17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

159. mál, skólakostnaður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að ég fæ ekki almennilega skilið það ofurkapp, sem lagt er á að reka þetta margbrotna mál í gegn með svo miklum hraða og svo seint á þingi. Manni finnst, að það hefði óneitanlega verið hægt að gera eitt af tvennu að leggja meiri vinnu í að ná samkomulagi um málið eða þá að láta málið bíða og íhuga það betur til næsta hausts.

Það er eiginlega erfitt að sjá, að í þessu máli sé nokkuð, sem er svo bráðaðkallandi, að slík aðferð gæti ekki verið skynsamleg. Ég skal ekki eyða tímanum í það að fara að bollaleggja um þetta frekar en ég hef gert. Ég hef hvað eftir annað skorað á hæstv. ráðh. og hv. þm., sem ég veit, að ýmsir mundu vilja breyta ákvæðum í frv., skorað á þá að beita sér fyrir því, að frekari samkomulagstilraunir séu gerðar, en það hefur ekki borið árangur, a.m.k. ekki fram að þessu, hvað sem síðar kann að verða.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér þá liði, sem ræddir hafa verið af frsm. minni hl., sem er kunnugri þessu málefni en ég, en hann hefur sýnt fram á, að það þyrfti talsverðar breyt. á frv., ef vel ætti að vera, og fært fyrir því skynsamleg rök og ýtarleg í mörgum liðum.

Það er sérstaklega eitt málefni af mörgum, sem í þessu felast, sem ég vildi fara enn nokkrum orðum um, og það er í sambandi við þessar fyrirætlanir um, að sveitarfélögin fari nú að greiða hluta af stofnkostnaði og rekstrarkostnaði héraðsskólanna á ný. Það er ekki langt síðan, en þó nokkur ár, að sú skipan var á gerð, að ríkið tók alveg við þessum skólum, og hygg ég, að menn hafi alls ekki gert ráð fyrir því, að komið gæti til mála, að eftir nokkur ár yrði þessu aftur hrint í gamla farveginn eins og hér er í raun og veru fyrirhugað, að því viðbættu, að gert er ráð fyrir mjög óviðeigandi innheimtuleið á þeim kostnaði, sem héruðunum er ætlað að bera. Meiningin er sem sé að búa út reikninga fyrir hvern einasta nemanda, sem í slíkum skóla er, og láta þá á hluta af rekstrarkostnaði skólans, og innheimta þetta síðan hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi. Þessi aðferð er svo fáránleg og ógeðfelld á alla lund, að ég er alveg hissa á því, að hæstv. ríkisstj. skuli vilja leggja út í þetta og minnir þetta á löngu úrelta skipan í öðrum málaflokki, sem ég ætla ekki að fara að lýsa hér nánar, en ég held, að menn hafi orðið fegnir að losna við að senda þannig um landið þvert og endilangt slíka reikninga.

Ég geri ráð fyrir því, að mönnum komi það mjög á óvart, að hæstv. ríkisstj. ætlar að leggja þennan kostnað aftur á héruðin og vil nú enn þá einu sinni skora á hæstv. menntmrh. og þá mörgu hv. alþm., sem ég veit, að eru mótfallnir þessu, sjá á þessu mikil missmíði, að ganga nú fram í því að kippa þessu í lag.

En auk þess að minnast á þetta varðandi héraðsskólana í heild sinni, vil ég leyfa mér að minna á það aftur hér á hv. Alþ. og minna hæstv. ríkisstj. á það, að einn af þessum skólum, alþýðuskólinn á Eiðum, er settur á fót samkv. sérstökum samningi, sem Múlasýslur gerðu við ríkið á sínum tíma og sem enn er að sjálfsögðu í gildi.

Sá samningur er þannig vaxinn, að það er að mínu viti brot á honum að taka upp þá skipan, sem hér er ráðgerð. Skal ég í örfáum orðum gera grein fyrir þessu og tel mér það sérstaklega skylt, og geri það raunar fyrir hönd fleiri hv. alþm. af Austurlandi.

Við erum hér með brtt. af þessu tilefni. Sú er saga þessa máls, að rekinn var búnaðarskóli á Eiðum, sem Múlasýslurnar stofnuðu til, en síðar varð að ráði að leggja þennan búnaðarskóla niður, en sýslunefndir beggja Múlasýslna, sem áttu skólann, tóku þá ákvörðun að gefa landssjóði kost á því að taka við skólaeigninni, eins og hún var, þ.e.a.s. skólahúsunum, sem þá voru á Eiðum, og öllum jarðeignum Eiðastóls, þ. á m. höfuðbólinu Eiðum, gegn því að ríkisvaldið tæki að sér að reka skóla á Eiðum, sem ríkið kostaði að öllu leyti. Þessi samningur var gerður 1917 og var gengið frá honum þannig, að það voru sett sérstök lög, og frv. að þeim l. var flutt af fimm hv. alþm., og það varð að l. óbreytt eins og það kom fram, að öllum efnisatriðum til. Í 1. gr. þessara laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á Eiðum skal stofnaður alþýðuskóli með tveimur bekkjum fyrst um sinn, og miðaðir við tveggja til þriggja vetra nám. Skal hann samskóli, jafnt fyrir konur sem karla. Jafnframt leggja Múlasýslur niður búnaðarskóla þann, sem þar hefur verið, og afhenda landssjóði eignir hans allar, fastar og lausar, Eiðastólseignir, skólabú, búsáhöld og byggingar, ásamt skuldum þeim og kvöðum, sem á eigninni hvíla og Múlasýslum hennar vegna á afhendingardegi. Afhending fer fram í fardögum 1918 og eftir ákvörðun sameiginlegs sýslufundar Múlasýslna 2. júlí 1917. Skilyrði fyrir afhendingunni er, að landssjóður starfræki framvegis á Eiðum, eða á öðrum hentugum stað í Múlaþingi, vel útbúinn, æðri alþýðuskóla, er samsvari kröfum tímans.“ Síðan segir í 2. gr., sem kveður enn þá nánar á um þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Skólinn skal að öllu rekinn á kostnað landssjóðs, enda setji landsstjórnin honum starfsreglur og hafi hans öll ráð.“

Hér er þessi samningur lögfestur á þessa lund og hefur verið framkvæmdur refjalaust síðan fram á þennan dag. Fyrst með sérstakri löggjöf um Eiða, þar sem ríkið rak skólann í samræmi við lagaákvæði, og síðan með því að setja Eiða ásamt öðrum héraðsskólum inn í almenna kerfið, þegar það var ákveðið, að ríkið kostaði héraðsskólana að öllu leyti, því að þá var þetta orðið hliðstætt, og þá var samningurinn uppfylltur á þann hátt. Síðan segir í grg. fyrrnefnds frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarskóli sá, sem Múlasýslurnar hafa stofnað og starfrækt á Eiðum að undanförnu, hefur eigi hlotið þá hylli eða aðsókn, sem vænta mátti, einkum síðan sjávarsveitunum í Suður-Múlasýslu óx fiskur um hrygg og sjávaratvinna varð þar yfirgnæfandi. Hins vegar hefur óskin um æðri alþýðuskóla verið almenn í Múlasýslum, skóla, sem veitti almenna fræðslu og byggi nemendur undir hvers kyns störf í þjóðfélaginu.

Út af því hafa sýslunefndir beggja Múlasýslna, sem nú eiga skólann, komið sér saman um að bjóða landssjóði skólaeignina alla til eignar, jarðir og lausafé, með skilyrðum þeim, sem felast í 1. gr. þessa frv., og virðist eðlilegra, að landið starfræki þarna fyrirhugaðan alþýðuskóla, eins og í öðrum landsfjórðungum, en að hann sé rekinn af einstökum mönnum eða héruðum.“

En lagagreinarnar voru þessar, sem ég las áðan, og þar er skýrum stöfum tekið fram, að skólinn skal að öllu leyti rekinn á kostnað landssjóðs og enn fremur, að það sé skilyrði fyrir afhendingu eignanna, að slíkur skóli verði rekinn á staðnum framvegis. Þetta er eins skýrt og það getur verið og sýnir, að það er ekki hægt að lögbjóða nú hið gagnstæða og brjóta samninginn, sem sé að lögbjóða nú, að ríkið skuli ekki kosta þennan skóla, og héraðið skuli leggja til hans, því að vitanlega eru það héruðin, sem eiga að bera þennan kostnað skv. frv., þó að honum sé hlutað niður eftir því, hvaðan nemendurnir eru. Það eru héruðin, sem bera kostnaðinn, eins og málið er sett upp í þessu frv.

Af þessum ástæðum leyfum við okkur, þrír þm. af Austurlandi, Eysteinn Jónsson, Halldór Ásgrímsson og Lúðvík Jósefsson, að bera fram svo hljóðandi till., með leyfi hæstv. forseta:

Við 14. gr. Orðin „Alþýðuskólann á Eiðum“ falli burt.

Þessi till. miðar eingöngu að því, að ekki verði rofinn samningurinn, sem gerður var um Eiða við Múlasýslur.