið er fram á 1970 eða álbræðslan tekin til starfa, þá er hún búin að hafa stórkostleg áhrif á jafnvægismálin. Þær eru áætlaðar í 3 ár árlega. frá 1970—1972, 11.3 millj., 1973—75 rúmar 17 millj., 1976—1978 36.2 millj., 1979—84 38.7 millj. og 1985—1987 53.9 millj. kr.

Þær tekjur til stofnfjárins, sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir, 15 millj. á ári í 10 ár, falla niður eftir 1975. og þá eru ekki tekjurnar orðnar eftir áætluninni næsta ár nema 36.2 millj. Ef það er borð saman við þær tekjur, sem ríkissjóður lagði til atvinnuaukningar 1957, þá er sú upphæð ekkert meiri en þær 15 millj., miðað við gildi það. sem er í dag, og hver veit, hvað þær verða orðnar miklu minni, ef áfram heldur sú dýrtíðaraukning, sem nú gerist ár frá ári. Og hvernig sem á þetta er litið, þá eru þetta allt of litlar fjárhæðir handa atvinnujöfnunarsjóði, eins og viðhorfin eru. Og okkur virðist sjálfsagt, það sé raunhæfni og skylda Alþingis að tryggja sjóðnum miklu ríflegri tekjur strax á næsta ári og framvegis beint úr ríkissjóði, en ætla ríkissjóðnum aftur á móti skattgjaldstekjur áldraumsins, eftir því sem sá draumur rætist, auðvitað að frádregnu því, sem Hafnarfjarðarkaupstaður og iðnlánasjóður eiga að fá af þeim tekjum, eins og skýrt er frá í umræddri grein. Þó að við leggjum til, að sú grein verði umorðuð, og tökum þar ekkert tillit til Hafnarfjarðar eða iðnlánasjóðs, þá er það ekki af því, að við séum á móti því, að kaupstaðurinn og iðnlánasjóður fái það, sem þarna er gert ráð

fyrir. Það hljóta báðir þeir aðilar að geta fengið eftir öðrum lagastöfum. En við leggjum til, að a-liður 3. gr. um tekjurnar orðist þannig:

„2% af árlegum heildartekjum ríkissjóðs, í fyrsta sinn 1967, og miðist framlagið hvert ár við tekjurnar eins og þær voru áætlaðar skv. fjárlögum næstliðins árs.“

Til þess að gera málin einfaldari, svo að hægt sé að taka upp með fjárlögum hvers árs tillagið til atvinnujöfnunarsjóðs skv. þessari gr., þá teljum við rétt að miða þær við áætlun síðasta árs á undan. Það mætti kannske segja, að nákvæmara væri að miða við reikning ársins, en af því að hann getur varla legið fyrir svo snemma sem gera þarf fjárlög næst á eftir, þá leggjum við þetta til. Ef þetta fyrirkomulag hefði gilt í ár, árið sem nú er að líða, þá mundu tekjur sjóðsins af a-liðnum hafa orðið um 70 millj. kr., en 1967 mundu þær verða 75 millj. kr. vegna dýrtíðarhækkunarinnar, þ.e.a.s. hækkunar fjárl., enda verður sjóðnum vegna hlutverka sinna nauðsynlegt, að tekjur hans fari hækkandi með hækkandi dýrtíð.

Ég vil taka fram í sambandi við þskj. 504, brtt. frá Birni Jónssyni, að verði þessi till. okkar ekki samþ., þá munum við að sjálfsögðu styðja b-lið till. hans, sem gengur alveg í sömu átt, en skemmra að fjárhæð.

3. till. er við 6. gr. Hún er í tvennu lagi, a og b. Um a-liðinn er það að segja, að hann er nánast leiðrétting, mætti kannske kalla hann málfegrun, og mundi alls ekki hafa verið flutt sú till. af okkur, nema af því að við fluttum hrtt. við gr. og létum þá þessa fljóta með. Annars er þarna um þá leiðréttingu í framsetningu að ræða, sem ég efast ekki um, að hver kennari mundi heimta af nemanda sínum. Og mér finnst, að þegar hægt er að koma því við, þá sé áriðandi, að Alþ, leggi kapp á það að vanda málfar sitt. Þar stendur í frv. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þessum rannsóknum skal reisa áætlanir um framkvæmdir, er að dómi sjóðsstjórnar beri helzt að styrkja með lánveitingum eða styrkjum.“

„Að styrkja með styrkjum“ er nokkuð flatt málfar.

En b-liður brtt. við 6. gr. er fluttur til að gera felumynd að glöggri mynd, því að ekki eiga felumyndir heima í lögum.

Í frv. stendur: „Atvinnujöfnunarsjóði er heimilt að taka lán hjá framkvæmdasjóði ríkisins, ef eigið fé sjóðsins nægir eigi til viðbótar lánveitingum annarra stofnsjóða til þess að stuðla að framgangi framkvæmdaáætlana skv. þessari grein.“

Þetta hefur vafizt fyrir mörgum að skilja fullkomlega, en ég held, að það verði alveg skiljanlegt og komi fram eins og ætlazt er til með því að orða það svona:

„Atvinnujöfnunarsjóði er heimilt að taka lán hjá framkvæmdasjóði ríkisins, ef hann skortir eigið fé, sem nauðsyn krefur, til viðbótar lánveitingum annarra stofnlánasjóða, til þess að stuðla að framgangi framkvæmdaáætlana skv. þessari grein.“

En um leið og orðalagið er gert skiljanlegra, þá er leiðrétt orðið stofnsjóður, sem án efa á að vera stofnlánasjóður, því að stofnsjóðir eru allt annað eftir venjum málsins heldur en stofnlánasjóðir. En hér hlýtur að vera átt við stofnlánasjóðinn, sem gert er ráð fyrir að veiti til sömu framkvæmda og atvinnujöfnunarsjóðurinn útvegar eða lánar fé til í ofanálag. Það er gert ráð fyrir, eins og eðlilegt er, í sambandi við þessa löggjöf, að stofnlánasjóðirnir vinni sín hlutverk, en atvinnujöfnunarsjóðurinn komi á eftir til þess að bæta við því, sem á skortir, að stofnlánasjóðirnir veiti nægilega hjálp í þessum efnum. Engin ástæða er til annars en að fullnýta stofnlánasjóðina.

Þá má segja, að í frv. sé nokkuð hart að orði kveðið, þar sem segir: „Lánsfé má að sjálfsögðu eingöngu verja til framkvæmda, er örugglega tryggja endurgreiðslu lánsfjárins.“ Hver getur ábyrgzt það, að endurgreiðsla sé örugglega tryggð? Ég viðurkenni alveg réttmæta þá hugsun, sem þarna liggur á bak við, að það fé, sem atvinnujöfnunarsjóður tekur að láni til þess að endurlána, sé tryggt, svo sem sanngjarnt er, og sérstaklega líka lánað til þeirra framkvæmda, sem fela í sér tryggingu með því að vera líklegar til að standa straum af lánunum. En ég held, að það sé betra að orða þetta ofurlítið mýkra og eðlilegar, og till. okkar er því á þá leið, að þar standi: „Lánsfé má sjóðurinn eingöngu verja til framkvæmda, sem að mati stjórnar hans tryggja vel endurgreiðslu.“ Ég veit, að þar er það sama sagt og hefur átt að segja, en þetta orkar síður tvímælis.

Þá vil ég aðeins benda á það, að í gr. var ákaflega löng innskotssetning, sem þvældist við fyrsta lestur fyrir fjhn. og tafði fyrir skilningi á efninu. Við höfum afmarkað þessa löngu setningu, sem er í sjálfu sér ágæt, afmarkað hana með strikum, svo að hún ætti ekki að þurfa að vefjast fyrir í lestri. Þetta er nú bara gert í leiðinni, af því að farið var á annað borð að hreyfa við greininni.

Síðasta till., 4. till., er um, að aftan við frv. komi ákvæði til brb. Stofnunum, sem binda sig við stórar og yfirgripsmiklar áætlanir, sem hafa sem undanfara mjög formlegar og víðtækar rannsóknir, þeim hættir við að þurfa langan tíma til athafna sinna og ákvarðana, og má telja það raunar eðlilegt. Ég lasta það alls ekki. Rækilegar rannsóknir eru nauðsynlegar. En skyndiathafnir geta líka verið óhjákvæmilegar. Þegar hús er að brenna, þá má ekki bíða boða, ef bjarga á. Nú vitum við það, að hætt er við, að búferlaflutningsstraumurinn af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins vaxi stórlega og geti orðið jafnvel að flóðbylgju sums staðar, þegar farið verður að reisa álverksmiðjuna, hefjast samtímis handa í Hvalfirði vegna herstöðvar, eins og sagt er að eigi að gera, og virkja hjá Búrfelli, sem auðvitað er nauðsynlegt að gera. Þetta verður þannig, ef ekki verður snöggt og ákveðið gripið til mótvægisaðgerða. Ég er hræddur um, að Efnahagsstofnunin geti orðið lengi með sínar yfirgripsmiklu rannsóknir og áætlanir og að skaði geti orðið skeður, þegar þær liggja loks fyrir. Þess vegna flytjum við hv. 6. þm. Sunnl. bráðabirgðaákvæði um skyndiaðgerðir til að tryggja það, að jafnsnemma verði við brugðið og aðdráttaraflið færist í aukana vegna hinna nýju, stórfelldu athafna á aðalþéttbýlissvæði landsins, og hindrað svo sem unnt er undireins, að þessi viðbótarkraftur raski búsetu fólksins í landinu, þessi viðbótarsogkraftur. Sjálfsagt finnst mér það, að við ákvörðun skyndistuðningsins hafi stjórn sjóðsins og Efnahagsstofnunin samráð við þá aðila, sem í till. eru nefndir, eftir því sem við á, en þeir eru Landnám ríkisins, Búnaðarfélag Íslands, Fiskifélag Íslands og Iðnaðarmálastofnun Íslands, — samráð við þessar stofnanir um úrræði á hverjum stað, eftir því sem þau geta heyrt undir starfssvið stofnananna. Og enn fremur virðist mjög eðlilegt, að þegar í svona skyndiráðstafanir er farið, þá sé unnið alveg sérstaklega með sveitar- og sýslufélögum og þessar stofnanir taki við fjármunum, sem fram eru lagðir, og ráðstafi þeim, að vísu eftir fyrirmælum frá stjórn sjóðsins og eftir því sem samkomulag hefur þá orðið um. Og ég sé ekki betur en til þessara skyndiráðstafana þurfi að heimila stjórn sjóðsins að hafa laust fé til að veita sem styrki. Bráðabirgðaákvæðið hljóðar á þessa leið:

„Stjórn atvinnujöfnunarsjóðs skal þegar eftir gildistöku laga þessara gera með aðstoð Efnahagsstofnunar ríkisins bráðabirgðaáætlun um sérstaka skyndiaðstoð við byggðarlög eða byggðarhluta, sem eru í bráðri hættu fyrir því að fara í eyði eða dragast ört aftur úr því, sem almennt gerist, nema þeim komi stuðningur við aðkallandi framkvæmdir og uppbyggingu afvinnuvega, enda séu þar viðunandi atvinnuskilyrði frá náttúrunnar hendi til lands eða sjávar. Leitað skal, eftir því sem við á og þurfa þykir, álits Landnáms ríkisins, Búnaðarfélags Íslands, Fiskifélags Íslands og Iðnaðarmálastofnunar Íslands um úrræði á hverjum stað. Til framkvæmda bráðabirgðaáætluninni er stjórn sjóðsins heimilt að veita óafturkræf framlög úr sjóðnum allt að þriðjungi tekna hans til ársloka 1968. Framlögin skulu veitt sveitar- og sýslufélögum með fyrirmælum, sem sjóðsstjórnin setur um notkun þeirra.“

Með þessu bráðabirgðaákvæði er ætlazt til þess, að stjórnin fái fyrirmæli um að sofna ekki á verðinum, en hafast strax að, og ég get varla hugsað mér, að þeir, sem annars er annt um, að ekki hljótist slys af skyndilegum aðstæðum 3 jafnvægismálinu, sem ég hef hvað eftir annað nefnt, þeir vilji ekki fallast á svona öryggisákvæði.

Þá er nafnið á sjóðnum — atvinnujöfnunarsjóður. Mér þykir það of einhæft. Að vísu er eitt aðalverkefnið atvinnujöfnun. En verkefnin eru fleiri. Verksviðið er viðtækara. Þess vegna held ég, að jafnvægissjóður sé betra. miklu betra. Enn fremur fyndist mér vera betra nafn „þróunarsjóður landsbyggðarinnar“ eða jafnvel eins og einhver, — ég held, að það hafi verið stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., — nefndi: framfarasjóður landsbyggðarinnar. Það er að verða föst venja í málinu að kalla landið utan þéttbýlissvæðisins landsbyggð. Strjálbýli er ekki réttnefni á allri landsbyggðinni, því að þar eru þéttbýliskjarnar. Þess vegna held ég, að í þessu sambandi mætti nota „landsbyggð“. Það hefur sína þýðingu að velja lögum rétt heiti, svo að sem ljósast liggi fyrir, eftir því sem hægt er, verkefni þau, sem lögin ákveða, eða sem ljósast liggi fyrir innihald laganna. Þetta er ekki eitt af stærstu atriðunum, en þetta er þó atriði. Það er ástæðulaust að velja ekki þessum sjóði, sem ég vænti nú að fái góðan vöxt og viðgang, velja honum ekki heiti, sem er starfsemi hans við hæfi. Við flytjum enga brtt. á þessu stigi um fyrirsögn eða heiti frv. Það er vegna þess, að hv. form. n. hafði orð á því, að það væri hægt að taka það atriði til athugunar milli 2. og 3. umr., og ég treysti á, að það verði gert.