14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1967

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að ræða um fjárlagafrv. almennt, heldur aðeins mæla nokkur orð fyrir tveimur brtt., sem ég flyt við frv. Þessar brtt. eru á þskj. 165, og eru um hækkun fjárveitinga til menntaskóla á Ísafirði og um hækkun á fjárveitingu til byggingar handaritahúss. Þegar lög voru afgreidd hér á hv. Alþ. um menntaskóla á Ísafirði, vakti það bjartar vonir í bænum um, að þetta menntasetur mundi rísa mjög fljótlega og verða menningarlífi bæjarins til styrktar, áður en langir tímar liðu. Það hefur síðan verið tekið á fjárlög smáupphæð ein til byggingar menntaskóla á Ísafirði. Að þessu sinni er það 11/2 millj. kr. Þetta er vitanlega furðulega lítil og lág upphæð, þegar um það er að ræða að byggja allstóra menntastofnun, sem kostar vafalaust tugi millj. kr., og virðist vera stefnt að því, að byggingarframkvæmdir geti þar ekki hafizt fyrr en að mörgum árum liðnum. Ég tek eftir því, að til þess að auka húsakost við tvo starfandi menntaskóla í landinu, bara til þess að auka húsakost við þá, menntaskólann á Akureyri og menntaskólann á Laugarvatni, eru ætlaðar 6 millj. til hvors, til þess að auka húsakost tveggja starfandi menntaskóla 12 millj. kr. samtals, en aftur til menntaskóla, sem á að byggja frá grunni, er ætluð 11/2 millj. kr. Ég get ekki varizt því að fullyrða, að í þessu finnst mér ósamræmi. Mér finnst þarna, að hinn nýlögfesti menntaskóli Vestfirðinga skipi sæti olnbogabarnsins, og hefði vænzt þess, að betur yrði fylgt eftir hinni nýsettu löggjöf. Ég hef því leyft mér og þykist þar ekki fara fram á ósanngjarnt mál, að fjárveiting til byggingar menntaskólans á Ísafirði verði hækkuð úr 11/2 millj. í 6 millj. kr. eða eins og ætlað er til hinna starfandi menntaskóla tveggja, sem ég áðan nefndi, til að auka húsakost þeirra. Minna held ég, að það megi varla vera, þegar á að byggja á þessum stað einmitt allt frá grunni. Ég vil vænta þess, að þessi till. mín mæti sanngirni, og er ég sízt að telja eftir þær fjárveitingar, sem eru til menntaskólans á Akureyri og menntaskólans á Laugarvatni, en minni á þessar upphæðir, af því að þar er aðeins um að ræða endurbætur á húsakosti starfandi menntastofnana, en í hinu tilfellinu er ekki á neinum húsakosti að byggja.

Hin till., sem ég flyt, er um byggingu handritahúss. Öll þjóðin veit, að á þessu ári urðum við þess fagnaðar aðnjótandi að fá um það fulla vissu, að handritin, hinn forni og ómetanlegi menningarsjóður forfeðra okkar, kæmu til Íslands á ný. Þá þóttist ég vita, að á því ári mundi heimkomu handritanna verða fagnað í tölum í fjárl. með því, að fjárveiting yrði verulega hækkuð og höfð myndarleg til handritahúss á því sama gleðinnar ári. En því er ekki að heilsa. Er þá kannske engin fjárveiting til handritahússins? Jú, að vísu er það. Til handritahúss eru 3.2 millj. kr. á þessu ári, en það er lægri upphæð, ekki aðeins að raungildi, heldur einnig að krónutölu heldur en var ætlað til handritahúss á þessa árs fjárl., 1966. Þegar vissa er fengin fyrir því, að handritin koma heim, bregzt Alþingi Íslendinga eða hæstv. ríkisstj. og hennar lið þannig við að setja fram á fjárlagafrv. till. um lækkaða upphæð til handritahúss frá árinu áður. Þetta finnst mér alveg óviðunandi og get ekki orða bundizt, þegar ég rak augun í þetta. Ég tel, að þarna hljóti að hafa orðið mistök, sem Alþ. beri sóma síns vegna og þjóðarinnar að leiðrétta. (Gripið fram í: Er það ekki misskilningur um lækkaða upphæð?) Nei, það voru 4 millj. á þessa árs fjárl. Ég held, að það sé ekki misskilningur.

Frá upphafi, eftir því sem ég bezt veit, hafa verið veittar þessar fjárveitingar til handritahúss: 1964 3 millj., 1965 4 millj. og núna á fjárl. ársins 1966 3 millj. 200 þús. Það er alls búið að veita um 10 millj. kr. til þessarar stofnunar, en ég hygg, að það geti ekki verið um það að ræða, að þetta verði neitt smáhýsi, og það þurfi til þessarar stofnunar tugi millj. kr. Og það að ætla sér að mylgra í það smáupphæðum á mörgum árum tel ég varla forsvaranlegt og vitanlega hefði átt að láta í ljós fögnuð þjóðarinnar yfir heimkomu handritanna með verulega myndarlegri upphæð. Ég teldi, að minni upphæð en 10 millj. kr. gæti þarna varla verið þjóðinni til sæmdar. Mín till. er líka um það, að þessi upphæð, 3.2 millj. kr., hækki í 10 millj. kr. Ég held, að hv. alþm. hljóti að vera sammála um það, að í þetta sinn a.m.k. á að vera rífleg, myndarleg fjárveiting til byggingar handritahúss og síðan fylgja málinu eftir með nauðsynlegum fjárveitingum, svo að bygging þessarar stofnunar gæti hafizt sem fyrst.

Mér þykir næsta ólíklegt, að nokkur alþm. vilji verða til þess að neita því, að það sé sérstök ástæða í ár til þess að hafa hér fjárveitingu við hæfi. Við getum ekki haldið því fram, að við höfum ekki efni á því að hafa sómasamlega fjárveitingu til þessa máls að þessu sinni. Það er engin leið, þegar fjárl. eru hátt á 5. milljarð kr. og við höfum efni á að byggja lögreglustöð í Reykjavík fyrir hærri upphæð en er á fjárl. til handritahússins, 31/2 millj. kr., til byggingar ríkisfangelsa 2 millj., upphæð, sem slagar langt upp í þessa, til fyrningarsjóðs bifreiða ríkisins 4 millj. kr., mun hærri upphæð, og þar fram eftir götunum. Ég held, að það sé varla verjandi að hafa upphæðina lægri en 10 millj. kr., og vil vænta þess, að þetta verði tekið til yfirvegunar af meiri hl. og hæstv. fjmrh., sem ég er ekki viss um, að hafi gefið þessari tölu sérstakan gaum, og vil mælast fastlega til þess, að upphæðin verði hækkuð frá því, sem nú er, helzt eigi minna en svo, að það verði ætlaður einn tugur millj. kr. til þessa máls. Það eru mörg miklu ómerkilegri mál, sem fá tugi millj. kr. samkv. þessu fjárlagafrv., og handritahúsið á að fá ríflega upphæð, sem þoki því máli verulega fram á við, svo að hægt sé að hefja framkvæmdir. Annað er okkur ekki til sóma, það vil ég segja.