14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

159. mál, skólakostnaður

Frsm. meiri hl. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Hinn 13. apríl 1965 skipaði menntmrh. n. til þess að endurskoða lög nr. 41/1955, um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. N. skilaði áliti 13. apríl 1966, en tekur þó fram í bréfi, að hér sé ekki um fullfrágengið frv. að ræða, en n. telji sig þrátt fyrir það hafa lokið störfum, þar sem menntmrh. hafi óskað eftir, að hún skilaði áliti þú þegar. Í n. þessari áttu sæti Knútur Hallsson, deildarstjóri í menntmrn., sem jafnframt var skipaður formaður n., Björn Halldórsson skrifstofustjóri, skv. tilnefningu borgarstjórans í Reykjavík, Hafsteinn Baldvinsson, þáv. bæjarstjóri, skv. tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga, Tómas Gunnarsson, þáv. fulltrúi í fjmrn., skv. tilnefningu fjmrh., Aðalsteinn Eiríksson, fjármálaeftirlitsmaður skóla, Einar Bjarnason ríkisendurskoðandi og Helgi Elíasson fræðslumálastjóri. Í samráði við fjmrh. fól menntmrh. Birgi Thorlacius ráðuneytisstjóra, Knúti Hallssyni, deildarstjóra í menntmrn., Runólfi Þórarinssyni, deildarstjóra í fræðslumálaskrifstofunni, Höskuldi Jónssyni, deildarstjóra í fjmrn. og Torfa Ásgeirssyni, skrifstofustjóra Efnahagsstofnunarinnar, að fara yfir frv., gera á því þær breyt., er ástæða virtist til, og ganga frá því til fullnustu. Haft hefur verið samráð við ýmsa aðila um efnisatriði frv., og m.a. hafa þeir Björn Halldórsson skrifstofustjóri, Magnús Guðjónsson framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga og Hjálmar Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, starfaði mikið að endurskoðun frv.

Frv. þetta markar þýðingarmikið spor í þá átt að stuðla að því, að byggð verði hagnýt skólamannvirki á sem hagkvæmastan hátt. Skv. ákvæðum frv. verður byggingarhraðinn aukinn við hverja einstaka framkvæmd, þar sem framlög ríkisins til bygginganna verða veitt á tveim til þrem árum í stað fimm ára nú. Stefnt er að því að gera áætlun um heildarþörf hinna ýmsu skólastiga varðandi nýbyggingar. Þá verða dregnar skýrar línur um, hvað í rekstri skólanna er sameiginlegt hjá ríki og sveitarfélögum og hvernig það þá skiptist og hverju ríkið eigi að standa að einvörðungu og hvað fellur í hlut sveitarfélaganna að annast alfarið á sinn kostnað. Þá er það og mikilsvert atriði, að gert er ráð fyrir samstarfsnefnd þessara aðila, sem fjallar um hina sameiginlegu þætti þessa máls.

Menntmn. þessarar hv. d. ræddi frv. á fundi sínum fyrir páska og kaus undirnefnd til þess að yfirfara frv. í þinghléinu. N, hefur fengið á sinn fund Torfa Ásgeirsson, skrifstofustjóra Efnahagsstofnunarinnar, og Aðalstein Eiríksson, fjármálaeftirlitsmann skóla. Veittu þeir n. upplýsingar um einstakar greinar frv. Þá komu á fund n. þrír skólastjórar frá heimavistarskólum. Einnig bárust n. nokkur erindi frá skólamönnum. Allir höfðu skólamennirnir fram að færa ábendingar um einstök atriði, sem þeir töldu, að þyrfti að breyta. Að nokkru upplýstist við frekari umr., að um misskilning var þar að ræða og í einstökum atriðum leggur meiri hl. n. til, að breyt. verði gerðar, m.a. til að koma til móts við ábendingar áður umgetinna skólamanna, og er það von mín, að allir geti verið ánægðir hvað það varðar. Það kom ákveðið fram hjá þeim öllum, að frv. væri til mikilla bóta, frá því sem er í gildandi 1., og lögðu þeir á það áherzlu, að málið næði fram að ganga nú.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 481. var menntmn. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþykkt með þeim breyt., sem er að finna á þskj. 482 og 496, og eins og fram er tekið í áliti meiri hl. n., áskilja einstakir nm. sér rétt til þess að flytja brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma við afgr. málsins.

Í I. kafla frv. eru almenn ákvæði. Í 1. gr. er upptalning á þeim skólum, sem frv. tekur til, og er hvað það snertir ekki um breyt. að ræða frá því, sem er í gildandi lögum.

Skv. 2. gr. frv. ákveður menntmrn. skiptingu landsins í fræðsluhéruð og skólahverfi og hvar stofna skuli heimangöngu- og heimavistarskóla, og skal rn. áður hafa aflað sér till. fræðslumálastjóra, hlutaðeigandi skólanefndar, fræðsluráðs og sveitarstjórnar.

Í 8. gr. 1. nr. 34 1946 um fræðslu barna segir, að hver sýsla og hver kaupstaður sé fræðsluhérað, en þó skuli sameina tvær sýslur í eitt fræðsluhérað, svo og hrepp eða hluta úr hreppi fræðsluhéraði annarrar sýslu, ef fræðslumálastjórn mælir svo fyrir og hlutaðeigandi fræðsluráð samþykkir, og að hvert fræðsluhérað sé eitt eða fleiri skólahverfi og skuli einn barnaskóli vera í hverju skólahverfi.

Í 9. gr. sömu l. segir, að fræðslumálastjórn mæli fyrir um, hvernig fræðsluhéraði skuli skipt í skólahverfi, enda samþykki fræðsluráð skiptinguna. Fræðsluráði er skylt að leita álits hlutaðeigandi skólanefndar um skiptingu fræðsluhéraðs í skólahverfi skv. þeirri þróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og talin er æskileg, að við að sameina nokkur skólahverfi um heimavistarskóla, er nauðsynlegt, að rn. ákveði skiptinguna að fengnum till. fræðslumálastjóra, hlutaðeigandi skólanefndar, fræðsluráða og sveitarstjórna.

Í 3. gr. frv. eru ákvæði um, að athugun verði gerð á skólabyggingarþörf fyrir öll þau skólastig, sem l. taka til, í hinum ýmsu skólahéruðum og verði þar stuðzt við þjóðskrá. Á þennan hátt á að vera hægt að mynda sér nokkra skoðun á heildarbyggingarþörfinni nokkuð fram í tímann.

II. kafli frv. fjallar um stofnkostnað. 4. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að á grundvelli þeirrar athugunar, sem um getur í 3. gr. frv., verði gerðar framkvæmdaáætlanir um skólabyggingar fyrir allt landið. Annars vegar áætlun til lengri tíma eða allt að 10 ára tímabili og hins vegar til 1 árs. Í þeirri áætlun raðar menntmrn. framkvæmdum í þeirri röð, sem þörfin er talin brýnust, og kemur sú áætlun með grg. til Alþ. Það verður svo Alþ., sem ákveður endanlega með fjárveitingum sínum, hver röð framkvæmdanna verður. Það er tvímælalaust í rétta átt, að slíkar áætlanir, sem um getur í greininni, verði gerðar.

5. gr. kveður svo á, að komið verði á fót sérstakri deild í menntmrn., sem hafi með höndum eftirlit með undirbúningi og byggingu skólamannvirkja. Er gert ráð fyrir því, að í þessari deild starfi arkitekt, verkfræðingur og byggingaeftirlitsmenn. Byggingadeildin lætur í té upplýsingar um þær reglur, sem byggingarkostnaður hinna ýmsu tegunda skólamannvirkja miðast við. Hlutverk byggingadeildarinnar er ekki að annast gerð teikninga eða kostnaðaráætlana, heldur að endurskoða þær. Í reglugerð verða ákveðnar þær reglur, sem stofnkostnaðurinn er miðaður við. Það er tvímælalaust mikil nauðsyn á því, bæði fyrir sveitafélögin og ríkið, að á komist skipulegri vinnubrögð um undirbúning og framkvæmdir við gerð skólamannvirkja en verið hefur. Ákvæði 5. gr. eiga að stuðla að því, að svo verði.

Í 6. gr. eru ákvæði um, að sveitarfélögin hafi frumkvæði að nýbyggingum. Sveitarstjórnirnar ráða sérfræðinga til þess að gera uppdrætti að skólamannvirkjum, einnig verklýsingar og kostnaðaráætlanir. Eins og áður hefur verið að vikið, er byggingadeild rn. ekki ætlað að annast teikningar. Sveitarstjórnirnar geta varðandi gerð teikninga leitað til húsameistaraembættisins og annarra arkitekta.

Í 7. gr. frv. er kveðið á um, að ríkissjóður greiði 50% af byggingarkostnaði skólahúsnæðis í öllum skólum, sem lög þessi taka til.

Nú er gert ráð fyrir því, að aðskilið sé í kostnaðaráætlun skóla annars vegar kennslurými og hins vegar heimavistarrými. Varðandi heimavistarrýmið er lagt til, að ríkissjóður greiði 85% af stofnkostnaði þess og allt að 100%, þegar fleiri en eitt sveitarfélag stendur að skólabyggingunni. Er þessi mismunur hafður til að ýta enn frekar undir þá þróun, að sveitarfélög sameinist um byggingu heimavistarskóla, þar sem því verður við komið. Til stofnkostnaðar teljast einnig, auk alls húsnæðisins, innanstokksmunir, kennslutæki, áhöld og búnaður. Auk þess teljast til stofnkostnaðar þau útgjöld, sem nauðsynleg eru vegna tengingar við almenningsveitur og vegakerfi næsta nágrennis og kostnaður við frágang skólalóðar skv. nánari ákvæðum í reglugerð. Kostnaður við borun eftir heitu og köldu vatni, sem eingöngu er gerð fyrir skólann, með samþykki menntmrn., telst og til stofnkostnaðar, sem ríkissjóður tekur þátt í, en réttindakaup annast sveitarsjóður á sinn kostnað.

Í 8. gr. segir, að kostnaðaráætlun skólamannvirkja skuli miða við byggingarkostnað á þeim tíma, er áætlunin er staðfest. Hækki byggingarkostnaðurinn, hækka framlög ríkissjóðs í sama hlutfalli, og skal framlag ríkissjóðs þá leiðrétt í næstu fjárlögum. Þessi ákvæði gilda einnig um geymdar fjárveitingar til skólamannvirkja.

Í 9. gr. eru hliðstæð ákvæði og eru í núgildandi l. um, að ekki megi hefja framkvæmdir, fyrr en fé hefur verið veitt í fjárlögum ag fyrir liggur skriflegt samþykki menntmrn. Þá er í gr. ákvæði um, að ef fjárveitingar í fjárlögum nægja ekki til að greiða 1/3 af áætluðu framlagi ríkissjóðs, má menntmrn. ekki leyfa að hefja framkvæmdir fyrr en að fengnu leyfi fjmrn. Þessi ákvæði öll eru til þess að stuðla að því, að ekki séu hafnar framkvæmdir við skólamannvirkjagerð fyrr en tryggt er, að í fjárlög hafi þó verið tekinn 1/3 hluti af áætluðum kostnaði ríkissjóðs. Allt miðar þetta að því að stytta byggingartíma hvers áfanga í skólabyggingu.

Í 10. gr. segir, að menntmrn. geti, að fenginni umsögn sveitarstjórnar, ákveðið listskreytingu skólamannvirkja. Má sú upphæð, sem til þess er varið, nema allt að 2% af áætluðum stofnkostnaði skólamannvirkisins, en þó aldrei hærri fjárhæð en kr. 500 þús. Á undanförnum árum hefur nokkru fé verið varið til listskreytinga eða listaverkakaupa í skólahús. Nú eru sett ákvæði inn í l. til þess að tryggja, að þannig verði að unnið í framtíðinni.

Ég vík að 11. gr. hér síðar.

Í 12. gr. er heimild fyrir ríkissjóð að greiða framlag til stofnkostnaðar íþróttahúsa og sundlauga, og verður þetta ákvæði, ef notað verður, mjög til þess að létta undir með þeim sveitarfélögum, sem eftir þessum l. ráðast í byggingu íþróttamannvirkja af áðurnefndri gerð og notuð verða að öllu leyti eða hluta fyrir skólana.

Í 13. gr. er menntmrn. heimilað að fresta greiðslu fjárveitinga að einhverju eða öllu leyti til byggingar skólamannvirkja, sem fyrirsjáanlegt er, að hvorki er hægt að ljúka að fullu né að nothæfum áfanga með fjárveitingum Alþ., sem fyrir hendi eru, og framlögum sveitarfélaga. Er rn. jafnframt heimilað að lána slíkt geymslufé til að hraða byggingu þeirra skólamannvirkja, sem unnið er að, svo að þeim verði af þeim ástæðum fyrr lokið. Greinin miðar öll að því, að fyrst og fremst verði að því stefnt að nýta það fjármagn, sem til er, sem allra bezt og stuðla að auknum byggingarhraða.

14. gr. tekur til héraðsskólanna. Í gr. er tekið fram, að ríkið greiði allan stofnkostnað við þær framkvæmdir, sem eru á döfinni, miðað við núverandi stærð og nemendafjölda þeirra. Þessir skólar eru: Eiðaskóli, Reykholtsskóli, Núpsskóli, Reykjanesskóli, Reykjaskóli, Skógaskóli og Laugarvatnsskóli. Laugaskóli í Suður-Þingeyjarsýslu kemur undir þessi ákvæði, ef hann verður afhentur ríkinu.

Ég vil að gefnu tilefni víkja að því, að engin breyt. verður með samþ. þessara l. á eignarrétti ríkisins á þessum skólum. Eftir sem áður eru þeir að öllu leyti eign ríkisins.

Í 15. gr. segir, að framlög ríkissjóðs til skólamannvirkja skiptist á 2–3 ár vegna hverrar framkvæmdar. Þarna er um mjög mikilsvert atriði að ræða og tvímælalaust eitt af því þýðingarmesta fyrir sveitarfélögin, en eins og nú er, greiðist framlag ríkisins á 5 árum, en með þessu ákvæði er stefnt að því, að það geti orðið á 2–3 árum. Þá er í gr. ýtarleg skilgreining á því, hvernig hlutur ríkissjóðs greiðist eftir því, sem verkinu miðar áfram. Þá er og í gr. ákvæði um sérstaka gjalddaga á framlagi ríkissjóðs, þegar um það er að ræða, að sveitarfélag hefur fleiri en eitt skólamannvirki í byggingu. Þá er í gr. ákvæði til að tryggja, að sveitarsjóðir standi við sinn hlut kostnaðarins. Í 16. gr. er ákvæði um kaup á skólahúsnæði, ef það þykir henta frekar en ráðast í nýbyggingu. Í þessari gr. eru einnig ákvæði um greiðslu stofnkostnaðar við skólabifreiðar, ef að því ráði er horfið að kaupa sérstakar skólabifreiðar:

Í III. kafla frv. er fjallað um rekstrarkostnað. Í 17. gr. eru ákvæði um, að öll laun skólastjóra, fastra kennara og annarra starfsmanna, sem menntmrn. ræður, setur eða skipar, svo og laun stjórnskipaðra prófdómenda, greiðist beint úr ríkissjóði. Þá er lagt til, að ríkissjóður endurgreiði sveitarfélögunum mánaðarlega á starfstíma skólanna laun vegna forfallakennslu og allar aukagreiðslur til skólastjóra og kennara. Við heimavistarskóla skyldunáms greiðir ríkissjóður laun starfsfólks í mötuneytum. Í 18. gr. eru ákvæði um, hver sé grundvöllur hámarksákvæða um endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna kennslukostnaðar. Í 19. gr. eru ákvæði, sem eiga að tryggja, að gerð sé sem raunhæfust áætlun um þá tölu reiknaðra stunda, er hver skóli þarf til að sinna, verkefnum sínum á næsta skólaári. Þar er og ákvæði, sem heimilar menntmrn. að veita sveitarfélögum, sem reka fleiri en einn skóla á sama fræðslustigi, rétt til að ráðstafa hluta reiknaðra stunda til sameiginlegra stjórnunarstarfa vegna skólans. Ég vík einnig að 20. gr. síðar, en í 21. gr. er kveðið á um, að ríkið greiði sinn hluta, sem ýmist er 50%, 85% eða 100%, af húsaleigu, viðhaldskostnaði, viðhaldi og endurnýjun tækja og búnaðar og flutningskostnaði nemenda að og frá skóla með skólabifreiðum, eftir því, hvort um er að ræða heimangöngu- eða heimavistarskóla. Þá er í gr. ákvæði um það, að endurkrefja skuli heimasveitir nemenda, sem sækja héraðsskóla ríkisins. Tekur þetta til greiðslu vegna húsvörzlu, hitunar, lýsingar, ræstingar og annars, sem ríkissjóður á ekki að greiða af rekstrarkostnaði samkv. frv. þessu. Þá er sveitarfélögum, sem láta nemendum úr öðrum sveitarfélögum í té kennslu á gagnfræðastigi, einnig heimilt að endurkrefja heimasveit þeirra um þátttöku í áður tilgreindum rekstrarkostnaði. Það er eðlilegt, að slík ákvæði sem þessi séu sett í lög, ekkert er eðlilegra en að þau sveitarfélög, sem ekki reka gagnfræðaskóla, greiði öðrum sveitarfélögum sem láta nemendum þeirra í té skólavist, hluta af þeim rekstrarkostnaði, sem sveitarfélagi ber. Á sama hátt er það og eðlilegt, að sama gildi um héraðsskóla ríkisins og aðra gagnfræðaskóla. Héraðsskólarnir færast æ meir yfir í það að verða tveggja vetra gagnfræðaskólar og þá er eðlilegt, að sama regla gildi um þetta efni varðandi þá eins og t.d. gagnfræðaskóla, sem starfandi eru í nágrannahéraði við héraðsskóla. Eðlilegt er að skapa sem mest samræmi þarna á milli. Varðandi framkvæmd á slíkri innheimtu sýnist okkur í meiri hl. n. eðlilegast, að slík útjöfnun milli héraða fari fram gegnum fræðslumálaskrifstofuna. Í 22. gr. er gert ráð fyrir því, að hver skóli greiði til fræðslumyndasafns ríkisins ákveðið gjald, miðað við nemendafjölda. Skólarnir fá svo gegn þessu afnot af myndum safnsins. Lagt er til, að ríkissjóður greiði 3/4 hluta, en sveitarsjóður 1/4 af þessu gjaldi. Skólanna sjálfra vegna er mikil nauðsyn á því, að fræðslumyndasafnið verði eflt.

Ég vék að 23. gr. hér fyrr í sambandi við 21. gr. og mun koma að 24. gr. hér síðar. 25. gr. frv. kveður á um eignarhlutföll ríkis og sveitarfélaga.

IV. kafli frv. fjallar um endurskoðun og reikningshald, og eru þau ákvæði efnislega óbreytt frá því, sem nú er í l.

Í V. kafla frv. eru ýmis ákvæði. 28. gr. er efnislega óbreytt frv. því, sem er í gildandi l. Í 29. gr. er nýmæli, þar sem segir, að komið verði á fót samstarfsnefnd menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Er þetta mikilsvert nýmæli, sem stuðla mun að árekstraminni framkvæmd þessara margþættu mála, sem svo mjög reyna á gott samstarf þessara aðila, sem þar koma til, þ. e. ríkis og sveitarfélaga.

Vil ég þá víkja nokkrum orðum að brtt. þeim, sem meiri hl. menntmn. flytur á þskj. 482 og 496. Fyrstu tvær brtt. eru varðandi samræmingu á frv. við l. um iðnfræðslu, en iðnfræðsluskólar er sameiginlegt heiti á þeim skólum, sem þau lög taka til.

Við 7. gr. er brtt. í þrem stafliðum. Í lið a er gert ráð fyrir því, að fram sé tekið, að ákvæðið taki einnig til skólastjóra- og kennaraíbúða við heimavistarskóla. B-liðurinn gerir ráð fyrir því að heimila ríkissjóði að greiða 75% af áætluðum byggingarkostnaði skólastjóra- og kennaraíbúða skyldunámsins við þá heimangöngu- eða heimanakstursskóla, sem að dómi menntmrn. eru ekki líkur á, að hægt verði að fá skólastjóra eða kennara að, nema þetta komi til. C-liðurinn er aðeins til að fella iðnfræðsluna inn í þessa gr. l.

4. brtt. er um að breyta ákvæðum, sem eftir er farið, þegar svo fer, að ekki næst samkomulag í þeim tilfellum, þegar tvö eða fleiri sveitarfélög standa saman að skóla. Það mun vera reynsla þeirra, sem að þessum þætti málanna hafa komið, að eftir þeim ákvæðum, sem eru í núgildandi l. og eru í frv., hafi ekki verið farið, heldur hefur verið reynt að finna út aðra reglu til að miða við í hinum ýmsu tilfellum. Hér er lagt til, að sveitarfélögin greiði stofnkostnað eftir sömu reglum og sýslusjóðsgjald er lagt á samkv. 101. gr. laga nr. 58 1961. Ég vil biðja hv. þdm. um að leiðrétta, það stendur í brtt: samkv. 1. gr. l., en á að vera 101. gr. l. nr. 58 frá 1961.

5. brtt. er, að í stað 5 komi 6, og við nánari athugun sést, þegar litið er á, hvernig greiðslurnar skiptast í prósentum eftir því, sem verkinu miðar áfram, að þar er um 6 áfanga að ræða. Þetta er við 15. gr.

6. brtt. er aðeins leiðrétting varðandi 19. gr. Við flytjum brtt. í 7 stafl. á þskj. 482 við 20. gr. og eru þær flestar til nánari skýringar á þeim ákvæðum, sem þær taka til, og einnig til rýmkunar á þeim ramma, sem greinin setur, og er þá tilgangurinn með brtt. fyrst og fremst sá að tryggja það, að heimavistarskólar, sem starfa undir venjulegum kringumstæðum, þurfi alls ekki að koma undir undanþáguákvæði þau, sem í gr. eru. Er búið að leggja mikla vinnu í að athuga, hvernig ákvæði þessarar gr. koma til með að verka á hinum ýmsu skólastigum og í mismunandi stórum skólum, og leyfi ég mér að vona að þar hafi verið tekið tillit til þeirra margþættu sjónarmiða, sem þar hafa komið fram í sambandi við hin mörgu ákvæði þessarar gr. Eins og ég gat um, þá eru brtt. okkar í 7 stafliðum, á þskj. 482. A-liðurinn felur í sér að hækka úr 20% í 25% það, sem umfram er reiknaðra stunda. B-liðurinn og c-liðurinn er orðalagsbreyting, að í stað þess sem stendur í frv., „má hækka“ komi „hækkar“. Í d-lið till. hækkar prósenttalan úr 15 í 20. „Sé heimavist við skóla, má auka stundafjölda samkv. a- og b-liðum um allt að 15%“, stendur nú í frv., en verður, ef brtt. okkar er samþ., „allt að 20% vegna þeirra nemenda, sem eru samtímis í heimavist“, og þarna bætist og við, „m.a. vegna umsjónar utan kennslustunda.“ Í e-lið brtt., sem er við f-lið, bætist: „Sama gildir um greiðslu yfir- og eftirvinnuálags, heimavinnu og vinnu í kaffitímum, sbr. 18. gr.“ Þarna er nánast um enn frekari skilgreiningu á ákvæðum 18. gr. að ræða. Í f-lið brtt., í 2. mgr., komi „iðnfræðsluskóla“ í stað „iðnskóla“, og er það, eins og ég áður gat um, til þess að færa þessi lög til samræmis við iðnfræðslul., sem afgreidd voru á hv. Alþ. s.l. ár. Þá er það g-liðurinn: Á undan næst síðustu mgr. komi: „Þegar ekki er fullnægt ákvæðum námsskrár um vikulegar kennslustundir og um kennslugreinar og þar af leiðandi ekki þörf fyrir þann stundafjölda, sem greindur er í a- til e-liðum, lækkar fjöldi reiknaðra stunda og samsvarandi greiðslur úr ríkissjóði til samræmis.“ Þar sem hér er með brtt. þeim, sem ég hef hér rakið, lagt til að minnka þann ramma, sem spennir yfir þessi atriði, þykir og eðlilegt að setja þó einhver ákvæði, sem ná til þess, þar sem þetta er ekki notað, til þess að taka af öll tvímæli.

Þá er á þskj. 496 einnig brtt. við 20. gr., þar sem lagt er til, að í stað þess, sem nú segir: „Eigi skal að jafnaði setja eða skipa fleiri kennara við skóla en sem nemur því, að skyldukennsla þeirra sé allt að 70% af þeim stundafjölda, er viðkomandi skóli á rétt á“, verði þetta hækkað í 80%, og er þetta gert samkv. einróma óskum skólastjóranna, sem ég áður vék að. Hafa þarf fyrst og fremst í huga heimavistarskóla úti um landsbyggðina, en eins og öllum hlýtur að vera ljóst, er það ekki heppilegt, að gert væri ráð fyrir því, að ráðnir yrðu fastir kennarar, sem svarar til allrar þeirrar kennslu, sem framkvæma þarf í hverjum skóla. Þau er lagt til samkv. brtt. okkar að hækka þetta mark úr 70 í 80 og einnig síðar, að í stað orðanna „nema þegar 1–3 kennarar, að skólastjóra meðtöldum, fullnægja kennsluþörf og rétti skólans með fjölda skyldustunda sinna“ er lagt til að hækka þetta og breyta þannig, að það séu 1–4, og er það einnig samkv. óskum skólastjóranna, eins og ég áður vék að.

8. brtt. er við 24. gr. frv. og er nánast til skýringar og til að taka af allan vafa um, að ákvæði gr. um heimavistargjöld nemenda í heimavistum taka ekki til skólaskyldunámsins. Í brtt. er iðnfræðsluráðinu einnig gert að gera till. um heimavistargjöld í þeim skólum, sem heyra því til.

9. brtt. er við 29. gr. Er lagt til, að bætt verði við greinina ákvæði um, að ágreiningsatriðum milli Sambands ísl. sveitarfélaga annars vegar og rn. hins vegar verði, ef upp koma, vísað til umsagnar samstarfsnefndarinnar, áður en þau koma til úrskurðar. Að vísu mætti kannske segja sem svo, að þetta ákvæði ætti að vera óþarft, því að þannig hlýtur að verða staðið að framkvæmd málanna að reyna að leysa ágreining, sem upp kemur, einmitt á grundvelli þeirrar samstarfsnefndar, sem um getur í greininni. Brtt. er því fyrst og fremst til enn frekari áréttingar á starfssviði n., og í gr. er getið um, að hún skuli fá til umsagnar reglugerðir, sem varða samskipti þessara aðila, áður en þær eru gefnar út og því ekki nema eðlilegt, að sama gildi um þau ágreiningsatriði, sem ganga þurfa til úrskurðar, að samstarfsnefndin fái þau einnig til umsagnar, áður en úrskurður er upp kveðinn.

10. brtt. er varðandi rekstur húsmæðraskólanna. Í ljós kom við nánari athugun, að hvað áhrærir rekstur þeirra, mundi hlutur sveitarfélaganna versna við samþykkt þessara l., vegna þess að til þessa hefur hlutur ríkisins verið meiri í kennslukostnaði þar en í öðrum skólum, svo að þegar sú breyt. verður á samkv. þessum l., að ríkið tekur á sig allan kennslukostnaðinn, verður það engin breyt., varðandi þessa skóla, frá því, sem er. Ef á að láta sveitarfélögin, sem standa að rekstri þeirra, taka þátt í þeim rekstrarliðum, sem teknir eru upp í 23. gr. frv., mun niðurstaðan verða sú, að þótt þessir skólar sætu þá alveg við sama borð og aðrir skólar í landinu, sem þessi lög taka til, mundi hlutur sveitarfélaganna, sem reka þessa skóla, versna frá því, sem er, vegna þess að þeir hafa verið undir öðrum reglum um greiðsluhlutfall ríkissjóðs í rekstri þeirra. Því þótti meiri hl. n. rétt að víkja þarna frá þeirri stefnu, sem frv. hefur markað um þátttöku ríkisins í rekstrarkostnaði skóla.

Ég hef þá rætt þær brtt., sem við í meiri hl. n. flytjum á þskj. 482 og 496. Eins og ég áður gat um, eru þær fyrst og fremst til rýmkunar á nokkrum ákvæðum, sem sérstaklega geta snert heimavistarskólana. Þá eru í brtt. frekari skýringar við nokkur ákvæði frv. og samræming við lög um iðnfræðslu, sem samþ. voru á s.l. ári, en samkv. þeim var m.a. gert ráð fyrir annarri skiptingu á stofnkostnaði iðnfræðsluskólanna og einnig varðandi hlut ríkisins í kennslukostnaði og rekstrarkostnaði þeirra. En samkv. frv, er gert ráð fyrir því, að iðnfræðsluskólarnir verði undir sömu ákvæðum og aðrir þeir skólar, sem frv. tekur til.

Ég er þess fullviss, að mikill og almennur áhugi er meðal þeirra, sem þessi mál varða, að þetta frv. verði að l. nú á þessu þingi. Ég veit t. d, um, að aðalfundur Sambands sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi, sem nýlega var haldinn, lét í ljós mikinn áhuga á því, að málið næði fram að ganga. Að vísu er naumur tími til þingloka, en ef menn leggja sig fram um að koma málinu áfram, á það að takast.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem við flytjum á þskj. 482 og 496.