03.11.1966
Neðri deild: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (1811)

46. mál, byggingarsamvinnufélög

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 50 hef ég ásamt tveimur öðrum hv. þm. flutt frv. til l. um byggingarsamvinnufélög. Í raun réttri er þó hér aðeins um að ræða breyt. á gildandi l. um þetta efni, en til hægðarauka fyrir menn að átta sig á þeim breyt., sem í frv. felast, er hér flutt frv. um þetta efni í stað brtt., sem hugsanlegt væri að gera, en meðfram líka vegna þess, að l. um byggingarsamvinnufélög eru nú orðin ein eftir af þeirri lagasetningu, sem upphaflega var sett um opinbera aðstoð til íbúðarhúsabygginga í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem ákvæðin um verkamannabústaði eru nú orðin að sérstökum lögum.

Hér er ekki um verulegar breyt. að ræða frá gildandi l., að segja má, nema í tveim atriðum. Það, sem ég hygg, að einkum hafi háð vexti og viðgangi byggingarsamvinnufélaga, nú á síðari árum a.m.k., er aðallega tvennt. Annars vegar skortur á hæfum byggingarlóðum, sem mun þó einkum eiga við hér í höfuðstaðnum, og svo hins vegar hitt, sem er þó eflaust stærra atriði, fjárhagsleg vangeta þeirra, til þess að ná tilgangi sínum.

Ég mun nú leyfa mér í örstuttu máli að gera grein fyrir þessu frv., en áður en ég kem að einstökum greinum, vil ég aðeins leyfa mér að segja örfá orð um húsnæðismálin almennt.

Ég hygg, að það sé allra dómur, þeirra sem hér eru inni, og þurfi ekki að rökstyðja, að ein brýnasta nauðsyn, sem liggur fyrir löggjafarþingi þjóðarinnar, sé að koma húsnæðismálunum í betra horf en þau eru nú í. Þetta hygg ég, að allir séu sammála um. Enda þótt lánsfé til íbúðabygginga á vegum byggingarsjóðs hafi vaxið talsvert að krónutölu á undanförnum árum, og ég skal engan veginn gera lítið úr því út af fyrir sig, hefur ekki náðst neinn viðhlítandi árangur í því efni að gera fólki kleift að byggja eigin íhúðir. Það vantar verulega á, að viðunandi marki í þeim efnum hafi verið náð. Þann 1. júlí s.l., í nýjustu Hagtíðindum, sem ég hef og ég held að birt hafi verið, var byggingarkostnaðurinn skv. útreikningi Hagstofunnar kr. 2720,37 á hvern teningsmetra. Ef miðað er við 370 teningsmetra íbúð, sem mun vera sú meðalstærð, sem Efnahagsstofnunin reiknar með, kostar slík íbúð nú á aðra millj. kr. Og ég bið menn að hafa það hugfast, að þegar þessir útreikningar eru lagðir fyrir, er um að ræða útreiknaðan byggingarkostnað af Hagstofunni og ekki reiknað með neinum aukakostnaði, sem margur verður þó áreiðanlega að greiða, áður en hann flytur inn í sína íbúð. Hámarkslánin úr hinu almenna veðlánakerfi hafa fram að þessu aðeins numið 280 þús. kr. á íbúð. Þau munu hækka á næstunni eitthvað vegna hækkunar á vísitölu byggingarkostnaðar, en ég hygg þó, að segja megi þrátt fyrir það, að lánin fari ekki yfir 30% af byggingarkostnaðinum og nái þó raunar ekki alveg þeirri tölu. Þegar við rifjum það upp, að nágrannaþjóðir okkar lána allt upp í 90% út á íbúðir til einstaklinga, sjáum við, hvað óralangt við eigum enn að því marki, sem viðhlítandi getur talizt í þessu efni, og því verður okkur það enn þá ljósara, þegar við berum þessar tölur saman við það, sem annars staðar þekkist, hversu verulegt átak hér þarf til að koma.

Það hefur oft verið rifjað upp hér á hv. Alþ. og ég skal gera það aðeins í örstuttu máli, hversu verðbólguvöxturinn og húsnæðisskorturinn eru tvær hliðar á sama máli, hvernig þeir hafa áhrif hvor á annan. Þess vegna er það víst, að ef menn meina í raun og veru eitthvað með því, að nú þurfi að taka í taumana á verðbólguvextinum, þá er lausn húsnæðismálana eitt af því, sem allra fyrst kemur til álita í þessu efni. En jafnvel þó að ekki kæmi til stöðvun verðbólgunnar, er þó hitt öllum ljóst, að þjóðfélagið hefur ekki uppfyllt frumstæðustu kvaðir sínar við einstaklinginn, fyrr en það hefur gert honum kleift að eignast viðunandi, hæfilegt húsnæði við viðráðanlegu verði. Þess vegna er það augljóst, að fjárhagsgetu byggingarsjóðs verður að auka, og hlýtur þetta Alþ., sem nú situr, að láta verulega að sér kveða í því efni. En það frv., sem ég mæli nú fyrir, víkur aðeins að einum þætti húsnæðismálanna, þ.e. að auka möguleika byggingarsamvinnufélaganna til að gegna hlutverki sínu.

Ég held, að það sé alveg vafalaust og ómótmælt, að með lagasetningunni um byggingarsamvinnufélög, gerðri laust eftir 1930, hafi merkum áfanga verið náð í húsnæðismálum og margir hafi notið góðs af þeirri lagasetningu. Það sýna hin fjölmörgu íbúðahverfi, sem risið hafa fyrir forgöngu þessa félagsskapar. En hinu er ekki að neita, að nú á síðari tímum hafa byggingarsamvinnufélögin átt stöðugt örðugra en áður með að standa fyrir byggingum, vegna fjárskorts fyrst og fremst. Og því frv., sem hér er lagt fram, er ætlað að bæta nokkuð úr þessu.

Í 4. gr. þessa frv., sem hér er til umr., er fjallað um fjáröflunarleiðir byggingarsamvinnufélaga. Það er í fjórum stafliðum. Í fyrstu þremur stafliðum, a, b og c, eru aðeins gerðar örlitlar breyt. frá gildandi 1., en nýmælið í greininni er það, að í d-lið er tekið upp nýtt ákvæði, svo hljóðandi: „Skylt er Seðlabanka Íslands að kaupa á nafnverði árlega, ef þörf krefur, ríkistryggð skuldabréf skv. d-lið fyrir eigi lægri fjárhæð en 75 millj. kr.“ Okkur flm. þessa frv. er að vísu ljóst, að 75 millj. kr. aðstoð í formi sölu á ríkistryggðum skuldabréfum leysir engan veginn allan þann vanda, sem hér er við að fást. En mikill hlýtur þó að verða munur á því frá því, sem nú er, þegar engin sala á ríkistryggðum skuldabréfum er tryggð og svo að segja engin möguleg. Ef reiknað er með 300 þús. kr. láni í þessu formi út á annan veðrétt hverrar íhúðar, nægir þessi fjárhagsstuðningur til þess að lána út á um það bil 250 íbúðir á ári, en eins og þetta er hugsað af hálfu flm., er hér um að ræða 2. veðréttar lán á eftir lánum úr byggingarsjóði ríkisins, sem verða áfram á 1. veðrétti, og með því að kleift yrði að tryggja sölu á slíkum 2. veðréttar verðbréfum, mundi almenna veðlánakerfið og aðstoð byggingarsamvinnufélaganna til samans lána rúm 600 þús. út á meðalíbúð, miðað við hámark, og þá má segja, í þeim tilfellum, sem slíku yrði við komið, að við værum eitthvað farnir að nálgast það, sem mætti kallast viðunandi í þessum efnum.

Ég vil aðeins leyfa mér að minna á það í þessu sambandi, að mönnum hefur lengi verið ljós nauðsyn þess að tryggja sölu á þessum ríkistryggðu veðskuldabréfum, og ég er hér t.d. með fyrir framan mig Alþingistíðindi frá 1945, þar sem fjallað var um breyt. á l. um byggingarsamvinnufélög. Þá var það einn af þm. Reykv., núverandi hæstv. forsrh., sem lét þetta mál talsvert til sín taka, og enda fleiri aðilar, og þá voru uppi talsvert háværar kröfur um það, að veðdeild Landsbankans yrði gert að skyldu að kaupa þessi veðskuldabréf eða lána til kaupa á þeim tiltekna fjárhæð, sem þá var miðuð við 20 millj. kr. á ári og er vitanlega miklu rausnarlegra tillag en það, sem við flm. þessa frv. förum nú fram á að Seðlabankinn taki að sér að tryggja sölu á, því að byggingarkostnaðurinn þá var miklu lægri en nú. Ég get aðeins minnzt á það, að í þessum sömu umr., til að sýna samanburðinn á verðlaginu, þá segir einn af þáv. þm., að húsaleigunefndin í Reykjavík meti íbúð í nýju húsi á 60 þús. kr. 2 herbergi og eldhús og 90 þús. kr. 3 herbergi og eldhús. Síðar segir: „Það liggur í augum uppi, að það er ofvaxið flestum að búa í slíkum húsum.“ Ég nefni þetta aðeins til þess að minna okkur á það, hversu gífurlegar breyt. hafa orðið á verðlagi, síðan þetta var til umr. hér á hv. Alþingi fyrir aðeins rúmum 20 árum.

Hin meginbreytingin er svo í 8. gr. frv., þar sem segir: „Í þeim sveitarfélögum, þar sem byggingarsamvinnufélög starfa, er hlutaðeigandi sveitarstjórnum skylt að láta slík félög sitja fyrir um úthlutun lóða: Eins og ég gat um í upphafi máls míns, hafa orðið nokkur brögð að því, einkum hér f Reykjavík, að lóðaskortur hefur háð starfsemi byggingarsamvinnufélaganna. Við flm. frv. teljum slíkt óþarft og óviðeigandi og ástæðulaust, og þess vegna höfum við gert það að till. okkar, að skylda sveitarfélaga til þess að láta byggingarsamvinnufélögin hafa forgangsrétt verði lögfest.

Þá er í 9. gr. breyt. frá gildandi lögum. Í gildandi l. er fortakslaust bann við því fyrir eigendur íbúða, sem byggðar eru á vegum byggingarsamvinnufélaga, að selja þær, nema byggingarsamvinnufélag hafi áður hafnað forkaupsrétti, og þá aldrei á hærra verði en sem svarar byggingarkostnaði að viðbættum verðhækkunum skv. vísitölu byggingarkostnaðar og virðingarverði þeirra endurbóta, sem gerðar hafa verið, en að frádreginni hæfilegri fyrningu, hvort tveggja samkv. mati dómkvaddra manna. Ég hygg, að það sé á allra vitorði, að þessi lagaákvæði hafa lítið verið virt að undanförnu og að íbúðir. sem byggingarsamvinnufélög hafa byggt, hafa gengið kaupum og sölum á nokkuð svipuðu verði og aðrar íbúðir, sem öðruvísi eru byggðar, og má kannske segja, að það sé nokkurt vorkunnarmál, þar sem byggingarsamvinnufélögin hafa verið mjög vanmáttug að greiða nokkuð úr fyrir mönnum um útvegun fjármagns. Ef hins vegar þetta frv. verður að l. og ef byggingarsamvinnufélögin geta tryggt meðlimum sínum sölu á allt að 300 þús. kr. í ríkistryggðum skuldabréfum með hagstæðum kjörum til margra ára, eins og fyrirætlun okkar flm. er með þessum ákvæðum, horfir vitanlega hér allt öðruvísi við. Þá finnst okkur það vera sanngirnismál, að þeir, sem slíkrar fyrirgreiðslu hafi notið, verði að lúta þessum lagaákvæðum, eins og þau eru upphaflega sett og eins og þau eru í gildandi lögum. En samt sem áður höfum við talið rétt, með hliðsjón af því, hvernig reynslan hefur verið af þessu, að gera till. um, að þessi kvöð falli niður eftir 15 ár, að eftir 15 ár frá byggingu sé heimilt að selja þessar íbúðir kvaðalaust, eins og aðrar íbúðir, sem byggðar eru á annan hátt.

Aðrar breyt., sem þetta frv. gerir till. um, eru minni háttar og þarfnast, að ég held, ekki skýringa umfram það, sem er að finna í grg., og ég sé ekki ástæðu til þess að vera að eyða tíma hv. þm. með því að hafa lengri framsögu um þetta mál að þessu sinni. Ég vonast til þess, að það fái góða og vinsamlega athugun í n., sem því kann að verða vísað til, og að þm. allir athugi það gaumgæfilega, hvort hér sé ekki bent á leið, sem hugsanlega gæti orðið til þess að draga úr þeim miklu vandræðum, sem af húsnæðisskortinum stafa. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.