14.02.1967
Neðri deild: 41. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (1897)

113. mál, ungmennahús

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 210 ásamt hv. 5. þm. Reykv. leyft mér að bera fram frv. til 1. um byggingu ungmennahúss í Reykjavík. Efni frv. er það, að byggja skuli samkomuhús í Reykjavík fyrir skemmtanir æskufólks og samráð haft við Æskulýðsráð Reykjavíkur um stærð hússins og fyrirkomulag. Í ungmennahúsi verði neyzla áfengis algerlega bönnuð, og þar eiga aðeins að fara fram hollar og þroskavænlegar skemmtanir, sem vandað er til eftir föngum. Skemmtanir þessar verði undanþegnar skemmtanaskatti, stofnkostnaður verði greiddur að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr borgarsjóði Reykjavíkur og sömu ákvæði gildi um rekstrarhalla, ef til kemur. Stjórn hússins verði falin Æskulýðsráði Reykjavíkur.

Þetta eru í örstuttu máli þau efnisatriði, sem frv. fjallar um, og ég mun nú leyfa mér að fara um frv. og ástæður þær, sem liggja að baki flutningi þess, nokkrum orðum.

Vandamál hinnar uppvaxandi kynslóðar eru að sönnu ævarandi viðfangsefni, en koma þó ljósar fram en endranær með reglubundnu millibili að því er virðist. Þannig átti sér stað 1963 allmikið ævintýri, sem kennt var við Þjórsárdal og varð til þess að skipuð var n. til þess að rannsaka málefni unga fólksins. Upp úr því var svo flutt frv. til breytinga á áfengislögunum, sem ekki náði fram að ganga og dagaði uppi. en varð þó til þess, að hæstv. ríkisstj. skipaði fjölmenna n. til þess að athuga þessi mál í heild, og sú n. skilaði allýtarlegri skýrslu, sem lögð hefur verið fram á þskj. 10 ásamt nokkrum brtt. við áfengisl., sem ég mun e.t.v. víkja örlítið að síðar. Þessu til viðbótar hafa svo nokkrir atburðir á undanförnum vikum orðið til þess að raska svefnró ýmissa af eldri kynslóðinni, og enda þótt skrílslátum sé aldrei bót mælandi, getur þó einnig á þeim sannazt hið fornkveðna, að fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott.

Nú eru allir, sem þessi mál varða, barmafullir af áhuga á þessum uppeldismálum og flestir ákaflega hneykslaðir á því unga fólki, sem minnti á tilveru sína í umræddum tilvikum. Það er þó alveg áreiðanlegt, að hneykslun okkar, sem eldri erum, getur ein aldrei bjargað neinu, og yfirleitt finnst mér sem of mikið sé gert að því að býsnast yfir ástandinu, en of lítið að því að koma fram með till., eða ábendingar um það, sem til bóta mætti verða. Við flm. þessa frv. höfum með flutningi þess viljað koma fram hugmynd, sem að vísu er ekki ný, en mundi vafalaust að okkar dómi verða til mikilla bóta, ef hún næði fram að ganga.

En hvað er það þá, sem er að í þessum málum? Ekki ætla ég mér að gera því fullnægjandi eða viðhlítandi skil. En ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna fyrst til blaðagreinar eftir Hörð Bergmann gagnfræðaskólakennara, sem birtist í vikublaðinu Frjálsri þjóð fimmtudaginn 9. febr. s.l., en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Hvers er að vænta? Hvar hefur uppvaxandi kynslóð tækifæri til að komast til nokkurs þroska við hæfileg viðfangsefni? Hvorki heimili, skólar né aðrar stofnanir í þjóðfélaginu sinna þeim uppeldisskyldum, sem á þeim hvíla í nútímaþjóðfélagi. Heimilin þróast í þá átt að verða

staður, þar sem snædd er ein máltíð, sofið og horft á sjónvarp. Samskipti barna og elztu kynslóðarinnar eru úr sögunni að heita má. Samskipti og sér í lagi samstarf foreldra og barna fer minnkandi. Skólar landsins hafa ekki tekið við því uppeldishlutverki, er bíður þeirra við slíka þróun, eru raunar ófærir um það, vegna þess að starfslið þeirra er ekki í stakkinn búið til þess að sinna slíku verkefni og hefur ekki búsnæði, aðstöðu eða tækni, sem til þarf.“

Í merku og fróðlegu útvarpserindi, sem Jónas B. Jónsson fræðslustjóri Reykjavíkur flutti fyrir nokkrum dögum, ræddi hann af skilningi og víðsýni um vandamál unga fólksins í tilefni af nýliðnum atburðum í næturlífi borgarinnar. Hann rakti þar frásagnir blaðanna og sagði síðan efnislega eitthvað á þessa leið, þegar hann var búinn að lýsa atburðunum og málavöxtum, eins og þeir voru raktir í blöðunum: Menn voru ekki heldur lengi að finna leiðir til úrbóta. Skólarnir verða að gera ráðstafanir til þess að hindra það, að þessi ósköp endurtaki sig. Lögreglan verður að hindra það, að unglingarnir safnist saman í miðbænum, og það verður að koma unglingunum í skilning um, að þeir hafi gerzt sekir um ósæmilegt framferði gagnvart heimilum, skólum og sjálfum sér. Sem sagt, bara að snúa sér að því að siðbæta unglinga, það er allt og sumt, sem til þarf. En ég vil taka undir það með fræðslustjóranum, að málið er ekki svona einfalt. Það vakna ýmsar spurningar, þegar þessi mál eru hugleidd. Í áður nefndu útvarpserindi voru nokkrar þeirra settar fram, t.d. þessar: Í fyrsta lagi: Hvaðan fá unglingarnir vínið, sem þeir verða ofurölvi af? Í öðru lagi: Hvar fá þeir peninga til vínkaupa? Í þriðja lagi: Hvert sækja þeir fyrirmyndirnar að framferði sínu? Í fjórða lagi: Hvernig er lesefnið, sem við, hinir fullorðnu, fáum þeim í hendur? Og í fimmta lagi: Hvað er borið á borð fyrir þá í kvikmyndahúsum og jafnvel í leikhúsum, og hvert er uppeldisgildi sumra skemmtiþátta og leikrita útvarpsins? Og í framhaldi af þessum spurningum rekur svo fræðslustjórinn ýmsa þá hluti, sem miður fara í samskiptum og breytni hinna fullorðnu gagnvart ungu fólki, og segir eitthvað á þá leið, að óspektirnar og drykkjulætin bendi til þess, að einhverjar veilur séu í uppeldi og umhverfi unga fólksins, þ.e. i uppeldisaðferðum okkar hinna fullorðnu. Þessar meinsemdir eða veilur þarf að finna, svo að leiðir fáist til úrbóta, sagði hann að lokum.

Við framangreindar spurningar fræðslustjórans í Reykjavík, sem eru raktar hér eftir minnisblaði mínu og því ekki áreiðanlega vist, að þær séu orðrétt eftir hafðar, mætti kannske bæta þessum spurningum: Hvernig er sú aðstaða, sem þessu unga fólki er látin í té til skemmtanahalds, og í hverju er aðstoð og styrkur þjóðfélagsins aðallega falin? Um þessi mál hefur orðið svo mikið umtal og blaðaskrif, að óhugsandi er að gera því nokkur skil hér, til þess yrði að lesa upp úr blöðum og öðrum ritum klukkustundum, ef ekki dögum saman. En til þess að gera því örlítil skil, vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna til þess allra nýjasta, sem um þessi mál hefur verið ritað, en það eru viðtöl, sem dagblaðið Vísir birti í gær við tvo nemendur í framhaldsskólum hér í borginni.

Fyrra viðtalið, sem ég ætla að leyfa mér að minna á með örfáum orðum, er við Sigurð Snorrason, formann Nemendafélags Vogaskóla, en þar segir:

„Í skólanum er hægt að hafa skemmtanir í hverjum starfsmánuði skólans. Ein dansæfing er haldin í hverjum mánuði, en vegna húsnæðisvandræða skólans verður að tvískipta þeim, eldri bekkirnir sér, yngri sér. Auk þess eru haldnir málfundir í skólanum. Einhverjir sækja opna húsið æskulýðsráðs að Fríkirkjuvegi 11, aðrir reyna að fá inngöngu í húsin hérna í bænum, Hótel Borg, Breiðfirðingabúð og Þórscafé. Ástandið versnaði mikið, þegar Lídó var lokað. Svo fremi að ríkið styrki ekki einhvern skemmtistað, má segja, að ástandið sé vonlaust.“

Þetta segir þessi formaður skólafélags eins gagnfræðaskólanna, og hann telur, að órói unga fólksins á götum úti sé bein afleiðing af skemmtistaðaleysi unga fólksins. Unglingar 15 ára og eldri hafa áreiðanlega áhuga á slíkum unglingaskemmtistað, sem hann telur ekki geta starfað sómasamlega, nema ríkisstyrkur komi til, og bætir við, að unglingum finnist miklu meira varið í að skemmta sér á slíkum stað en í skólanum. Þetta var viðtalið við Sigurð Snorrason.

Hitt viðtalið, sem ég leyfi mér að rekja með örfáum orðum, er við Svein Rafnsson, sem er formaður nemendaráðs menntaskólans við Hamrahlíð. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ástandið er vægast sagt mjög slæmt að mínu áliti, aðstæður þröngar fyrir unglinga, frá því að þeir vilja fara að skemmta sér og allt til 17—18 ára aldurs. Það hafa verið gerðar tilraunir í þá átt að bæta úr þessu, t.d. með dansleikjum í Lídó, sem áttu að vera vínlausir, þó að annað kæmi raunverulega upp á teninginn stundum. Aukið félagslíf í skólum væri sjálfsagt góð leið, ef einhver stefna væri ríkjandi í þeim efnum. Fólk áttar sig ekki á því, hversu mikið gildi félagslífið innan skólans hefur. Fjárútlát til þeirra hluta eru lítil sem engin, en það vantar leiðbeinendur til þess að marka stefnuna. Eins og veitt er fé í úrelt kennslufyrirkomulag, mætti veita fé til þess að stuðla að sjálfstæðri vinnu nemenda og samstarfi. Ríkisstyrktur skemmtistaður yrði til bóta.“

Úr þessum skrifum dagblaðsins Vísis í gær, mun ég ekki hafa yfir meira að þessu sinni, enda þótt þar sé ýmislegt fleira, sem vafalaust væri ástæða til að minnast á í þessu sambandi. Eins og sakir standa nú, er ungu fólki á aldrinum 16—20 ára heimilt að sækja einn dansstað í borginni, þ.e. Breiðfirðingabúð, sem mun taka eitthvað á þriðja hundrað manns með skaplegu móti. Þessi staður er, eftir því sem mér er sagt, aðallega sóttur af dansfólki á aldrinum 16—18 ára. Æskulýðsráð hefur svo til afnota húsið að Fríkirkjuvegi 11 og heldur þar uppi allmikilli starfsemi. Aðstaða til dansleikja er þó þar ekki fullkomin, og eftir því sem ég bezt veit, er dans aðeins iðkaður þar síðdegis á sunnudögum og þá fyrir 12—14 ára ungmenni. Skólarnir, eða gagnfræðaskólarnir og menntaskólarnir a.m.k., hafa dansæfingar svo sem einu sinni í mánuði, og þá eru, að ég held, að verulegu leyti upp taldir þeir möguleikar, sem unga fólkið á völ á til dansæfinga eða dansleikja.

Allir hljóta að sjá og skilja, hversu sorglega skammt þessi aðstaða hrekkur til þess að sjá fyrir þörfum þess fjölda, sem hér um ræðir. Ég veit ekki, hve margt fólk er hér á aldrinum frá 16—20 ára. Ég hef ekki reiknað það, það er vafalaust einfalt dæmi. En ég sá það í áðurnefndri blaðagrein, sem ég vitnaði í áðan, eftir Hörð Bergmann, að hann gizkar á, að þetta fólk sé einhvers staðar um 7 þús. Þeir, sem ekki gera sér að góðu þær fáu skemmtanir, sem ég áður nefndi, eða komast ekki inn á þær, af því að það er svo fullt fyrir, eyða margir heilum kvöldum til þess að reyna að komast inn á veitingastaði, sem fólk á þessum aldri á ekki aðgang að með venjulegu móti. Stundum tekst þetta. Stundum tekst að villa svo um fyrir gæzlumönnum vinveitingahúsanna, að þangað sleppur inn fólk, sem ekki hefur náð tilskildum lágmarksaldri, þ.e.a.s. þeim aldri, sem veitingahúsin setja sér, og það hafa myndazt margar furðusögur um þær aðferðir og brögð, sem notuð hafa verið í þessu skyni. Sumar þeirra hafa jafnvel verið birtar á prenti, svo sem til leiðbeininga og athugunar fyrir sem flesta. Þannig birtist í einu blaði um daginn, 3. þ. m., talsvert ýtarleg frásögn af því, hvernig helzt mætti svindla sér inn á veitingahús, og þær aðferðir, sem þar voru tilgreindar, voru allt frá því að falsa nafnskírteini og búa til ökuskírteini og niður í ýmsar minni háttar brellur. En það er auðvitað vorkunnarmál, að fullvinnandi fólki og gildum skattborgurum þyki það nokkuð harðir kostir að vera synjað inngöngu í svo að segja öll veitingahús borgarinnar að kvöldlagi, jafnvel giftum konum í fylgd eiginmanna sinna, einungis vegna þess, að þetta fólk hefur ekki náð tilskildum aldri samkv. þeim reglum, sem vínveitingahúsin hafa sett. Þessu fólki eru þó veitt margvísleg önnur réttindi, og skyldur þjóðfélagsins verður það fyllilega að bera til jafns við aðra. Heimilisstofnun er því heimil. Barnauppeldi er þessu fólki falið, án þess að nokkuð sé talið við það að athuga. Kosningarrétt og kjörgengi er áformað að færa því á næstunni, eftir því sem ég bezt veit. Skatta og skyldur skal það greiða til jafns við aðra. Aðeins eitt er bannað, stranglega bannað, það er að fara inn á vínveitingahús að kvöldlagi, svo langt getur jafnréttið ekki gengið.

Að vísu eru ákvæði áfengislaganna, nr. 58 frá 1954, sbr. 16. gr. þeirra, þannig, að áfengi má ekki afhenda né veita neinum, sem er bersýnilega ölvaður, og ekki heldur yngri mönnum en 21 árs, og skal kaupandi áfengis jafnan sanna aldur sinn með vegabréfi eða á annan fullnægjandi hátt. Það er því ekki samkv. gildandi áfengislögum bannað þessu fólki, sem ég áðan greindi, að sækja veitingahúsin. Við því er ekkert bann annað en það, sem felst í lögreglusamþykkt borgarinnar um það, að 16 ára fólk og yngra megi ekki koma þar. En mörg veitingahús amast við því, að yngra fólk en 21 árs komi þangað að kvöldlagi vegna þeirrar ábyrgðar, sem á húsin er lögð á því, að þessu fólki sé ekki afhent eða veitt vín, en það telja margir veitingamenn, sem ég hef rætt við um þetta, mjög erfitt að koma í veg fyrir með fyllilega öruggum hætti, ef fólkinu er á annað borð leyft að koma inn í húsið. Þessu til staðfestingar hygg ég, að vitna megi í viðtal, sem birtist í dagblaðinu Þjóðviljanum á sunnudaginn var. Það viðtal er við rannsóknarlögreglumann hér í borginni. Kristján Sigurðsson að nafni. Ég hélt, að ég hefði verið með þetta viðtal hér með mér, en ég sé, að það er ekki, en hann segir þar, að það sé mjög erfitt fyrir gæzlumenn veitingahúsanna að koma í veg fyrir það, að yngra fólkið nái í áfengi eða fái áfengi til neyzlu, þegar það er komið inn í húsin, og nefnir um það ákveðin dæmi, hvernig farið sé að því, á þann hátt, að það sé svo til engin leið fyrir veitingamennina eða gæzlumennina að koma í veg fyrir þetta. Hann segir, ef ég man rétt, að þegar yngri maður en 21 árs er í fylgd með öðrum eldri, sé það mjög einfalt fyrir þann eldri að gera pöntunina á borðið og ef þjónninn eða gæzlumaðurinn sér við því, og kemur ekki nema með eitt glas, segir þessi lögreglumaður, að menn muni ekki víla fyrir sér að drekka úr sama glasinu, og þannig telur hann, að húsunum sé vorkunnarmál að hafa þessar reglur í gildi, vegna þeirra örðugleika, sem hér er um að tefla. Og mér skilst, að í framkvæmd séu þessar reglur þannig hjá flestum veitingahúsunum hér í borginni, að yngra fólk en 18 ára fái þar alls ekki inngöngu og fremur sé amazt við öllum þeim, sem yngri eru en 21 árs, af þeim ástæðum, sem ég áðan greindi, og er það eins konar neyðarvörn veitingahúsanna gagnvart þeirri ábyrgð, sem lögin leggja þeim á herðar.

Ég skal ekki fara að ræða um það frekar hér að þessu sinni og í sambandi við þetta mál, hvort það sé rétt stefna í gildandi áfengisl. að hafa aldursákvæðin eins og þau eru þar ákveðin. Það gefst væntanlega kostur á því að ræða það mál síðar, því að hér fyrir hv. Alþ. liggur nú einmitt, eins og ég gat um í upphafi máls míns, frv. til 1. um breytingar á áfengisl. En í því frv. er ekki áformuð nein breyting frá gildandi l. að því er snertir hámarksaldurinn. Í frv., sem ég minntist á í upphafi máls míns, frá 1964, þessu, sem ekki varð útrætt hér á hv. Alþ., var lagt til að lækka aldur þess fólks, sem veita mætti áfengi, niður í 18 ár, ef vissum skilyrðum væri fullnægt — mig minnir, að það væri aðallega það, að ungmenni væru þá í fylgd með foreldrum sinum. En samstaða um þá breytingu varð ekki hér, og þess vegna var það frv. lagt til hliðar og nú borið fram annað frv., þar sem þessi ákvæði eru óbreytt, þ.e. á þskj. 10. Ég hygg þó, án þess að ég fari lengra út í það, eins og ég áðan sagði, á þessu stigi, að þeir séu mjög margir, sem eru á því, að það væri rétt að breyta þessu ákvæði. Ég man t.d. úr fyrr greindu samtali við Kristján Sigurðsson lögregluvarðstjóra, að þar lýsir hann því afdráttarlaust yfir fyrir sitt leyti, að hann telji, að ákvæðið um 21 árs aldur sé óheppilegt. Hann segir, að það sé lagasetning, sem fólk vilji gjarnan brjóta og mikið sé gert að því að brjóta, og segir, ef ég man rétt, eitthvað á þá leið, að þau lög, sem fólk telji sjálfsagt að brjóta, séu til þess frekar fallin að brjóta niður virðingu manna fyrir lögum almennt.

En ég ætla ekki að ræða þetta frekar, eins og ég áðan sagði.

Um nokkurra ára skeið var eitt veitingahúsanna hér í borg, veitingahúsið Lídó, starfrækt að mestu leyti sem dansstaður ungmenna, og ég hygg, að sá dansstaður hafi yfirleitt gefizt frekar vel og sú tilraunastarfsemi, sem þar fór fram. Eftir því sem ég veit bezt, mun þetta veitingahús hafa borið sig fjárhagslega framan af, meðan það var látið óátalið, að ungmenni undir 16 ára aldri vendu þangað komur sínar. En eftir að farið var að herða eftirlit með því, að ákvæði lögreglusamþykktarinnar um útivist fólks undir 16 ára aldri væru haldin eða bann það, sem í lögreglusamþykktinni er við því, að það komi saman að kvöldlagi, er mér sagt, að aðsóknin að Lídó hafi rénað og upp úr því hafi forráðamenn hússins séð sig tilneydda að hætta þessari unglingastarfsemi. Í stað þessa húss hefur ekkert annað komið, en þörfin hefur þó vaxið, a.m.k. sem því nemur og þó raunar heldur meira vegna fólksfjölgunarinnar.

Af dæminu um rekstur veitingahússins Lídó virðist mér mega draga aðallega tvenns konar lærdóma. Í fyrsta lagi, að það tjái ekki að einblína á arðbæran rekstur í sambandi við þá starfsemi, sem hér um ræðir. Ég held, að þjóðfélagið verði að líta á þetta, rekstur ungmennahúsa, sem lið í uppeldiskostnaði æskufólks, lið, sem þjóðfélagið verði að bera á hliðstæðan hátt og þá menntunaraðstöðu t.d., sem í té er látin. Það er að engu leyti neitt þýðingarminna að forða ungmennum frá óhollum áhrifum á þessum aldri heldur en jafnvel auka þekkingu þeirra í bóklegum og verklegum fræðum. Hvort tveggja er jöfnum höndum skilyrði þess, að upp vaxi heilbrigt fólk og hamingjusamt.

Í öðru lagi virðist mér reynslan af rekstrinum á Lídó sýna, að ekki þýði að gera ráð fyrir sameiginlegum skemmtunum allra ungmenna í umræddum aldursflokkum. 15—16 ára ungmenni eiga ekki í þessu tilliti neina samleið með fólki t.d. á aldrinum 19—20 ára, svo að einhver dæmi séu nefnd. Ég held því, að í ungmennahúsi því, sem þetta frv. fjallar um, eða öðrum þeim húsum, sem í stað þess kunna að verða reist, því að slík hús verða reist, verði að gefa því fullar gætur að dreifa skemmtunum sem allra mest, hafa mismunandi daga fyrir mismunandi aldursflokka, svo að þeir geti verið saman, sem saman vilja vera, og allir viti, hvenær jafnaldra sína er að finna í ungmennahúsi. Þessi skipting er í fyllsta máta eðlileg og helgast m.a. af þeim aldursskilum, sem mjög greinilega eru mörkuð í skólalöggjöfinni.

Þá finnst mér ástæða til að geta þess hér, að í flestum ef ekki öllum framhaldsskólum borgarinnar hafa margvíslegar ráðstafanir verið gerðar til hollra áhrifa í þessum uppeldismálum. Vinsælast af þeim hlutum hefur án efa verið hið svonefnda opna hús, sem upp var tekið fyrir nokkrum árum og er nú mjög útbreidd aðferð í þessum efnum. Ég tel ekki þörf á því að lýsa þeirri starfsemi. sem þar fer fram, það hljóta allir hv. alþm. að þekkja, en hún er margs konar og reynt að sníða hana sem mest við hæfi þeirra, sem eiga að njóta hennar.

Nú hef ég í stuttu máli reynt að draga upp mynd af því ástandi, sem ríkir í dag hér í höfuðborginni. Ég mun þá næst reyna að gera einhverja grein fyrir því, hvað sé á allra næsta leiti til úrbóta í þessum efnum.

Ég vil þá fyrst nefna framtak templaranna. Eins og kunnugt er, hefur Stórstúka Íslands haft í smiðum myndarlegt stórhýsi hér í borg nokkur undanfarin ár. Hús þetta hafa templarar að mestu reist fyrir eigið fé og þá fyrst og fremst fyrir andvirði húss þess, sem þeir seldu Reykjavíkurborg að Fríkirkjuvegi 11 fyrir nokkrum árum, en til viðbótar andvirði þess húss og þeim byggingarsjóðum, sem þeir kunna að hafa átt, hafa þeir fengið nokkurn byggingarstyrk, bæði frá ríkinu og Reykjavíkurborg. Í þessu nýbyggða húsi, sem stendur við Eiríksgötu á Skólavörðuholti, er áformað, að vera skuli tveir danssalir. Sá stærri þeirra er á 1. hæð, um 300 fermetrar, og er ætlunin að reka þar vínlaust veitingahús. sem opið sé fyrir alla, er þangað vilja koma. Þar á að halda uppi fyrsta flokks þjónustu og búa salinn eins vel og bezt þekkist, bæði hér heima og annars staðar. En eftir því sem mér skildist á samtali, sem ég átti við ritara Stórstúkunnar fyrir nokkrum dögum, er ekki ætlun templaranna, að þessi stærri salur verði fyrst og fremst til afnota fyrir ungt fólk, heldur verði hann jöfnum höndum til afnota fyrir yngri og eldri, þá sem þangað vilja koma. Á neðstu hæðinni eða i kjallaranum í templarahöllinni á svo að vera annar salur, sem á að taka 120—130 manns. Þar er fyrirhugað að hafa fullkomna aðstöðu fyrir unglingadansleiki og skemmtanir. Þar að auki verður eitt herbergi fyrir um 30 manns, sem lánað verður til fundarhalda og ýmiss konar klúbbstarfsemi, eftir því sem þörf kann að verða fyrir slíkt húsnæði.

Það er von forráðamanna stúkunnar, að þessi fyrirhugaða starfsemi geti hafizt í september eða október í haust. En þó mun enn skorta fjármagn, til þess að hægt sé að kveða á um þetta með fullri vissu enn sem komið er. Ég tel engan vafa leika á því, að þessar framkvæmdir séu hinar merkustu og muni bæta úr mjög brýnni þörf. Hér vantar vissulega vinlausa veitingastaði, þangað sem þeir koma, sem vilja vera lausir við vínveitingarnar. Það á ekki aðeins við um templarana eina, heldur engu síður ýmsa þá, sem jafnvel af og til neyta áfengis sjálfir, en þeir geta oft og einatt óskað þess að komast í veitingahús, þar sem áfengi er ekki haft um hönd.

Ekki þarf ég að fara mörgum orðum til viðbótar við það, sem ég hef áður sagt um þörfina á því að koma upp sal fyrir unglingaskemmtanir. Í flestum borgum á stærð við Reykjavík, hygg ég, að vinlausir veitingastaðir séu starfræktir, og mér er kunnugt um það, að víða, t.d. í Noregi, eru slíkir veitingastaðir styrktir af ríkisvaldinu og bæjarfélögunum, því að reynslan mun viðast hvar annars staðar, eins og raunar hér, vera sú, að það sé áfengissalan fyrst og fremst, sem gerir fjárhagslega afkomu veitingahúsanna mögulega. Mér finnst því mjög vel geta komið til greina, að þessi starfsemi verði styrkt með fjárframlögum, t.d. úr ríkissjóði eða borgarsjóði, ef í ljós kemur það, sem margir óttast, að hún geti ekki án þess borið sig fjárhagslega. Ég vil svo gjarnan nota þetta tækifæri til þess að óska templurum alls velfarnaðar í sambandi við þessar framkvæmdir þeirra og hygg, að þeir séu á heppilegum leiðum í baráttu sinni við áfengisbölið með þeim framkvæmdum, sem ég hef hér lítillega gert að umtalsefni.

En jafnaugljóst er þó hitt, að enda þótt þessar framkvæmdir hljóti farsællegar lyktir, sem allir hljóta að vona, er þó langur vegur frá því, að þar sé um nokkra fullnaðarlausn á málefnum unga fólksins að ræða. Þrátt fyrir þetta mikla framlag vantar skemmtunaraðstöðu fyrir allan þorra manna eftir sem áður, og þegar jafnframt er haft í huga, að innan ekki langs tíma a.m.k., svo að ekki sé meira sagt, hlýtur góðtemplarahúsið gamla að verða að víkja, þá kemur nýja húsið í stað þess gamla, þannig að nettóviðbót skemmtistaðanna verður ekki einu sinni það, sem ég áðan lýsti. Í öðru lagi má svo segja, að framundan sé bygging Reykjavíkurborgar á húsi, sem undanfarin 10—20, kannske 30 ár hefur verið nefnt æskulýðshöll. Það mál mun nú vera komið á nokkurn rekspöl, eftir því sem ég bezt veit. Það hefur verið gerð útboðslýsing eða uppkast að útboðslýsingu, þar sem talið er upp, hvað þurfi að vera í æskulýðshöllinni að dómi æskulýðsráðs, og það er bæði eitt og annað, sem ég hygg nú kannske að verði of langt að gera grein fyrir hér og nú. Þar á að vera svokallað opið hús. Þar eiga að vera að sjálfsögðu fatageymslur og snyrtiherbergi. Þar á að vera 300 fermetra samkomusalur. Þar á að vera aðstaða fyrir klúbbstarfsemi og vinnuherbergi. Og þar á að vera stúdíó, aðstaða til margs konar tómstundaiðju, geymslur, íbúð húsvarðar og eitthvað fleira. Þessi útboðslýsing hefur sem sagt verið gerð, og eftir því sem formaður æskulýðsráðs hefur sagt mér, eru allar horfur á því, að nú verði hafizt handa um þessa byggingu. Að vísu tjáði hann mér það, sem ég hafði áður frétt, að nokkrar efasemdir hefðu komið fram um, hversu heppilegt staðarval það væri, sem lengi hefur verið haft f huga fyrir æskulýðshöll, en það er staðurinn, þar sem Tjarnarbær og gamla slökkvistöðin standa, og það var nokkur leit gerð að nýjum stað fyrir æskulýðshöllina, en með því að allir voru sammála um, að hún þyrfti að vera í gamla miðbænum, var, eftir því sem formaður æskulýðsráðs tjáði mér, engin aðstaða til þess að láta lóðir undir slíkt hús, nema þá með svo gífurlegum lóðakaupum og kostnaði, að ekki var talið fært að leggja i það. Og nú hefur verið afráðið, eftir því sem ég veit bezt, að byrja á fyrsta áfanga, sem mundi þá verða það að byggja í skarðið, þar sem Tjarnarbær stendur nú. Það verður að rífa það hús, það er dæmt ónýtt, og meiningin er að byggja þennan samkomusal, sem ég gat um áðan, um 300 fermetra. Enn fremur tjáði formaðurinn mér, að til greina gæti komið, að æskulýðsráð fengi hús það, sem fræðsluskrifstofan er nú í, til sinna nota. Æskulýðsráð þarf auðvitað að hafa góða aðstöðu til þess að hafa á hendi heildarstjórn allra æskulýðsmála hér í borginni. Þessari n. eða ráði er falið að fara með forstöðu þessara mála í umboði borgarstjórnar, og ráðið er þannig skipað, að 5 menn eru kosnir af borgarstjórn hlutfallskosningu til fjögurra ára í senn, síðan hefur fræðslustjóri rétt til þess að sitja í ráðinu, ef hann vill, eða tilnefna fulltrúa í sinn stað, og sama rétt hefur borgarstjóri. Hann hefur notað þann rétt þannig, að hann hefur skipað fulltrúa sinn, Styrmi Gunnarsson lögfræðing, og er hann nú formaður æskulýðsráðs.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa mikilli ánægju minni yfir því, ef það er svo, að eitthvað er að rætast úr málefnum æskulýðsráðs að þessu leyti. Þessari starfsemi hefur verið búinn mjög þröngur stakkur. Að vísu raknaði örlítið úr, þegar Reykjavíkurborg keypti Fríkirkjuveg 11 og afhenti hann æskulýðsráði til afnota. En það hús er lítið í þessu sambandi og óhentugt til starfseminnar og hlýtur aðeins að vera skoðað sem bráðabirgðaúrræði. En jafnvel þó að þetta gangi allt saman fram, sem ég hef nú lýst, þó að templarahúsið rísi og verði hægt að taka það í notkun í haust og þó að byrjað verði á æskulýðshöllinni, þ.e. að byggja upp í skarðið, þar sem Tjarnarbær stendur nú, er vitanlega óralangur vegur frá því, að nokkur heildarlausn þessara mála sé sýnileg. Og ég tel, að þetta, sem ég nú nefndi, dragi á engan hátt úr þeirri þörf, sem leitazt er við að svara með flutningi þessa frv., sem hér um ræðir.

Um einstök atriði frv. að öðru leyti skal ég ekki flytja langt mál. Það mætti þó t.d. nefna staðsetningu ungmennahússins. Við vísum því til ákvörðunar æskulýðsráðs, en um staðsetningu slíkra skemmtistaða vil ég aðeins segja á þessu stigi almennt, að ég tel, að þegar skapazt hefur góð aðstaða til skemmtanahalds ungmenna og þegar nokkrir slíkir skemmtistaðir hafa risið upp, þegar búið er að bæta úr brýnustu og mest aðkallandi þörfinni, verði hagfelldast að dreifa þessum stöðum um borgina, koma upp hæfilega stórum danssölum úti í borgarhverfunum í stað þess að safna öllum saman á einn stað. Ég lít yfirleitt svo, á, að slík dreifing á aðstöðu sé heppileg, hvort sem um er að ræða skemmtanahald eða t.d. aðstöðu til íþróttaiðkana. Ég held t.d., að það sé rétt stefna, sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur tekið, að úthluta íþróttafélögunum landssvæðum sem víðast um borgina og skapa aðstöðu unglinga til þeirra hluta sem allra næst heimilunum. Ég held, að ef nokkuð væri, mætti gera frekar meira að þessu en minna. T.d. hef ég þá í huga aðstöðu til að iðka skautaíþróttina, sem vissulega þyrfti að vera víðar en á Tjörninni einni, og sama máli tel ég gegna um dansstaðina að verulegu leyti.

Það mun vera álit margra, sem að æskulýðsmálum starfa, að heppilegt sé, að sú starfsemi fari fyrst og fremst fram á vegum skólanna. Þar sem skólarnir hafa haft hin svonefndu opnu hús, hefur það fyrirkomulag orðið ákaflega vinsælt. Slík kvöld hafa verið mikið sótt og miklu meira sótt en dansæfingarnar, sem skólarnir hafa haldið, eftir því sem ég bezt veit. Gagnfræðaskólahverfin í Reykjavík eru ekki fleiri en svo, að í hlut hvers þeirra kemur fleira fólk en nú er búsett á nokkrum einum stað utan Reykjavíkur. Ef ég ætti að nefna dæmi, get ég minnt á það, að það er fleira fólk búsett t.d. í Vogaskólahverfi í Reykjavík heldur en á Akureyri og heldur en í Kópavogi. Það er yfir 10 þús. manns. Í þessu byggðahverfi er þó enginn, ekki einn einasti samkvæmisstaður til, þegar lítið safnaðarheimili Langholtssóknar er undanskilið.

Ég tel mig ekki á neinn hátt dómbæran um það, á hvern veg þessum málum verði bezt fyrir komið, og ég vil vísa því til hinna færustu manna að ákveða það, ef þetta frv. verður samþ., þeirra, sem falið hefur verið það mikilvæga hlutverk að ráða fram úr málefnum unga fólksins að þessu leyti. En það er vafalaust allrar athygli vert að gera sér grein fyrir því í þessu sambandi, að með því að safna miklum mannfjölda saman á takmörkuðu svæði getur skapazt hætta á einhvers konar múgástandi, sem hægara er að vekja en svæfa. Við Reykvíkingar höfum glöggt dæmi um þetta frá áramótahátíðahöldum hér í borginni, annars vegar fyrir nokkrum árum og hins vegar t.d. frá s.l. áramótum. Hér áður fyrr voru óspektir og ólæti árvisst fyrirbæri á þessum tímamótum, og það komst margur í krappan dans, sem hætti sér niður í miðbæinn um það leyti. Það þarf ekki lengi að fletta blöðum frá þessum tíma til þess að kynnast margs konar prakkarastrikum, sem þá voru framin, þótt reyndar kæmist ekki í verk að sprengja lögreglustöðina frekar en í Atómstöðinni hjá Kiljan. En síðan yfirvöldin fundu upp á því að dreifa áramótabrennunum víðs vegar um borgina, hefur allur borgarbragur gerbreytzt til hins betra á umræddum gamlárskvöldum, enda keppast nú allir við að lofa það ástand, sem þeir áður áttu ekki nógu sterk orð til að lasta. Það er enn fremur mikill þyrnir f augum margra foreldra, það er mér vel kunnugt um, að þurfa að senda börnin eða ungmennin alltaf niður í miðborgina, í hvert skipti sem eitthvað stendur til að kvöldlagi. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en þetta verður eitt af fjölmörgum atriðum, sem athuga verður, áður en ungmennahús hefur starfsemi sína.

Við leggjum enn fremur til, að stærð og fyrirkomulag hússins, sem í frv. ræðir um, verði ákveðið í samráði við Æskulýðsráð Reykjavíkur. Og enn fremur ætlumst við til þess, að því ráði verði falin stjórn hússins. Hins vegar þykir okkur flm. frv. eðlilegt, og það vil ég undirstrika, að ungu fólki verði sem mest falið að fylgjast með umgengni í húsinu og sjá um, að settum reglum sé fylgt. Slíkt hefur gefið góða raun, þar sem það hefur verið reynt.

Hér áður fyrr, þegar ungmennastarf var ekki fyrst og fremst í höndum yfirvalda, voru það ungmennin sjálf, sem mynduðu félagsskap og lögðu það af mörkum; sem til þurfti og tiltækilegt var til þess að halda uppi því skemmtanahaldi, sem þá tíðkaðist. Og ég hygg, að ef hægt væri að koma því svo fyrir, að ungt fólk tæki sjálft sem mest forsjá þessara mála í sínar hendur, yrði þessum málum betur borgið en með stjórn fullorðinna ofan frá. En þá vaknar sú hugsun hjá mörgum, að til þess að hægt sé að skipuleggja slíkt sjálfboðastarf ungmenna, vanti leiðtoga, sem sérstaklega hafi lagt sig eftir því að stjórna slíku starfi. Það hafa fleiri en einn skólamaður hent mér á nauðsyn þess, að upp yrði tekin kennsla, annaðhvort í kennaraskólanum eða í formi einhvers konar námskeiða, beinlínis fyrir þá menn, sem ætla sér að leggja fyrir sig leiðbeiningarstarf í æskulýðsmálum. Þeir telja, þessir menn, sem ég hef rætt um þetta við, að þessu mætti t.d. mjög vel koma fyrir þannig, að umræddir æskulýðsleiðtogar hefðu kennarapróf í einni eða tveimur greinum, eins og t.d. leikfimi, sem margir hafa minnzt á, og ynnu t, d. hálfa kennsluskyldu við það, en hefðu svo afganginn af tímanum lausan til þess að stjórna æskulýðsstarfi á vegum skólanna. Og það er talið alveg öruggt mál, að ef kennarar með slíka menntun væru tiltækir, fengju margir þeirra atvinnu og það strax, því að eftir þeim er beðið. En ég minni á þetta hér til þess að undirstrika það, að að dómi okkar flm. er ekki hugsunin með flutningi þessa frv. sú að taka allt frumkvæði frá unga fólkinu. Frumkvæðið verður að vera hjá því, ef vel á að fara, það er aðeins aðstaðan, sem við erum að fjalla hér um.Við höfum gert ráð fyrir því í þessu frv., flm., að umrætt samkomuhús verði byggt frá grunni. Við teljum, að á þann hátt mundi alveg vafalaust vera unnt að fá þá heppilegustu aðstöðu, sem völ er á til að gegna því hlutveiki, sem húsinu er ætlað. M.a. gæti komið til greina að koma þar fyrir aðstöðu fyrir daglega starfsemi æskulýðsráðs, ef enn um sinn skyldi dragast eitthvað bygging æskulýðshallar þeirrar, sem í ráði er að hýsi þá starfsemi. En ég sé þó ekki ástæðu til, að þessar framkvæmdir verði einskorðaðar við byggingu á nýju húsi frekar en verkast vill. Kaup á eldra húsi gætu að mínum dómi komið mjög vel þarna til greina, ef heppilegt húsnæði byðist. og það mundi vissulega hafa þann kost fram yfir nýbyggingu að koma fyrr að notum. Ef t.d. n., sem þetta frv. væntanlega fer til, sæi ástæðu til þess, mætti okkar vegna, flm., eða mín vegna a.m.k., ákaflega vel breyta orðalagi 1. gr. í það horf, að kaup væru ekki útilokuð. Hugsanlegt væri einnig að taka húsnæði á leigu til þessara nota til bráðabirgða, en slík lausn gæti þó, held ég, aldrei orðið til neinnar frambúðar, og ég sé ekki ástæðu til þess að gera ráð fyrir þeim möguleika í þessu frv., enda er vandalaust að koma við stuðningi við æskulýðsráð til þess að leigja húsnæði til bráðabirgða, ef þurfa þætti, með öðru móti en því að samþykkja um það lög á Alþingi.

Í frv. ríkisstj. á þskj. 10 er brotið upp á nokkru nýmæli. Þar er í 1. gr. frv., b-lið lagt til, að komi nýr liður, svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvert veitingahús, er vinveitingaleyfi hefur, skal halda uppi fullkominni þjónustu án vinveitinga a.m.k. eitt laugardagskvöld af hverjum fjórum eftir kl. 8 síðdegis, samkv. reglum, er ráðh. setur að fengnum till. áfengisvarnaráðs.

Um þessar till., sem eru bornar fram í frv.-formi vegna starfs áfengismálanefndar, hafa orðið mjög skiptar skoðanir. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða mjög um þessa aðferð eða um till., en ég tel þó, að þetta fyrirkomulag gæti e.t.v. orðið til bóta sem alger bráðabirgðalausn eða sem algert bráðabirgðaúrræði. Ég held, að það að skylda veitingahús til þess að hafa vinlaus kvöld á einhverjum tilteknum tímum verði aldrei nein fullnaðarlausn í þessum æskulýðsmálum, sem hér um teflir, en það gæti komið til álita að lögfesta þetta um stundarsakir, meðan verið er að koma upp annarri aðstöðu.

Ég veit, að það er óþarfi að vera að halda uppi löngum umr. um þetta atriði hér, vegna þess að þetta kemur til umr. síðar, en ég vil leyfa mér að minna á ummæli Kristjáns Sigurðssonar rannsóknarlögreglumanns í viðtali í Þjóðviljanum, sem ég hef áður minnzt á og ég er búinn að finna hér, og ætla að leyfa mér að minna á þetta, með leyfi forseta, — hann segir:

„Ég tel t.d. fyrir mitt leyti, að fram komið frv. á Alþ. um skyldu vínveitingastaða til að halda uppi vínlausum skemmtunum fyrir æskufólk með vissu millibili sé algerlega gagnslaust. Það gerir ekki annað en að venja yngsta fólkið að vissum stöðum, sem það svífst svo einskis til að komast inn á annars og alla vega. Ég tel miklu frekar, að árangur náist með því að koma á fót vinlausum stöðum fyrir þennan aldursflokk undir eftirliti. Það er alls ekki vansalaust, að hér er hvergi samastaður fyrir ungt fólk undir vínneyzlualdri. Væri slíkum stöðum komið á fót og þeir reknir reglulega, mundu sveitafylliríin, sem svo mikið hefur borið á upp á síðkastið, sérstaklega um hvítasunnu og verzlunarmannahelgi, hverfa að mestu úr sögunni.“

Þetta segir þessi reyndi rannsóknarlögreglumaður, sem hefur starfað við lögreglumál hér í borginni undanfarin 20 ár, eftir því sem fram kemur fyrr í sama viðtali. Það er því að mínum dómi og með vísun til þessara raka og margra annarra ekki nein frambúðarlausn, sem frv. til 1. um breyt. á áfengis1. á þskj. 10 hefur að bjóða, enda þótt ég vilji ekki synja fyrir það, að slíkt fyrirkomulag gæti lagfært ástandið um stundarsakir, meðan verið er að byggja og koma á fót húsum, sem fær væru um að leysa málið til lengri tíma.

Ég skal nú að mestu láta þessu lokið, en ég vil aðeins að lokum segja, að þegar hæstv. dómsmrh., Jóhann Hafstein, mælti fyrir frv. ríkisstj. til breyt. á áfengisl. þann 1. nóv., ræddi hann þessi mál, að mér fannst, af bæði skilningi og áhuga. Þá sagði hann m.a. eitthvað á þessa leið: Það er kunnugt, að það hefur verið mikið vandamál á undanförnum árum fyrir æskufólk landsins og ekki sízt í margmenninu að hafa aðgang að dansstöðum, þar sem vínveitingar eru ekki hafðar um hönd. Það hafa verið gerðar um þetta tilraunir með einstök veitingahús hér í höfuðborginni, en gefizt upp við þær. Síðan segir ráðh. eitthvað á þessa leið, — ég hef þetta ekki orðrétt, en ég held, að efnislega sé þetta örugglega rétt — hann sagði eitthvað á þá leið, að hann teldi hins vegar, að eitt veigamesta atriðið, sem hægt væri að gera, væri að vinna að aukinni hófsemi og bindindi æskufólks og skapa því aðstöðu til heilbrigðra skemmtana, þar sem áfengi væri ekki haft um hönd, og það vil ég að síðustu leggja áherzlu á. Hann sagði: Ég tel, að við ættum að stíga miklu stærra og ákveðnara spor, ríki og Reykjavíkurborg ættu að stefna að því að koma upp góðum dansstað fyrir æskulýðinn, og bann verður sjálfsagt að vera með allri nýtízkugerð, því að æskan er nýtízkuleg.

Þessi ummæli hæstv. dómsmrh. sýna, að hann hefur skilning á umræddu vandamáli og vilja til raunhæfra úrbóta. Hvort það frv., sem hér liggur fyrir og ég hef nú mælt fyrir, verður samþ. í óbreyttri mynd eða breytt á einhvern þann hátt, sem betur þætti henta eftir athugun, er okkur flm. þess ekkert sáluhjálparatriði. Aðalatriðið er, að Alþ. geri sér grein fyrir þeirri þörf, sem á þessu sviði hefur myndazt hér í Reykjavík, og það sé reiðubúið til þess að leggja fram það fé og þann stuðning, sem nauðsynlegur er til að ráða bót á núverandi ástandi. Ég skal svo ekki, herra forseti, lengja þessar umr. frekar en orðið er, en aðeins leggja til, að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr- og félmn.