13.12.1966
Neðri deild: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mál þetta var tekið fyrir á skyndifundi í landbn. núna eftir miðdaginn, og þar sátu menn stundarkorn. Ekki gafst tóm til þess að fara yfir frv. eða lesa grg. þess, heldur urðu menn sammála um að styðja frv., en áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja öðrum, sem fram kynnu að koma. Það var um það rætt á þessum stutta fundi, að það orkaði tvímælis, hvernig bæri að skilja upphaf 4. gr., að því er þetta umdeilda atriði varðar, og var engum manni það ljóst, formanni eða nm., hvort hér væri um að ræða lán eða óendurkræfan styrk. Ég er þeirrar skoðunar, að æskilegt sé og nauðsynlegt raunar, að þetta sé orðað skýrt í gr. og þá eðlilega í samræmi við tilgang ríkisstj., sem leggur frv. fram. Að vísu leiðir af því, að þá er það ljóst, að sjóðurinn er þegar orðinn 20 millj. kr. minni, sjóðurinn í árslok, eftir að ráðstafað hefur verið því óendurkræfa fé, sem honum er ætlað að leggja fram á árinu 1966, þá eru aðeins eftir 30 millj. kr. í sjóðnum. Það finnst mér vera harla lítil upphæð og að ekki verði nein ósköp gerð til hagræðingar í landbúnaðinum með því fé.

Ég leyfi mér því að leggja fram brtt. við 4. gr., að því er upphæð sjóðsins varðar, með leyfi hæstv. forseta. Þetta er skrifleg brtt. Hún er á þá leið, a-liður, að í 4. gr. komi fyrir töluna „50 millj. kr.“ í upphafi gr. 65 millj. kr., og í öðru lagi b-liður, fyrir töluna „30 millj. kr.“ í síðustu mgr. sömu gr. komi 45 millj. kr. og síðan óbreytt greinin til loka. Þetta þýðir, að till. mín felur það í sér, að stofnframlag ríkissjóðs til framleiðnisjóðs skuli vera 65 millj. kr. Ég geri ekki brtt. við upphæðina 20 millj., sem eiga að ráðstafast af fé sjóðsins á árinu 1966, en legg til hins vegar, að eftirstöðvarnar, sem þá verða eftir í sjóðnum, verði 45 millj. kr., sem skulu greiðast með jöfnum árlegum greiðslum á árunum 1967 –1969, þ.e.a.s. með 15 millj. kr. framlagi á ári, í staðinn fyrir að í frv. er nú ætlazt til þess, að árlega framlagið frá ríkissjóði verði einungis 10 millj. kr., sem ég tel allt of lága upphæð. Hitt eru að sjálfsögðu einnig lágar upphæðir, sem ég þarna nefni, en tel þó, að það tryggði nokkuð aukna starfsgetu sjóðsins, svo að hann næði fremur tilgangi sínum, ef hann fengi þó þessa tekjuaukningu.

Ég leyfi mér að leggja þessar till. fram, en vænti þess, að frá hæstv. ríkisstj. komi tili. til þess að gera það skýrt, hvort 20 millj. eigi að vera lánsfé eða óendurkræft framlag.