02.02.1967
Sameinað þing: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

Framkvæmd vegáætlunar 1966

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú aðeins af einu atriði, að ég tek til máls aftur. Það var út af bréfi, sem hann las upp, hv. 3. þm. Vesturl., frá vegamálastjóra. Þar talar vegamálastjóri um þjóðbrautir og brýr, en ég heyrði ekki betur en hv. 3. þm. Vesturl. hefði í fyrri ræðu sinni talað um framkvæmdir, að það væru 54% af vegaframkvæmdum. Og það er allt annað. Vegasjóður hafði á s.l. ári um 311 millj. kr., til vegaviðhaldsins fóru 125 millj., við köllum það ekki framkvæmdir, drögum það frá, þá eru 185 millj., sem hafa farið í framkvæmdir, en vextir og afborganir eru, eins og ég áðan sagði, 40 millj., þ. e. 40 millj., en ekki 44 samkv. síðustu útreikningum vegamálastjóra, og það sjá allir, að 40 millj. af 185 eru ekki 54% og það var þess vegna, sem ég vildi leiðrétta, en það má vera, að hv. 3. þm. Vesturl. hafi meint hitt og vitanlega hefur hann ekki ætlað sér að fara með rangar tölur, það veit ég, að hann hefur ekki ætlað sér að gera, en þetta kom nú þannig út, að það var ekki hægt annað en gera aths. við það.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að það væri alveg sjálfsagt að gera kröfur til þessarar ríkisstj., og það lá í orðunum, að það ætti að gera hærri kröfur til þessarar ríkisstj. heldur en þeirra, sem áður hefðu setið, og þetta er alveg ágætt fyrir ríkisstj., því að það gerir enginn háar kröfur til þeirra manna eða til þeirra ríkisstj., sem ekki er treyst, og vitanlega hefur hv. 3. þm. Vesturl. ástæðu til þess að gera kröfu til núv. ríkisstj. í framkvæmdum vegamála. Reynslan hefur sýnt, að það hefur verið framkvæmt í vegamálum á síðustu árum, sem ekki var unnt að framkvæma áður. Og það er ekki vegna aukinnar bílaumferðar, að ráðizt er í það núna að gera Strákaveginn, Múlaveginn, veginn fyrir Ólafsvíkurenni. Það var ekki vegna þess að bifreiðunum hafi fjölgað svo mikið í landinu, heldur vegna þess, að það var talið eðlilegt að verða við óskum þessara byggðarlaga, sem þau hefur dreymt um seinustu áratugi. Og vitanlega er sjálfsagt að halda áfram og vinna við þessi verk, sem öðrum ríkisstj. tókst ekki að koma fram. Hv. þm. hefur oft talað um það, að framlag til vegamála væri tiltölulega minna nú heldur en t.d. 1958, þegar hans flokkur fór með fjármál og vegamál.

En þá voru það aðeins 4.8% af útgjöldum ríkissjóðs og útflutningssjóðs, en 1966 7.5%. Og þetta hlutfall hefur orðið vegunum í hag, enda þótt útgjöld til félagsmála og annarra framkvæmda, heilbrigðismála og menntamála hafi verið á árinu langt umfram það, sem verðhækkun og fólksfjölgun í landinu nemur.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri í sambandi við þessa skýrslu, en ég taldi nauðsynlegt að leiðrétta það, sem hefði mátt misskilja út af því bréfi, sem hv. 3. þm. Vesturl. las upp.