15.04.1967
Neðri deild: 70. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

159. mál, skólakostnaður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki meining mín að fara að endurtaka það, sem við ræddum hér í gærkvöld, þegar hæstv. menntmrh. var ekki viðstaddur, en hins vegar ætla ég að gera nokkra grein fyrir þeirri brtt., sem ég flutti þá og tók til baka til 3. umr. eftir beiðni hæstv. forseta. Þessi brtt., sem ég flutti, er við 9. gr. Í 9. gr. stendur nú, með leyfi hæstv. forseta: „Eigi má hefja framkvæmdir, fyrr en fé hefur verið veitt í fjárlögum og fyrir liggur skriflegt samþ. menntmrn. Ef hafnar eru framkvæmdir án samþ. rn., verður stofnkostnaður ríkissjóði óviðkomandi.“ Og svo kemur síðasta mgr., sem ég legg til, að verði felld niður: „Séu þegar samþ. fjárveitingar Alþ. til skólamannvirkis ónógar til að greiða 1/3 af áætluðu stofnkostnaðarframlagi ríkisins, má menntmrn. ekki leyfa að hefja framkvæmdir fyrr en að fengnu skriflegu samþ. fjmrn.“

Í þeim lögum, sem nú gilda um þessi efni, frá 1955, í I. kaflanum um stofnkostnaðinn er ýmislegt tekið fram, t.d. að „nú hefur Alþ. samþ. slíka fjárveitingu og ákveður það þá einnig, hvernig framlögum skuli háttað,“ og enn fremur „ef hafnar eru framkvæmdir, án þess að framantöldum skilyrðum sé fullnægt, er stofnkostnaður ríkissjóði óviðkomandi,“ og ýmislegt fleira þannig, en þetta ákvæði, sem þessi 9. gr. þarna endar með, er þar ekki til. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort þessi ákvæði eða samsvarandi ákvæði séu til í nokkrum öðrum lögum.

Ég veit, að sveitarfélögin eru oft sett í þá aðstöðu, að þau megi ekki gera hitt og þetta, nema að fengnu skriflegu samþ. ákveðins rn. Ríkisstj. reynir sem sé að hafa alveg sérstakt eftirlit með því, á hvern hátt ýmsir aðilar, sem undir hana eru gefnir, haga sínum framkvæmdum. En hvar er það annars staðar til í íslenzkum lögum, að eitt rn. setji öðru rn. lög um, hvernig haga skuli framkvæmdum? Við höfum verið vanir því að líta á ríkisstj. sem einn aðila, þannig að þau rn., sem ein ríkisstj. saman stendur af, séu einn aðili gagnvart fólkinu í landinu. Ef menntmrn. hefur skrifað ákveðnu sveitarfélagi eitthvað og ekki haft skriflegt samþ. fjmrn. til þess, þá er það samkv. þessu hér sem sé ógilt. Ég álít, að öryggi þegnanna í þjóðfélaginu fari að minnka nokkuð mikið og valdaskiptingin á milli rn. að verða nokkuð undarleg með þessu móti. Ég vil taka dæmi. Eigum við á næstunni von á því, að þetta eða hitt, sem fjmrn, á að sjá um, öðlist ekki gildi fyrr en með skriflegu samþ. forsrn., m. ö. o., að almenningur í landinu eigi við það að búa, að einhvers staðar í lagabókstaf, sem hann ekkert þekkir, séu ákvæði um það, að svo og svo mörg af rn. séu svo að segja ómerk sinna gerða? Mér sýnist þetta tilraun til þess að gera myrkviði laganna miklu óskiljanlegra fyrir almenningi en nú þegar er. Það hefur verið vaninn yfirleitt, að ríkisstj. sjálf, ráðherrarnir, verða að gjöra svo vel sjálfir að koma sér saman um ábyrgðina í því að beita þessu og þessu valdi. Ef einn maður talar t.d. við utanrrh. og utanrrh. ákveður sjálfur, að þessi maður skuli t.d. fara í einhverja ferð fyrir utanrrn., en samkv. þessu fær maðurinn það svo kannske í hausinn rétt á eftir, að ákvarðanir utanrrn. hafi ekki gildi, nema fyrir liggi skriflegt samþ. fjmrn. Hvers konar myrkviði fer ísl. stjórn og ísl. löggjöf að verða, ef á að samþ. sem lög svona hluti eins og þarna?

Nú ætla ég að minna hæstv. ríkisstj. á eitt, sem ég er dauðhræddur um, að hún gleymi stundum, a.m.k. þegar hún er með svona löggjöf eins og þessa hérna. Þessi ríkisstj. segist alveg sérstaklega kenna sig við frelsi og framtak, og nú skyldi maður ætla, að eitt af því, sem þessari hæstv. ríkisstj. væri kært í þeim efnum, ekki sízt hæstv. menntmrh., væri frelsi almennings til þess að koma sér upp skólum og e. t. v. fleiri menningarstofnunum.

Þó að þessi löggjöf miði á vissum sviðum að vissu aðhaldi, sem er gott og blessað, þá eru nokkrar höfuðgreinar í henni, sem miðast fyrst og fremst við það að takmarka sem allra mest þetta frelsi, t.d. frelsi sveitarfélaga til þess að koma sér upp skólum, og takmarka það meira en gert var í þeim lögum, sem áður voru sett. Samt var það svo mikið takmarkað þá, að þar var því meira að segja lýst yfir, að þótt hafin væri slík framkvæmd, þá skyldi sú framkvæmd ekki njóta styrks, ef það væri gert í óleyfi ríkisstj. Þá þurfti þó ekki tvöfalt leyfi, bæði menntmrn. og fjmrn., heldur þótti nóg, að ríkisstj. sem slík takmarkaði þetta.

Nú spyr ég: Hvaða ástæða er til þess fyrir hæstv. ríkisstj., á sama tíma sem hún boðar frelsi allra braskara til að gera hvern fjandann, sem þeir vilja með allt, sem þeir komast yfir af eigum þjóðarinnar, heiðarlega eða óheiðarlega, hvaða ástæða er til þess að banna á sama tíma almenningi út um land að reyna að byggja sér skóla? Hvar er frelsið í þessum efnum, má ég spyrja? Virðist það nú ekki nokkuð nóg, að menn hafi ekki leyfi til að byrja á skóla fyrr en búið er að samþ. fjárveitingu á fjárl.? Væri það stórhættulegt, að fólk úti um land tæki upp á þeim fjanda að byggja sér skóla? Mundi það drepa þjóðfélagið? Heildsali má byggja, eins og hann vill, inni við Suðurlandsbraut, en almenningur, sem vantar skóla yfir sitt fólk, má ekki byrja á slíku fyrr en leyfi hefur verið veitt á fjárl. Nú, látum það vera, það var þó sett í lög fyrir 12 árum síðan, að slíkt þyrfti, en nú er maður búinn að fá þetta í gegn og þetta er komið á fjárl. Þá kemur næsta girðing í þessu girðingahlaupi í því að byggja skóla. Þá þarf menntmrn. að veita sérstök leyfi, og það þarf að vera sérstaklega stór hluti af stofnkostnaði, sem sé þarna öruggur. En það er ekki nóg með það, menntmrn. er ekki einu sinni sjálfrátt, nei, það er ekki svo merkilegt menntmrn., meinar hæstv. forsrh. Menntmrn. er sem sé ekki sjálfrátt, því að það er ekki svo merkilegt, segir hæstv. forsrh., heldur þarf að setja það undir fjmrn. og gera fjmrn. að yfirrn. yfir öðrum rn. í landinu.

Ég sé, að þetta sama er að gerast í sambandi við samgmrn. í því máli, sem við vorum að ræða hérna áðan, og ég skal koma að því einhvern tíma seinna, þ.e.a.s., öll önnur rn. í landinu eru, eins og hæstv. forsrh. tók alveg réttilega fram, að verða svo ómerkileg, að það er raunverulega bara fjmrn. eitt, sem á að ráða öllu, og líklega verða bráðum sérstakir erindrekar frá fjmrn. við hliðina á hverjum hinna ráðh. Og nú vil ég skjóta því að hæstv. forsrh., að nú má hann bara fara að passa sig, að fjmrn. taki nú ekki upp á að setja líka einn sérstakan eftirlitsmann með öllum útgjöldum forsrn. Þá færi nú skörin að færast upp í bekkinn, því að þegar ég var að taka hérna eina líkingu áðan, þá sagði ég, að það gæti nú farið svo, að fjmrn. mætti bráðum ekki samkv. einhverjum lögum fara að gera neitt nema að hafa uppáskrift frá forsrn. Við sjáum sem sé, að þarna eru að gerast mjög eftirtektarverðir hlutir. Þau höft — þau höft, segi ég, af því að ég veit, að hæstv. ríkisstj. kippist við, þegar hún heyrir slíkt — þau höft, sem lögð eru á byggingar skóla, eru gerð það harðvítug, að það er ekki nóg, að fyrst verði fjárl. svo að segja að hefta skólabygginguna og síðan verði menntmrn. að hefta skólabyggingarnar. Nei, ofan á allt saman kemur, að fjmrn. á að vera yfirhaftastjóri, vegna þess að hæstv. menntmrh., hver sem hann er á hverjum tíma, er ekki treyst, af því að rn. er ómerkilegt; nema þá með sérstakri uppáskrift frá fjmrn.

Þarna sjáum við, hvert þetta er að koma, og nú vil ég mælast til þess við hv. þm. í sambandi við mína brtt. á þskj. 320, að þeir frelsi nú menntmrn. undan þessum ákvörðunum og höftum fjmrn., annars vegar til þess að gera fólkið í landinu almennt ofurlítið öruggara um, hvar það standi, og hins vegar til þess að gera menntmrn. að merkilegra rn., en forsrh. vill láta það vera, því að ég lít alltaf þannig á, að menntmrn. sé eitt af merkilegustu rn. í ríkisstj. Ég verð að segja það, að mér finnst það ákaflega hart, ef almenningur úti á landi fær ekki rétt til þess að byggja sér skóla. Við skulum segja, að það sé skv. teikningum, sem menntmrn. eða viðeigandi deild þess hefur gert og allt eftir því, segjum, að þeir verði líka að halda sér við áætlunina. En af hverju má ekki eitt bæjarfélag, sem þarf á skóla að halda, byggja slíkan skóla, ef það hefur sjálft fé til þess eða getur útvegað sér á einhvern hátt fé til þess? Við vitum jú, að við lifum á verðbólgutímum, þar sem allt fé rýrnar í gildi um 10–15% á ári. Af hverju má ekki eitt bæjarfélag, ef það getur komizt yfir fé, nota það til þess að byggja þannig? Eru það sérréttindi braskaranna í Reykjavík, einni af öllum byggðum þessa lands, að fá að byggja, nálgast einhvern veginn og einhvern veginn peninga úr ríkisbönkunum og fá að byggja fyrir þá. Af hverju á að setja menntamál, sjúkrahúsamál, skólabyggingamál og annað slíkt undir alveg sérstök, margföld höft í þessum efnum, þegar öllum höftum er sleppt af öllum bröskurum, hvar sem þeir geta haft sig í frammi. Ég vil minna á það, að allt fé — allir peningar — falla í gildi um 10–15% á ári, og af hverju á að dæma bæjarfélög, sem gætu treyst sér til að byrja á ákveðnum byggingum og komast eitthvað áfram með þær og jafnvel klára þær, af hverju á að dæma þau úr leik? Því mega þau ekki eiga þetta inni hjá ríkissjóði?

Svo vil ég aðeins að síðustu benda hæstv. menntmrh. á, að hann sagði hér í ræðu sinni áðan, að það væri lagður traustur grundvöllur að áætlunargerð. Jú, í 4. gr. er mælt mjög fagurlega fyrir um áætlunargerð, er taki til allt að tíu ára tímabils. Að vísu er nú varnaglinn sleginn fljótt, því að í a-liðnum stendur: Framkvæmdaáætlun þessa skal endurskoða svo oft sem ástæða þykir til. Hver er nú okkur reynsla hér í þinginu af þessari áætlanagerð? Við höfum fengið sérstakar áætlanagerðir, t.d. um skólabyggingar, um sjúkrahúsabyggingar, um alla mögulega hluti, sem ríkið snertir, og hvað gerist um leið og við erum búnir að samþ. þessar áætlanir? Þá gerist það á sama þingi, að það er lagt fram sérstakt stjfrv. um að skera niður þessar áætlanir, skera niður þessar framkvæmdaáætlanir um 10%, um 20% o. s. frv. Áætlanir um einstök svið geta verið góðar út af fyrir sig, ef þær eru liður í stærri heild. Ef þær búa til heildaráætlun fyrir þjóðarbúskapinn sjálfan þannig, að það sé samræmi á milli þess, sem á að gera t.d. í einkarekstrinum, og þess, sem á að gerast í vissum þáttum þess opinbera rekstrar, og þetta allt saman reiknað út sameiginlega, hvað snertir fjármagn og vinnuafl. Það er það, sem alltaf vantar, og þess vegna verður hver einstök áætlun tóm vitleysa. Þess vegna er það ekki traustur grundvöllur, sem er lagður. Þess vegna er það ótraustur grandvöllur, sem lagður er með þessu, vegna þess að það vantar, að þetta sé liður í heildaráætlun. Þess vegna er viðbúið, að það fyrsta, sem við fáum að heyra, eftir að eitthvað svona væri samþ., sé það, að nú þurfi að skera þetta niður. Því að ef eitthvað á að skera niður á Íslandi, má aldrei skera niður braskið, aldrei spillinguna, heldur aðeins sjúkrahúsin og skólana.