15.04.1967
Efri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

129. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 502 skilar sjútvn. einróma áliti um breyt. á 1. nr. 4 frá 28. apríl 1966 um útflutningsgjöld af sjávarafurðum. Till. er einnig til breyt. frá n. um ákvæði til bráðabirgða skv. 2. gr. á sama þskj. Er till. um það, að útflutningsgjald af grásleppuhrognum skuli ekki greiða af framleiðslu ársins 1967. En bráðabirgðaákvæðið skv. frv. er um það að fella niður gjald af loðnumjöli og loðnulýsi vegna hins mikla verðfalls, sem orðið hefur á þessari útflutningsvöru. Að grásleppuhrognum er hér bætt við, kemur til af sömu ástæðu. Breyting á skiptingu útflutningsgjaldsins er einungis sú, að nú er gert ráð fyrir, að sjómannasamtökin fái sömu aðild að þessu gjaldi og Landssamband ísl. útvegsmanna hefur haft um árabil. Gjald þetta er nú 0.8% til Landssambands ísl. útvegsmanna, en lækkar niður í 0.79% af þessum sökum. Önnur deiling útflutningsgjaldsins breytist prósentvís á sama hátt, þar sem þessi nýi liður, 0.79% til sjómannasamtakanna, kemur inn til lækkunar á öllum öðrum gjöldum. Gengið er út frá því, að útflutningsgjaldið á yfirstandandi ári nemi 240–260 millj. kr. Er því hér um að ræða upphæð til sjómannasamtakanna, sem nemur um 2 millj. kr. Frv. þetta er flutt að tilhlutan hæstv. ríkisstj. í samræmi við yfirlýsingu hæstv. sjútvmrh. á síðasta Alþ. og hæstv. forsrh. í byrjun þings. Landssamband ísl. útvegsmanna fékk fyrst hlutdeild að útflutningsgjaldi til sinna félagslegu þarfa með 1. nr. 81 frá 1947. Síðan hefur þessu gjaldi verið við haldið, enda inna þessi samtök þjóðnýt störf af höndum í þágu útgerðarinnar. Þegar verðgrundvöllur vélbátanna er útreiknaður, mun vera gengið út frá því, að þetta gjald, svo og vátryggingagjöld til bátanna falli á útgerðina. Á sama hátt verður að ganga út frá því, að þetta gjald til sjómannasamtakanna falli raunverulega á hlut sjómanna. Hæstv. sjútvmrh. upplýsti hér í þessari þd. við 1. umr. málsins, að ekki hefur verið gengið endanlega frá skiptingu þessa gjalds, en aðilar, sem taldir eru eiga að fá þetta gjald, eru Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands. Þessi samtök eru öll landssamtök, sem vinna hvert á sínu sviði störf í þágu sjómannastéttarinnar. Allir, sem vinna að félagsstörfum, vita, hversu erfitt er að halda uppi félagsstarfi nema gegn fullri greiðslu til þeirra, sem að þessum störfum vinna. Sjálfboðastarf hefur fallið meira og meira niður. Landssambönd, sem fá gjald af sérfélögum innan sambandanna, eru enn verr á vegi stödd í þessum efnum heldur en sjálf félögin, sem að samböndunum standa. Sjútvn. hafa borizt mótmæli gegn samþykkt þessa gjalds frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna og frá Vinnumálasambandi Sambands ísl. samvinnufélaga. Í sjálfu sér er ekki að undra, þótt slík mótmæli komi fram frá atvinnurekendasamtökum; en sjútvn, mælir samt með frv. með þeim breytingum, sem ég hef áður lýst. Segja má, að hér sé raunverulega um innheimtuaðferð að ræða. Tel ég ekki eftir, þótt ríkissjóði sé falin innheimta á raunverulegum félagsgjöldum sjómanna, ef svo má kalla þetta gjald, svo mörg gjöld verða a.m.k. atvinnurekendur að inna af hendi fyrir ríkissjóð, án þóknunar. Gjald það, sem hér um ræðir, samsvarar 300–400 kr. á hvern starfandi sjómann í landinu.

Í mótmælum sínum bendir Vinnuveitendasambandið m. a. á. að það skapi hættulegt fordæmi, að gjöld til stéttarfélaga greiðist af opinberum styrkjum, eins og þeir segja orðrétt í mótmælum sínum. Stéttarsamband fiskiiðnaðarins ritar n. einnig bréf og fór þess á leit, að þeim samtökum yrði einnig úthlutað útflutningsgjaldi til félagslegra þarfa sinna. Þetta mál hefur hins vegar fleiri hliðar. Stefna sú, sem upp var tekin af hæstv. ríkisstj., að kjarasamningar spanna nú raunverulega yfir stærra svið en áður, hefur m. a. það í för með sér, að heildarsamtök eins og þau, sem hér um ræðir, hafa sýnt meiri skilning á margháttuðum vandamálum atvinnurekenda en áður var. Væntanlega á þetta eftir að breytast enn þá meir, þannig að slíkum samtökum, sem hér um ræðir, aukist skilningur á nauðsyn þess t.d., að tækninýjungar eru ekki einungis útgerðinni til góðs, heldur einnig þeim, sem að aflanum vinna. Mér hefur stundum fundizt, að sum verkalýðsfélög hugsi meir um aukna krónutölu, sem meðlimir þeirra fengju, heldur en raunverulegt gildi krónunnar eða það, sem lýtur að almennum þroska meðlimanna. Hér hefur pólitík að sjálfsögðu gripið inn í og síður en svo til bóta. Landssamtök þau, sem hér eiga hlut að máli, hafa sýnt, að slík samtök geta haft þroskandi áhrif á meðlimi sína og komið mörgu góðu til leiðar. Farmanna- og fiskimannasambandið hefur staðið að útgáfu myndarlegs sjómannablaðs, sjómannablaðsins Víkings, um 30 ára skeið. Ég nefni Dvalarheimili aldraðra sjómanna, eitt myndarlegasta dæmið og eflaust það, sem sjómannasamtökin hafa stórkostlegast tekizt á hendur, og rekið af myndarskap við sívaxandi vinsældir allra landsmanna.

Herra forseti. Eins og kom fram í nál., eru allir nm. sammála um að mæla með þessu frv. og er þess því að vænta, að það fái afgreiðslu þessarar hv. þd.