06.03.1967
Neðri deild: 49. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (1877)

104. mál, Stéttarsamband og Kjararannsóknarstofa bænda

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. hefur á þskj. 200 flutt frv. til l. um Stéttarsamband bænda, samningsrétt þess og aðild að verðákvörðun á landbúnaðarvörum, kjararannsóknarstofnun bænda, rannsóknar- og eftirlitsnefnd með vörudreifingu landbúnaðarins og dreifingarkostnaði á landbúnaðarvörum, framleiðsluáætlanir, útflutningsráð landbúnaðarins o.fl. Mér er tjáð, þó að ég sé ekki viss um, að hv. flm. hafi sagt það áðan, að þetta frv. sé samhljóða a.m.k. í öllum meginatriðum frv., sem sami hv. þm. flutti í lok síðasta þings. En þannig stóð á, að þegar það frv. var flutt undir þinglokin, var ég ekki hér á þingi og kynnti mér ekki það mál til neinnar hlítar, og síðan þetta frv. kom fram nú á þinginu, hef ég ekki heldur kynnt mér nákvæmlega efni þess, en það mun nú, ef till. hv. flm. verður samþ., fara til n., sem ég á sæti í, og geri ég þá ráð fyrir að fá tækifæri til þess þar að rannsaka nánar efni frv.

Það, að ég kveð mér hljóðs nú á þessu stigi, er aðallega af tveimur ástæðum. Með þessu frv., ef að lögum yrði, yrðu afnumin núgildandi lög frá 1960 um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum, sem venjulega eru kölluð framleiðsluráðslögin manna á milli. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. m.a., að verðákvörðunin í sambandi við landbúnaðarvörurnar fari fram á annan hátt en gert er ráð fyrir í núgildandi framleiðsluráðslögum. Í megindráttum eru þessar tvær aðferðir þannig, að í gildandi l. er gert ráð fyrir, að samstarfsnefnd, ef svo mætti kalla, annars vegar á vegum framleiðenda, hins vegar á vegum neytenda, geri tilraun til að koma sér saman um verðið og síðan, ef samkomulag tekst ekki, er það ákveðið af yfirnefnd. En í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að verðákvörðunin verði gerð með samningum milli Stéttarsambands bænda og ríkisvaldsins, og þetta segir hv. flm., að sé hliðstætt því, er stéttarfélög launamanna semja við atvinnurekendur um kaup og kjör. Nú er þetta að vísu ekki alveg hliðstætt, og það er mjög erfitt að finna fyrirkomulag, sem sé alveg hliðstætt kjarasamningum stéttarfélaga launamanna og atvinnurekenda. Hv. þm. lét nokkur orð falla um, að það væri í raun og veru hlálegt að skipa þessum málum á þann veg, að fulltrúar verkalýðsfélaga, þ.e.a.s. fulltrúar Alþýðusambandsins og fleiri slíkra sambanda, væru settir til þess að semja sem gagnaðilar við fulltrúa bændasamtakanna. Í fljótu bragði má virðast, að svo sé, að það sé dálítið hlálegt, að það sé, eins og hann sagði, e.t.v. ekki æskilegt hlutverk fyrir stéttarfélög launamanna að taka slíkt að sér. En þetta fyrirkomulag á að sjálfsögðu sínar skýringar. Skýringin á þessu fyrirkomulagi felst í því, að í l. um framleiðsluráð hefur lengi verið það ákvæði, að bændur skuli hafa tekjur í samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Tekjurnar ákvarðast að sjálfsögðu af verðlaginu og ýmsum þáttum rekstrarins. En einhvern veginn þarf að slá því föstu, hvaða tekjur hjá bændum séu í samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Það er ekki skráð, þannig að það sé öllum vitanlegt, og þetta er aðferðin, sem löggjafinn á sínum tíma, fyrir tveim tugum ára, setti í lög til þess að komast að niðurstöðu, að þessi 6 manna n. frá bændum og frá félögum annarra vinnandi stétta skyldi setjast á rökstóla og reyna að komast að niðurstöðu um, hvernig þetta samræmi ætti að vera, hvernig verðlagið ætti að vera, til þess að þetta samræmi næðist. Þetta vil ég nú aðeins taka hér fram til skýringar, þannig er samhengið í þessu a.m.k. í mínum huga. Með þessu er ég ekki að segja, að það fyrirkomulag, sem sett var í framleiðsluráðsl. um 6 manna n., eigi endilega að gilda áfram. En það er gott að hafa þetta í huga til skýringar á því, hvers vegna þetta fyrirkomulag var tekið upp. Ég ætla, að skýringin sé þessi. En í sambandi við þetta hef ég verið að leita eftir því í frv., sem fyrir liggur á þskj. 200, hvort þetta ákvæði væri þar áfram, sem hefur verið í framleiðsluráðsl., að tekjur bænda skyldu vera í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta, og mér er ekki alveg ljóst, af því að ég er frv. ekki mjög kunnugur, hvort það er þar eða ekki. Kannske þessi ákvæði séu lögð þar á einhvern annan hátt, en ég hef ekki getað fundið sams konar ákvæði í frv. hv. þm. um þetta efni og er í núverandi framleiðsluráðsl., og væri mér kært, ef hv. þm. upplýsti mig um það, ef einhvers staðar í frv. er í raun og veru kveðið eins á um þetta efni, um samræmi milli tekna bænda og manna í öðrum vinnandi stéttum, og nú er gert í lögum.

Í I. kafla frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 200, eru nokkrar ákvarðanir um það, undir hvaða rn. vissir þættir landbúnaðarmála skuli heyra, og ég tek eftir því t.d., að þar er gert ráð fyrir því, að ákvarðanir um innflutning á landbúnaðarvörum heyri undir hæstv. viðskmrh., og fleira af því, sem nú heyrir undir hæstv. landbrh., er ætlazt til að heyri undir viðskmrh. og fjmrh., að ég ætla. Ég geri þetta ekki að umræðuefni, en vil aðeins minnast á það.

En eitt sagði hv. frsm., sem ég gat ekki fellt mig við, ég held, að það byggist á misskilningi hjá honum. Hann lét svo um mælt í tilefni af 3. gr. frv., eftir því sem mér heyrðist, að það væru yfirleitt ekki til nein stéttarfélög bænda hér á landi. Ég bið afsökunar, ef ég hef misskilið þetta, að það væru í raun og veru engin stéttarfélög bænda hér á landi, sem gætu verið þess umkomin í raun og veru að semja um kjör bændastéttarinnar, heldur félagsskapur af öðru tagi. Nú veit ég ekki annað, a.m.k. í þeim landshluta, þar sem ég á heima, en í hverjum hreppi sé búnaðarfélag og í þessu búnaðarfélagi eru yfirleitt bændur úr sveitinni, þó ekki allir, því að engum mönnum er þröngvað inn í þennan félagsskap, sem ekki vilja þar vera. Þetta er stéttarfélag bænda í hverjum hreppi, og þessi hreppabúnaðarfélög láta sig margt annað varða en jarðrækt. Þau yfirleitt láta sig varða málefni bændanna, hvers efnis sem þau eru, hvort sem það eru jarðræktarmál, búfjárræktarmál, byggingarmál, verðlagsmál og hvað eina. Hreppabúnaðarfélögin láta sig varða þetta allt, svo sem stéttarfélögum ber. Síðan eru hreppabúnaðarfélögin í hverri sýslu meðlimir í svokölluðu búnaðarsambandi, og þessi búnaðarsambönd eru nú reyndar sums staðar sameiginleg fyrir fleiri sýslur, eins og t.d. á Suðurlandi, þar er Búnaðarsamband Suðurlands, sem er samband hreppabúnaðarfélaganna í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og VesturSkaftafellssýslu. Svo kemur annað til sögunnar, sem sennilega veldur þessum misskilningi í málinu um, að bændur hafi ekki stéttarfélög, að hvert búnaðarsamband er að jafnaði meðlimur i tveimur landssamböndum. T.d. er Búnaðarfélag Norður-Þingeyinga, þar sem ég á heima, meðlimur annars vegar í Búnaðarfélagi Íslands og kýs fulltrúa á búnaðarþing, hins vegar í Stéttarsambandi bænda og kýs fulltrúa á aðalfund Stéttarsambands bænda. Landssamböndin verða þannig tvö, sem þessi sömu stéttarfélög og stéttarsambönd standa að. Þau standa bæði að Búnaðarfélaginu, sem er fagsamband, og Stéttarsambandinu, sem fjallar um kjaramál. En stéttarfélög bænda eru vitanlega fyrir hendi á þennan hátt. Þetta finnst mér, að þurfi að koma hér fram, þó að það skipti auðvitað ekki máli í sambandi við þetta frv., sem hv. þm. flytur.

Annars vil ég segja það almennt um frv. hv. þm., að ég vil gefa því gaum, og ég efast ekki um, að í því séu atriði, sem gætu orðið til bóta. Eins og kunnugt er, er það svo, að innan bændastéttarinnar og í samtökum hennar hafa verið dálítið skiptar skoðanir um það í seinni tíð, hvort fyrirkomulagið væri heppilegra, þetta fyrirkomulag, sem verið hefur, 6 manna n. fyrirkomulagið, að 6 manna n. og yfirdómurinn í raun og veru geri sér grein fyrir því, á hvern hátt eigi að framkvæma aðalákvæði laganna um það, að samræmi skuli vera á milli tekna bænda og annarra vinnandi stétta, eða hin leiðin, sem hv. þingmaður og fleiri vilja fara, að samtök bænda semji við ríkisstj. um þessi mál. Ég álít a.m.k., að sú leið, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., verðskuldi fullkomlega að koma til athugunar. Hins vegar hef ég alltaf gert ráð fyrir því, að það rétta væri í þessu máli, að bændasamtökin, ef þau vilja skipta um leið í þessum málum, segðu til um það á sínum vettvangi.

Kafli í þessu frv. er um útflutning landbúnaðarvara, og ég geri mér ekki enn alveg fyllilega grein fyrir því, hvað í honum felst þ.e.a.s. í 18. og 19. gr. frv. En nú er það þannig, að ríkissjóði er, ef ég man rétt, ætlað að greiða verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur, sem mega verða allt að 10% verðmætis landbúnaðarframleiðslunnar. Í 12. gr. framleiðsluráðslaganna stendur: „Tryggja skal greiðslu á þeim halla, sem bændur kunna að verða fyrir á útflutningi landbúnaðarvara, en þó skal greiðslan vegna þessarar tryggingar ekki vera hærri en svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar.“ Nú segir í 18. gr. frv. á þskj. 200, það var þskj. 607 í fyrra, ég er með þetta hvort tveggja fyrir framan mig, þar segir: „Nú næst ekki sama verð til bænda fyrir nautgripa- og sauðfjárafurðir á erlendum markaði og framleiðendur fá greitt fyrir þær á innlendum markaði, og má þá fyrst um sinn greiða útflutningsuppbætur úr ríkissjóði á þær afurðir, þó aldrei meira en sem svarar 10% af heildarverðmæti framleiðslu þessara afurða viðkomandi verðlagsár og aldrei meira en 100% bætur miðað við innanlandsverð til framleiðenda á hverja sérgreinda vörutegund.“ Og svo segir, að hámark útflutningsbóta úr ríkissjóði skuli fara lækkandi, líklega lækkandi frá því, sem ákveðið verður í byrjun, ef heimildin er notuð. Mér finnst, að þarna sé nokkru linara orðalag í frv. en er í gildandi lögum, þar sem segir í frv.: „Og má þá fyrst um sinn greiða útflutningsbætur.“ Hvað þýðir þetta „fyrst um sinn“? Það er dálítið óákveðið. En í l. segir: „Tryggja skal greiðslu á þeim halla“ o.s.frv. Það er skylda. Þarna er sem sé nokkur munur á, en í n. mun það sjálfsagt upplýsast, hvað fyrir flm. frv. eða þeim, sem að því standa, vakir um framkvæmd þessara mála.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ýmislegt í þessu frv. finnst mér bera vott um það, að það sé borið fram af góðum hug og að flm. hafi haft hug á því að koma fram umbótum, þó að önnur atriði orki frekar tvímælis.