23.02.1967
Neðri deild: 45. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (1938)

126. mál, launaskattur

Jón Skaftason:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v., fyrri flm. þess frv., sem hér er verið að ræða, flutti fyrir frv. allýtarlega framsöguræðu fyrir nokkrum dögum, þegar frv. var hér fyrst til umr., og vék þar að öllum meginatriðum þess. Auk þess fylgir frv. ýtarleg grg., sem víkur að flestu því, er máli skiptir í sambandi við efni þess og stöðu sjávarútvegsins í þjóðfélaginu í dag, þannig að ég tel mig ekki þurfa að eyða mörgum orðum til viðbótar um þau atriði. Hins vegar voru það nokkur atriði, sem komu fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 7. landsk. þm., Sverris Júlíussonar, sem mig langaði til þess að víkja lítillega að, þótt ég telji ekki ástæðu til þess að fara mjög ýtarlega út í það, vegna þess að ræðan var meira vangaveltur um hitt og þetta í sambandi við sjávarútveginn, en ekki hnitmiðuð við efni frv. sem slíks nema að mjög litlu leyti.

Um það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, vildi ég segja, að hann talar hér sem forustumaður í samtökum útvegsmanna í landinu, og ég tel, að það væri á ýmsan hátt ákaflega fróðlegt, að umbjóðendur hans sem allra flestir hefðu mátt heyra málflutning hans um frv., því að þótt ég sjálfur telji mig ekki mikinn kröfumann fyrir hönd einnar eða neinnar stéttar sérstaklega, verð ég þó að segja, að ég hefði búizt við því, að meiri reisn og meiri sóknharka kæmi fram hjá forustumanni útvegsmannasamtaka landsins, þegar rætt væri um þetta frv., heldur en ræða hv. þm. bar vitni um.

Hv. 7. landsk. sagði, að frv. okkar væri vanhugsað. Ég tel, að hann hafi fært nauðalítil, ef nokkur rök að þeirri staðhæfingu sinni. Um fyrri gr. frv. sagði hann, að það hefði verið eðlilegra, að við flm. málsins hefðum flutt frv. um að miða launaskattinn við kauptryggingu sjómanna, en ekki í því formi, sem frv. er nú. Vissulega er þetta sjónarmið út af fyrir sig, þó að við höfum talið, flm. frv., rétt að stíga skrefið heldur lengra með hliðsjón af þeim óvenjumiklu erfiðleikum, sem einmitt þessi grein í framleiðslustarfsemi landsmanna á við að stríða nú í dag. En ég fyrir mitt leyti vil hér með bjóða hv. 7. landsk. þm. upp á það, að eftir að frv. okkar hefur fallið, ef sú verður reyndin, þá er ég reiðubúinn að flytja með honum frv. í þá stefnu, er hann var að tala um, að eðlilegra hefði verið að miða frv. við, og þá fáum við væntanlega á það reynt, hversu ríkur hugur fylgir þeim orðum, sem hv. þm. hafði um þetta efni hér áðan. Ég hef a.m.k. ekki hingað til orðið var við, að af honum eða öðrum forustumönnum sjávarútvegsins í þingliði Sjálfstfl. hafi verið flutt eitt einasta frv. á yfirstandandi þingi eða seinustu þingum um að aflétta einhverjum af þeim mörgu og margvíslegu álögum, sem lagðar hafa verið á sjávarútveginn í tíð hæstv. núv. ríkisstj., þrátt fyrir það að fjöldasamþykktir útvegsmanna og sjómanna liggi fyrir um þau efni. Og þegar við hv. 2 þm. Framsfl. í stjórnarandstöðu flytjum hér frv., sem á að vera prófsteinn á það, hvort hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar á þingi vilji feta inn á þá braut að aflétta ýmsum gjöldum af sjávarútveginum, sem búið er að leggja á hann, þá kemur forustumaður Landssambands ísl. útvegsmanna hér upp í ræðustólinn og hefur þann boðskap einn að flytja um frv. efnislega, að það sé vanhugsað, og færir þar að auki engin rök fyrir því, því að ég tel það engin rök, sem hv. þm. sagði áðan, að efni 2. gr. frv. væri þess eðlis, að það væri algerlega óframkvæmanlegt. Hér er talað algerlega út í hött. Ef hv. þm. læsi 2. gr., sæi hann, að það er alger misskilningur hjá honum, sem hann hélt þá fram. Það er talað um í frv., að það eigi að undanþiggja alla vinnu í fiskvinnslustöðvunum launaskatti, ekki einungis vinnu við verkun hráefnis af bátum undir 150 tonnum, heldur einnig af bátum, sem eru yfir þeirri stærð, þannig að ég hygg, að hv. þm. hefði átt að lesa sjálfar frvgr. betur en hann virðist hafa gert, áður en hann fer að fara hér upp í ræðustólinn og hreyfa jafnmiklum fjarstæðum og hann var að gera um þetta einstaka atriði og byggja andstöðu sína við frv. á svona fullyrðingum, sem eru gripnar algerlega úr lausu lofti.

En annars vildi ég segja aðeins það um þetta mál, að ein af afleiðingum þeirrar miklu dýrtíðar, sem hér hefur verið í landinu á undanförnum árum og að mjög verulegu leyti er til komin vegna þeirrar stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt í efnahagsmálum, er sú, að vöxtur spariinnlána í bankakerfinu hefur orðið miklu minni en þörf hefði verið fyrir, miðað við ört vaxandi þjóðfélag, sem er á þróunarbraut á flestum sviðum. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að margs konar og ólík starfsemi í landinu líður nú mjög af lánaskorti, og þá eru farnar af hendi löggjafans ýmsar þær leiðir til að tryggja lánsfé til tiltekinna framkvæmda, sem út af fyrir sig eru mjög knýjandi og þarflegar, með því að leggja alls kyns smáskatta bæði á útveginn og t.d. landbúnaðinn og iðnaðinn til þess að standa undir þörfum, sem eðlilegt væri, að þjóðfélagið sem heild og þær almannastofnanir, sem þjóðfélagið rekur, eins og t.d. bankarnir, stæðu undir. Þannig er m.a. launaskatturinn til kominn á bátana og fiskiðjuverin, sem við erum hér að leggja til, að verði felldur niður, vegna þess að þeir aðilar, sem hann eiga að greiða, eru þannig staddir í dag, að þeir geta ómögulega greitt hann. Það er staðreynd. Og hvaða vit er í því að leggja þessa pinkla á þessa aðila og veita þeim svo aftur úr ríkissjóði væntanlega tilsvarandi stuðning, sem svo aftur er innheimtur í ríkissjóðinn með sköttum á almenning í landinu? Ég skil ekki þá hagfræði, sem í því felst. En eftir tölum, sem ég hef séð, t.d. í skýrslunni til hagráðs, skilst mér, að útlánaaukningin í landinu frá árinu 1960 til 1965 nálgist það að tvöfaldast, en á sama tíma hefur þjóðarframleiðsla landsmanna, sem auðvitað þarf á miklu og vaxandi lánsfé að halda, rúmlega 2.5-faldazt, þannig að það er augljóst mál, að á þessu tímabili hefur framleiðsla landsmanna búið við skert lánsfé og stöðugt minnkandi. Þetta eru staðreyndir, sem ég teldi, að ríkisvaldið hefði átt að svara á annan hátt en þann að leggja sérstakan launaskatt á t.d. útgerðina, sem fær ekki undir honum risið nú og þarf að afla almenningsfjár í ríkissjóð til að greiða. Hún hefði átt að svara þessu frekar á þann hátt að ákveða, hvert takmarkað og minnkandi fjármagn í hlutfalli við framleiðslu ætti að fara, ráðstafa því takmarkaða lánsfé, sem til ráðstöfunar er, með því að reyna að koma sér niður á það, hvar það kæmi að beztum notum fyrir landsmenn, en ekki láta alger höpp og glöpp ráða því, eins og manni virðist hafa ráðið, væntanlega í nafni frelsisins, á tímum þeirrar hæstv. ríkisstj., sem nú situr.

En sem sagt, aðalatriði þessa máls er það, að við flm. þessa frv. leggjum til, að lagt sé inn á þá braut að létta ýmsum af þeim álögum af útveginum, sem á hann hafa verið lagðar á undanförnum árum. Við teljum, að ástandið hjá útveginum sem greiðanda þessara gjalda sé þannig í dag, að þetta sé réttmæt krafa, og ég verð að segja, að ég hefði búizt við nokkuð öðrum og vinsamlegri móttökum við frv. einmitt frá formanni Landssambands ísl. útvegsmanna, sem ég veit ekki betur en hafi mótmælt þessum skatti, þegar hann var á lagður á sínum tíma, eða a.m.k. í því formi, sem hann nú er.