09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

84. mál, Iðnlánasjóður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Allir nm. iðnn. eru sammála um þörfina á auknu lánsfé til iðnaðarins og mæla með efnisatriðum frv. að því leyti. En um eitt atriði frv. eru nm. ekki sammála. Það er, að skuldabréf, sem iðnlánasjóður býður út, skuli vera undanþegin framtalsskyldu. Um þetta atriði höfum við þrír nm. flutt brtt. á þskj. 122, og er þar sú ein breyting gerð á 3. mgr. 1. gr. frv., að skuldabréf iðnlánasjóðs skuli vera framtalsskyld.

Um skattskyldu sparifjár og verðbréfa má að sjálfsögðu ýmislegt segja, og það er nánast ákvörðunaratriði hverju sinni, hvernig með það skuli farið. Hins vegar tel ég, að það eigi að vera undantekningarlaust, að framtalsskylda sé. Ég tel, að það hafi verið rangt, þegar farið var inn á það varðandi verðtryggðu ríkisskuldabréfin að undanþiggja þau framtalsskyldu, og slík ráðstöfun sé okkur býsna hættuleg í ýmsum atriðum. Varðandi spariféð má segja, að þó að það sé ekki framtalsskylt í öllum tilvikum, er möguleiki til þess að hafa eftirlit með því, a.m.k. að langmestu leyti, þó að e.t.v. kunni að finnast smugur til þess, að það sé erfitt. En varðandi aftur á móti handhafaskuldabréf vita allir, hvaða möguleikar eru til þess að vita, á hvaða höndum slík bréf eru, og ef þau eru ekki framtalsskyld, skeður slíkt ekki nema um eignakönnun eða viðlíka ráðstafanir sé að ræða. Ég held, að það sé ekki umdeilanlegt, að ráðstöfun sem þessi, að undanþiggja verðbréf framtalsskyldu, er til þess fallin að slæva enn frekar hið ekki allt of sterka siðferði, sem hjá okkur er ríkjandi í öllum skattamálum.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta mál, þetta er að mínum dómi svo augljóst. En ég vildi aðeins segja, að það sé fjarri lagi, að hið háa Alþ. geri ráðstafanir, sem óhjákvæmilega hníga að því, að skattsvikin hjá okkur verði meiri og allt siðferði í skattamálum verði lakara en það nú er.