13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í framhaldi af samþykkt Alþ. á þeirri till., sem hv. fyrirspyrjandi las í orðum sínum hér áðan, tók viðskmrh. að sér að semja skýrslu um mál þetta. Er því verki lokið, en ætlunin var að senda skýrsluna til samtaka útflytjenda áður en málið yrði lagt fyrir hið háa Alþ. Ég skal hins vegar með ánægju verða við tilmælum hv. þm. um að skýra frá aðalefni þeirrar skýrslu, sem þegar hefur verið samin. En ég mun nú á næstunni ræða hana við samtök útflytjenda.

Hugmyndir þær, sem settar eru fram í skýrslunni, eru því ekki endanlegar, og má vel vera, að skoðanir rn. breytist við viðræður við samtök útflytjenda. Við gerð skýrslunnar leitaði viðskmrn, álits samtaka útflytjenda, sem ekki höfðu áður sent Alþ. álit sitt á málinu. Einnig var leitað álits sendiráða Íslands erlendis. Í skýrslunni er rakinn þáttur hins opinbera í markaðsrannsóknum og markaðsleit til þessa, birt álit útflytjenda og sendiráða Íslands erlendis á málinu og að lokum lagðar fram hugmyndir um nýjar ráðstafanir á þessu sviði. Kaflinn í skýrslunni um þátt hins opinbera fer hér á eftir:

Af hálfu hins opinbera eru það einkum þrír aðilar, sem látið hafa markaðsathuganir til sín taka: utanrrn., viðskmrn. og fiskimálasjóður. Skal nú vikið nokkuð að þætti hvers þessara aðila um sig.

Sendiráð Íslands erlendis hafa safnað upplýsingum um erlenda markaði, einkum þau atriði, er varða útflutningsafurðir Íslendinga. Hafa þau sent utanrrn. skýrslu um þau mál. Er starfsmönnum utanríkisþjónustunnar falið þetta verkefni í leiðbeiningabók fyrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem gefin var út í umsjá Agnars Kl. Jónssonar ráðuneytisstjóra. Starfsemi sendiráðanna á þessu sviði hefur þó hvergi nærri verið næg vegna skorts á starfsmönnum við sendiráðin. Ber brýna nauðsyn til þess að auka þessa starfsemi utanríkisþjónustunnar, eins og síðar mun nánar verða vikið að.

Viðskmrn. hefur aðstoðað utanrrn. um gerð viðskiptasamninga við önnur ríki og við rn. hefur starfað sérstök útflutningsdeild. Einnig hefur alþjóðleg efnahagssamvinna heyrt undir viðskmrn. Af þessum sökum hefur rn. fylgzt með þróun markaðsmála erlendis, þ. á m. myndun og þróun markaðsbandalaga, og má líta á starf viðskmrn. á þessu sviði sem markaðsathuganir. Í sambandi við undirbúning nýrra viðskiptasamninga við erlend ríki er ávallt unnið mikið starf í rn., svo sem upplýsingasöfnun um erlenda markaði og gerð skýrslna og taflna um viðskipti okkar á mörkuðum þessum. Er þessum upplýsingum öllum haldið til haga. Eftir að markaðsbandalögin í Evrópu höfðu verið mynduð, var sérstökum mönnum í viðskmrn, falið að fylgjast með þróun þeirra með sérstöku tilliti til hagsmuna Íslands. Hafa margar skýrslur verið samdar í rn. um bandalög þessi og um vandamál þau, sem bandalögin valda á Íslandi. Hefur rn. safnað miklum upplýsingum erlendis frá um bandalögin, bæði fyrir milligöngu sendiráða Íslands erlendis og beint frá ýmsum aðilum. Þá hefur rn. fylgzt með þróun GATT, alþjóðatollamálastofnunarinnar, og síðan 1964 hefur Ísland verið aðili þar að og tekið margvíslegan þátt í störfum stofnunarinnar, m, a. í Kennedy-viðræðunum, sem varða viðskiptahagsmuni Íslands. Hefur þátttaka Íslands í GATT svo og öðrum alþjóðlegum stofnunum, eins og alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Efnahags- og framfarastofnuninni í París, fært þjóðinni margvíslegan fróðleik um erlenda markaði. Útflutningsdeild viðskmrn. annast leyfisveitingar fyrir allar útfluttar vörur. Verkefni deildarinnar er að fylgjast með verði á útflutningsafurðum Íslendinga erlendis í því skyni að koma í veg fyrir undirboð útflytjenda Ákveður deildin lágmarksverð hverju sinni. Í því skyni að rækja þetta hlutverk sitt, hefur útflutningsdeildin orðið að fylgjast náið með mörkuðum fyrir íslenzkar afurðir erlendis. Hefur hún gert það með því að hafa samband við kaupendur íslenzkra afurða erlendis, seljendur þeirra og sendiráð Íslands ytra. Einnig hefur deildin iðulega sent fulltrúa til útlanda til þess að kynna sér þessi mál. Útflutningsdeildin hefur einnig verið nokkurs konar upplýsingaskrifstofa fyrir útflytjendur. Á vegum viðskmrn. starfar vörusýninganefnd, en hún sér um þátttöku Íslands í erlendum vörusýningum, sem er mikilvægur liður í markaðsleit og sölustarfsemi. Hefur vörusýninganefnd fengið sérstakt fjárframlag á fjárl. til starfsemi sinnar, en auk þess hefur hún iðulega fengið framlög úr fiskimálasjóði.

Um álit útflytjenda á markaðsrannsóknum og markaðsleit segir svo í skýrslunni:

Öll helztu samtök íslenzkra útflytjenda eru sammála um það, að auka þurfi starf á sviði markaðsrannsókna og markaðsleitar. Hins vegar greinir samtökin nokkuð á um það, hvaða leið sé vænlegust til árangurs í þessu efni, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna telur, að koma ætti á samstarfi sölusamtaka framleiðenda og hins opinbera um auknar markaðsrannsóknir og markaðsleit. Telur Sölumiðstöðin, að skipuleggja ætti sameiginlega þjónustu á þessu sviði. Í því skyni þyrfti einhver einn aðili að hafa yfirumsjón með starfseminni, og væri því sérstök stofnun í einni eða annarri mynd óhjákvæmileg. Samband ísl. samvinnufélaga telur, að ríkisvaldið eigi að gangast fyrir því, að útflytjendur sameini krafta sína á sviði markaðsrannsókna og markaðsleitar. Álítur S.Í.S., að vaxandi þörf sé á markaðsrannsóknum í stærri stíl en líklegt sé, að einstakir útflytjendur hafi tök á. Félag ísl. iðnrekenda telur nauðsynlegt að efla markaðsstarfsemi og færa hana yfir á víðtækara svið, enda þótt mikilvægt starf hafi þegar verið unnið á þessu sviði. Bendir Félag ísl. iðnrekenda á, að Íslendingar ættu að hagnýta sér reynslu annarra þjóða í þessu efni, t.d. Norðmanna og Dana. Yfirleitt eru öll samtök útflytjenda þeirrar skoðunar, að æskilegt væri að auka starfsemi sendiráða Íslands erlendis á sviði markaðsrannsókna og markaðsleitar. Benda sum þeirra á, að ráða þyrfti sérstaka viðskiptafulltrúa við sendiráðin til þess að hafa þessa starfsemi með höndum. Sendiráð Íslands erlendis eru þeirrar skoðunar, að auka þurfi verulega starfsemi á sviði markaðsrannsókna og sölustarfsemi í þágu útflutningsatvinnuveganna. Telja þeir nauðsynlegt, að ráðnir verði viðskipta- og efnahagsfulltrúar við sendiráðin, til þess að þau verði betur fær um að sinna þessu verkefni. Einnig telja sendiráðin, að auka þurfi starfsemi á þessu sviði heima fyrir.

Niðurstöður skýrslunnar eru þessar:

Augljóst er af því, sem fram kemur í álitsgerðum útflytjenda og sendiráða Íslands erlendis, að nauðsynlegt er að stórauka starf á sviði markaðsrannsókna, markaðsathugana og sölustarfsemi í þágu útflutningsatvinnuveganna. Það þarf að auka þessa starfsemi, bæði á vegum útflytjenda sjálfra og hins opinbera. Undirbúa þarf betur en verið hefur sölustarfið, áður en hafin er framleiðsla nýrra vara til útflutnings. Framleiðendur og sölusamtök, er framleiða og selja vörur í harðri samkeppni á frjálsum mörkuðum erlendis, þurfa að sinna betur hinum ýmsu þáttum nútímasölutækni, eins og auglýsingum og markaðsaðlögun. Opinberir aðilar, rn. og sendiráðin geta veitt útflytjendum og samtökum þeirra margvíslega aðstöð á sviði markaðsmála og má stórauka hana með bættu skipulagi.

Í skýrslunni eru að síðustu settar fram eftirfarandi hugmyndir um framkvæmdir:

1. Komið verði á fót útflutningsráði, er heyri undir viðskmrn., með fulltrúum útflytjenda. Útflutningsráðið skal vera ríkisstj. til ráðuneytis um útflutnings- og markaðsmál. Einnig skal það vera vettvangur fyrir umr. um þessi mál.

2. Starfsemi viðskmrn. á sviði markaðsathugana verði aukin. Lögð verði aukin áherzla á söfnun upplýsinga úr erlendum skýrslum, upplýsingaritum, blöðum og tímaritum um viðskiptamál, svo og skýrslum íslenzkra sendiráða um þessi mál. Athugað verði, hvort unnt sé að hefja útgáfu fréttabréfs um markaðs- og viðskiptamál í því skyni að miðla útflytjendum auknum fróðleik um þessi mál. Útflutningsdeildinni verði gert kleift að auka upplýsingastarfsemi sína.

3. Starfsemi utanríkisþjónustunnar á sviði viðskipta- og markaðsmála verði aukin. Ráðnir verði viðskiptafulltrúar við sem flest af sendiráðum Íslands erlendis; í fyrstu við sendiráðið í London, Washington og París. Komið verði föstu skipulagi á upplýsingasöfnun sendiráðanna á þessu sviði og upplýsingar sendar reglulega heim.

4. Vörusýninganefnd fái aukið fjármagn til starfsemi sinnar, svo að hún geti undirbúið þátttöku Íslands í fleiri alþjóðlegum vörusýningum og kynnt íslenzkar vörur erlendis.

5. Bein sölustarfsemi og markaðsleit fari fyrst og fremst fram á vegum útflytjenda sjálfra. Útflutningsráð fjalli um það, í hversu ríkum mæli sé rétt, að hið opinbera styrki starf í þágu markaðsleitar, t.d. auknar auglýsingar erlendis. Haldið verði áfram að veita opinber fjárframlög til markaðsleitar ytra, en ekki verði sú aðstoð bundin við markaðsleit fyrir sjávarafurðir einar, eins og verið hefur, heldur verði einnig veittur stuðningur við markaðsleit fyrir íslenzkar landbúnaðar- og iðnaðarvörur.

Herra forseti. Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi telji, að með þessum orðum mínum hafi fsp. hans verið nægilega svarað.