14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

159. mál, skólakostnaður

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Þessu frv. var vísað til menntmn. 13. marz, viku fyrir páskaleyfi þm. Svo hófst páskaleyfið, og þingið kom aftur saman 6. apríl og er nú 14. í dag. Þetta er þá önnur vikan. Þetta er nú tíminn, sem menntmn. hefur haft til þess að athuga þetta mál. Og það er ekki nóg með það, að tíminn hafi verið stuttur, heldur hefur verið hrúgað upp málum í þd., sem nú á að reka áfram og koma gegnum þingið, áður en því lýkur. Þetta bitnar líka á þessu máli. M. a. gátu sumir nm. menntmn. alls ekki mætt á sumum fundum n., af því að þeir voru í sjútvn. Þar var annað mál, sem líka þurfti að keyra áfram á fáum dögum. Það er ekki þægilegt að vinna undir svona kringumstæðum, jafnvel þótt allir séu eins samvizkusamir og við vorum í þessari n.

Ég tel það mjög miður farið, að þetta mál skyldi koma svona seint fram. Ég veit ekki, hver ástæðan er. Ég býst við, að hún sé nú, að undirbúningurinn hafi tekið þetta langan tíma, vegna þess að málið er svo flókið og erfitt á margan hátt. Þetta kemur líka fram í því, að hæstv. ríkisstj. skipaði sjö manna n. fyrir nákvæmlega tveimur árum til að undirbúa þetta mál. Þegar hún var búin að vinna í eitt ár nákvæmlega, frá 13. apríl 1965 til 13. apríl 1966, óskar hæstv. menntmrh. eftir, að hún skili af sér. Samt var frv. ekki tilbúið, en hann vildi fá það strax. Ég veit ekkert, hvernig á þessu hefur staðið. Ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. hafi meint allt vel með því að vera ekki að láta n. vera lengur í þessu starfi, en þá skipar hann aðra n., en hann hafði nm. ekki .nema fimm. Þeir eru þá orðnir tólf. Þetta hefur að mínum dómi verið vegna þess, að hæstv. ráðh. hefur talið verkið ganga betur eða fljótar sennilega, með því að hafa nm. fimm heldur en sjö, þ.e.a.s. að hafa þá færri, og svo voru þeir enn þá handgengnari, þessir fimm en hinir sjö, eða réttara sagt nær hæstv. ráðh., en ég efast ekki um, að hann hefur meint allt vel með því að gera þetta. Hverjir eru þeir svo þessir tólf? Jú, sjö eru embættismenn hjá ráðh. í stjórnarráðinu, deildarstj., ráðuneytisstj., fulltrúar og svoleiðis, ágætir menn, þrír eru embættismenn fræðslumálanna undir yfirstjórn hæstv. ráðh., þ.e.a.s. hjá fræðslumálaskrifstofunni og skólaeftirlitinu. Þetta kalla ég nú eiginlega allt stjórnarráð. Þetta eru bara d., svo að mér reiknast svo til, að þeir séu tíu af tólf úr stjórnarráðinu, sem hafa undirbúið málið. Sá 11. er tilnefndur af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og mér er sagt, og ég held, að það standi nú þarna einhvers staðar í grg., að hann hafi verið áður bæjarstjóri. (Gripið fram í.) Var það ekki. Ég vil ekki fara með rangt mál. „Hafsteinn Baldvinsson, þáv. bæjarstjóri,“ hann er bæjarstjóri, hafði verið bæjarstjóri. Sá 12. er skrifstofustjóri borgarstjórans í Reykjavík. Þetta eru allt ágætir menn og flestir mjög kunnugir þessum málum, mjög kunnugir, svo að ég hef síður en svo nokkurn hlut út á þetta að setja hvað mennina sjálfa snertir, en það er ekki einn einasti þeirra utan Reykjavíkur, ekki einn einasti af 12. Nú hefði ég talið það skynsamlegra, ef hægt hefði verið að koma því við, að einhverjir í þessum fjölmenna hóp hefðu verið starfandi að skólamálum utan höfuðborgarinnar og sérstaklega kunnugir þeim málum og öllum aðstæðum þar, því að þetta frv. snertir hagsmuni hvers einasta sveitar- og bæjarfélags í landinu, og ég vil segja mikið meira en það. Þess vegna hefði það verið mjög æskilegt, að sjónarmið manna, sem lifa og hrærast í þessum málum úti um land við mismunandi skólakerfi og mismunandi aðstöðu á ýmsan hátt, hefðu getað komið sjónarmiðum sínum þarna að strax við undirbúning málsins. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh, hefði viljað þetta líka, en hann hefur kannske séð einhver tormerki á þessu, sem mér er ekki kunnugt um, ég geri fastlega ráð fyrir því, eða þá að hann hefur treyst því, að það væri alveg nóg að hafa þessa kunnugu menn eins og Aðalstein Eiríksson skólaeftirlitsmann og fræðslumálastjóra og ráðuneytisstj. í menntmrn. í þessu. Þetta eru kunnugir menn og ágætir að því leyti, en enginn þeirra starfar úti á landi við þetta núna eins og sakir standa a.m.k. Mér sýnist samt, að rétt sé að taka það fram, að það hefur verið lögð mikil vinna í þetta frv. og ég held, að þessir menn hafi unnið af mikilli samvizkusemi að því að leysa ýmsan þann vanda, sem er mjög vandleystur. Það fannst mér koma fram hjá þeim tveimur af þessum 12, sem mættu hjá menntmn., að þeir hafa lagt sig mjög eftir að skilja til fullnustu aðstöðu einstakra skóla og skólahéraða.

En vandinn liggur náttúrlega aðallega í þessu, þegar á að setja reglur um skiptingu skólakostnaðar milli ríkis annars vegar og bæjar- og sveitarfélaga hins vegar, að skólarnir eru svo misjafnir, aðstaðan er svo misjöfn. Allt er þetta svo margþætt og flókið, að það er mjög torvelt að finna nokkra meginreglu, sem getur gilt fyrir þetta allt saman. Það er ekki aðeins það, að skólarnir séu misstórir, þ.e.a.s. misjafnlega margir nemendur í hverjum, heldur er starfstími skólanna ákaflega misjafn. Það er víxlkennsla í mörgum þeirra, þ.e.a.s. það er sumum börnum kennt kannske annan hvern dag eða aðra hverja viku eða jafnvel annan hvern mánuð. Skóli getur þannig staðið í 6 mánuði, en börnin fá ekki nema þriggja mánaða kennslu. Til alls þessa þarf að taka tillit, þegar á að setja svona reglur. Sumir starfa í 9 mánuði, aðrir í 6, 7 eða 7½. Sumir eru heimavistarskólar og aðrir eru heimangönguskólar. Sumt eru barnaskólar, aðrir gagnfræðaskólar, þá húsmæðraskólar og loks iðnfræðsluskólar. Eftir öllu þessu þurfa þær reglur að laga sig, sem hér eru settar, svo að það má nærri geta, hvort þetta hefur ekki verið erfitt verk fyrir þá, sem undirbjuggu frv.

Ég held, að það hafi komið strax fram í brtt. meiri hl. n. sýnishorn af því, hvað þetta getur verið erfitt. Þar er ein till., ég held, að það hafi verið síðasta till. þeirra, já, 10. till. þeirra er þannig:

„Þó geta sveitarfélög, sem að húsmæðraskóla standa, að fengnum till. skólanefndar, fyrir 1. sept. 1968 ákveðið, að skipting rekstrarkostnaðar skólans skuli áfram fara eftir reglum l. nr. 41 frá 1955.“ Það kemur þarna strax fram, að taka varð einn flokk skólanna hreinlega út úr. Hvernig stóð nú á þessu, að þeir þurftu að taka húsmæðraskólana út úr? Og þetta var ekki gert fyrr en á síðustu stundu? Þessi till. kom fram í n. á síðasta fundi hennar. Það stóð þannig á þessu, að þegar n. hafði fengið Aðalstein Eiríksson skólaeftirlitsmann til sín til að skýra þessa flóknu 20. gr. þessa frv., segir hann okkur frá því, að þarna séu of þröng ákvæði hvað snerti suma skólana, og m.a. mundi þetta frv., ef það færi óbreytt gegnum þingið, hafa þau áhrif, að hluti sveitarfélaga af rekstrarkostnaði húsmæðraskóla mundi hækka um 113%. Það munaði heldur ekki um það. Enginn okkar hafði komið auga á þetta, og það var ekki við því að búast heldur, en hitt var merkilegra, að þessir 12 skyldu ekki vera búnir að sjá þetta. En þetta kom nú í ljós. Svona er þetta flókið. Svona er það vandasamt að setja reglur fyrir þetta allt saman.

Þrautaráðið verður svo að slá bara striki yfir þennan skólaflokk. Þeir mega vera eftir gamla kerfinu. Bara að það komi nú ekki fleiri skólar, sem verður að fara eins með. Í fáum orðum sagt er það mín skoðun, að reglur um skiptingu á skólakostnaði, sem alls staðar geti átt við og alls staðar væru sæmilega sanngjarnar og réttlátar, verða aldrei fundnar.

En svo er á annað að líta í sambandi við þetta, þegar rætt er um skólakostnað og hlutdeild byggðarlaga í þeim kostnaði. Hvers vegna á ríkið að borga allan kostnað, bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað, sumra skóla í landinu, en ekki sumra? Hvers vegna á ríkið að greiða t.d. allan rekstrarkostnað og stofnkostnað allra menntaskólanna í landinu, allra sérskóla eins og kennaraskóla, sjómannaskóla, vélskóla o.s.frv. og allt upp í háskóla? Hvers vegna á ríkið að greiða allan kostnaðinn þarna, en ekki nema nokkuð af kostnaðinum við ýmsa aðra skóla? Allir eru þessir skólar nauðsynlegir. Þeir eru allir nauðsynlegir þjóðinni, en þegar verið er með svona tvískipt kerfi, ef kerfi skyldi kalla, verður niðurstaðan sú, að rekstrarkostnaður skólanna, eða réttara sagt verulegur hluti af menntunarkostnaði sumra manna í landinu, mikill hluti af menntunarkostnaði æskunnar í landinu lendir af handahófi á byggðarlögum landsins. Samt vænti ég þess, að menn séu sammála mér um það, að allir skólanemendur eigi rétt á að búa hér við svipuð kjör. Að nemendur í einu byggðarlagi eigi ekki að bera þyngri byrðar vegna menntunar en nemendur í öðru byggðarlagi. Það er erfitt að jafna þetta, ég veit það. Að ég nú ekki tali um þá hlið málsins, að í sumum byggðarlögum skuli enginn skóli vera til nema barnaskóli og hann jafnvel ekki nema að nafninu, en þar á ég við farskóla. Skyldunámið nær til 15 ára aldurs, en enginn skóli er til sums staðar fyrir æskuna að stunda þetta skyldunám í. Berum þetta saman við aðstöðu æskufólks í öðrum byggðarlögum, sem hefur kannske allar tegundir skóla, svo að segja við húsvegginn hjá sér. Ekki er nú jafnréttið meira en þetta. Mér finnst eiginlega, að það séu alls ekki jöfn mannréttindi í þjóðfélagi, sem ekki reynir að lagfæra þetta, að svo miklu leyti sem það er hægt, og þá fyrst og fremst með því að jafna kostnaðinum meira en gert er. Hitt er vitað mál, að það geta ekki allir búið við skólaveggi, það er ekki alls staðar hægt að hafa skóla. En það er hægt að taka tillit til þess við ákvörðun um skólakostnað, eða réttara sagt menntunarkostnað þjóðarinnar, það er hægt að taka tillit til þess og jafna hann nokkuð.

Og niðurstaða mín út frá þessum hugleiðingum er þessi. Ríkið á að greiða allan menntunarkostnað þjóðarinnar. Hvort sem við köllum hann stofnkostnað eða rekstrarkostnað, á ríkið að greiða hann allan. Hins vegar ættu byggðarlögin, hvort sem það eru sýslu-, sveitarfélög eða bæjarfélög, að greiða til ríkissjóðs eftir einni allsherjarreglu gjald vegna menntunarkostnaðar þjóðarinnar. Þetta held ég, að sé einna sanngjarnasta reglan, ef við viljum sýna jafnrétti í þessum málum.

Framkvæmd fræðslumálanna gæti eftir sem áður verið í höndum ríkisvaldsins og byggðarlaganna, engin vandkvæði eru á því, þó að önnur regla kæmi um skiptingu kostnaðar, enda sjálfsagt, að svo væri, því að kostnaðurinn kemur frá byggðarlögunum í ríkissjóð eftir sem áður, þó að hann komi eftir nýrri reglu.

En þó að við, sem sæti eigum í menntmn., hefðum allir orðið sammála um þessa skoðun, sem við erum nú sjálfsagt ekki, var það vitanlega óframkvæmanlegt að fara að breyta þessu frv. í það form. Til þess þarf að sjálfsögðu að undirbúa nýja löggjöf, en ekki að fara að koma með neinar brtt, við þetta, að ég ekki tali um, hve skammur tími væri til slíkra hugleiðinga núna í þinglokin.

Ég skal þá víkja að einstökum efnisatriðum þessa frv., en vil þó geta þess, eins og reyndar frsm, meiri hl. n. er þegar búinn að gera, að n. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Við, sem skipuðum minni hl. n., lögðum til, að ýmsu væri nú breytt í þessu frv. og mundum hafa fylgt frv., ef við hefðum fengið svona megintill. okkar samþ. í n., en það fór á annan veg. Meiri hl. n. gat ekki fallizt á eina einustu af brtt. okkar.

Hins vegar skal ég taka það fram, að þær brtt., sem engar eru stórvægilegar, sem meiri hl. n. flytur, eru til bóta, og yfirleitt munum við, sem minni hl. skipum, vera þeim sammála, svo langt sem þær ná, en þær ná ekki til neinna stærstu atriðanna í þessu frv. Minni hl. hefur því ekki getað orðið samferða hinum og hefur gefið út sérstakt nál. og flytur brtt. við frv. á þskj. 499.

Ég skal þá geta þessara brtt. í öllum aðalatriðum. 1. brtt. okkar er við 5. gr. frv. Áður en ég ræði þá brtt., vil ég þó aðeins minna á ákvæði 2. gr. frv., en þar er svo ákveðið, að menntmrn. fái endanlegt vald til þess að skipta landinu í fræðsluhéruð og skólahverfi og að ákveða, hvar stofna skuli heimangönguskóla og hvar heimavistarskóla, að fengnum till. fræðslumálastjóra, hlutaðeigandi skólanefnda og sveitarstjórna. Þetta er náttúrlega allmikil breyt. frá því, sem nú er. Þetta vald hefur rn. ekki nú, eins og greinilega er skýrt frá í grg. þessa frv. En ég kem að því síðar reyndar, hvaða þýðingu þetta muni hafa, ég skal aðeins geta þess nú, að við gerum ekki brtt. við þessa gr. frv., þó að hér sé um mikla breyt. að ræða á gildandi l. Við gerum ekki brtt. við hana. Við getum fallizt á, að þetta spor verði stigið. Og ástæðan til þess, að við föllumst á þessa gr. er sú, að þetta er gert til þess að geta framkvæmt þá stefnu frv. að sameina héruð um einn skóla, einn heimavistarskóla fyrir tvö eða fleiri sveitarfélög. Við teljum, að þessi stefna sé rétt, — þetta leiði til fullkomnari eða betri fræðslu í þessum skólum, skólatíminn verður lengri, nemendurnir fá meiri kennslu. Allur aðbúnaður og skólahúsnæði verður fullkomnara og öll skilyrði betri til þess að námið gangi betur að öðru jöfnu en með því fyrirkomulagi, sem nú er að hafa þetta dreifða skóla, einn og einn fyrir hvert sveitarfélag. Þessa stefnu viljum við styðja og við gerum það m.a. með því að fylgja þessari ráðstöfun, að ráðh. fái þetta vald í hendur.

Því miður hafa orðið árekstrar út af staðsetningu skóla nú að undanförnu, og sjálfsagt lengi, þó að um aldalangt skeið hafi þetta verið vilji menntmrn., en fræðsluráðin hafa haft úrskurðarvald um þetta og byggðarlögin heima fyrir, og ráðh. gat ekki fyrirskipað neinum að ganga til slíkrar samvinnu, þó að hann ynni að því og fræðslumálayfirvöldin, þar sem valdið var heima fyrir. Ég get nefnt sem dæmi hinn glæsilega héraðsskóla, Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi, sem nú er nýbyggður, ég held fyrir 4–5 sveitarfélög, en eitt sveitarfélagið á Snæfellsnesi svona inn á milli hinna skarst úr leik og var ekki með, og óskar sjálfsagt eftir að byggja sérskóla fyrir sig. Þetta eru óheppilegir árekstrar og ekki til bóta í skólamálum. Ég hef nú heyrt um dæmi úr Húnavatnssýslu, sem er eitthvað hliðstætt, ég veit ekki eins glöggt um það, en hræddur er ég nú um, að það hafi eitthvað gerzt af þessu tagi þar. Í minni sveit er verið að byggja heimavist, en engan skóla — byggja heimavist við félagsheimilið, og ég er ekki hrifinn af þeirri ráðstöfun. Næsta sveit, sem er mun fjölmennari og með mun fleiri skólaskyld börn, hefur engan skóla, og ég veit ekki til, að það hafi nokkurn tíma komið til mála, að þessi sveitarfélög sameinuðust um skóla, eins og manni fyndist þó vera eðlilegur hlutur.

Ég hef þá gert grein fyrir því, að við erum fylgjandi ákvæðum 2. gr. þessa frv., þó að það raski eða dragi úr endanlegu valdi manna heima í héruðunum.

Þá er annað ákvæði, sem ég vil aðeins drepa á, en ég vil ekki vera að lengja þessar umr. að óþörfu, enda hefur hæstv. ráðh. óskað eftir, að slíkt yrði ekki gert.

Í 4. gr. frv. eru ákvæði um 10 ára áætlun um skólabyggingar og síðan eins árs áætlun, sem fylgir síðan fjárlagafrv. hvers árs til Alþ. Við teljum þetta til bóta. Þetta er betra skipulag. Af þessu ætti að leiða það, að þær skólabyggingar yrðu látnar ganga fyrir, sem mest er um vert, þar sem þörfin er mest, svo að við teljum, að þetta sé réttmæt stefna. Þetta er kostur við frv.

Þá kem ég að 5. gr., en við hana er 1. brtt. okkar minnihlutamanna á þskj. 499. Í 5. gr. segir: „Í menntmrn. skal vera deild, sem hefur með höndum eftirlit með byggingu skólamannvirkja. Í deildinni skulu m.a. starfa húsameistari, verkfræðingur og byggingaeftirlitsmenn. Byggingadeildin skal annast eftirlit með undirbúningi skólamannvirkja, endurskoða teikningar, kostnaðaráætlanir og útboðs- og vinnulýsingar, líta eftir, að framkvæmd verksins sé í samræmi við teikningar og útboðs- og vinnulýsingar, sjá um úttekt að verki loknu o.s.frv.“ Greinin er nú eitthvað lengri, en þetta eru aðalatriðin. Við teljum, að svona eftirlit, — svona endurskoðun eigi auðvitað að fara fram, sjálfsagt að endurskoða teikningar, kostnaðaráætlanir og útboðslýsingar og undirbúa byggingu hvers einasta skólamannvirkis sem allra bezt. Um það atriði er ekki nokkur ágreiningur innan menntmn., en af hverju þarf að stofna heila deild? Af hverju þarf að stofna heila deild í stjórnarráðinu til að annast þetta? Hefur þetta ekki verið gert að undanförnu? Hefur ekki þetta eftirlit verið haft? Það hlýtur að vera. Eða hefur þetta verið eftirlitslaust? Nei, það getur ekki verið. Ég veit ekki betur en hæstv. menntmrh. verði að samþ. hverja einustu teikningu, áður en farið er að byggja skóla. Og hann hefur ekki farið að samþykkja teikningar, nema rækilega hafi verið búið að endurskoða þær og gagnrýna. Svo að þetta eftirlit hefur hlotið að vera að undanförnu.

En deildaskipting sýnist okkur ekki nauðsynleg. Þetta er útvíkkun á embættismannakerfinu. Það er einn toppurinn enn. Manni finnst einhvern veginn, að þeir séu orðnir nógu margir. Auk þess má minna á það, að í skólamálum höfum við svo sem stofnanir, sem eiga að sjá um þessi mál. Við höfum fræðslumálaskrifstofu. Við höfum skólaeftirlit. Við höfum húsameistara ríkisins og við höfum menntmrn. og ég hygg, að í öllum þessum stofnunum séu sérfróðir menn um öll þessi atriði, svo að minni hl. n, getur ómögulega séð, að það sé nokkur þörf á að stofna þessa deild. En sjálfsagt er, að þessi störf fari fram og því leggjum við til, að 1. mgr. 5. gr. orðist þannig: „Menntmrn. skal sjá um eftirlit með undirbúningi skólamannvirkja“ o.s.frv., m. ö. o. vinna þessi sömu verk, enda efumst við ekki um, að það hefur gert það.

Ég kem þá að 2. brtt. á þskj. 499. Hún er við 6. gr. frv. og er aðeins til þess að taka af öll tvímæli um skilning á gr. og ekkert annað. Í 6. gr. frv. segir: „Sveitarstjórnir ráða sérfræðinga til þess að gera uppdrætti að skólamannvirkjum, verklýsingar og áætlun um framkvæmd verksins og kostnað.“ Þetta eiga sveitarstjórnirnar að gera, ekki deildin nýja. Nei, sveitarstjórnirnar eiga að gera þetta. Við höfum ekkert við það að athuga, en það er hvergi nefnt í þessu frv., hverjir eiga að borga, þ.e.a.s. hvort þetta tilheyrir stofnkostnaði eða ekki. Við lítum reyndar svo á, að þau séu ótvírætt tilheyrandi stofnkostnaði, þessi verk, en okkur finnst rétt til þess að taka af allan vafa um þetta atriði, að nefna það í sjálfri gr. og því viljum við bæta aftan við þessa mgr. „og telst þetta til stofnkostnaðar“.

Þá kem ég að 7. gr. frv., en hún er um skiptingu á stofnkostnaði skólamannvirkja milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Og nú er komið með alveg nýja reglu. Hingað til hefur það verið svo í l. að það er ýmist 50% eða 75% af stofnkostnaði skóla, sem ríkið greiðir. Það greiðir núna 50% af stofnkostnaði heimangönguskóla barnafræðslustigs og gagnfræðastigs. Það greiðir 75% stofnkostnaðar heimavistarskóla barnafræðslunnar, gagnfræðastigs og húsmæðraskóla. Svo er ein undantekning. Ríkið greiðir núna 75% af skólastjóraíbúð við heimangöngubarnaskóla alla. Svona eru reglurnar í núgildandi l. Reglurnar, sem nú á að taka upp samkv. þessari gr., eru þær, — eða meginreglan: ríkið greiði 50% af stofnkostnaði skólarýmisins og 85% af stofnkostnaði heimavistarrýmis, nema ef sveitarfélög sameinast um heimavistarskóla skyldunámsins, þá greiðir ríkið 100% af heimavistarrýminu, greiðir allan stofnkostnað heimavistarrýmisins. Þetta eru reglurnar.

Það er nú enginn vandi að setja þetta á sig út af fyrir sig. En hitt er aftur á móti vandasamara að sjá, hvernig þetta verkar á það greiðsluhlutfall, sem nú er í l., þegar á þannig alveg að breyta til um regluna. Og það er ekkert hlaupið að því að finna þetta út, þ.e.a.s. bera þetta saman. Það er vegna þess, að til þess að geta borið þetta saman, verður maður að vita, hvað heimavistin er mikill hluti af heildarbyggingunni, hvað stofnkostnaður heimavistarinnar er mikill hluti af öllum stofnkostnaði skólans. Ekki er nóg að vita, hvað hann verður mikill, heldur líka hvernig þessi hlutföll hafa verið. Öðruvísi er ekki hægt að bera þetta saman.

Það lítur út fyrir það, að hér eftir, þegar þessi lög eru komin til framkvæmda, verði að halda kostnaðarliðunum aðgreindum, fyrst ríkið á að greiða misjafnlega mikið eftir því, hvort það er heimavist eða kennslurými. Þá verður að halda öllu sér. Það er spauglaust! Þegar farið er að byggja skóla með heimavist, mun það oftast vera svo, að það er gengið að verkinu öllu í einu lagi. Sömu menn vinna allt. Byggingarefni er keypt í heild o.s.frv., en ef á að fara að sundurgreina þetta allt saman og blanda engu saman, það held ég, að sé auma verkið. Ég held, að það mundi hækka byggingarkostnaðinn þó nokkuð. En hvernig á þá að fara að? Það stendur ekkert um það í þessum l. Menn eru svona að gizka á, að sérfræðingar í rn., og þá sennilega í byggingadeildinni, mundu hreinlega áætla þetta og láta svo slag standa. En áætlaður kostnaður er ekki alveg, sama og raunverulegur kostnaður, jafnvel þótt um svona skiptingu sé að ræða, svo að þetta veldur erfiðleikum. En til hvers er þá þetta ákvæði sett? Það er sýnilegt og frá því greint í grg. frv. Það er sett í frv. til þess að ýta á sveitarfélögin að sameinast um skóla. Það er hagsmunamál fyrir sveitarfélög, ef þau gætu orðið saman um byggingu skóla. Ef einhver vill slíta sig út úr, eitthvert sveitarfélag vill fá skóla fyrir sig, verður það að borga 15% af heimavistarkostnaðinum, sem önnur þurfa ekki. En það er ekki ýkja mikil þörf á að beita þessari skrúfu á sveitarfélögin, ef samþ. verða ákvæðin í 2. gr. frv. Þar sem ráðh. á að fá allt valdið til að ákveða, hvar skólar skulu vera, er ekki þörf á þessu. Komi eitthvert sveitarfélag og segi: Ég vil fá skóla fyrir mig, segir hæstv. ráðh. kurteislega: Nei. Það þarf ekki annað. Og hann á að gera það undir flestum kringumstæðum að mínum dómi, til þess að framfylgja stefnunni. (Menntmrh.: Nei verður aldrei kurteislegt.) Þetta ákvæði er gersamlega óþarft til þess að ná þessu marki, gersamlega óþarft. En við skulum segja, að nú komi oddviti úr afskekktu sveitarfélagi úti á landi til hæstv. ráðh. og segi við hann: Nú langar okkur til þess að fá skóla fyrir okkur. Við getum ekki verið í félagi með öðrum vegna landfræðilegra ástæðna eða af ýmsum öðrum ástæðum. Það er útilokað fyrir okkur. Við viljum vera með öðrum, en við getum það ekki, og færir full rök fyrir því. Hvað segir hæstv. ráðh. þá? Hann segir að mínum dómi: Þetta er alveg rétt, ég sé, að þið getið það ekki. Já, segir oddvitinn kannske, en það er þarna um stofnkostnaðinn, getum við ekki fengið 100% í heimavistina? Nei, nei, nei. Það er ekki hægt. Það er skýrt tekið fram í l., að það skuli vera 85%. Það er þetta, sem minni hl. n. vill fyrirbyggja, að það verði farið að íþyngja sveitarfélögum í stofnkostnaði, af því að þau geta ekki verið með öðrum, þótt þau vildu það. Þetta eru rökin fyrir því, að við viljum afnema þetta ákvæði um 85% út úr frv. En jafnframt teljum við, að hið sama eigi að gilda um hliðstæða skóla, sama eigi að gilda um skóla gagnfræðastigs og skyldunáms.

Ég nefndi það áðan, að það væri erfitt að bera þessar reglur saman við þær, sem eru nú í gildi, hvað snertir sveitarfélögin. Nú hafa menn gizkað á, að heimavist í skóla sé helmingur eða jafnvel meira en helmingur af heildarkostnaði skólans. Þetta veit enginn, hversu hátt settur sem hann er, og er ekki hægt að ráða við það. En menn gizka nú t.d. á þetta. Sumir segja, að heimavistin hljóti að vera talsvert meira en helmingur af heildarkostnaðinum. Ég hef verið að reyna að gera mér grein fyrir því, hvernig þetta mundi koma út, þessi ákvæði frv., ef heimavistin væri 55% af heildarkostnaðinum, en skólahúsnæði 45%. Og mér sýnist, og það er reyndar held ég alveg öruggt, að séu hlutföllin þessi, sé þetta mjög nálægt því að vera hið sama og 75% hlutur ríkissjóðs í heildarkostnaði núna. Mjög nálægt því. Ég tók dæmi af heimavistarbarnaskóla, þar sem byggingarhlutföllin væru þessi. Þá yrði það þannig, að ríkið greiddi 50% af skólarýminu, þ.e.a.s. 45% kostnaðarins: Það gerir þá 22½%, en 100% heimavistarrýmisins, ef það eru mörg sveitarfélög um skólann. Það eru þá 55%. Út úr þessu koma 77½ %, en eru nú í l. 75%, svo að þetta er mjög svipað. En á þessu getum við séð, að ef 85% reglan á að gilda, er það auðsjáanlega verulegt tap fyrir sveitarfélögin að verða að hlíta henni, verulegt tap. Og ég held, að það sé ótvírætt, að eigi sú regla að koma til, að ríkið greiði ekki nema 85% af heimavistarrýminu, þarf heimavistarrými að vera yfir 70% af heildarkostnaðinum til þess að ná reglunni, sem nú er í gildi.

Af þessum ástæðum er það, að við í minni hl. n. leggjum til, — það er 3. brtt. okkar að 1. mgr. 7. gr. orðist svo: „Ríkissjóður greiðir 50% stofnkostnaðar tilbúins kennslurýmis þeirra skóla, er lög þessi taka til, og 100% stofnkostnaðar tilbúins heimavistarrýmis. Með heimavistarrými teljast m.a. skólastjóra- og kennaraíbúðir. Ríkissjóður greiðir 75% stofnkostnaðar skólastjóraíbúðar heimangöngubarnaskóla, þar sem nauðsyn krefur slíkra bygginga.“ Þetta er breytingin, 85% reglan er felld niður. Önnur breyting er ekki, nema um skólastjóraíbúðir í heimangöngubarnaskólum, sú brtt. okkar er hér um bil alveg eins og er hjá meiri hl. n., svo að það skiptir engu máli eiginlega, hvor till. yrði samþ.

Hins vegar er rétt að benda á það, að þetta er skerðing, bæði hvað snertir okkar till. og till. meiri hl. n. Það er skerðing frá því, sem nú er í 1., þar sem segir, að ríkið skuli greiða 75% skólastjóraíbúða heimangönguskóla alls staðar í landinu. Það hefur bara ekki verið framkvæmt þannig.

Þá kem ég að 8. gr. frv. En hún er í raun og veru ekkert hégómamál að okkar dómi. Samkv. henni og reyndar samkv. öllu skýrari ákvæðum í upphafi 7. gr. á stofnkostnaður að skiptast eftir áætluðum kostnaði, en ekki raunverulegum kostnaði. Það er eftir endurskoðun teikninga og kostnaðaráætlana hjá rn., sem áætla skal kostnað hvers einasta skólamannvirkis, áður en farið er að byggja það. Og eftir þeirri áætlun á að skipta kostnaðinum. Ekki eftir því, hvað hver skóli hefur kostað raunverulega, heldur eftir því, hvað hann var áætlaður í stjórnarráðinu. Ef verðlag hækkar eða byggingarvísitala hækkar, á að vísu að bæta henni við áætlunina og skipta svo, en ef byggingin fer samt fram úr þessari áætlun, á sveitarsjóður að greiða afganginn einn, hver sem hann verður. Það er bent á það mjög rækilega í grg. frv., að sveitarsjóður geti líka grætt á þessu, því að hann eigi hreinlega að fá afganginn, ef afgangur verður. Ef áætlunin reynist hærri en raunverulegur byggingarkostnaður, fær sveitarfélagið afganginn.

Við vitum náttúrlega ekki, hvorn kostinn sveitarstjórnir í landinu mundu velja, ef þær ættu að velja um þetta. En við verðum að dæma um þetta út frá okkar eigin sjónarmiði, og við í minni hl. n. þorum ekki að taka þessa áhættu á bæjar- og sveitarfélög. Við þorum það ekki, jafnvel þótt gróðavon kunni að vera einhvers staðar í framtíðinni, sem við höfum nú heldur litla trú á. Við þorum ekki að taka á sveitarfélögin þessa áhættu. Það er auðvitað vegna þess, að reynslan er ólygnust. Hún hefur sýnt það, að áætlanir standast svo illa, ákaflega illa, og hækkanir verða miklu meiri en nemur einhverri byggingarvísitölu. Ætli menn hérna í Rvík, sem hafa verið að byggja sér íbúðir, kannist ekki við það.

Mér dettur í hug í sambandi við fullyrðingar um það, hvernig áætlanir standast, þegar ríkisstj. lagði fyrir Alþ. heljarmikla skýrslu um álverksmiðju og allt það, sem henni tilheyrði. Þá var í þessari skýrslu greint frá því, að ríkið ættí að byggja höfn í Straumsvík og byggja hana fyrir sína eigin peninga, hvort sem það hefur nú verið í góðgerðaskyni eða hvað, veit ég ekki. Og það var áætlað, að þessi höfn kostaði 69 millj. Svo gekk álmálið gegnum Alþ. og þar með ákvæðin um það, að ríkið byggði þessa höfn, eða að nafninu til Hafnarfjarðarbær. Það skiptir víst litlu máli. Fyrir tiltölulega skömmum tíma síðan var höfnin boðin út, og það komu tilboð í höfnina, ég man ekki, hversu mörg. Hvernig ætli tilboðin hafi verið? Ekki 69 millj. Það lægsta var 146 millj., það hæsta var 225 millj. Þetta á ríkið fram undan, að byggja þessa höfn, sem kostar þetta. Það er helzt að sjá svo, að ríkið eigi einhverja aura afgangs þarna frá hafnarbyggingum í landinu, ef það getur þetta. En þetta er nú svona. Hvernig hefði nú farið fyrir sveitarfélagi, ef slík áætlun hefði legið fyrir um skólamannvirki og áætlunin hefði reynzt svona? Ég verð að segja, að það er spauglaust fyrir ríkið að fá á sig þetta út af Straumsvíkurhöfn. Það getur líka orðið spauglaust fyrir einstök sveitarfélög að fá á sig kostnað, vegna þess að áætlanir standast ekki. Og það er ekkert merkilegt, þó að áætlanir standist ekki. Það er ekki kannske á neinn hátt mönnunum að kenna, sem gera þessar áætlanir. Það getur verið fyrir aðrar ástæður. Út af þessu hefur menntmn. fengið mótmæli frá nákunnugum manni þessum málum, Gunnari Guðbjartssyni á Hjarðarfelli, þar sem hann mótmælir því mjög, að þessi regla verði upp tekin. Hann bendir réttilega á það, að byggingarkostnaður sé svo misjafn í landinu, að hann geti verið þetta mikill á þessum stað og allt annar á öðrum stað. Það þurfi að flytja byggingarefni, ekki bara sand og möl og sement, hérna innanlands, heldur líka erlent byggingarefni langar leiðir á einum stað, en örstutt hjá öðrum, að maður tali nú ekki um bæina, þar sem hafnirnar eru og hægt er að fá þetta frá útlöndum beint. Hann bendir á, að byggingarmenn verði sveitirnar að fá úr kaupstöðunum, alla starfsmenn til að byggja, þ. á m. tæknimenn. Sveitirnar verða að borga þeim frítt fæði allan tímann, ef þær eiga að fá þá og ókeypis ferðir svona öðru hverju heim og heiman. Þetta þurfa ekki þeir að greiða, sem hafa þessa starfsmenn við höndina og geta fengið þá með því að hringja í þá. Nei, það er víst engum blöðum um það að fletta, að þetta getur orðið ákaflega misjafnt og komið illa við sums staðar, en mun betur annars staðar. En hvernig ættu sérfræðingar í stjórnarráði að geta reiknað þetta allt út fyrir fram fyrir hvern einasta skóla? Ég held, að engum detti það í hug. Þeir slá upp dæmi, reikna það út og segja: Svona skal skólinn vera, hann kostar þetta. Við það situr.

Það er 4. brtt. á þskj. 499, sem fjallar um þetta efni hjá okkur. Við leggjum til, að 8. gr. falli niður. Það þýðir það, að byggingarkostnaðurinn verður að skiptast á milli sveitarfélaga og ríkis eins og hann reynist raunverulega í hverju einstöku tilfelli. (Forseti: Ég bið hv. þm. afsökunar, en ég vildi spyrja, hvort hv. þm. vildi gera örstutt hlé á ræðu sinni, meðan leitað er afbrigða). Alveg sjálfsagt. –[Frh.]