18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

181. mál, hafnalög

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Þetta frv. til hafnal., sem hér er til umr., hefur sjútvn, haft til athugunar og skilað um það áliti á sérstöku þskj. Eins og fram kemur í nál., var sá háttur á hafður með vinnubrögð við málið, að fyrst voru haldnir sameiginlegir fundir í sjútvn. beggja þd., en á þeim fundum mætti hafnamálastjóri og framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga einnig. Það kom fram á þessum fundum, að framkvæmdastjóra sveitarfélaganna fannst tíminn til afgreiðslu málsins mjög naumur, þar sem ekki var unnt að leita umsagnar hinna ýmsu sveitarfélaga um málið. Það var hins vegar mat nm., að ef unnt væri að fá samstöðu um breyt. á frv., væri það verulegur ávinningur, að málið næði fram að ganga. Eftir nokkrar umr. á hinum sameiginlegu fundum n. um málið kom í ljós, að möguleikar voru fyrir hendi um breyt. á frv., sem nm. gátu sætt sig við, þótt hitt verði að viðurkenna, að þær breyt., sem lúta að tekjuöflun hafnabótasjóðs og gerðar hafa verið á frv., veikja verulega grundvöllinn undir framkvæmdunum. Segja má, að þá hlið málsins megi taka til nánari athugunar og afgreiðslu á komandi hausti, þegar Alþ. kemur saman á ný. Fyrir utan þessa breyt. á frv., er um önnur veigamikil atriði að ræða, sem samstaða náðist um að breyta. Við 8. gr. var t.d. fellt burtu þar sem sagði, að allt að 75% og allt að 40% stofnkostnaðar skuli greiða. Ég tel, að það sé betra að hafa hér ákveðin mörk og ljóst sé þá fyrirfram, hver hluti ríkisins verði í framkvæmdinni. Ýmsar fleiri breyt. voru gerðar á frv. í Nd., sem ég tel, að séu til bóta, en sem ég tel þó ekki ástæðu til að orðlengja frekar um. Enda þótt n. skilaði sameiginlega áliti um frv., höfðu tveir nm., þeir hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 3. þm. Norðurl. v., fyrirvara um að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við málið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta, en legg til, að frv. verði samþ. og því að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.