14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

172. mál, sala Þormóðsdals og Bringna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er farið að tíðkast mjög mikið, að ríkið selji jarðir. Ég man nú ekki, hvað mörg frv. það eru, sem liggja núna fyrir þessari hv. d. um að ríkissjóður selji jarðir, sem hann á. Að vísu er það svo með flest af þessu, að ríkissjóður er að selja því opinbera, hreppsnefndum eða öðrum slíkum aðilum, og svo er einnig hér. Hins vegar hagar hér nokkuð sérstaklega til. Við vitum, að það er um allt annað að ræða, þegar verið er að selja jarðir, sem eru hér í nágrenni Reykjavíkur, en þegar verið er að selja gamlar eignir ríkisins í Vestmannaeyjum eða einhvers staðar úti á landi. Hér kemur ríkið til með að þurfa á því að halda á komandi áratugum að eiga sjálft sínar lóðir. Við vitum, að ríkið eða ýmsar opinberar stofnanir ríkisins eru nú að kaupa fyrir milljónatugi lóðir hér í Reykjavík, sem ríkið gaf að meira eða minna leyti fyrir hálfri öld. Og ef við hugsum ofurlítið fram í tímann, við, sem höfum upplifað, hvernig Reykjavík hefur breytzt á einni hálfri öld, hljótum við að sjá, að þær jarðir, sem ríkið á hér í nánd, verða því mjög dýrmætar eftir nokkurn tíma. Ég skil það vel, að þessar hreppsnefndir, sem hér eru í kring, muni gjarnan vilja eignast þessar jarðir oft og tíðum. Þróunin hefur nú öll gengið út á það, að þessir hreppar hér í kring hafa meir og meir verið lagðir undir Reykjavík, og við sjáum, hvernig stækkunin á Reykjavík hefur verið nú undanfarið.

Ég held, að það eigi að athuga þessa hluti ofurlítið betur. Ég fæ ekki séð, hvað sérstaklega liggi á með þessa hluti og mér finnst það ekki vera rétt eða viðkunnanlegt að fara að knýja þetta fram, svona á þeim annadögum, sem nú eru í þinginu. Aðaltrúnaðarmenn ríkisins mæla á móti þessu, eins og hér var upplýst, og ég fæ ekki betur séð en að rétt væri fyrir okkur að taka nokkurt tillit til slíks. Ég verð þess vegna að segja, að ég álít, að þetta frv. megi vel bíða, það liggi ekki svo mikið á. Það sé ekki réttmætt að ætlast til þess, að farið sé að knýja það fram núna á þessum allra síðustu dögum. Ég sé að vísu, að það á að tryggja ríkinu byggingarlóðir seinna meir undir opinberar byggingar, en það er svo margt annað, sem við komum til með að þurfa á að halda. Við sjáum t.d. hvert Reykjavík stefnir núna, byggingarnar í Reykjavík. Það verður ekki langt þangað til — ekki langt miðað við mannsævina — að þær fara að nálgast Mosfellsdalinn. Ég hefði þess vegna viljað mælast til þess, að þetta mál fengi að bíða nú og mun fyrir mitt leyti ekki greiða atkv. með því.