18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

159. mál, skólakostnaður

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað það frv., sem hér liggur fyrir til umr., en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 590, leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. skilar séráliti. Hæstv. menntmrh. gerði við 1. umr. málsins grein fyrir aðalatriðum og nýmælum þessa frv. Það eru að mínu viti tveir af aðalkostum þess, að annars vegar er lagt til, að styttur verði úr 5 árum í 2–3 ár sá tími, sem framlög ríkissjóðs til skólabygginga eiga að greiðast á, og hins vegar einfaldari og gleggri skipting á þeim rekstrarkostnaði, sem hvorum aðila, ríki og sveitarfélagi ber að standa straum af. Í núgildandi l. frá 1955 um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, er kveðið svo á, að ríkissjóður sjálfur skuli hafa lokið greiðslu framlaga til hverrar framkvæmdar, miðað við upphaflega kostnaðaráætlun, á 5 árum frá því að fyrsta framlag var innt af hendi. Sveitarsjóðirnir hafa því þurft að leggja út og binda í þessum byggingarframkvæmdum umfram sitt eigið framlag mikið fé og í mörgum tilfellum árum saman, þangað til framlag ríkisins hefur verið greitt að fullu eða þá að framkvæmdir hafa dregizt óhóflega á langinn, vegna þess að fjármagn hefur ekki verið fyrir hendi. Það gefur auga leið, að fyrir sveitarfélögin og alla þá yfirleitt, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við skólabyggingar, er stórkostlega mikill ávinningur að þessu ákvæði frv., ef að l. verður.

Um hitt atriðið, skiptingu rekstrarkostnaðar skólanna, er í frv. gert ráð fyrir einfaldari aðgreiningu þess annars vegar, hvaða kostnað ríkið greiði og hins vegar sveitarsjóðir, einfaldari aðgreiningu en er samkv. núgildandi skólakostnaðarl. frá 1955, en þau lög voru á sínum tíma mikið spor í framfaraátt, ekki sízt ákvæði þeirra um það, að stofnkostnaðarframlag ríkisins skyldi greiðast innan ákveðins árafjölda. Samkv. frv. ber ríkissjóði að greiða öll kennaralaun, en samkv. núgildandi l. skiptist hins vegar sá kostnaður eftir flóknum reglum, sem iðulega hafa orðið tilefni til ágreinings um greiðsluskyldu aðilanna. Það má líka teljast eðlileg og heppileg regla, að ríkið, sem er samningsaðili um laun og kjör kennara, beri launakostnað hvað þá snertir. Þar á móti kemur samkv. frv. það, að sveitarfélögin taki á sig greiðslur tiltekins kostnaðar, sem samkv. núgildandi l. skiptist milli ríkis og sveitarfélaga, svo sem vegna húsvörzlu, upphitunar skólahúsnæðis, ræstingar, lýsingar o. fl., enda eru það yfirleitt sveitarsjóðirnir, sem eru samningsaðilar um launakjör þess starfsfólks, sem hér verður um að ræða.

Ég hef nefnt þessi tvö atriði, en vil þá einnig sérstaklega taka undir það ákvæði frv., að gerð verði framkvæmdaáætlun um skólabyggingar fyrir allt landið. Þó að ég sjái ekki ástæðu til þess að lengja umr. með því að víkja sérstaklega að öðrum ákvæðum frv., vil ég aðeins segja það að það mun álit manna yfirleitt, að frv. stefni í rétta átt og vinningur yrði, að það öðlaðist lagagildi.

Menntmn. hafði skemmri tíma en æskilegt hefði verið til þess að athuga þetta mál, sem er vissulega stórt mál. Hins vegar hafa þm. haft allríflegan tíma til þess að athuga málið síðan það var lagt fram á Alþ. N. varð, eins og ég áður sagði, ekki sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl. mun skila séráliti og, að mér skilst, flytja brtt. við frv., en meiri hl. leggur til, eins og fram kemur í nál., að frv. verði samþ. óbreytt, enda má segja, að lítil von sé til þess, að málið hljóti afgreiðslu á þessu þingi, sem senn er að ljúka störfum, ef á því yrðu gerðar breytingar.

Á þeim fundi, sem málið var tekið fyrir á, var einn nm., hv. 5. þm. Reykn., fjarstaddur, og vil ég láta það koma hér fram, en þess er ekki getið í nál. því, sem fyrir liggur á þskj. 590.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um frv. eða efni þess að svo stöddu og geymi mér rétt til þess við síðari umr., ef tilefni gefst til.