21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir ekki skrefið stórt, sem hæstv. ríkisstj. hefur stigið með þessu frv. Ég var ekki svo vel að mér, að ég byggist við slíku frv. nú að sinni, en þegar ég sá þetta frv. í gær, kom mér vart annað til hugar en hér væri um að ræða lækkun kosningaaldurs úr 21 ári niður í 18 ár. En hér er sem sagt aðeins um það að ræða að lækka kosningaaldurinn um eitt einasta ár. Í því sambandi er vert að spyrja sig: Borgar það sig að flytja frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni fyrir þetta lítilræði? Ég hef ekki heyrt margar raddir að undanförnu, sem óskuðu þess, að kosningaaldurinn yrði lækkaður um eitt ár. En ég hef heyrt margar raddir um það, að hann yrði lækkaður um 3 ár, úr 21 niður í 18, og hefði ég talið ómaksins vert að breyta stjórnarskránni fyrir það, en tæpast fyrir þetta eina ár, sem hér um ræðir. Ég er þeirrar skoðunar a.m.k., að tilhneigingin verði sú á komandi árum að lækka kosningaaldurinn af mörgum og margvíslegum ástæðum, sem ég skal ekki telja upp hér. Ég hefði þess vegna talið rétt annaðhvort að bíða með þetta frv., sem hér um ræðir, enn í nokkur ár eða stíga skrefið til fulls og lækka aldurinn niður í 18 ár. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekki þótt henta. Hún vill taka þetta í smáskrefum og breyta stjórnarskránni tvisvar eða þrisvar í staðinn fyrir einu sinni. Hæstv. forsrh., sem hafði orð fyrir þessu frv., gat þess, að allvíða væri kosningaaldurinn 18 ár, en það Væri helzt í löndum, þar sem lýðræði væri takmarkað. Ég veit ekki, hvort þetta er rétt. En ég á bágt með að trúa því, að Samband ungra jafnaðarmanna eða Samband ungra sjálfstæðismanna sé að leita að slíkum fyrirmyndum, þegar þau gera ákveðnar till. og samþykktir um að skora á Alþ. að lækka kosningaaldurinn niður í 18 ár. Ég veit ekki um lýðræðið austan járntjaldsins, ég veit tæpast um það heldur í Bandaríkjunum, en það mun vera svo, að bæði austan hafs og vestan eru dæmi um, að ríki hafi kosningaaldurinn 18 ár. Hæstv. forsrh. benti á, að það væri kannske eitt og annað í þessu frv., sem væri vert að athuga nánar, og taldi sig ekki mótfallinn því. Og ég stend nú upp til þess að bæta við einu atriði, sem ég teldi vera rétt, að Alþ. athugaði nánar, og það er aðalatriði málsins, hvort ekki sé rétt að stíga skrefið til fulls, lækka kosningaaldurinn úr 21 ári og niður í 18 ár.