18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur lögleg forföll, hann er bundinn við atkvgr. í hv. Ed. Auðvitað hefði verið hægt að fresta meðferð málsins hér, ef ástæða væri til, en hv. síðasti ræðumaður gerði sjálfur grein fyrir því, að það var samið um það milli flokka og við þá aðila, sem þetta frv. er flutt vegna, að öðrum atriðum yrði ekki blandað í meðferð málsins á þingi, og þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess að svara þeim einstöku atriðum, sem þessir hv. þm. minntust á. Hv. síðasti ræðumaður gat þess, að löggjöf þessi, heildarlöggjöf, væri til endurskoðunar hjá þar til skipaðri n., og þá koma, auðvitað þau atriði þar til athugunar, sem hv. þm. gerðu að umtalsefni. Ég vek sérstaklega athygli á því, að hv. síðasti ræðumaður talaði hvað eftir annað um fullan samningsrétt, en ekki það, sem um er að ræða í raun og veru, verkfallsrétt opinberra starfsmanna.